Annar Föstudagur

Í hlaup dagsins mættu ekki margir. Þeir katólsku trúbræður Denni og Benz, Maggie, Þorvaldur, Rúna og svo eitthvert ungmenni af Nesi. Maggie sagði: "Það var ungur maður af Nesi." Var það Denni, var spurt. "Nei, Denni er ekki ungur," sagði Maggie. Var það Heiðar? var spurt. "Hver er það" spurði Maggie. Þannig var málið þæft í Potti fram og tilbaka án niðurstöðu. Altént er ljóst að helztu hlauparar Vesturbæjarins voru fjarverandi í hlaupi dagsins. Vafalaust með vatnsþétta afsökun. 

Í Útiklefa hélt Hjálmar íþróttakennari ádíens um bjór og bjórdrykkju. Föstudagar eru til þess að efna í þorsta sem verður eingöngu svalað með völdum bjór. Þannig fer maður frá Laug hamstola af þorsta. En nú skyldi haldið heim til Bigga og Unnar og inntekin flatbaka og bjór. Fyrst þurfti skrifari að fara heim til sín og elda ofan í ómegðina. Að því búnu var stefnan sett á Seilugranda.

Þar stóðu þeir í eldahúsi Biggi jógi og Einar blómasali. Aðrir mættir: Rúna og Frikki, Benz, Þorvaldur, Bjössi kokkur, Maggie, Ágúst og Ólöf - og svo kom Pétur Einarsson beint úr kellingaboði KR-skokks. Hann lýsti yfir að sér hefði ekkert litist á úrvalið. Þeir báru fram flatbökur fóstbræður í gríð og erg og voru afköstin slík að menn stóðu á blístri og afgangur var er upp var staðið. Slíkt er óþekkt í Samtökum Vorum. Drukkinn með bjór, síder, ítalskt rauðvín.

Margt skrafað og rætt. M.a. var tæpt á því hve viðfelldinn skrifari væri orðinn í pistlum sínum. Þar gætti ekki lengur umtalsverðrar illkvittni í garð neins nema einna helzt blómasala, en fyrir kæmi þó að honum væri hælt í pistlum, sem væri frágangssök. Kallað var eftir krítískari sýn á starfsemi Samtaka Vorra og frammistöðu hlaupara og nánar væri greint frá sögnum og missögnum hlaupara á hlaupum, eins og var aðal pistla hér fyrr á tíð. Einhver kallaði eftir því að hann Haukur okkar yrði virkjaður á ný.

Um þetta leyti var spurt um árshátíð. Síðasta árshátíð var haldin í Viðey, hún tókst frábærlega. Beinast liggur við að halda næstu árshátíð í Viðey einnig, t.d í apríl komanda. Ágúst var á þeirri árshátíð og fannst hún eftirminnileg. Hann lagði til að árshátíð hæfist á hlaupi um eyna ("hvað má ná mörgum kílómetrum út úr slíku hlaupi?") - en þegar minnst var á þrif eftir hlaup nefndi hann bara "Vatnstankinn" - er ekki vatnstankur í eynni? Hann var búinn að gleyma því að árshátíðin var haldin í "Vatnstankinum" síðast. Öl gerir Ölvi fölvan.

Þá er í öllu falli komin fram hugmynd um árshátíð. Viðey í apríl komandi. Viðeyjarstofa eða Vatnstankur. Finnum heppilega dagsetningu. Í gvuðs friði.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sekur af því að vera þessi umtalaði ungi maður sem var að koma af Nesi. Átti þá eftir að fara upp að Árbæjarstíflu og til baka.

Heiðar Halldórsson (IP-tala skráð) 10.3.2013 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband