29.4.2013 | 20:25
Endurkoma skrifara
Eins og fram kemur í síðasta pistli skrifara var hlaupið í Uppsölum. Þess var getið að að hlaupi loknu gekk skrifari inn í staðinn og tók það um klukkutíma. Um kvöldið var svo staðið í eldahúsi í eina tvo tíma við að elda ítalskar kjötbollur. Afleiðingar þessa aktívitets létu ekki á sér standa: knén á skrifara bólgnuðu út og mátti hann sig vart hræra af kvölum. Hann kom sumsé stokkbólginn með vélinni heim frá Stokkhólmi á sunnudaginn.
Hann mætti til Laugar í dag rétt fyrir sjö og vænti þess að vera fagnað af félögum sínum hlaupnum. En það var öðru nær. Honum mættu hæðnishróp og niðurlæging og töldu menn víst að heltan væri uppgerð. Spökúlasjónir fóru af stað um að það þyrfti að taka fótinn af skrifara við öxl. Blómasalinn var ekki mættur og sögðu menn að hann lægi á bæn, biðjandi himnafeðga um að líkna skrifara og lina bólgukvalir hans. Svona er hæðst að fólki!
Í Potti var aðallega rætt um árshátíðina 11. maí. En einnig var rætt um nýja afrekshóp Samtaka Vorra, sem þau fylla Gomez, Pedro, Juanita og Federico. Þau eru að leita að sponsorum og leitað hófanna hjá Mjólkursamsölunni. Fram kom hugmynd um að stofna sérstakan hóp innan Samtakanna, Biggest Loser, og setja af stað markvissa baráttu þyngstu hlaupara fyrir varanlegum líkamslétti.
Er heim var komið tók þó steininn úr þegar kona skrifara var að horfa á víðtal í sjónvarpi við fótalausa konu sem fékk hlaupafætur og var að prófa þá. Varð henni að orði: "Ja, það er ekki mikið mál að vera fótalaus!" Huggun það þegar mönnum er hótað fótaskorti.
25.4.2013 | 15:03
Hlaupið á sléttum Uppsalaauðs
Skrifari er ekki dauður úr öllum æðum. Hann notar hvert tækifæri sem gefst til þess að hnýta á sig skúa og leggja braut undir sóla. Nú var hann staddur í Svíaríki í mikilvægum embættiserindum, en að fundi loknum var stefnan sett á Uppsali, þann mikla menningar- og sögustað. Hér mun Snorri hafa verið á ferð á sínum tíma og lýsir fundi konungs með bændum þar sem Þórgnýr Þórgnýsson átti merkilega rispu og tuktaði kóngsa til með eftirminnilegum hætti, en sænskir kóngar, að Gústafi Adólf undanskildum, hafa ævinlega verið óttalegir vinglar. Sú sena útspilar sig þar sem nú heitir Gamla Uppsala og státar af konungagröfum frá 7du öld. Heimskringla, sumsé, Ólafs saga helga.
Jæja, þar sem skrifari vaknar harla glaður í bragði að morgni dags býr hann sig til hlaupa, hafandi snætt morgunverð og drukkið lögmæltan skammt af kaffi. Það er lagt upp í sterku sólskini og 12 stiga hita, svalandi golu á norðan. Stefnan sett austur úr frá Malma Backe og hlaupið beint af augum. Brátt kemur afleggjarinn að Gottsunda þar sem skrifari villtist með eftirminnilegum hætti hér um árið og var farið að dimma. Fór í eintóma hringi þar til hann loks fann veginn sem liggur inn í bæinn og að Dag Hammarskjöldsvegi. Farið bara rólega og engir útúrdúrar. Svo þegar cirka fimm kílómetrar voru að baki (að skrifara fannst, en hann á ekki Garmin-úr eins og hinir hlaupanördarnir), var einfaldlega snúið við og sama leið farin tilbaka. Einfalt. Góð hreyfing, nægur sviti, svalandi bað á eftir og svo var haldið í staðinn á eftir.
Alveg nauðsynlegt að hreyfa sig þegar menn eru á fundum dagana langa, eða sitjandi í flugvélum milli höfuðborga Evrópu. Vona að félagar mínir finni upp á e-u að gera þótt skrifari sé ekki á landinu. Og að Bjarni drattist til að spurja Kokkinn um prísinn á kvöldverðinum á árshátíðinni. Í gvuðs friði.
14.4.2013 | 20:26
Fáheyrð forherðing
Hlaupasamtök Lýðveldisins eru menningarsamtök. Þau eru þekkingarsamfélag. Þar safnast saman helztu sérfræðingar landsins á hverju sviði og deila þekkingu sinni meðan þreytt er hlaup um götur og stíga, ellegar að hlaupi loknu þegar setzt er í Pott. Þá bætast gjarnan við hlauparar án hlaupaskyldu, en með rannsóknir og dreifingu þekkingar á sinni könnu. Sunnudagar eru yfirleitt bitastæðari en aðrir dagar þegar litið er til þessa markmiðs í starfi Samtaka Vorra. Því kom það á óvart í dag að menn létu sig vanta. Mættir til hlaupa: Ó. Þorsteinsson, Magnús, Þorvaldur, skrifari og Maggie. Athugulir menn tóku þó eftir því að reyfið af ónefndum barnakennara hékk uppi í Útiklefa, en sjálfur lýsti hann með fjarveru sinni. Og ekki mætti blómasalinn eða Jörundur. Svona forherðing á slíkum drottins degi er óskiljanleg.
Jæja, skrifari var eiginlega ekki að nenna þessu. En lét sig hafa það. Hvattur áfram af drengjum góðum og félögum. Sunnudagar eru einstakir að hlaupum. Og vitanlega ræddum við um hann Vilhjálm okkar sem tók móti Formanni sínum í sveitinni sinni, Garðahreppi, á fundi í FG á laugardaginn, og var þar sveitarhöfðingi, klappaði manna mest og strauk Formanni sínum að auki. Við vorum ákaflega stoltir af honum Vilhjálmi okkar og töldum góðar líkur á að hann myndi fljúga inn á þing eftir slíka frammistöðu.
Veðrið var bærilegra en í gær, eilítið hlýrra og ekki mikill vindur. Þó varð maður var við norðangjólu við Flugvöll og aftur þegar komið var á opin svæði eins og í Hlíðunum. Umræðuefnin tengdust mjög kosningum, og enda hafði J. Bjarnason tafið brottför hlaups í Brottfararsal með orðavaðli sem skrifari skildi ekki, en þeir hinir hlýddu dolfallnir á. Menn telja leikrit Sjálfstæðisflokks ekki til þess falllið að auka fylgi flokksins, en spurt var hvort Hanna Birna myndi eiga framtíð fyrir sér í pólutík eftir innlegg Eimreiðarinnar.
Það voru þyngsli og það var slappleiki. En áfram héldum við þó. Maggie með myndavélina á lofti og tók myndir af hópnum við margvísleg skilyrði. Svo tók Þorvaldur við ljósmyndarahlutverkinu og smellti af hægri vinstri, en ekki veit ég hversu mikið af því var nothæft. Kemur í ljós. Jæja, það er komið í Nauthólsvík og lagt til nýtt mótív: við drengirnir fyrir framan skúra Siglingaklúbbsins og Maggi að baki okkur að tæma skinnsokkinn. Það er dýpt í svona hugmyndum. Gengið og sagðar sögur. Svo áfram í Kirkjugarð.
Kirkjugarðurinn er helgur reitur. Þar er gengið og talað hljóðlega. Því brá ritara er hann sá einn félaga sinn standa álengdar við eitt leiðið líkt og hann væri að létta á sér. En sem betur fer var það missýn, enda hefði slíkt framferði verið fyrir neðan sygekassegrænsen.
Jæja, það var Veðurstofa og Klambrar. Hér vorum við frændur og nafnar orðnir einir og aftur úr, þau hin fóru hratt áfram og virtu ekki hefðbundnar reglur um stopp og göngur á Rauðarárstig. Þetta var allt í lagi. Við höfðum næg viðfangsefni að ræða um, m.a. var sagt frá hátíðarsamkomu á Þjóðminjasafni Íslands sl. föstudag þar sem Þór Magnússon var heiðraður vegna útkomu merkilegrar bókar hans um silfursmíð á Íslandi. Einnig var staðfest að Holtavörðuheiðarhlaup verður þreytt að jöfnu báðu milli Laugavegshlaups og Reykjavíkurmaraþons. Ástæða til að taka helgina frá og fara að hlakka til.
Fórum Laugaveginn að þessu sinni, bjuggumst við þræsingi á Sæbraut. Töldum ekki laus búðarpláss, en skoðuðum Harris Tweed hjá Kormáki og Skildi, horfðum á fillibittur fara inn á bari sem voru að opna og sáum erlenda ferðamenn leita að stöðum til þess að fá sér kaffi á. Miðbær, Kaffi París og Túngata. Ó. Þorsteinsson kvaðst vera tilbúinn með vísbendingaspurningar fyrir Baldur.
Vel mætt í Pott, bæði dr. Einar Gunnar og dr. Baldur, Helga Jónsdóttir Zoega Gröndal og Flygenring, Stefán maður hennar, dr. Mímir, auk hlaupara. Vísbendingaspurningar fjölluðu um útför Thatchers. Í ljós kom að það vantaði vísbendingarnar í vísbendingaspurningarnar, svo að þær voru dæmdar spurningar eingöngu. Fullyrt var: þegar kistan fer framhjá Big Ben nk. miðvikudag verður klukkum hring 87 sinnum. Spurt var: hvenær var það gert síðast og hversu oft var hringt? Rétt svar: við útför Winstons Churchills 1965 og klukkum var hringt 90 sinnum. Þá var spurt: hver mun flytja inngangserindið í jarðarförðinni og hvað gerir sú manneskja? Baldur stóð á gati. Rétt svar: Amanda, dótturdóttir Thatchers, tvítug og læknanemi í í USA. Loks var spurt: hvaða sálmar verða sungnir? Þetta vissi enginn og ekki heldur Ó. Þorsteinsson, svo að botninn féll eiginlega úr spurningakeppninni, sem eins og menn sjá, innihélt ekki eiginlegar vísbendingaspurningar. Enda mátti Ólafur Þorsteinsson þola þungar ákúrur af hálfu Baldurs fyrir að sigla undir fölsku flaggi, vera ekki með eiginlegar vísbendingaspurningar og ekki vita neitt sjálfur.
Nú tók Baldur við með eigin spurningakeppni og spurði margra snúinna spurninga um menn og viðburði og var frændi minn oft með rétt svör á takteinum svo að aðdáun vakti. Neyddist Baldur til að viðurkenna að Formaður Vor til Lífstíðar vissi eitt og annað. Tal barst að árshátíð þar sem frétzt hefur að Kokkur Vor muni sjá um matreiðslu. Fljótlega verður gefinn út instrúx um verð og greiðslutilhögun.
Í gvuðs friði.
10.4.2013 | 21:05
Feitur hlaupari hleypur langt
Vorkomunni er frestað um sinn. Í dag blésu norðanvindar og það var kalt. En hörðustu hlauparar mættu engu að síður til hlaupa eins og þeirra var von og vísa. Þetta voru: próf. dr. Fróði, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Flosi, Maggi, Helmut, Maggie, Einar blómasali, Snorri, Haraldur, Heiðar, Hjálmar, skrifari og Benz. Teknar myndir af hópnum í Brottfararsal og höfðu menn á orði að tímabært væri að skipta um mynd á bloggsíðu Samtaka Vorra þar eð á myndinni sem nú prýðir síðuna er að finna fólk sem hefur ekki sést lengi að hlaupum.
Áhugi á löngu, ekki styttra en Stokki. Framvarðarsveit með eigið prógramm, en við dauðlegir lögðum upp á hógværu tempói. Það var gorgeir í feitlögnum hlaupara sem stillti sér upp með fremsta fólki og taldi sig greinilega eiga eitthvert erindi í þann hóp. Það entist ekki lengi. Helmut hélt áfram að elta prófessorinn eins og honum væri borgað fyrir það.
Í Nauthólsvík stoppaði Frikki kaupmaður hópinn og tekin var kyrrðarstund. Maggi, Þorvaldur og Benzinn beygðu af og fóru Hlíðarfót. Við hinir áfram. Eftir brú beygði Helmut upp Boggabrekku og skrifari hafði hugsað sér sama leik. En hér voru gerð slík hróp að honum af hálfu ónefndra hlaupara annarra að hann sá sér ekki annað fært en halda áfram í Fossvoginn. Með í för voru prófessorinn, blómasalinn, barnakennarinn og Maggie. Framvarðarsveitin löngu komin í dalinn og mættum við þeim raunar þegar þau voru á heimleið en við á leið austur úr.
Við blönduðumst öðrum hlaupahópi eftir brú og þau virtust kannast við Gústa. Þetta var hið viðkunnanlegasta fólk, en fóru eilíitið hraðar en við. Er komið var að Víkingsheimili var skrifari orðinn einn og þreyttur í fótum. Hann leyfði því þeim Maggie, Gústa og Einari að fara út í Hólmann, en fór þvert yfir á Stokk og upp brekku. Skokkaði léttilega upp Stokkinn. Er upp var komið leit hann niður eftir og sá þau hin gónandi aftur fyrir sig eins og álkur. Hann veifaði til þeirra. Þegar Gústi sá skrifara kominn upp mátti sjá vonbrigðin í svipnum langar leiðir. Hann hafði nefnilega hugsað sér að reykspóla á fjarlægasta punkti frá Vesturbæjarlaug og skilja skrifara eftir í reykskýi. En í þetta skiptið skaut skrifari honum ref fyrir rass.
Þetta breytti nú sosum ekki miklu því eftir Réttarholtsskóla fóru þau öll fram úr skrifara og skildu hann eftir. Hér eftir var skrifari einn með sjálfum sér. Það var farið að kólna og vindurinn beit. Hlaupið hefðbundið hjá Útvarpshúsi, Bústaðaveg og niður hjá Benzínstöð, utan hvað þau hin styttu sér leið hér, meðan skrifari fór hjá Slökkviðstöðinni og í undirgöng hjá Gvuðsmönnum. Sú leið vestur úr. Þau hin alltaf framundan.
Komið til Laugar á viðunandi tíma og teygt inni. Í Potti var aðallega rætt um árshátíðina 11. maí nk. og dagskrána sem þar verður boðið upp á, en það verður karaoke, upplestur minningargreina, lesið úr 13. ljóðabók Tryggva Líndal, ratleikur, drykkjukeppni o.s.frv. Í gvuðs friði.
8.4.2013 | 21:11
Jörundur kominn í leitirnar
Jæja, það var ekki seinna vænna að Jörundur sýndi sig að hlaupum, búinn að vera á landinu frá því á fimmtudagsmorgun, en fram að því hlaupið í 19 stiga hita á Tenerife og vondri mollu. Hann var feginn því að geta loks andað að sér úrsvölu Atlanzhafsloftinu. Meira um það seinna. Mæting góð í mánudagshlaup. Fyrstan skal telja próf. dr. Fróða, svo voru Flosi, Maggi, Benz, téður Jörundur, Einar blómasali, Heiðar, dr. Jóhanna, Helmut, Hjálmar, Ósk, skrifari, Haraldur - og svo dúkkaði Frikki upp hafandi farið Hlíðarfót.
Prófessor Fróði var óvenju vingjarnlegur og snapaði áskrifendur að hlaupi um Stokk - það skyldi farið hægt. Sumir létu glepjast, einfaldar sálir eins og Helmut og Flosi. Skrifari hefur brennt sig nógu oft á svona gylliboðum. Hann veit það að þrátt fyrir fögur fyrirheit í upphafi hlaups, sem boða bræðralag og félagshlaup, þar sem menn hlaupa saman og enginn er skilinn eftir, þá er niðurstaðan oftast sú að Gústi teymir menn eins langt í eina átt og komizt verður - og svo setur hann í fluggírinn og skilur félaga sína eftir. Helmut greyið sagði að líklega færi hann ekki langt í dag, hann hefði farið 16 km í gær. En þegar á hlaup var liðið sást hvar hann reyndi að halda í við prófessorinn grimma og elti hann eins og dyggur lærisveinn.
Framvarðarsveit samanstóð af dr. Jóhönnu, Ósk, Haraldi og Heiðari - og svo hélt Hjálmar í humátt á eftir þeim, skildi ekki hvað hann væri að gera með slugsurum eins og okkur. Blómasalinn taldi sig eiga eitthvað inni og tók af stað með rykk, sem entist honum í sosum eins og tvo kílómetra - þá var hann sprunginn og fór að ganga. Þar um slóðir var Maggi og Benz, og þar fyrir framan Flosi, Ágúst og Helmut. Skrifari með öftustu mönnum.
Jörundur hélt mikinn reiðilestur um framsóknarmenn og þessa vitleysinga sem ætla að kjósa þá. Menn reyndu að rifja upp alla framsóknarmenn sem þeir þekktu - en datt aðeins einn í hug, hann Benni okkar. Að vísu kannast Einar blómasali við formann Framsóknar, en það er í gegnum ættartengsl.
Fyrstu fjórir kílómetrarnir eru alltaf erfiðir, þá er upphitun í gangi, en eftir það er hlaup bara ljúft! Er komið var í Nauthólsvík kváðust þeir Jörundur og Maggi ætla Hlíðarfót, Maggi þurfti á kóræfingu og Jörundur að ná sér eftir Kanaríeyjaferð. Við Benzinn hvöttum Einar til þess að koma með okkur Suðurhlíð, en hann barmaði sér með miklu jarmi og kvaðst ekki "geta" þetta. Hér var okkur öllum lokið. Menn sem vantar fæturna á "geta" ekki hlaupið; þeir sem vantar höfuðið á "geta" ekki hlaupið. Aðrir hafa engar afsakanir. Við létum Einar heyra það og lofuðum sjálfum okkur að myndum taka hann rækilega í gegn er komið yrði til Laugar á ný.
Benz og skrifari áfram austur Flanir. Nú var þetta bara ljúft, og þeir hinir á e-u óskilgreindu hringsóli fyrir framan okkur. Gústi teymdi Helmut langleiðina út í Kópavog, en sneri svo við og kom með hann í eftirdragi upp Kringlumýrarbrautina. Flosi á leið yfir Brú. Við Benz upp Suðurhlíð. Tókum brekkuna í einum rykk og gengum upp hjá Perlu. Svo niður úr og vestur úr. Yfir brýr á Hringbraut til að lengja. Hefðbundið eftir það hjá Akademíu, yfir uppgröft á Suðurgötu og til Laugar. Teygt í Móttökusal.
Í Útiklefa voru tveir menn: Einar blómasali og dr. Svanur Kristjánsson. Við Bjarni hófum strax að jarma og herma eftir blómasala þegar hann kvaðst ekki geta hlaupið lengra. Nú blöskraði Svan svo mikið að hann lýsti furðu sinni á svona framferði. Þessir hlauparar væru yfirleitt svo skrýtnir fyrirfram eða þá að þeir yrðu skrýtnir á því að hlaupa að þeir kæmu fram af miklum ódrengskap við félaga sína. Einar væri heiðarlegur og góður drengur. Hér tók við allnokkur díalóg um drengskap og heiðarleika sem ekki verður cíteraður hér.
Í Potti var upplýst að nefndin hefði ákveðið að boða til árshátíðar í Viðey laugardaginn 11. maí nk. Annars mikið rætt um hlaup og tíma og lítið af viti um önnur brýn málefni þótt kostningar séu framundan.
7.4.2013 | 14:09
Hvar er Jörundur?
Eðlilega spyrja menn sig þess hvar Jörundur haldi sig þessi missirin, ætti að vera löngu kominn frá Tenerife. Altént var hann ekki mættur í hefðbundið sunnudagshlaup Hlaupasamtaka Lýðveldisins, en það voru hins vegar: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Þorvaldur, Magnús, Benzinn, Blómasalinn og skrifari. Allt velþekktir sómamenn og prúðmenni í Vesturbæ Reykjavíkur.
Hefðbundið stímabrak og stimpingar á tröppum Laugar, með orðhengilshætti og útúrsnúningum um aukaatriði og tittllingaskít. Samt var einhver gleði í því að helztu drengirnir ætluðu að taka hlaupatúr á fallegum sunnudagsmorgni. Það vantaði sumsé aðeins fyrrnefndan Jörund, þá hefðum við verið fullmannaðir.
Farið fullhratt út, menn verða að átta sig á því að það eru tvær vikur síðan Formaður hljóp síðast og það var löng dagskrá framundan, með bílnúmerum og jarðarförum. Rætt um bílakaup blómasala og áhugaverðar jarðarfarir. Nú er hægt að láta jarða sig í rauðri kistu frá Siðmennt og sleppa presti. Deilt um það hvort Ó. Þorsteinsson myndi láta bjóða sér að halda undir horn á rauðri kistu. Menn höfðu áhyggjur af honum Vilhjálmi okkar, hvort honum tækist að smokra sér inn á þing nú þegar Flokksdruslan er í frjálsu falli. Spurning hvort fastheldni flokksins á verðtryggingu eigi sök á fylgishruninu.
Jæja, það var komið í Nauthólsvík og gengið. Hér voru Maggi og félagar komnir langt á undan okkur Einari og Ólafi formanni, menn sem lágu nánast fyrir dauðanum af slappheitum í upphafi hlaups. Reykspóluðu svo og skildu okkur eftir. Þetta var allt í lagi, það var af nægu að taka í umræðum dagsins og varla að einn og hálfur tími dygðu til. Mættum Halldóri bróður og frú, þau fluttu okkur kveðjur frá Flosa.
Farið um miðbæ, Austurvöll og Túngötu. Rólegt og ljúft hlaup með fróðlegri umræðu. Nokkuð hefðbundið í Potti. M.a. rætt um árshátíð og skal athugað með tankinn í Viðey 11. maí nk. - hvað menn athugi.
27.3.2013 | 21:01
Þegar manni verður á
Í mér blundar fól. Stundum kem ég illa fram við mína bestu og tryggustu vini. Svo varð að morgni þessa dags er ég nuddaði einum mínum bestu vina, Einari blómasala, upp úr gömlum, meintum ávirðingum, að því marki að honum var svo misboðið að hann rauk á dyr eftir morgunbað án þess að fá sér kaffi með okkur körlunum. Það er illa komið fyrir manni þegar maður veitist svo hart að heiðri þeirra manna sem hafa sýnt manni hvað samfelldasta vináttu og tryggð í gegnum tíðina og hættir til vináttunni og frekari samskiptum. Því er ekki um annað að ræða fyrir þennan blekbera en að biðjast auðmjúklega afsökunar á misgjörðum og vonast eftir fyrirgefningu.
Að svo mæltu skal vikið að hlaupi dagsins. Væntanlega hefur páskahelgin haft einhver áhrif á mætingu, en þessir mættu: próf. Fróði, Flosi, Benz, skrifari, Pétur og Heiðar. Dr. Jóhanna og Helmut mættu hlaupin í Brottfararsal og kváðust þurfa að sinna fjölskyldumálefnum (hvað skyldi fólki líðast lengi að koma með svona afsakanir?). Tvískipting hópsins var með þeim hætti að þeir Pétur og Heiðar spurðu okkur aumingjana ekki einu sinni hvað við ætluðum að gera. Þeir bræddu með sér sín eigin plön um Kársnes og 15 km tempó. Við hinir sýndum áhuga á Þriggjabrúa. "Ekki styttra," sagði Gústi.
Maður er smám saman að hlaupa sig niður á gamalt form. Ágætis tempó þegar í upphafi, Flosi er með sér prógramm og fer hægar. Við fórum þetta saman, Fróði, Benz og skrifari. Að vísu fór prófessorinn fram úr okkur og tók sveigi og trekanta, en við náðum honum alltaf aftur. Hann hefur tekið upp þann leiða sið eftir Þorvaldi Gunnlaugssyni að hlaupa þvers og kruss rétt fyrir framan næstu hlaupara á eftir og þvælast fyrir þeim. Þetta er óþolandi! Stundum langar mann til þess að bregða fæti fyrir svona hlaupara.
Í Nauthólsvík staldraði Benzinn við og ætlaði að bíða eftir Flosa. Við Gústi héldum áfram austur úr út að Kringlumýrarbraut og svo yfir brú. Þá var Boggabrekkan lögð að velli og tekin í einum rykk. Við sáum Þorvaldi Gunnlaugssyni bregða fyrir akandi um þetta leyti og skýrir væntanlega hvers vegna hann var ekki að hlaupa með okkur. Staldrað stutt við á Bústaðavegi og svo farið yfir hjá RÚV, Kringlu og yfir hjá Fram-heimili. Hér var Ágúst kominn eitthvað fram úr skrifara og var svo það sem eftir lifði hlaups.
Skrifari fann að honum óx þrek og kraftur og hann var að finna fyrir gömlu formi. Hljóp af krafti án þess að hafa nokkuð fyrir því. Niður Kringlumýrarbraut og yfir umferðargötur á ljósum. Sæbrautin steinlá, en við Hörpu var gengið spottakorn, svo var farin Ægisgata og sú leið tilbaka. Vitað var að prófessorinn lengdi út í Ánanaust og fór Grandaveginn til baka og náði 15,5 km, meðan skrifari fór þessa hefðbundnu 13,6 km sem Þriggjabrúaleiðin hefur mælst. Flosi fór 69, 17,3 km. Heiðar og Pétur fóru sumsé á Kársnesið, eina 18 eða 19 km, þar af 15 km á 4:20 tempói.
Næstu hlaup: sumir hafa fyrir venju að hlaupa langt á Föstudaginn langa (þar af nafnið), en þessi hlaupari fer næst frá Laug laugardag kl. 9:30 - gæti orðið Stokkur.
25.3.2013 | 20:52
Fótbrotinn og með lungnabólgu
Það er best að segja hvern hlut eins og hann er: þetta var einfaldlega frábær hlaupadagur hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins, elsta og virðulegasta hlaupahópi landsins, en jafnframt þeim hógværasta. Prófessor Fróði mætti bæði fótbrotinn og með lungnabólgu í hlaup, bar sig illa og vildi bara fara stutt, helst ekki lengra en 12 km. Hafði farið 20 km á laugardag, fótbrotinn og með lungnabólgu. Aðrir mættir: Magga, Flosi, Þorvaldur, Benz, Blómasali, Pétur, Heiðar, Ólafur Gunnarss. og skrifari. Snaggaralegur hópur sem setti strax stefnu á Víðirmel. Hins vegar fór það svo að þau Magga, Pétur og Heiðar voru svo vinstrisinnuð að þau fóru vinstra megin út á Nes, en við hinir fórum út á Suðurgötu og þaðan út að Skítastöð.
Ekki gat Blómasalinn kvartað, hann hafði etið hrískökur og drukkið Nupo Létt fyrr um daginn, en var samt þungur. Hann útlistaði fyrir okkur allt sem hann ætlaði að eta og drekka um páskana, og það var ekkert smáræði! Meðan við hinir hugleiddum hvernig haga mætti hlaupum um páska þegar Laugin er meira eða minna lokuð. Ágúst gerðist lýrískur og sá fyrir sér Heiðmörk og fjöllin, helst ekki styttra en 90 km, aðrir voru raunsærri og gerðu tillögu um svo sem eins og einn 69. Verið er að grafa fyrir húsi íslenskra fræða og búið að rífa upp tré sem Einar vildi draga af vettvangi og hafa með sér í bústaðinn. En svo kom á hann hik og hann sagði sem svo: "Kenski ætti ég að spyrja fyrst."
Áður en við vissum af vorum við komnir út að Skítastöð á fínu tempói. Hér söfnuðumst við helstu drengirnir saman og héldum á Nes. Á var sól, stilla og hiti 6-7 stig (ágiskun), flott hlaupaveður, þannig að maður svitnaði en ekki um of og var ekki heldur kalt. Halldór bróðir var á ferðinni ásamt eiginkonu og Einar hreytti ónotum í þau. Honum var svarað fullum hálsi. Við mættum Nesverjum en þekktum fáa að þessu sinni utan hvað skrifari sá bregða fyrir skólasystur úr Reykjavíkur Lærða Skóla.
Við Hossvallagötu vildi Blómasali gefast upp og hverfa til Laugar. Ekki var honum gefið færi á því en drifinn á Nes. Ágúst og Þorvaldur á undan okkur, en Flosi, Benzinn og Ólafur hinn einhvers staðar í fjarskanum á eftir okkur, ósýnilegir. Við áfram og lofaði ég Blómasala að fara hægt. Reyndi að telja í hann kjarkinn og hvetja á alla lund. Stuttu síðar höfðum við hlaupið uppi þá Þorvald og Gústa og saman fórum við Nesveginn. Hér sagði Ágúst: "Það er næstum því nauðsynlegt að taka Lindarbrautina úr því að við erum komnir hingað, tekur því varla að fara styttra." "Já, þetta er rétt hjá þér," sagði Blómasalinn. "Næstum." Enda kom á daginn þegar komið var út á Suðurströnd að þá beygðu þeir Þorvaldur af og fóru hjá Haðkaupum, en við Gústi fórum á Nesið. Hlupum fram á þau Möggu, Pétur og Heiðar að sprikla í Bakkavörinni. Afþökkuðum gott boð um að sprikla með þeim. Áfram út á Lindarbraut sem búið er að leggja nýjum hellum gangstéttar, afar snyrtilegt. Yfir á Norðurströndina og þá leið tilbaka.
Nú þurfti skrifari að svala þorsta sínum og þá brá Ágúst ekki vana sínum, þegar hann er búinn að teyma menn eins langt í eina átt og komist verður, gefur hann í og skilur félaga sína eftir. Þetta gerði hann í kvöld, skildi skrifara eftir og setti upp hraðann. Þetta var nú allt í lagi, skrifari í fínu formi og kláraði gott 12 km hlaup á flottu tempói. Teygt á Plani og í Móttökusal og svo farið í Pott. Rætt um hlaup, Ágúst rifjaði upp gömul afrekshlaup eins og Comrade. Deilt um hvort suður-afríski herinn hefði stofnað til þessa hlaups eins og sumir vildu meina, eða hvort suður-afríski kommónistaflokkurinn hefði komið hlaupinu á laggirnar.
Nú þarf að fara að taka ákvörðun um árshátíð. Nefndin er hér með kölluð til starfa.
24.3.2013 | 14:25
Flugfreyjudeildin stækkar
Hver segir að Hlaupasamtökin séu ófær um að laða til sín frambærilega kvenkyns hlaupara? Þetta afsannaðist með öllu í hlaupi dagsins og verður sagt frá því síðar. Á fögrum sunnudagsmorgni mættu þessir til hlaups: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Magnús, Tobba, Flosi og skrifari. Magnús lýsti yfir að hann hlypi stutt vegna Kirkjuráðsfundar. Aðrir settu stefnuna á hefðbundið. Byrjað á langri tölu um stöðu mála hjá ÍRB þar sem ÓÞ tilheyrir innanstokksmunum og líkum leitt að því hver leysir Guðjón Guðmundsson af sem næsti formaður KR.
Á leið okkar varð Gunnar Gunnarsson fréttamaður og var hann tekinn tali. Svo var komið í Nauthólsvík og þar var gengið um sinn. Loks haldið áfram og ekki stoppað aftur fyrr en í Kirkjugarði og gengið á ný. Veðurstofa og Klambrar. Þar gerðist undrið. Tvær ungar, ljóshærðar konur á bleikum hlaupajökkum hlupu okkur uppi og báðu um að fá að fylgja okkur. Þær höfðu aldrei heyrt minnst á Vilhjálm Bjarnason og vakti það almenna furðu í hópnum. Þær hlupu svo með okkur langleiðina að höfninni, en hurfu á braut eftir það.
Farið um Miðbæ og upp Túngötu og til Laugar. Í Pott mættu Helga Jónsdóttir og Stefán Sigurðsson, nýkomin úr svaðilför til Tenerife, bæði útlítandi eins og kolamolar. Auk þeirra dr. Baldur og dr. Einar Gunnar. Umræðan snerist um hann Vilhjálm okkar og orð eins og "mannasiðir" og "fúkyrðaflaumur" heyrðust falla. Þá hallaði ókunn kona sér að dr. Einari Gunnari og spurði: "Hver er þessi Vilhjálmur?" "Hann er sonur Bjarna Vilhjálmssonar, þjóðskjalavarðar" svaraði dr. Einar Gunnar sannleika samkvæmt. "Er hann svona orðljótur?" spurði konan þá hissa.
23.3.2013 | 15:35
Himneskt!
Skrifari hefur vaknað af værum blundi og situr á rúmstokknum eins og himneskur brúðgumi og það hellist yfir hann þessi tilfinning að þetta sé dagurinn! Í dag mun það gerast! Hvað það var sem mundi gerast var ekki ljóst. Því var ekki um annað að ræða en drífa sig af stað og setja stefnu á Laug með hlaupagírið í farteskinu. Þangað kominn sá hann enga aðra hlaupara þrátt fyrir að hafa hvatt til hlaups í pistli gærkvöldsins. Að vísu sá hann Blómasalann í Útiklefa nýhlaupinn, hafði farið 7 km á Nesi, sem þykir ekki mikið á laugardegi og varla þess virði að fara í hlaupafötin fyrir svo stutt hlaup.
Er út var komið stóð fjöldi manna á Plani, flestir ókunnir og ekki þesslegir að vilja hlaupa með einmana, feitlögnum, miðaldra Vesturbæingi, svo að ég lagði upp einn og setti stefnuna á Ægisíðu. Smám saman rann upp fyrir mér hvaða dagur þetta var og hvað það var sem mundi gerast: þetta var dagurinn þegar allir hlaupararnir spenntu á sig skóna og lögðu braut undir sóla og staðfestu þar með vorkomuna. Það var slíkur aragrúi hlaupahópa og hlaupara á ferli á þessum stutta speli milli Hofsvallagötu og Kringlumýrarbrautar að það fór ekkert á milli mála að hlaupaárið er komið á fullt.
Fór sumsé hefðbundið, þungur fyrst, en skánaði eftir 3-4 km þegar ég var orðinn vel heitur. Þá langaði mig bara til þess að halda áfram endalaust, en lét mér nægja að fara Suðurhlíð upp að Perlu og niður Stokk hjá Gvuðsmönnum og svo brýrnar á Hringbraut, Akademía og Hagamelur tilbaka. Klukkutímatúr sem hefði alveg mátt vera lengri mín vegna, hann verður það bara næst. Pottur og slökun á eftir. Frábær hlaupatúr og minns kominn á góðan skrið.
Hlaupið hefðbundið á sunnudegi í fyrramálið, 10:10. Það verður menningartúr líkt og síðasta sunnudag. Vel mætt!