Einn aukalegur Fyrsti á Ljóninu í tilefni landsleiks

Stundum þurfa menn að sinna sínum nánustu. Þannig var ástatt með skrifara í dag, hann þurfti að flytja venslafólk milli borgarhluta og missti því af hlaupi dagsins, sem að þessu sinni átti að fara frá Neslaug á auglýstum tíma. Samt hafði Benzinn hringt og ýtt á um hlaup. Nei, það gekk ekki upp. Og þegar upp var staðið mættu aðeins þeir trúbræður Denni og Benz, ekki einu sinni Þorvaldur sá sóma sinn í að fylgja þeim á Nesið. 

Jæja, skrifari komst ekki hjá því að skola Stjórnarráðsrykið af sér og þar sem VBL var lokuð eftir 1300 í dag var bara að manna sig upp í að mæta í vatnið í nágrannasveitarfélaginu. Alltaf jafnskrýtið að koma út á land! Þarna eru allt aðrir siðir og venjur heldur en hér í Vesturbænum. Það er þvílíkt horft á mann og maður sér að fólk hugsar með sér: "Hvaðan kemur hann þessi? Færeyjum?" Og verður alltaf hugsað til þess þegar maður var yngri og þurfti að sækja "þjónustu" á skrifstofur Borgarinnar í tíð íhaldsins áður en hugtakið "þjónusta" fékk almenna útbreiðslu. Þá var alltaf litið á mann eins og utanveltubesefa sem hefði ekki mætt á Hverfafund hjá Flokknum upp á síðkastið og verðskuldaði enga þjónustu og engin viðbrögð.

Já, það er minniháttar fólk sem býr á Nesinu, nema hann Denni okkar. Hann er heldur ekki af Nesi, hann er af Hólatorgi og Vesturbæingur í húð og hár. Hann er uppalinn næst Hólavallagarði, þar sem bezta fólk Lýðveldisins liggur grafið.

Nema hvað, geng ég ekki í flasið á Denna þar sem ég kem til Laugar og hann tilkynnir mér að þeir Benzinn séu að fara á Ljónið að horfa á seinni hálfleik. Skrifari fór í gegnum helstu rútínur í Laug, heitasta pott, gufu, nuddpott - og svo upp úr. Beint á Ljónið þar sem við stálumst í einn auka Fyrsta og vissum sem var að prófessor Fróði átti nóg af afgangsdögum að splæsa. Sáum arfaslakt lið Íslands grjótleggja Slóvena, sem voru mun aggressívari og ágengari. Íslendingar héldu varla boltanum í 5 sekúndur hverju sinni! Leikurinn minnti á leiki Fram á sjöunda áratugnum þegar maður að nafni Kristinn Jörundsson lék með Fram, kallaður Kiddi pot, ávallt staðsettur á markteig og þurfti ekki annað en rétta út fótinn og þá fór boltinn í fótinn og í mark. Að sama skapi var ánægjulegt að heyra að Norðmenn hefðu legið fyrir Albönum Á HEIMAVELLI 0:1. Stundum er gvöð miskunnsamur! 

Hlaupið á ný á morgun, brottfarir frá Laug: 8:30, 9:30.  


Mannval í fróðlegu sunnudagshlaupi

Kynning skrifara á hlaupi dagsins í pósti gærdagsins hefur greinilega kveikt í mörgum, en í henni er gefið vilyrði fyrir för um tvo kirkjugarða. Kirkjugarðar hafa á sér hugblæ eftirvæntingar og spennu hjá hlaupurum, þar er saga, þar er fróðleikur. Mætt í hlaup dagsins: Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Magnús tannlæknir, Þorvaldur, Denni skransali, Einar blómasali, Maggie og skrifari. Langt er síðan svo vel hefur verið mætt í sunnudagshlaup. Veður fallegt, en fremur svalt og einhver vindur á norðan. 

Einar sýndi okkur nýlegan VW Golf sem hann hefur fest kaup á af Marinó Björnssyni frá Fjósum í Svartárdal. Þegar Einar vildi ræða uppítöku á VW bjöllu 1964 eyddi Marinó talinu með því að ræða um óskylda hluti. Upphaf hlaups fór í að ræða þessi kaup blómasalans á nýlegri bifreið. Ó. Þorsteinsson taldi þetta vera glapræði hið mesta, aldrei að kaupa bíl af bílaleigum. Einar maldaði í móinn og taldi að það þyrfti bara að skoða undirvagninn, ef hann væri óhruflaður væri þetta í lagi. Um þetta var deilt alla leið í Skerjafjörð.

Í Nauthólsvík sagði Magnús okkur fallega Kirkjuráðssögu af manni sem meiddi sig við að leika golf. Hann hélt um pung sér og hafði sársaukagrettu á andliti. Hjúkrunarfræðingur kom að honum og bauðst til að nudda hann. "Er þetta ekki betra?", spurði konan. "Þetta er voða gott, en mér er samt enn illt í fingrinum." Gengið um sinn og svo hlaupið af stað og stefnan sett á Kirkjugarð. Í Garði var farin óhefðbundin leið, nú var farið að leiði tengdamóður blómasalans og sögð saga. Fleiri leiði skoðuð og svo haldið áfram.

Maggie var óþolinmóð og skildi ekki svona hlaup þar sem alltaf var verið að stoppa og segja sögur og flytja fróðleik. Á endanum yfirgaf hún hópinn og sást ekki meira fyrr en í Potti. En við hinir fórum hefðbundið hjá Veðurstofu, um Klambra og Hlemm. Hér gerðist það óvænta að í stað þess að fara Sæbraut fórum við Laugaveg, enda var framundan rúsínan í pylsuendanum: Hólavallagarður. Eftirvæntingin óx. Hlaupið fram hjá nærbuxnaverzlun á horni Barónsstígs og Laugavegar og út frá því spannst fjölskyldusaga. Inn í hana blönduðust bílnúmer og spurt var um bílnúmer. Hver átti R-67? Ó. Þorsteinsson svaraði án umhugsunar og flutti snjalla tölu um Thorsara. Þá spurði Einar um eitthvert númer. Ó. Þorsteinsson svaraði án umhugsunar og flutti snjalla tölu um Ásgeir Ásgeirsson, forseta Lýðveldisins, son hans ráðuneytisstjórann, tengdason ráðuneytisstjórans, þekktan barnakennara í Vesturbænum, en hér kom blómasalinn inn aftur og sagði: "Það er nú reyndar ég sem á þetta bílnúmer." Okkur getur öllum skjöplast.

Farið um Miðbæ og Austurvöll, heilsað upp á kunningja á Kaffi París. Nú var spennan í hámarki. Kirkjugarðurinn við Suðurgötu. Til að byrja með fékk Denni athyglina, því að hann leiddi okkur að leiðum afa síns og langafa og sagði sögu þeirra. Svo fundum við vökukonuna í garðinum, en hennar hefur Denni leitað árum saman. Að því loknu var farið að fjölskyldureit Formanns Vors og hlýtt á fróðleik um gerð hans og uppbyggingu.

Að hlaupi loknu voru menn sammála um að sjaldan hefði verið farið jafn fróðlegt hlaup og uppfullt af mannlegri hlýju og skemmtun.  


Þorvaldur lánar buxurnar sínar

Kalli var gómaður þar sem hann kom upp úr kjallara Laugar Vorrar og ætlaði að lauma sér í burtu og koma sér hjá hlaupi. Skýringin eða afsökunin sem hann bar fyrir sig var að hann hefði gleymt buxum. Við bentum honum á Þorvald, sem viðhafði hefðbundnar teygjur sínar í Brottfararsal, og fullyrtum að hann myndi fúslega ljá Kalla buxur. Hláturinn korraði ofan í skrifara þar sem hann gekk til Útiklefa, því hann vissi sem vonlegt er að enginn maður með sjálfsvirðingu myndi hlaupa í lánsbuxum frá Þorvaldi. Honum brá því er hann snöri til Brottfararsalar á ný og sá Kalla íklæddan lánsbuxum sem minntu meira á austurrískar fjallgöngubuxur en hlaupabuxur. Buxurnar áttu eftir að leika aðalhlutverk í hlaupi dagsins. Meira um það seinna.

Aðrir mættir: próf. Fróði, Benz og Maggie. Hópur sem er settur saman af slíkum einstaklingum breytir ekki til, hann fer hefðbundið. Við fórum hefðbundið, ja, allir nema skrifari. Hann fór Fót. Það reyndist kaldara utan dyra en við var búist og blés köldu. Farið allhratt út, á 5:30 tempói. Maggie stýrði hraðanum og spanaði prófessorinn upp. Fljótlega var tempóið komið í 5:15 og dró sundur með hlaupurum. Tekinn Trekant við Strætóstöð í Skerjafirði svo að hópurinn sameinaðist um stund, en svo fór allt í sama farið. En í Nauthólsvík náðum við saman á ný og þau hin héldu á Flanir, en skrifari beygði af.

Sosum tíðindalítið til Laugar, en mér varð hugsað til hans Gísla okkar sem setti svo fallega pælingu á Facebook í morgun að loknu morgunhlaupi á Nes. Einstakur maður, hann Gísli og mikið saknað í hópnum.

Eftir hlaup var upplýst að bílar hefðu forðast Kalla eins og pestina, virðast kannast við buxurnar af reynslu eða orðspori, en þó var ekki ljóst hvort hann hefði reynt að hlaupa fyrir þá með sambærilegri tímasetningu og Þorvaldur og frægt er orðið í umferðarheiminum.

Næsta hlaup: sunnudagsmorgunn kl. 10:10. 


Blómasalinn grét allan hringinn

Nú er eins gott að hann Jörundur okkar er á Tenerife. Sá hefði verið illþolanlegur í dag þegar ástand Lagarfljóts kom til tals, en hann sagði fyrir um þróunina áður en ráðist var í Kárahnjúkavirkjun. Um þetta voru menn sammála í hlaupi dagsins. Þátttaka fremur dræm, aðeins sex hlauparar mættir: próf. Fróði, Flosi,  Benzinn, Blómasalinn, Tobba og skrifari. En veðurblíðan slík að maður var bara lens. Spurt var: hvers konar idjót láta undir höfuð leggjast að hlaupa á slíkum degi? Byrjunin lofaði góðu og kom á daginn að þetta varð eitt af þessum eftirminnilegum hlaupum sakir heilbrigðis, menningar og skemmtunar. Þessa fara þeir á mis sem farnir eru að hlaupa sem tíðast á morgnana: þá er bara gónt á klukkur og talað um hlaup, ef minnst er á menningu eða persónufræði verða menn flóttalegir til augnanna. 

Nú var lagt upp og farið afar rólega. Í þetta skiptið náði skrifari ekki einasta að hanga í mönnum, hann fór fyrir hópnum ásamt Gústa og Benz, en þau hin fylgdu í kjölfarið. Rætt um stöðu Sjálfstæðisflokksins sem hefur skellt hurðum og vill loka landinu. Nefnd voru orð Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar, frá því í morgunútvarpi þar sem hann harmar einangrunarstefnu flokksins á landsfundinum og kvartaði yfir því að engin gengisstefna væri til staðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Um þetta flutti Blómasali snjalla tölu lengi hlaups og kvaðst mundu kjósa Framsókn. Hér hugsuðu sumir: eru þeir eitthvað skárri? Er þetta ekki liðið sem drap lífríki Lagarfljóts og stefnir að því að afgreiða Mývatn þegar það kemst næst til valda?

Sem fyrr segir var veður yndislegt og hlaupið gekk vel fyrir sig, skrifari að ná góðu formi eftir mánudagshlaupið, einna helzt að Einar hafi kvartað yfir hraða annarra hlaupara. Í Nauthólsvík skildi Flosi við hópinn, fór Hlíðarfót, enda á leiðinni í Powerade á morgun. Bjarni var horfinn í leit að Tobbu sem hafði dregist aftur úr hinum og munu þau hafa farið Hlíðarfót einnig. Við Gústi og Einar fórum Öskjuhlíðina, yfir hjá Veðurstofu, Klambra, Hlemm og Sæbraut. Það skal viðurkennt að við stöldruðum við hér og þar til þess að leyfa Einari að hvíla sig enda er karlinn þungur á sér þessa dagana.

Ekki verður komist hjá því að greina frá þeim mikla fróðleik sem rann upp úr Einari allt hlaupið, bæði efnafræðilegs og sagnfræðilegs eðlis. Hann sagði okkur frá byggingarefnum á blokkunum við Skúlagötu, í Hörpu og stálþilum við höfnina. Svo sagði hann okkur sögu Empire State byggingarinnar, en sú bygging var reist af framsýnum manni í kreppunni á þriðja og fjórða áratug seinustu aldar. Við fórum einmitt um Slippinn, framhjá Slippbarnum sem er með happy hour milli fjögur og sex alla daga og ákváðum að mæta þar eftir eitthvert föstudagshlaupið. Hvítur reykur liðaðist upp úr reykháfi skips í Slippnum og tókum við það sem merki um að búið væri að kjósa páfa. Komumst að því fyrst eftir hlaup að svo var í raun og veru.

Við ákváðum nefnilega að fara lengra í þetta skiptið, alla leið vestur á Grandaveg og þá leið tilbaka til Laugar. Teygðum inni eftir hlaup, líðan góð og stemmning fyrir að gera góða hluti á árinu. Aðrir hlauparar komnir í Pott. Bjarni Benz lagði til að titill pistils yrði "Blómasalinn grét allan hringinn." Ekki veit ég hvers vegna.  


Vandamálin eru benzín framfara

Höfundur fleygra orða í fyrirsögn pistils er sjálfur Melabúðarkaupmaður. Samt vafðist inntakið fyrir nokkrum Pottverjum í lok hlaups dagsins og var málinu eytt. Til hlaupa mættu: próf. Fróði, Kalli, Flosi, Heiðar, Helmut, dr. Jóhanna, skrifari, Ólafur Gunnarsson, Þorvaldur, Maggi - og svo bættist Kaupmaður í hópinn síðar og Benzinn var víst eitthvað að sprikla líka. 

Farið um Viðimel út á Nes. Veður gott, en gerðist svalara á Nesi. Búið er að reisa tröppu yfir sjóvarnagarðinn í Ánanaustum og niður í sjó, væntanlega til sjóbaða á heitum sumardögum. Skrifari fór rólega yfir og beið þess að skrokkurinn hitnaði að því marki að hlaup yrði ánægjulegt. Kalli, Þorvaldur og Maggi styttu við Lindarbraut og gáfu engar skýringar á framferði sínu. Aðrir höfðu haldið áfram á Nes, fyrir Gróttu og jafnvel fyrir golfvöll, meðan dr. Jóhanna, Heiðar og Frikki fóru allt aðra leið, Víðimel út á Suðurgötu, Skítastöð og svo vestur úr.

Þetta batnaði bara eftir því sem leið á hlaup og var bara hamingja. Farið hjá Bakkatjörn og tilbaka. Lokið við rúmlega 9 km hring á skikkanlegum tíma. Unaðslegt! Í Potti var rætt um árshátíð. Áhugi á að hafa hana í Rafveituheimilinu og var skipuð nefnd á staðnum til þess að ganga í málið. Skipan verður sú að þátttakendur koma hver með sitt og Baldur bruggar guðaveigar. Skemmtiatriði: töfrabrögð, söngur, ræðuhöld. Bjössi kokkur verður útkastari. Meira síðar.   


Hugsað um gvuð á hlaupum

Er betra að sitja á kirkjubekk á sunnudagsmorgni og hugsa um hlaup, eða að hugsa um gvuð á hlaupastígum úti? Nú segi hver maður það sér sjálfur. Hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins tilheyra síðari hópnum. Þeir taka sunnudaginn snemma og halda til Laugar með hlaupagír sín. Á Stétt úti mátti í dag greina Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlækni, Þorvald, Maggie og skrifara. Veður fagurt, sól skein í heiði, logn og hiti um 4 stig. Fórum rólega af stað. Á Ægisíðu sat fyrir okkur Guðmundur Löve, nýrisinn upp af sjúkrabeði og mátti ekki við því að horast.  Hann slóst í för með okkur og það var haldið áfram. 

Maggie er náttúrlega í sérflokki og setti strax vegalengd á milli sín og okkar hinna. Fljótlega dróst skrifari aftur úr þeim hinum, m.a.s. Ólafur Þorsteinsson skildi frænda sinn eftir. Skýringin var trúlega sú að skrifari var á utanvegaskóm og þeir eru mun hægari  en hefðbundnir hlaupaskór. Þetta var allt í lagi meðan maður mjakaðist áfram, ég vissi ég myndi ná þeim fyrr eða síðar. Sunnudagshlaup eru félagshlaup og enginn er skilinn eftir.

Það var við flugvöll sem ég náði Magga og Óla og saman áttum við hlaup inn í Nauthólsvík. Þar var gengið og Guðmundur sagði stutta sögu. Svo haldið áfram  í Kirkjugarð. Þar brá hins vegar svo við að þau hin héldu hlaupi áfram, jafnvel þótt um brekku væri farið. Við frændur urðum einir eftir og sáum þau hin ekki eftir það. Við gengum á hefðbundnum stöðum og ræddum ýmis mál persónufræðilegs eðlis, en frændi minn er einhver mestur persónufræðingur í Vesturbænum. Og ekki er komið að tómum kofanum þegar bílnúmer ber á góma. Eitt slíkt vakti athygli okkar á leiðinni: Ó 1. Situr á 35 ára gömlum Audi.

Við fórum hefðbundna leið um Klambra, Hlemm og Sæbraut. Gengið á völdum stöðum, sóttum hyllingu á Café París, Túngatan gengin. Ekki rekur mig minni til þess að okkur hafi þrotið umræðuefni á þessari leið, enda fimm jarðarfarir í Hrútafirðinum frá áramótum. Aðeins einn af föstum gestum Samtakanna í Potti, dr. Einar Gunnar. Rætt um eftirminnilega Dalamenn.  


Annar Föstudagur

Í hlaup dagsins mættu ekki margir. Þeir katólsku trúbræður Denni og Benz, Maggie, Þorvaldur, Rúna og svo eitthvert ungmenni af Nesi. Maggie sagði: "Það var ungur maður af Nesi." Var það Denni, var spurt. "Nei, Denni er ekki ungur," sagði Maggie. Var það Heiðar? var spurt. "Hver er það" spurði Maggie. Þannig var málið þæft í Potti fram og tilbaka án niðurstöðu. Altént er ljóst að helztu hlauparar Vesturbæjarins voru fjarverandi í hlaupi dagsins. Vafalaust með vatnsþétta afsökun. 

Í Útiklefa hélt Hjálmar íþróttakennari ádíens um bjór og bjórdrykkju. Föstudagar eru til þess að efna í þorsta sem verður eingöngu svalað með völdum bjór. Þannig fer maður frá Laug hamstola af þorsta. En nú skyldi haldið heim til Bigga og Unnar og inntekin flatbaka og bjór. Fyrst þurfti skrifari að fara heim til sín og elda ofan í ómegðina. Að því búnu var stefnan sett á Seilugranda.

Þar stóðu þeir í eldahúsi Biggi jógi og Einar blómasali. Aðrir mættir: Rúna og Frikki, Benz, Þorvaldur, Bjössi kokkur, Maggie, Ágúst og Ólöf - og svo kom Pétur Einarsson beint úr kellingaboði KR-skokks. Hann lýsti yfir að sér hefði ekkert litist á úrvalið. Þeir báru fram flatbökur fóstbræður í gríð og erg og voru afköstin slík að menn stóðu á blístri og afgangur var er upp var staðið. Slíkt er óþekkt í Samtökum Vorum. Drukkinn með bjór, síder, ítalskt rauðvín.

Margt skrafað og rætt. M.a. var tæpt á því hve viðfelldinn skrifari væri orðinn í pistlum sínum. Þar gætti ekki lengur umtalsverðrar illkvittni í garð neins nema einna helzt blómasala, en fyrir kæmi þó að honum væri hælt í pistlum, sem væri frágangssök. Kallað var eftir krítískari sýn á starfsemi Samtaka Vorra og frammistöðu hlaupara og nánar væri greint frá sögnum og missögnum hlaupara á hlaupum, eins og var aðal pistla hér fyrr á tíð. Einhver kallaði eftir því að hann Haukur okkar yrði virkjaður á ný.

Um þetta leyti var spurt um árshátíð. Síðasta árshátíð var haldin í Viðey, hún tókst frábærlega. Beinast liggur við að halda næstu árshátíð í Viðey einnig, t.d í apríl komanda. Ágúst var á þeirri árshátíð og fannst hún eftirminnileg. Hann lagði til að árshátíð hæfist á hlaupi um eyna ("hvað má ná mörgum kílómetrum út úr slíku hlaupi?") - en þegar minnst var á þrif eftir hlaup nefndi hann bara "Vatnstankinn" - er ekki vatnstankur í eynni? Hann var búinn að gleyma því að árshátíðin var haldin í "Vatnstankinum" síðast. Öl gerir Ölvi fölvan.

Þá er í öllu falli komin fram hugmynd um árshátíð. Viðey í apríl komandi. Viðeyjarstofa eða Vatnstankur. Finnum heppilega dagsetningu. Í gvuðs friði.  


Eingöngu naglar!

Á þessum degi mættu eingöngu naglar til hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, en sólskinshlauparar sátu heima. 6 stiga frost og norðaustan stormur. Mættir: prófessor Fróði, Þorvaldur, Flosi, Bjarni Benz, Helmut og dr. Jóhanna, Heiðar, skrifari og Frikki Meló. Hlauparar fóru kappklæddir út í gjóluna, flestir með balaklövur. 

Það var haldið á Ægisíðu þar sem við höfðum vindinn í bakið. Hópurinn sundraðist fljótlega og röð hlaupara hefðbundin. Við kjöguðum þetta saman Benzinn og Helmut, en svo skildu þeir mig fljótlega eftir. Erfiðast var hlaupið við flugbraut vegna mótvinds, kuldinn var ekki verstur. Í Nauthólsvík var beðið eftir skrifara, þar voru fyrrnefndir hlauparar og vildu fara Hlíðarfót. Flestir munu hafa farið þá leið í dag, nema hvað Jóhanna og Heiðar fóru eitthvað lengra.

Hér var farið að lægja vind og bara nokkuð bærilegt að hlaupa. Farið hjá Gvuðsmönnum og svo vestur úr til Laugar. Teygt í Móttökusal og farið í Pott. Í Potti var svo kalt að hárið á þeim sem höfðu hár fraus. Helst hefði maður þurft að halda höfðinu undir vatnsborðinu, en það er víst ekki gerlegt mjög lengi.

Erfitt hlaup, en góð tilfinning að koma til Laugar og ylja sér í Potti. Meira og verra á miðvikudag.  


Eflum félagsandann!

Félagslíf Samtaka Vorra hefur verið með dapurlegra móti undanfarið, eða allar götur frá því hún Ósk okkar hélt upp á afmælið sitt sællar minningar. Af því tilefni bundu menn miklar vonir við hlaup dagsins og Fyrsta Föstudag í framhaldi af því. Mæting í hlaup heldur dapurleg: Denni og Þorvaldur. Skrifari spurði Denna hvort mikið hefði verið sagt í hlaupi dagsins. Kvaðst hann hafa reynt að halda uppi samræðum og þá helst á þeim nótum sem gætu höfðað til hvalasérfræðingsins. En það var þeim mun erfiðara sem Denni þurfti að stoppa tvisvar í hlaupinu vegna verkja í nára og teygja. Þeir fóru einhverja undarlega leið um skóglendi og hjá Gvuðsmönnum og stystu leið tilbaka. Sem sagt: dapurlegt. 

Það var þeim mun fjörugra í Potti. Þar var mættur skrifari alhress og svo bættust við Benzinn og blómasalinn nýkomnir úr jarðarför, upprifnir og innblásnir, uppfullir af sögum og skemmtilegheitum. Denni á leið á belgjamót KR þar sem menn eta óæti, en þeir hinir að koma úr jarðarför í Hafnarfirði þar sem boðið var upp á konfekt, kaffi og hvítt. Stefnan sett á Ljónið.

Á Ljóninu komu saman Denni, skrifari, Helmut, Benzinn, dr. Jóhanna, Friedrich Kaufmann og var mikið gaman. Málin rædd af hispursleysi og greinilega komin stemmari á félagsleg úrræði. Þegar málið var borið undir fjörkálfinn Bigga Jóga brá hann skjótt við og ákvað að stefna fólki saman til Annars Föstudags að heimili þeirra Unnar í Seilugranda föstudaginn 8. mars og biðja blómasalann að annast matargerð alla, flatbökubakstur. Æskilegt væri að félagsmenn mættu með uppáhaldsálegg sitt, hvort það er pepperoni, ananas, ostur valinnar gerðar eða annað - og svo það ekki gleymist - drykki að eigin vali. Mikið af þeim. Mæting kl. 19:30. 

Mætum öll og eflum félagsandann Samtaka Vorra!  


Stólfóturinn

Mönnum er minnisstæð frétt í Ríkissjónvarpinu um afhendingu stólfótar á Árbæjarsafnið er notaður hafði verið sem barefli í Gúttóslagnum 9. nóvember 1932. Tildrög málsins voru þau að verkalýðurinn í Reykjavík vildi mótmæla launalækkun í atvinnubótavinnunni og burgeisarnir siguðu lögreglunni á fátæklingana. Nema hvað menn slógust fyrir utan Gúttó og notuðu hvaðeina til þess að vinna andstæðingnum mein. Þar með talið stólfætur úr sal bæjarstjórnar. 

Er liðið var á dag kom lögreglumaður inn á lækningastofu Ólafs Þorsteinssonar, háls-, nef- og eyrnalæknis í Skólabrú, með stólfót fastan við haus sér. Skrúfa eða nagli tryggði að stólfóturinn sæti fastur. Nú kom það í hlut læknisins að losa stólfótinn. Eftir það var fóturinn settur inn í skáp og var þar næstu 80 árin eða allt þar til sonarsonur læknisins og nafni,  Ó. Þorsteinsson, Formaður Vor til Lífstíðar, kom stólfætinum á Árbæjarsafn.

Við athöfnina þótti eðlilegt að bjóða fulltrúa réttvísinnar, Herði Jóhannessyni, yfirlögregluþjóni, og fulltrúa verkalýðsins, sem var sveit vaskra einstaklinga frá Eflingu stéttarfélagi, eina verkalýðsfélaginu þar sem verkafólk er enn við völd. Ætlunin var að bjóða Jörundi Guðmundssyni prentara að vera fulltrúi hinna börðu, hafandi verið barinn sjálfur af lögreglu, en það fórst fyrir. Við þetta þótti Jörundi svo við Ólaf Þorsteinsson að hann kom þeim sögukvitti á kreik að stólfóturinn væri falsaður, raunar hefði hann séð stólfót með nákvæmlega sama mynstri undir mublu á heimili Ólafs.

Jæja, þá var komið að þætti V. Bjarnasonar, en eftir því sem Ó. Þorsteinsson segir varð Vilhjálmur æfur er hann frétti að Spaugstofan hefði með það sama tekið upp Stólfótinn í þætti, en VB sjálfur hangið á húninum hjá ríkisfjölmiðlinum síðasta áratuginn án þess að úr því yrði efniviður í Spaugstofu.

Um þetta og önnur  dæmi var rætt í Potti eftir Sunnudagshlaup sem var fremur fámennt.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband