Eflum félagsandann!

Félagslíf Samtaka Vorra hefur verið með dapurlegra móti undanfarið, eða allar götur frá því hún Ósk okkar hélt upp á afmælið sitt sællar minningar. Af því tilefni bundu menn miklar vonir við hlaup dagsins og Fyrsta Föstudag í framhaldi af því. Mæting í hlaup heldur dapurleg: Denni og Þorvaldur. Skrifari spurði Denna hvort mikið hefði verið sagt í hlaupi dagsins. Kvaðst hann hafa reynt að halda uppi samræðum og þá helst á þeim nótum sem gætu höfðað til hvalasérfræðingsins. En það var þeim mun erfiðara sem Denni þurfti að stoppa tvisvar í hlaupinu vegna verkja í nára og teygja. Þeir fóru einhverja undarlega leið um skóglendi og hjá Gvuðsmönnum og stystu leið tilbaka. Sem sagt: dapurlegt. 

Það var þeim mun fjörugra í Potti. Þar var mættur skrifari alhress og svo bættust við Benzinn og blómasalinn nýkomnir úr jarðarför, upprifnir og innblásnir, uppfullir af sögum og skemmtilegheitum. Denni á leið á belgjamót KR þar sem menn eta óæti, en þeir hinir að koma úr jarðarför í Hafnarfirði þar sem boðið var upp á konfekt, kaffi og hvítt. Stefnan sett á Ljónið.

Á Ljóninu komu saman Denni, skrifari, Helmut, Benzinn, dr. Jóhanna, Friedrich Kaufmann og var mikið gaman. Málin rædd af hispursleysi og greinilega komin stemmari á félagsleg úrræði. Þegar málið var borið undir fjörkálfinn Bigga Jóga brá hann skjótt við og ákvað að stefna fólki saman til Annars Föstudags að heimili þeirra Unnar í Seilugranda föstudaginn 8. mars og biðja blómasalann að annast matargerð alla, flatbökubakstur. Æskilegt væri að félagsmenn mættu með uppáhaldsálegg sitt, hvort það er pepperoni, ananas, ostur valinnar gerðar eða annað - og svo það ekki gleymist - drykki að eigin vali. Mikið af þeim. Mæting kl. 19:30. 

Mætum öll og eflum félagsandann Samtaka Vorra!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband