Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2019

Mögnuð endurkoma tannlæknis

Menn muna eftir því þegar við Magnús fórum út að hlaupa á seinasta ári, lentum í snjóstormi og urðum að snúa til baka og hætta hlaupi. Um þetta var saminn og fluttur leikþáttur af nokkrum góðum félögum sem höfðu gaman af. En nú voru þessir sömu spéfuglar fjarri góðu gamni, því að Magnús mætti af nýju í hlaup á sunnudagsmorgni eftir að hafa haldið sér til hlés í rúmt ár. Við frændur og vinir, Ólafur Þorsteinsson og Ólafur Grétar, fögnuðum Magnúsi vitanlega og upplifðum stundina sem sögulega. Það var góð tilfinning að leggja upp í hlaup í sumarblíðu á fögrum degi.

Við töltum af stað á rólegu nótunum og var ekki að sjá að Magnús væri óhlaupinn sem næmi einu ári. Rifjaður upp árekstur frá síðustu viku þar sem bakkað var á bifreið Formanns. Upplýst að öll tilskilin leyfi voru til staðar. Framundan er gönguferð Formanns og fjölskyldu í Reykjarfjörð á Ströndum. Magnús upplýsti að hann hefði verið á þeim slóðum í fyrradag, en snúið við þegar vegurinn endaði skyndilega. 

Magnús sýndi karakter þegar hann hljóp bæði fram hjá Skítastöð og Skerjafirði án þess að tilkynna að hann þyrfti að hætta hlaupi vegna mikilvægs fundar í Kirkjuráði. Sömuleiðis sýndi hann sjálfsaga þegar hann fór gegnum Nauthólsvík án þess að fara í skotið sitt og létta á sér. Þar er nú búið að að setja upp myndatökuvél svo að allt umdeilanlegt athæfi myndi enda á samfélagsmiðlum. 

Við sýndum Magnúsi helstu breytingar sem orðið hafa á hefðbundinni sunnudagsleið okkar, m.a. Tröppur við Veðurstofu, vinnu við Stokk, nýjan vatnspóst á Klambratúni o. fl. Líklega var það hér sem við fórum að vorkenna Prófessor Fróða að fara á mis við samvistir við okkur, félaga sína, og það góða starf sem iðkað er innan vébanda Samtaka Vorra. Skynsamlegast væri fyrir hann að fara úr utanvegagírnum yfir í vitleysisgírinn aftur og taka létt skeið í kátra sveina- og meyjaflokki. 

Farið niður á Sæbraut og engan bilbug var að finna á tannlækninum, það var haldið áfram án barlóms eða umkvartana. Hlaupi lauk á hefðbundnum stað, Plani við Vesturbæjarlaug, þar sem við hittum Jörund prentara önugan sem aldregi fyrr. Í Pott mættu auk framangreindra Einar Fellsstrendingur, Guðni og frú, Bjarni Fel., Margrét barnakennari o.fl. Rætt um knattspyrnu, íbúðakaup, bílakaup og tilheyrandi montnúmer. Á það var bent að ættlausir menn gætu ekki gert tilkall til montnúmera.

Nú er bara spurningin: verður framhald á hlaupum Magnúsar? Munu Kári, Gísli og Fróði snúa til baka?


Hlaup á Bastilludegi

Það var þjóðhátíðardagur Frakka og af virðingu við eina helstu menningarþjóð Evrópu var blásið til hlaups frá Vesturbæjarlaug kl 9:10 eins og hefðin býður á sunnudögum. Mættir voru Ó. Þorsteinsson, formaður vor og forn knattspyrnugoðsögn, Þorvaldur Gunnlaugsson, orðvar og orðlagður vísindamaður - og svo sá er þetta ritar, skrifari Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Veður eins og best verður á kosið á sunnudegi, milt, stillt og hlýtt. 

Tvennt frásagnarvert þegar í upphafi. Annars vegar að ekið var á bíl Formanns sl miðvikudag. Árekstrinum olli maður er ók leigubíl og álasi hver sem vill Formanni fyrir að hafa velt því fyrir sér hvort eðlilegt gæti talist að erlendur maður sem hvorki talar íslensku né getur gert sig skiljanlegan á ensku keyri leigubíl undir eðlilegum og löglegum formerkjum hér á landi. Skammt frá óhappsstað birtist flótlega eftir óhappið annar bíll sem staldraði við og fylgdist ökumaður hans með framvindu mála og því sem verða vildi. Kringum þessa frásögn Formanns spannst mikil umræða um ökuleyfi, leigubílaleyfi, atvinnuleyfi og mansal. 

Hitt sem þótti vert frásagnar var óvæntur vinningur í lottói. Það eru peningar líka. 

Um það var rætt að í gær lauk Súsanna Laugavegshlaupi með miklum bravúr, ein Lýðveldishlaupara að þessu sinni. Fylltust menn stolti við svo góð tíðindi. Í sama hlaupi var bróðir skrifara og þeirra Flosa, Þorvaldur, fremstur meðal jafningja í sínum aldursflokki, þeirra sem skriðnir eru á áttræðisaldurinn. 

Þá er vert að nefna það að á föstudag hringdi Bjarni Benz í skrifara og tilkynnti náðarsamlegast að hans hátign þóknaðist að hlaupa á föstudegi. Hann væri með öðrum orðum væntanlegur til hlaups á tilsettum tíma. Nú skrifari gerir sig kláran og er mættur í Brottfararsal stundvíslega kl 16:20 og fer að bíða eftir Bjarna. Líður og bíður og ekkert bólar á karli. Kl 16:28 þótti skrifara einsýnt að hann hefði verið hafður að háði og spotti og fór einsamall í hlaup á föstudegi, fór Hlíðarfót, skrefstuttur, andstuttur og geðvondur. Að hlaupi loknu dúkkaði Bjarni fyrstur manna upp í Potti, kvaðst vera hlaupinn og mjög hissa. Honum var bent á að hlaup væri stundvíslega kl 16:30 á föstudögum. “En ég var mættur kl 16:29, ég á atómúr!” 

Jæja, um þetta allt var rætt í hlaupi dagsins. Horfur á að Holtavörðuheiðarhlaup frestist um eina viku vegna fjarveru Formanns á fjöllum vestur. Hlaupið hefðbundið um Kirkjugarð, Veðurstofu, Hlíðar, Klambra og Sæbraut. Heilsað sem fyrr á báða bóga á íslensku og ensku. 

Mættir í Pott á sunnudegi Guðni landsliðsþjálfari og kona hans, Einar Gunnar, Jörundur prentari, Sverrir símamaður, auk hlaupara. Rætt um nýlega kappleiki, m.a. milli KR og norsks liðs, leikur sem við viljum gleyma fljótlega. Á það var bent að nú hefðu menn þreytt hlaup tvo sunnudaga í röð án þess að nefna V. Bjarnason á nafn. Þótti það merkilegt og dæmi um að flestir gætu fallið í gleymskunnar dá.

Von er á blómasala frá París fljótlega og þá verður farið að taka á því á hlaupum. Í Gvuðs friði. 

 


Erfiði óþekkt

Í tilefni af stórkostlegum hjólasigri Einars blómasala á meginlandi Evrópu í gær var blásið til hlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins og voru allir helstu vinir hans í þeim hópi mættir stundvíslega 9:15 - Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur og Ólafur skrifari. 15 stiga hiti, logn, heiðskírt, er hægt að biðja um meira? Einar hafði lagt að baki 1200 km á 6 dögum og var það mikil þolraun þegar hiti fór suma daga í 40 gráður. En sem betur fer hafði hann nóg að bíta og brenna á leiðinni, sem er fyrir öllu, og léttist hann einungis um 1 kílógramm á þessari 1200 kílómetra löngu leið. 

Jæja, við vinirnir vorum sumsé mættir og stefndi í afbragðsgott hlaup, slíkt var kappið og metnaðurinn. Farið rólega út svo að við byrjuðum ekki á að sprengja okkur. Ég sá ástæðu til að leiðrétta þann misskilning frænda míns að á Restaurant IKEA væru serveraðar “Swedish meatballs” eins og hann hefur oft komið inn á í hlaupum. Þær eru ekki sænskar frekar en belja! Þær eru búnar til úr 100% íslensku kjötfarsi, ekki nautahakki eins og ekta sænskar kjötbollur eru gerðar úr. Færist það hér með til bókar.

Nú var það skrifari sem hélt ádíens langleiðina inn í Nauthólsvík, var m.a. sagt frá heldur snautlegu hlaupi í gær þegar taka átti 69 með stæl. Hlaup gekk að óskum framan af og samkvæmt áætlun inn að Víkingsheimili, en þá er sem allur vindur sé úr skrifara. Minnir hann meira á ítalska eða tékkneska bíldruslu en íslenskan hlaupagarp. Hjartsláttur mikill, svimi fyrir höfði og almennur slappleiki. Varð nú að fara fótgangandi langa speli, og raunar megnið af leiðinni til Laugar. Datt manni einna helst í hug að næringarleysi af einhverju tagi byggi að baki. Hlaup dagsins gekk hins vegar vandræðalaust og var sem nýr maður hlypi. 

Eitt og annað kom til umræðu, m.a. yfirtaka Víkings á Safamýrarsvæði Frams og kennslumál Reykjavíkur Lærða Skóla, húsnæðismál æskunnar og gistimöguleikar á Siglufirði. Enn fremur lagt á ráðin um hlaup í Hrútafirði í lok mánaðarins. Búið að laga tröppur Samtaka Vorra við Veðurstofuhálendi svo til fyrirmyndar er.

Pottur afar vel mannaður við komu til baka. Þar var landsliðsþjálfarinn og kona hans, Einar Dalakútur, Mímir, Dóra, Margrét, Jörundur auk hlaupara. Fyrrgreind umfjöllunarefni hlaups fóru í endurvinnslu, en þar kom að Formaður horfði á Guðna og spurði hvort þeir ættu ekki að fjölmenna á leik FH og Víkings á mánudag. Guðni horfði þá á eiginkonu sína og töldu sumir sig merkja ákveðna örvæntingu í svip hans og jafnvel beiðni um hjálp við að komast hjá þessari ferð á völlinn. Það gæti líka hafa verið misskilningur. Ekki var ljóst hver niðurstaðan var af þessari ráðagerð, en hitt vitum vér að í hlaupi dagsins var ekkert rætt um Vilhjálm Bjarnason.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband