22.2.2013 | 21:38
Nú kannast maður við sig
Ekkert tíðinda gerðist í Útiklefa. Þó mættu þar skrifari, gamli barnakennarinn, Helmut og Benz, auk blómasala sem enn er ekki úrkula vonar um að geta pressað Benzinn niður fyrir öll siðsemismörk í gjaldtöku fyrir akstur til Flyvehavnen. Svo var gengið til Brottfararsalar. Þar bættist Denni við og var útlit fyrir hefðbundið hlaup. Svo kom Maggi hlaupandi á síðustu stundu og sagði okkur að hlaupa af stað, en við sögðum að við biðum alltaf eftir vinum okkar. Skipti sosum ekki máli því að Benzinn var hvort eð er ekki kominn úr Útiklefa. Helmut og Denni lögðu af stað, þeim lá á að komast af stað, einhverra hluta vegna. Við hinir biðum.
Svo komu þeir, Benzinn og Maggi og við gátum lagt í hann. Fljótlega kom í ljós að skrifari var hægari en þeir hinir, ekki að hann væri þreyttur eða þungur á sér, bara hægari. Dróst aftur úr, samt var þetta hefðbundið föstudagshlaup, sem er félagshlaup og enginn skilinn eftir. En ekki að örvænta, þetta færi einhvern veginn! Maður þraukaði og hugsaði til þess að eftir því sem liði á hlaupið myndi skrokkurinn hitna og verða sprækari.
Þeir hinir voru þarna einhvers staðar aðeins á undan mér, ekki langt, kannski eina mínútu. Þegar þeir hinir komu í Nauthólsvík lagði Benzinn til við blómasalann að bíða eftir skrifara. Slíkum hugmyndum var hafnað snarlega. En Benzinn er sannur vinur vina sinna og beið, blómasalinn áfram. Hér ætlaði sá gamli að stytta, fara Hlíðarfót og hitta mannskapinn á Klömbrum. Skrifari sagði að það kæmi ekki til greina: hefðbundið merkir hefðbundið. Hi-Lux, Öskjuhlíð og þannig áfram. Hér voru þeir hinir rétt á undan okkur og reyndist brekkan þeim sumum erfið. Við vorum nánast búnir að ná þeim er upp var komið brekku.
Jæja,við fórum fram úr Denna og skildum hann eftir. Veðurstofa, saung- og skák, Hlíðar, Klambrar, Hlemmur og Sæbraut. Hér náði skrifari að fara fram úr flestum hlaupurum, nema Benzi sem stytti sér leið eftir Veðurstofu. En á Sæbraut losnaði skóþvengur á skúm skrifara og þar með var þetta búið. Ég mátti horfa á eftir þeim hinum þumbast áfram og ég að hnýta skúa mína. Hlaupið hjá Hörpu, um Höfn og upp Ægisgötu. Við Kristskirkju fór fram heilög signing og svo niður Hofsvallagötu. Þar var Denni, hann hafði náttúrlega stytt um Laugaveg, nema hvað.
Að hlaupi loknu er oss efst í hug þakklæti fyrir góða heilsu, gott líkamlegt ástand, gott veður og góða félaga. Gott hlaup, þrátt fyrir að það vantaði nokkra góða félaga eins og prófessor Fróða, Þorvald, Jörund o.fl. En nú er maður farinn að kannast við sig, farinn að renna hefðbundnar leiðir Hlaupasamtakanna með viðeigandi hreinsun hins innri manns. Framundan er vorið, birta, þingkosningar, og meðal annarra orða, þetta:
D.ritstjóri betur um bættiog bullaði' að Morgunblaðshætti.
Maðurinn mæddur
svo mikið varð hræddur
um kvöld eitt þá Kötu hann mætti.
18.2.2013 | 21:13
Mannval
Þegar skrifari sá Maggie í Brottfararsal, sagði hann: "Ég hef ekki séð þig lengi!" Hún svaraði: "Það er líklega vegna þess að þú hefur ekki sést lengi sjálfur. Ég hljóp t.d. í gær, sunnudag." Aðrir hlauparar tóku undir þetta hjá Maggie og gerðu ósmekklegan aðsúg að skrifara. Prófessor Fróði vildi skipuleggja hlaup í Viðey og árshátíð í framhaldinu. Skrifari spurði um það smáatriði að þrífa sig eftir hlaupið. "Hva! Er ekki vatn í Viðey? Það er vatnstankur í eynni!" Hann vissi greinilega ekki (eða mundi) að seinasta árshátíð var haldin í þessum sama vatnstanki.
En hvað sem öðru líður var gríðarlegt mannval í Brottfararsal við upphaf hlaups í dag. Þarna mátti bera kennsl á gamla hlaupara eins og Jörund, Ágúst, Flosa, Kalla, Magga, Helmut, Þorvald og Benzinn. Einnig yngri hlaupara eins og Einar blómafræðing, Ólaf skrifara og Ólaf heilbrigða. Og svo allir ofurhlaupararnir: dr. Jóhanna, Pétur Einars, Maggie, Ósk, Hjálmar - en Gummi Löve var veikur. Hann hrópaði á okkur út um glugga eftir að hópurinn var kominn á hreyfingu.
Stemmari fyrir gömlum Neshring, upp á Víðimel, út á Suðurgötu og þannig út í Skerjafjörð. Við Einar og Maggi daprir og við siluðumst af stað með Jörundi. Maggi sagði sögu af konu sem kom í apótek og vildi kaupa arsenik. Jörundur upplýsti að Einar væri ekki blómasali heldur blómrekstrarfræðingur. Sagt frá manni sem útskrifaðist úr viðskipta- og rekstrarfræði og hefði kallað sig viðrekstrarfræðing til styttingar. Svona ganga skeytin stundum þegar vel liggur á mönnum. Einar eitthvað slappur í dag og hætti áður en komið var í Skerjafjörð, hélt tilbaka.
Við dóluðum þetta út að Skítastöð og snerum í vestur. Sást lítið til annarra hlaupara, nema við sáum ofurhlauparana á undan okkur á leið á Nesið. Kalli kom á móti okkur og fór með Jörundi vestur úr, en við Maggi beygðum af við Hofsvallagötu. Okkur skilst þeir gömlu hafi farið út að Eiðistorgi og svo tilbaka á hröðu tempói. M.a. mun prófessor Kvaran hafa tekið fram úr fremsta fólki spyrjandi hvar fremstu hlauparar væru. Hann er allur að koma til - í ósvífninni!
Hefðbundin hátíðarstund í Potti með sögum úr hlaupum, Kvaran með ádíens.
6.2.2013 | 20:35
Allt á réttri leið
Furðu má hann heita værukær, Jörundur prentari, maður sem ætlar að standa fyrir Fyrsta Föstudegi n.k. föstudag og mætir ekki í hlaup dagsins til þess að búa sig undir verkefnið andlega. En á þessum ágæta miðvikudegi var glettilega harðsnúinn hópur mættur: próf. dr. Fróði, gamli barnakennarinn, dr. Jóhanna, Pétur Einars, Gummi Löve, Heiðar, Þorvaldur, Benzinn, Einar blómasali, Hjálmar, Ólafur skrifari, Maggi, Frikki og Rúna. Í þetta skiptið má heita að við höfum lagt upp saman með einhvern snefil af sameiginlegum ásetningi um hlaup. Veður ágætt, hiti 4 stig, einhver vindur.
Fljótlega varð þó hefðbundin skipting, þekktir hlaupagikkir fremst, meðalhlauparar næst, skrifari þar á eftir og allra síðust Rúna og blómasalinn. Ástandið fer batnandi með hverju hlaupi, þol og þrek eykst og vellíðan í sama mæli. Hlaup lengjast og sól hækkar á lofti. Þessi hlaupari hljóp af augum og yrði kylfa að ráða kasti um hvert hlaupið yrði í dag. Áður en maður vissi af blasti Nauthólsvíkin við augum og það sást til lakari hlaupara beygja af inn Hlíðarfótinn. Skrifari tók ekki í mál að hætta og setti stefnuna á Flanir. Fyrir framan hann mátti greina Fróða og Flosa og líklega einhvern annan. Að baki beygði Blómasalinn af og hélt á Hlíðarfót, afar þungstígur og hægur.
Hlaupið út að Kringlumýrarbraut og upp Suðurhlíð. Skrifari í þungum þönkum yfir ástandinu í Lýðveldinu og gleymdi því að verða þreyttur, en hljóp sem leið lá alla brekkuna án þess að blása úr nös, alla leið upp að Perlu. Þar er heimilt að ganga stuttan spöl, en svo er bara tekið strikið niður Stokk, hjá Gvuðsmönnum og Hringbraut tilbaka til Laugar. Furðu áreynslulítið og árangursríkt hlaup. Góð tilfinning er komið var á Plan. Innandyra var blómasalinn að teygja. Eftir hvað veit ég ekki.
Aðrir hlauparar voru svo seinir í dag að Skrifari var aleinn í Potti með hugsunum sínum. Í Útiklefa talaði Hjálmar eitthvað um Kársnes og spretti. Það mun bíða enn um sinn að Skrifari fari í slíka leiðangra. Að sama skapi mega menn fara að búa sig undir Fyrsta og að hlakka til.
30.1.2013 | 20:47
Einar blómasali verður sér (og okkur um leið) til skammar
Í hlaupi dagsins dró Einar blómasali mikla skömm yfir Hlaupasamtökin. Meira um það í pistli dagsins. Tildrög máls eru þau að í dag kom hópur hlaupara saman í Vesturbæjarlaug til þess að renna skeiðið. Fyrst er þar til að taka að Skrifari kemur í Útiklefa og finnur þar fyrir Blómasalann og Leikara Lýðveldisins. Einar er að reyna að segja sögu af veikri konu, en fer svo vitlaust með öll orðatiltæki að nauðsynlegt reyndist að leiðrétta hann nokkrum sinnum. Við það fipaðist Einar í frásögu sinni og kvartaði yfir því að geta ekki lokið sögunni. Svo kom gamli barnakennarinn og blandaði sér í málin.
Aðrir mættir: prófessor Fróði, Magnús, dr. Jóhanna, Heiðar, Gummi Löve, René, svo sást Jörundur renna í hlað um það bil sem menn lögðu upp. Magnús staldraði við og beið eftir honum, aðrir hirtu ekki um það. Talað um Þriggjabrúa, Kársnes, Suðurhlíð, Hlíðarfót, allt eftir smekk og getu. Lagt upp á rólegu nótunum.
Veður þolanlegt, fjögurra stiga hiti, einhver vindur og snjóél. Maður er eiginlega hættur að þekkja fremsta fólkið, það hleypur aldrei með okkur aumingjunum. Aftastir hlupu René, Fróði og Skrifari. Blómasalinn og barnakennarinn náðu að hanga í þeim hinum inn í Nauthólsvík, en ekki söguna meir.
Í Skerjafirði kom Rúna hlaupandi fram úr mér. Stuttu síðar kom Frikki hlaupandi fram úr mér. Í Nauthólsvík beið prófessorinn eftir mér, en René hélt áfram í humátt á eftir þeim hinum. Við Gústi fórum Hlíðarfót, vorum skynsamir í dag enda báðir á batavegi eftir meiðsli. Rætt um aðstæður á vinnustöðum okkar og verkefnin sem við göngum í. Farið hjá Gvuðsmönnum og Hringbrautin tilbaka.
Frá því var sagt að þeir héldu þrír á Þriggjabrúa, Blómasalinn, gamli barnakennarinn og René. Þau hin fóru á Kársnes. Ekki vildi betur til en svo við Fram-heimili að Blómasalinn flaug með miklum bægslagangi og baðandi út öllum öngum á hausinn, rétt við inngöngudyrnar og sægur af Fram-stelpum innandyra sem skellihlóu að tiltækinu. Létu þeir svo um mælt, Flosi og René, að aldrei á samanlagðri ævi sinni hafi þeir skammast sín eins mikið og þegar Blómasalinn lá emjandi í götunni. Hann var skafinn upp úr grjótinu og reynt að tjasla honum saman svo að ljúka mætti hlaupi. Má segja að skömm Samtaka Vorra hafi aldrei verið meiri en þegar Blómasalinn laut í gras fyrir Fram-stelpum á táningsaldri.
Þar sem Skrifari og prófessor Fróði standa og teygja í Móttökusal Laugar Vorrar koma þeir askvaðandi Magnús tannlæknir og Jörundur. Jörundur er oft óðamála og fullur ofstækis í lok hlaupa. Hann hrópaði að hann ætti eingöngu einn vin, einn vin (hann er farinn að endurtaka sig eins og Davíð Oddsson). Sá vinur heitir Magnús tannlæknir. Magnús beið nefnilega eftir honum við upphaf hlaups því að Jörundur mætti í hlaupafötum, tilbúinn að hefja hlaup. Við skiptumst á hefðbundnum ónotum þarna á meðan við teygðum og fórum með gamanmál. Jörundur var svangur og úrillur, enda hafði konan ekki hirt um að gefa honum að borða frá því um morguninn. Svo mætti Benzinn á svæðið óhlaupinn, en með finnska vinkonu sem hann kynnti fyrir öllum.
Pottur var bara flottur. Þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem Skrifari á gæðastund í Potti með vinum sínum. Ósk var mætt fársjúk af flensu sem hún reyndi að losa sig við í gufubaði. Svo komu hlauparar hver af öðrum. Ákveðið að fresta Fyrsta Föstudegi hvers mánaðar til 8. feb. þar eð bæði prófessorinn, Skrifarinn og Magnús eru uppteknir á föstudag. En þá verður Fyrsti annað hvort hjá Blómasala eða Jörundi. (Nú er ég að gleyma einhverju sem Fróði sagði mér í aaaaaaalgjörum trúnaði og mátti ekki fara lengra - en í blogg.)
28.1.2013 | 19:58
Kristilegir bræður hlaupa saman
Meðlimir Hlaupasamtaka Lýðveldisins eru sumir hverjir kristilega þenkjandi. Um það fjallar pistill dagsins. Á mánudegi er oft erfitt að rífa sig upp í hlaup. Það gerðu þó eftirtaldir: Einar blómasali, Ólafur skrifari, Flosi, Magnús, dr. Jóhanna, Karl Gústaf, Guðmundur Löve, Heiðar og Þorvaldur. Hlaupið á Nes í eilítið skárri færð en í gær. Skrifari skilinn eftir þegar í upphafsskrefunum. Frikki Meló bættist í hópinn við Melabúð.
Þetta var einmanalegt. Í einmanaleik sínum samdi skrifari fyrirsögn á frásögn dagsins: Alltaf einn, Einsemdin er hlutskipti mitt o.s.frv. En er komið var í Ánanaust og stefnan sett á Nes gerðist undrið: Þorvaldur sneri við og sótti skrifara og Maggi beið álengdar, auk þess sem Kalli gerði sér far um að slá sér í hóp hinna kristilega þenkjandi meðbræðra skrifara. Hér rifjaði skrifari upp línurnar gullvægu: "Gvuð á margan gimstein þann..." o.s.frv. En hið nýja hugarfar entist ekki lengi, áður en langt var liðið voru þeir horfnir og settu stefnuna fyrir Seltjörn, meðan skrifari beygði af við Lindarbraut og fór stystu leið tilbaka.
Þetta var erfitt framan af, enda skrifari búinn að bæta vel á sig kílóunum, en er á leið hlaupið varð það auðveldara og sá skrifari eftir því að hafa ekki farið lengra. Nesvegurinn steinlá. Er komið var á Plan dúkkaði blómasalinn þar upp og hafði farið stutt. Kvaðst þurfa að fara heim að hlýða á Lýðveldisfréttirnar. Í Potti var rætt um fiskrétti og gerðist umræðan svo áköf að einn sundgesta forðaði sér burtu segjandi að hann væri orðinn svangur.
Að hlaupi loknu er spurt: hvar var prófessor Fróði? Hvar var Benz? Jörundur? Helmut? Eru menn almennt þeirrar skoðunar að þeir séu undanþegnir hlaupum? Hér þarf leiðréttingar við. Næst: miðvikudagur.
27.1.2013 | 16:06
Sunnudagur
Mættir á sunnudegi kl. 10:10: Formaður til Lífstíðar, Þorvaldur, Magnús, Jörundur, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Færi fáránlegt, glerhálka yfir öllu, en veður gott, hiti 4 gráður og einhver vindur. Í Brottfararsal fór Formaður með langa tölu um útfarir, undirbúning þeirra og þær ákvarðanir sem taka þyrfti í því sambandi. Hér er hann í essinu sínu og enginn sterkari á svellinu en hann.
Hlaupið varlega af stað og farið hægt yfir. Blómasalinn var búinn að fara á Nes svo að hann stefndi á að ljúka um 20 km í dag. Að öðru leyti var haldið í hefðirnar á þessum degi sem endranær. Rætt um framboðsmál á Ægisíðunni þar sem við mættum síhlaupandi sveitarstjórnarmanni. Þeir skildu okkur fljótlega eftir, Magnús og Þorvaldur, en biðu þó eftir okkur í Nauthólsvík eins og hefðin býður. Þar voru örsögur sagðar og haldið áfram.
Aftur vorum við frændur skildir eftir og nú í Kirkjugarði þar sem þeir hinir héldu áfram. Þó staldraði Jörundur eitthvað eftir okkur, en á endanum gafst hann líka upp á hægaganginum og skeiðaði áfram á járnum. Farið um Veðurstofu, Hlíðar og Klambra. Þaðan niður á Sæbraut og hefðbundið tilbaka.
Í Potti var valinn maður í hverju rúmi og bættust nú dr. Baldur,dr. Mímir og dr. Einar Gunnar í hópinn. Sagðar vísbendingaspurningar sem voru svo snúnar að verulega reyndi á gáfur manna við lausn þeirra, einkum þegar vísbendingarnar voru ekki einasta misvísandi, heldur beinlínis rangar. Það eru góðar vísbendingaspurningar. Á þeim hefur dr. Baldur mikið dálæti.
22.1.2013 | 22:43
Vilhjálmur á Plani
Með ást og virðingu.
Scr.
20.1.2013 | 16:44
Týndur Formaður
Á sunnudagsmorgni voru þrír hlauparar mættir til hlaups frá Vesturbæjarlaug: Jörundur, Magnús og Einar blómasali. Veður fagurt, stillt, ekki kalt, stígar hreinir og úr varð eitt ánægjulegt menningarhlaup. Hefðbundið framan af, en breytt til í Miðbæ, farin Vesturgata, Garðastræti, Túngata, Hávallagata og Sólvallagata, skoðuð hús og bílar, rætt um menningarmál.
Helsta umræðuefnið var þó þetta, að tveir menn héldu á Esjuna í gær og flaug fyrir að þar hefðu verið á ferð þeir vinir Ó. Þorsteinsson og V. Bjarnason. Er upp var komið ákvað Villi að leiðbeina vini sínum niður og benti honum á að fara greiðustu leið niður, um Gunnlaugsskarðið. Sjálfur fór hann niður hjá Þverfellshorni, beið í 4 klst. er niður var komið og hringdi þá í hjálparsveitir þegar ekkert bólaði á Formanni Vorum. Enn var verið að leita seint í gærkvöld.
Þessi saga skemmti mjög í hlaupi dagsins. Þótti ekki ósennilegri en hver önnur og í Potti lýsti dr. Baldur yfir því að hún hefði líklega meira sannleiksgildi en mörg sagan sem Ó. Þorsteinsson hefði sagt í Potti um dagana.
Nú fer að líða að því að Skrifari skríði saman og verði klár til hlaupa - og svo kemur vorið!
18.1.2013 | 20:28
Misvísandi sjúkdómseinkenni
Þegar Skrifari hitti Blómasalann í Útiklefa að morgni þessa dags var allt í lagi með hann. Það kjaftaði á honum hver tuska og hann átti skoðanaskipti við dr. Vigfús um allt það er til framfara horfði.
Annað hljóð var komið í Strokkinn er Blómasali mætti til Laugar fyrir hlaup. Hann bar sig illa og sagði við dr. Karl Gústaf: "Kalli, ég er með hita, hausverk og beinverki. Er nokkuð sniðugt að ég hlaupi?" Karl brást við á sinn hógværa hátt og sagði að líklega væri skynsamara að sleppa hlaupi og hlúa að sér. Við þetta læknisráð lifnaði yfir Blómasala og hann fór heim að horfa á leikinn.
Aðrir mættir í hlaup dagsins: Þorvaldur, Benz, Denni og Helmut. Fleiri voru ekki mættir. En það var fallegt veður til hlaupa, stilla, 7 stiga hiti og haldið á Nes. Sem vonlegt var voru það eingöngu öflugustu hlauparar sem fóru fyrir Seltjörn og Gróttu, aðrir styttu sér leið um Nesbala og mættu þeim hinum. Hænurnar voru haldnar til vetrardvalar innanhúss.
Svo var hlaupið tilbaka og komið til Laugar um það bil er Skrifari kom þangað óhlaupinn og haltrandi. Skeyti flugu á tröppu Laugar, m.a. um heilsufar Blómasala, en sumum hafði hann sagt að hann væri haldinn kvilla tengdum meltingarveginum. Hér urðu menn undirfurðulegir á svip og kom á Kalla. Var Blómasalinn kannski að ljúga til þess að geta horft á leikinn?
Jæja, þar sem við sitjum í Potti og förum yfir stöðu mála upplýsir Denni að hann hafi heyrt að Kaupmaðurinn hafi bannað Blómasalanum að koma í búð sína vegna þess að í hvert skipti sem hann snýr sér við í búðinni ryðji hann niður úr heilu hillunum með ófyrirsjáanlegu vinnutapi og armæðu fyrir starfsfólk. M.ö.o. var því beint til Blómasalans að eiga viðskipti við verzlanir þar sem gangar eru víðir og breiðir og nóg pláss fyrir bumbus vulgaris.
Eðllilega var spurt um Fyrsta Föstudag hvers mánaðar, en hann verður víst ekki fyrr en 1. febrúar nk. Í gvuðs friði.
11.1.2013 | 20:42
Séra Georg og Margrét Möller, vænsta fólk að sögn
Þegar komið var í Pott eftir hlaup dagsins bar margt á góma. Segir af því hér á eftir. En fyrst er að segja frá upphafi hlaups. Mættir: próf. Fróði, Einar blómasali, Bjarni Benz, Denni skransali, Karl Gústaf og Ólafur Gunnarsson. Ekki félegur hópur við fyrstu sýn. Þeir jörðuðu hins vegar vantrúarraddir með ótrúlegri frammistöðu í hlaupi dagsins.
Nú er lesandinn beðinn að minnast þess að í gærkvöldi var þreytt Powerade-hlaup í Elliðavogi. Denni taldi sig tilamunda hafa séð gamla barnakennarann þar fársjúkan en þó hlaupandi nokkuð hraðar en gamla skransalann af Nesinu. Af þessari ástæðu kann að hafa verið öllu meiri fjarvera en venjulega. Altént kvartaði Denni yfir þyngslum, þreytu og stirðleika. Því var það að hann lét sig viljandi síga aftur úr þeim hinum sem fóru eilítið hraðar til þess að geta ráðið tempóinu.
Ekki vissi Denni hvað varð um þá hina, en hann hljóp og gekk út að Fossvogskirkjugarði, snöri við og hljóp tilbaka. Hafði hann mótvind framan af, en hljóp á lensinu tilbaka og gekk þá betur. Taldi hann sig hafa hlaupið eina 9 km og undraðist mjög að hitta ekki félaga sína er komið var tilbaka. Þó var það honum mikil uppörvun að hitta Skrifara í Potti. Tóku þeir tal saman og var skrafað um hlaup og ástand hlaupara.
Nokkru síðar birtust þeir hver á fætur öðrum: prófessorinn, Blómasalinn, Benzinn og Ólafur velferðarmaður. Höfðu þeir dröslast eina 11,3 km og fengið að launum kaffi og út í hjá Kaupmanninum. Ágúst var spurður út í höndina og hvort hann hefði skilið sneiðina sl. föstudag. Hann hafði ekki áttað sig á sneiðinni og kallaði reyndar Skrifara Flosa, en gamla barnakennarann Óla.
Menn lýstu yfir girnd. Allir hefðu girnd. Girnd til mismunandi hluta. Þetta kveikti í sumum. Talið barst að séra Georg og Margréti Möller. Hér var komið við viðkvæman blett hjá Denna og Benzinum. Þeir eru greinilega í mikilli varnarstöðu fyrir Katólsku kirkjuna á Íslandi og þvertóku fyrir það að þetta ágætisfólk hefði nokkurn tíma girnst það sem bannað er í pápísku.
Prófessorinn er farinn að eldast. Sést það ekki einasta á því að hann ruglar saman þeim Skrifara og gamla barnakennaranum, en ekki síður af því að hann talar ákafliga um sjúkdóma sína og meiðsli, sjúkrahúsvistir og aðgerðir. Máttu félagar hans nú þola langar tölur um meiðingar og skurmsl hvurs kyns, og þegar spurt var: "Hvað kom fyrir?" var svarað: "Spurðu frekar hvað kom EKKI fyrir!" Prófessorinn kvaðst hafa frekar viljað fá öll meiðslin á sama tíma, en ekki svona hver á eftir öðrum.
Eðlilegt er að talið bærist að Fyrsta. Fróði taldi sig eiga inni eina 15 ónýtta Fyrstu. Skrifari upplýsti að Fyrsti væri sameign Hlaupasamtakanna og ekki á færi einstakra hlaupara að taka hátíðina út prívat. Fróði skellti skollaeyrum við og hafði greinilega áform um að vísítera Ljónið.
Nú fer maður að kannast við sig í Hlaupasamtökunum, prófessor Fróði kominn aftur og byrjaður að kvarta. Nú er vorið skammt undan.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)