Eingöngu naglar!

Á þessum degi mættu eingöngu naglar til hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, en sólskinshlauparar sátu heima. 6 stiga frost og norðaustan stormur. Mættir: prófessor Fróði, Þorvaldur, Flosi, Bjarni Benz, Helmut og dr. Jóhanna, Heiðar, skrifari og Frikki Meló. Hlauparar fóru kappklæddir út í gjóluna, flestir með balaklövur. 

Það var haldið á Ægisíðu þar sem við höfðum vindinn í bakið. Hópurinn sundraðist fljótlega og röð hlaupara hefðbundin. Við kjöguðum þetta saman Benzinn og Helmut, en svo skildu þeir mig fljótlega eftir. Erfiðast var hlaupið við flugbraut vegna mótvinds, kuldinn var ekki verstur. Í Nauthólsvík var beðið eftir skrifara, þar voru fyrrnefndir hlauparar og vildu fara Hlíðarfót. Flestir munu hafa farið þá leið í dag, nema hvað Jóhanna og Heiðar fóru eitthvað lengra.

Hér var farið að lægja vind og bara nokkuð bærilegt að hlaupa. Farið hjá Gvuðsmönnum og svo vestur úr til Laugar. Teygt í Móttökusal og farið í Pott. Í Potti var svo kalt að hárið á þeim sem höfðu hár fraus. Helst hefði maður þurft að halda höfðinu undir vatnsborðinu, en það er víst ekki gerlegt mjög lengi.

Erfitt hlaup, en góð tilfinning að koma til Laugar og ylja sér í Potti. Meira og verra á miðvikudag.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband