Bloggfærslur mánaðarins, júní 2019

"Er hann með Duran Duran?"

Ólafur Þorsteinsson er nítjándualdarmaður. Forn í hugsun og háttum. Meira um það seinna.

Tilefnið var hefðbundið hlaup félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á sunnudagsmorgni í löðrandi blíðu og hita. Mætt voru: Formaður til Lífstíðar, Þorvaldur Gunnlaugsson, Bjarni Benz, skrifari og Maggie. Slíkt mannval hefur ekki sést lengi í hefðbundnu hlaupi á vegum Samtaka Vorra. Formaður hafði ekki mætt þrjá sunnudaga í röð og bjó því margt í hug sem varð að koma til skila í haupi dagsins. Það varð tafsamt á köflum.

Menn eru léttir á sér þessi missirin og hlaup fór vel af stað. Eðlilega var kvennaknattspyrnan ofarlega á lista Formanns, en hann hefur lengi haft efasemdir um að konur og knattspyrna fari saman. Miðað við allt umstang RÚV kringum heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu taldi hann vonlítið að nokkur maður eyddi tíma framan við skjáina að horfa á. Gripið hefði verið til þess ráðs að minnka mörkin í kvennaboltanum til þess að draga úr þeirri ósvinnu að vera að skora mörk frá miðju.

Vísbendingarspurningu var varpað fram í upphafi hlaups. Vísbendingin var maður sem var í bekk með Þorvaldi í Reykjavíkur Lærða Skóla. Á daginn kom að vísbendingin var röng og kom engum á óvart. Umræddur maður var aldrei í bekk með Þorvaldi, hann var ekki einu sinni í sama árgangi og Þorvaldur. En slíkir smámunir hafa aldrei vafist fyrir Formanni. Spurningin var gild fyrir því.

Skrifari varpaði fram eigin vísbendingarspurningu og þurfti nánast að mata félagana á svarinu með teskeið, svo illa upplýstir eru þeir um helstu forstjóra borgarfyrirtækja. Maggie reiddi upp símann sinn og smellti af myndum af hópnum í gríð og erg. Við fórum fetið léttilega inn í Kirkjugarð. Menn höfðu áhyggjur af blómasala vorum sem senn fer að þreyta hjólatúrinn mikla frá Köben til Parísar og þarf að hjóla 200 km á degi hverjum í sex daga samfleytt. Hvernig mun það ganga?

Jæja, segir nú ekki af ferðum og sögum fyrr en kemur í miðbæinn. Þá upplýsir skrifari Formann um að Robert Plant sé kominn til landsins og hafi etið kvöldverð á Apótekinu á laugardagskvöldið. "Hver er það?" spyr Formaður. "Hann er aðeins einn þekktasti rokksöngvari sögunnar" upplýsir skrifari. "Var með Led Zeppelin." "Já," segir Formaður, "er hann með Duran Duran?" Hér var skrifara eiginlega öllum lokið og taldi fráleitt að eiga orðastað frekar til útskýringar á því hvaða sögulegi viðburður væri í uppsiglingu í höfuðstaðnum.

Að hlaupi loknu var hefðbundinn Pottur með Einari Gunnari, Jörundi og Guðna landsliðsþjálfara.  

Nú verður lokað í Vesturbæjarlaug til 5. júlí og þurfa menn að finna sér annan samastað á meðan. Einhver nefndi Nes. Enn fremur upplýst að stefnt er að Melahlaupi síðustu helgina í júlí.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband