Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018

Þvílíkir snillingar!

Þeim er ekki fisjað saman, hlaupurunum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, þeim sem mæta til hlaupa þrisvar til fjórum sinnum í viku hverri. Nú voru mættir skrifari, Benz og Benzlingur, blómasali og Ólafur hinn. Svo mættu Ósk og Hjálmar alhress. Mikill mannjöfnuður var uppi um hvor væri meiri kappi, Benzinn eða blómasalinn. Aðrir stóðu horskir hjá.

Lagt af stað í fallegu veðri, stillu, þurru, hiti 6 stig. Þau Ósk og Hjálmar hurfu strax á fyrstu metrunum og höfðu hann Bjarna með sér. Má það kallast mannrán um miðjan dag. Við hinir á eftir og héldum þó þétt og gott tempó alla leið inn í Nauthólsvík, skrifari heldur á undan því honum leiddist barlómurinn í þeim hinum um gengissig og búksorgir hvers kyns. Nú datt það ofan yfir okkur Einar að við gleymdum að taka hann Magnús með okkur á trillunni, en Magnús hefur lýst miklum áhuga á trilluútgerð frá Vesturbæjarlaug.

Við róuðum okkur í Nauthólsvík og fórum fetið. En brátt settum við Benzinn upp tempóið og eftir það var ekki litið til baka. Máttu þeir hinir hafa sig alla við til að halda í við okkur. Fórum upp Suðurhlíð, yfir hjá Perlu og niður Stokk í niðamyrkri. Hringbrautin tekin með látum. Um það er við komum til baka kom Ólafur hinn og var eitthvað að sprikla undir lok hlaups, en við hinir leiddum það hjá okkur. 

Geysilega þétt og gott hlaup og góður pottur á eftir með umræðu um mat. Benzinn upplýsti að hann myndi hýsa julefrukost þetta árið. Söknuðum Gústa í hlaupi dagsins.


Sunnudagshlaup

Í Brottfararsal á sunnudagsmorgni var um það rætt með hvaða ráðum við gætum dregið hann Magnús okkar með okkur í hlaupin á ný. Það voru Ólafur Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Einar blómasali og Ólafur skrifari sem lögðu á ráðin um heilsubót fyrir fjarstaddan tannlækni. Veður gott, stilla, frost, yndislegt! Hlaupið hefðbundið en fáir urðu á leið okkar og enginn sem bað um viðtal. Fyrr en í Nauthólsvík að hún Irma varð á vegi okkar á ferð með Landvættum sem stunda hlaup, sjósund, göngur og ég veit ekki hvað. Her manns sem steðjaði upp úr fjörunni og við fundum til smæðar okkar, einungis þrír eldri herramenn á ferð.

Tröppu miðar vel áfram og menn sjá fyrir sér pallinn þar sem Formaður getur staðið og flutt snjallar ræður yfir konum með ættarnöfn. Leiðin lá um þekktar slóðir enda erum við ekki þekktir fyrir að breyta mikið til. Þó voru gerð afbrigði er komið var á Hlemm, farin Hverfisgata niður í bæ og gerð úttekt á nýbyggingum, sem margar hverjar munu vera undir íbúðir.

Pottur var fullmannaður að heita má, utan hvað Guðni Kjartansson lét sig vanta og var miður því að uppi voru óskir um að ræða við hann orðbragð Keflvíkinga á knattspyrnuvellinum á sjöunda áratugnum. Þarna voru Jörundur prentari, Stefán, Mímir, dr Einar Gunnar, Margrét barnakennari - auk hlaupara. Vantaði bara dr Baldur til þess að pottur gæti talist fullsetinn.


Fyrsti í nóvember

Boðað var til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á föstudegi, þeim hinum Fyrsta í nóvember og þarafleiðandi fyrirheit um drykkju að hlaupi loknu. Þá mæta oft sumir hlauparar. En ekki nú, í dag voru aðeins hinir staðföstu mættir: Flosi, Benz, Einar blómasali, Ólafur skrifari og Benzlingur. Veður var stillt, en ekki hlýtt og því tekin ákvörðun um balaklövu. Það sást til Gísla Ragnarssonar, fornfrægs félaga vors, og hafði hann góð orð um það að fara að mæta á ný til hlaupa með okkur. Hins vegar sást ekkert til prófessors dr Fróða sem hefur haft sig mjög í frammi á samfélagsmiðlum og haft uppi bæði hótfyndni og hortugheit. 

Við hlupum saman af stað og héldum hópinn allan tímann, enda eru föstudagshlaup félagshlaup. Rætt var um einhvern mikinn skandala sem ég er búinn að gleyma hver var, en var mjög svívirðilegur og bæði Bjarni og blómasalinn voru mjög fonnemmaðir, Bjarni raunar svo mjög að hann tók aukahopp og hlaup upp á nærliggjandi hljóðmanir til þess að tjá reiði sína. Svo var það gleymt og við héldum áfram. 

Við hlupum framhjá Bragganum og vorkenndum fólki sem þar sat inni og neytti veitinga. Aumingja fólkið, að þurfa að hírast þarna inni þegar það gæti fyllt kátra sveina hóp á stígum úti! 

Jæja, næst var það Öskjuhlíð og stígurinn upp, hann var glerháll og var skrýtið að fara úr marauðu í Vesturbænum í glerhálkuna í Austurbænum, sem þó er landfræðilega nálægur hinum fyrrnefnda, þótt margt sé í kúltúr, innræti íbúa og hugarfari sem greini þessa bæjarhluta að. Fórum að tröppunum góðu upp á Veðurstofuhálendið, verki vindur fram, og gladdi það okkur mjög að sjá hitalagnir í tröppunum, sem þýðir að þær verða auðar í vetrarbyljunum. 

Nú var hlaup hálfnað og við fórum hjá Saung- og Skák, um Hlíðar og Klambra og kíktum inn á málverkagallerí á Rauðarárstíg og sáum Kjarval, sem Benzinn sagði að væri alls enginn Kjarval. Þeir hefðu nefnilega umgengist hvor annan hér forðum daga og hann þekkti sinn Kjarval. Áfram niður Laugaveginn með öskrum og látum sem linnti ekki fyrr en á Landakotshæð þar sem Benzinum tókst að fá hóp af skólakrökkum upp á móti sér og hlupu með öskrum á eftir þeim feðgum út úr porti katólskra.

Pottur óvenju heitur og góður og þar sat próf dr Einar Gunnar. Sænskir túristar sátu þar einnig og furðuðu sig á tilburðum Bjarna í kalda pottinum. Skrifari útskýrði að maðurinn væri ekki alveg eðlilegur. Þeir skildu það. 

Enginn Fyrsti á eftir, enda fjölskyldumenn hér á ferð, en ekki ábyrgðarlausir unglingar. Hins vegar heitstrengingar um frekari hlaup, næst sunnudag kl 10:10. Í gvuðs friði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband