Einn aukalegur Fyrsti á Ljóninu í tilefni landsleiks

Stundum þurfa menn að sinna sínum nánustu. Þannig var ástatt með skrifara í dag, hann þurfti að flytja venslafólk milli borgarhluta og missti því af hlaupi dagsins, sem að þessu sinni átti að fara frá Neslaug á auglýstum tíma. Samt hafði Benzinn hringt og ýtt á um hlaup. Nei, það gekk ekki upp. Og þegar upp var staðið mættu aðeins þeir trúbræður Denni og Benz, ekki einu sinni Þorvaldur sá sóma sinn í að fylgja þeim á Nesið. 

Jæja, skrifari komst ekki hjá því að skola Stjórnarráðsrykið af sér og þar sem VBL var lokuð eftir 1300 í dag var bara að manna sig upp í að mæta í vatnið í nágrannasveitarfélaginu. Alltaf jafnskrýtið að koma út á land! Þarna eru allt aðrir siðir og venjur heldur en hér í Vesturbænum. Það er þvílíkt horft á mann og maður sér að fólk hugsar með sér: "Hvaðan kemur hann þessi? Færeyjum?" Og verður alltaf hugsað til þess þegar maður var yngri og þurfti að sækja "þjónustu" á skrifstofur Borgarinnar í tíð íhaldsins áður en hugtakið "þjónusta" fékk almenna útbreiðslu. Þá var alltaf litið á mann eins og utanveltubesefa sem hefði ekki mætt á Hverfafund hjá Flokknum upp á síðkastið og verðskuldaði enga þjónustu og engin viðbrögð.

Já, það er minniháttar fólk sem býr á Nesinu, nema hann Denni okkar. Hann er heldur ekki af Nesi, hann er af Hólatorgi og Vesturbæingur í húð og hár. Hann er uppalinn næst Hólavallagarði, þar sem bezta fólk Lýðveldisins liggur grafið.

Nema hvað, geng ég ekki í flasið á Denna þar sem ég kem til Laugar og hann tilkynnir mér að þeir Benzinn séu að fara á Ljónið að horfa á seinni hálfleik. Skrifari fór í gegnum helstu rútínur í Laug, heitasta pott, gufu, nuddpott - og svo upp úr. Beint á Ljónið þar sem við stálumst í einn auka Fyrsta og vissum sem var að prófessor Fróði átti nóg af afgangsdögum að splæsa. Sáum arfaslakt lið Íslands grjótleggja Slóvena, sem voru mun aggressívari og ágengari. Íslendingar héldu varla boltanum í 5 sekúndur hverju sinni! Leikurinn minnti á leiki Fram á sjöunda áratugnum þegar maður að nafni Kristinn Jörundsson lék með Fram, kallaður Kiddi pot, ávallt staðsettur á markteig og þurfti ekki annað en rétta út fótinn og þá fór boltinn í fótinn og í mark. Að sama skapi var ánægjulegt að heyra að Norðmenn hefðu legið fyrir Albönum Á HEIMAVELLI 0:1. Stundum er gvöð miskunnsamur! 

Hlaupið á ný á morgun, brottfarir frá Laug: 8:30, 9:30.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband