Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Enn er hlaupið

Einhverjir kynnu að halda að hlaup væru almennt fallin niður hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á sunnudögum. Svo er ekki. Nú voru mættir skrifari, Formaður Vor, Magnús og Einar lærisveinn. Einar var léttur á sér eins og skógarhind og skottaðist í kringum okkur glaður í bragði þar sem við siluðumst áfram Ægisíðuna. Mikill og hvass mótvindur alla leið austur á Flanir. Hlaupið var hefðbundið með vikuskammti af sögum um vini okkar og því helsta úr bæjarslúðrinu. Gengið á völdum stöðum, en annars haldið vel áfram og tekið á því. Lítil dramatík og hlaupi lauk á léttum nótum á Plani.

Í Potti var lögð ein löng vísbendingaspurning fyrir Helgu sem hún leysti merkilega vel úr með tilheyrandi persónufræði og ættfærslum. Nýr félagi án hlaupaskyldu, Dóra Guðjohnsen, vígð í samfélag vort og fengið nýtt nafn á dr. Baldur. Baldur var fjarverandi og fær ekki að heyra af hinu nýja nafni nema hann sýni sig í Potti.


Þegar líkaminn segir nei.

Stundum þurfa menn að vera skynsamir, hlusta á líkamann og fylgjast með viðvörunarhljóðunum. Þessa lexíu lærðu blómasalinn og Óli hinn í dag. 

Það vorum við helstu drengirnir sem mættum til hlaupa í dag: próf. Fróði, Þorvaldur, Magnús, Flosi, Einar blómasali og skrifari, auk þess sem fyrrnefndur Óli bættist í hópinn, Hjálmar borgarfulltrúa tíndum við upp af leið okkar og loks ku Rúna hafa rambað á suma félaga okkar í "skógi við hótel" (orð Flosa). 

Jæja, það var furðu lítið um fúkyrði eða skæting í Brottfararsal, miðað við að Fróði var snúinn aftur frá Sikiley og greinilega orðinn "made man". Karlinn reyndi þó að mjólka aðstæður eftir bestu getu, en með litlum árangri, svo sé að þakka jafnaðargeði skrifara.

Bent var á í ljósi þess hve margir hlauparar kjósa að hlaupa í skærgulu að auðvelt væri að ruglast á slíkum og öskuköllum.

Samstaða um að fara tiltölulega stutt, utan hvað Fróði vildi 25. Við hinir kusum Hlíðarfót. Nú gerðust þau undur að skrifari hljóp léttfættur sleitulaust inn í Nauthólsvík og staldraði við þar af þeirri einu ástæðu að Einari blómasala lá við yfirliði og þurfti stuðning til þess að komast til baka. Skrifari var sá eini í hópnum sem fórnaði sér í verkefnið, aðrir létu sig hverfa. 

Á Hringbrautinni römbuðum við fram á hinn Ólaf, heldur framlágan og raunar aðframkominn, gaf hann þá skýringu að hann hefði farið í hot yoga deginum áður og það virkað heldur illa fyrir hlaup dagsins.

Lukum samt hlaupi á nokkuð góðum nótum. Ljóst er af hlaupi dagsins að skrifari er á réttri leið í endurkomu sinni, þrek eykst, skrokkur í lagi og hlaupin lengjast smá saman. 

Næstkomandi föstudag verður Laug Vorri lokað kl. 13:00 - svo að þrautalendingin verður víst Neslaug kl. 16:30 - og Fyrsti Föstudagur á Rauða Ljóninu á eftir.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband