Himneskt!

Skrifari hefur vaknað af værum blundi og situr á rúmstokknum eins og himneskur brúðgumi og það hellist yfir hann þessi tilfinning að þetta sé dagurinn! Í dag mun það gerast! Hvað það var sem mundi gerast var ekki ljóst. Því var ekki um annað að ræða en drífa sig af stað og setja stefnu á Laug með hlaupagírið í farteskinu. Þangað kominn sá hann enga aðra hlaupara þrátt fyrir að hafa hvatt til hlaups í pistli gærkvöldsins. Að vísu sá hann Blómasalann í Útiklefa nýhlaupinn, hafði farið 7 km á Nesi, sem þykir ekki mikið á laugardegi og varla þess virði að fara í hlaupafötin fyrir svo stutt hlaup. 

Er út var komið stóð fjöldi manna á Plani, flestir ókunnir og ekki þesslegir að vilja hlaupa með einmana, feitlögnum, miðaldra Vesturbæingi, svo að ég lagði upp einn og setti stefnuna á Ægisíðu. Smám saman rann upp fyrir mér hvaða dagur þetta var og hvað það var sem mundi gerast: þetta var dagurinn þegar allir hlaupararnir spenntu á sig skóna og lögðu braut undir sóla og staðfestu þar með vorkomuna. Það var slíkur aragrúi hlaupahópa og hlaupara á ferli á þessum stutta speli milli Hofsvallagötu og Kringlumýrarbrautar að það fór ekkert á milli mála að hlaupaárið er komið á fullt.

Fór sumsé hefðbundið, þungur fyrst, en skánaði eftir 3-4 km þegar ég var orðinn vel heitur. Þá langaði mig bara til þess að halda áfram endalaust, en lét mér nægja að fara Suðurhlíð upp að Perlu og niður Stokk hjá Gvuðsmönnum og svo brýrnar á Hringbraut, Akademía og Hagamelur tilbaka. Klukkutímatúr sem hefði alveg mátt vera lengri mín vegna, hann verður það bara næst. Pottur og slökun á eftir. Frábær hlaupatúr og minns kominn á góðan skrið.

Hlaupið hefðbundið á sunnudegi í fyrramálið, 10:10. Það verður menningartúr líkt og síðasta sunnudag. Vel mætt! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband