Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016

Magnús með nótu

Við vorum mætt, nokkrir af drengjunum hennar Jóhönnu og fáeinar stúlkur, nánar tiltekið Bjarni Benz, Flosi, Súsanna, Tobba, Jóhanna sjálf, skrifari - og síðar bættust Hjálmar og Frikki í hópinn. Ætlunin var að taka sprettinn á hefðbundnum mánudegi. Jóhanna talaði eitthvað um fartleik, en þess háttar ábyrgðarlaust hjal fer gjarnan inn um eitt eyra og út um hitt hjá þessum hlaupara, án viðkomu þar í milli. 

Fyrirmæli dagsins: upp á Víðirmel, út á Suðurgötu, Skítastöð og svo átti að taka spretti ein, tú, trei, fire. Út á Nes. Ég kjagaði á eftir þeim á mínum snigilhraða, en er þó farinn að halda út í lengri vegalengdir. Er kom að Skítastöð stóðu Frikki, Tobba og Benzinn í hrókasamræðum um hlaupakosti og vegalengdir, og aðallega um það hvernig Tobba gæti náð 10 km.

Þau hin voru lögst í spretti. Ég setti stefnuna á Vesturbæinn og fannst við hæfi að láta 6 km duga eftir hlaup gærdagsins. Fín upphitun.

Í Útiklefa varð á vegi mínum Skerjafjarðarskáldið og kvaðst hann sakna frásagna minna á bloggi Samtaka Vorra af hrakförum hlaupafélaga minna, einkum væru eftirminnilegar frásögur af flugferðum prófessors Fróða "og svo var góð sagan af krossfestingunni í Öskjuhlíð". Er ég fór upp úr hitti ég Magnús tannlækni, óhlaupinn. Hann játaði strax, en sagði: "Ég er með nótu!" Hér hugsaði skrifari hvort frú Lína væri farin að falsa fyrir hann afsakanir fyrir að mæta ekki í hlaup. En Magnús dró upp reikning frá bifreiðaverkstæði - það var nótan.

Næsta hlaup kl. 6:02 í fyrramálið og þá mætir blómasalinn - kannski.


Hlaupið lítillega á sunnudegi.

Við vorum mættir félagarnir á Hvítasunnunni, Ólafur Þorsteinsson, blómasali og skrifari. Hlupum létt skeið á Ægisíðu og vorum í fantaformi. Rætt um það helsta sem borið hefur á góma í Vesturbænum upp á síðkastið. Þessi vísa eftir Hjálmar Freysteinsson flaut með:

Fyrst þeir ræddu flókin mál,

fóru svo að snæða.

Sigurður Ingi sagði "Skál!"

sem er ágæt ræða.

Einar blómasali er iðjusamur framkvæmdamaður og leyfði tímaplan hans ekki að farið yrði lengra en um Hlíðarfót, sem var allt í lagi og skárra en að fara alls ekki neitt.

Í Potti voru próf. emeriti Baldur og Einar Gunnar. Rætt um mat og merkjavöru og ættir nýkjörins Neskirkjuprests. Baldur rakti þær gjörla. Einar Gunnar rifjaði upp ummæli Jónasar frá Hriflu um Bændaflokkinn"Bændaflokkurinn er dauður, en hann veit bara ekki af því." Taldi hann það sama geta átt við Davíð Oddsson.

Boðið er upp á hlaup af nýju á annan í hvítasunnu kl. 10:10 frá VBL.


Hvílíkur kraftur, hvílík lipurð, hvílík hógværð!

Metþátttaka var í hlaupi dagsins hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þessir voru: Þorvaldur, Fróði, Jóhanna, Flosi, Benzinn, Maggi, Rúna, skrifari, Ingi, Frikki, Hjálmar og Ósk auk þess sem Súsanna var viðstödd, en hjólaði. Langt er síðan slíkur fjöldi hefur komið saman til hlaupa. Skrifari gat upplýst um morgunverð blómasala í Danaveldi í morgun: vafningur, tvö egg, ristað brauð með áleggi - og einn kaldur á eftir.

Spurt var um plan dagsins og Jóhanna nefndi nokkrar Perlur. Ágúst varð áhyggjufullur. Flosi lagði af stað á undan okkur. Svo lagði heila hersingin upp, mishratt, og var Hjálmar sýnu hraðastur, án þess að sjáanleg ástæða væri fyrir asanum á svo ágætum degi í hópi dáindismanna og -kvenna.

Nú brá svo við að skrifari var furðu léttur á sér og enda þótt hann drægist venju samkvæmt fljótt aftur úr þeim hinum hélt hann uppi óslitnu hlaupi alla leið inn í Nauthólsvík og er það í fyrsta sinn á þessu vori. Það er breakthrough og vísbending um að þrotlausar æfingar undanfarinna vikna eru farnar að skila sér. Nú fer hálfmaraþon að verða að raunhæfu markmiði.

Ég sá til þeirra hinna framundan mér, en vissi sosum lítið um afdrif þeirra. Einhverjir fóru Hlíðarfót, aðrir í Öskjuhlíð og enn aðrir eitthvað lengra. Þetta var bara flott hlaup, þrek og styrkur að koma tilbaka hjá þessum hlaupara.

Pottur kunnuglegur, skrifari, Flosi, Benzinn, Frikki og Súsanna. Svo kom m.a.s. Þorvaldur. Rætt um skúrbyggingar, Sigga sundvörð og kúka í lauginni. Nú fer tilveran að verða lík sjálfri sér, nú vantar bara blómasalann.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband