Hlaupið á sunnudegi

Þrátt fyrir lokanir sundstaða halda Hlaupasamtök Lýðveldisins úti þróttmiklu æskulýðsstarfi sínu alla daga vikunnar. Má sem dæmi nefna að á þessum morgni, sunnudaginn 11. apríl 2021, mættu tveir léttstígir hlauparar til hefðbundins sunnudagshlaups. Voru þar á ferð Einar blómasali og Skrifari sem mættu á tún Vesturbæjarlaugar og hófu hlaup stundvíslega kl. 9:16. Vonir stóðu til að þeir Frikki og Óli Gunn mættu líka, en þeir komu ekki. Hvað þá heldur Óli Þorsteins eða Magnús tannlæknir. Allir eiga tilgreindir menn það sameiginlegt að vera einhver mestu ljúfmenni og prúðmenni sem sögur fara af í gervöllum Vesturbænum og væri sannarlega fengur að því að sjá þá taka sprettinn í kátra sveina og meyja hópi.  

Við vorum sumsé aðeins tveir en mættum fljótlega Súsönnu. Hún var á rangri leið. Okkur mistókst að sannfæra hana um að hlaupa með okkur og bar hún við smávægilegri gjólu austanstæðri sem menn höfðu í fangið austur eftir brautum. Þrátt fyrir góðan félagsskap og næg umræðuefni kom þar að Skrifari sagði og andvarpaði: "Það er ekki laust við að maður sakni Bjarna." Kvað blómasali það ekkert undrunarefni, því að bæði væri maðurinn skemmtilegur og ljúfmenni hið mesta. 

Nú kunna menn að furða sig á því hversu undan hefur dregist að rita pistla og greina frá því helsta er gerist á hlaupum. Því er til að svara að eftir að þeir Ágúst Kvaran og Þorvaldur Gunnlaugsson hættu að hlaupa með okkur GERIST EKKERT frásagnarvert. Það dettur enginn lengur og slasar sig, né heldur hlaupa menn á umferðarskilti eða gleyma að setja bíla sína í handbremsu fyrir utan leikskóla borgarinnar. 

Á hlaupum gerast menn spakir. Við ræddum um fólkið sem er á stöðugum þeytingi úr einu starfi í annað, einu húsnæði í annað betra, einu hjónabandi í annað betra, einu landi til annars sem hagstæðara er að búa í. En menn átta sig ekki á því að í öllum þessum flutningum vill gleymast að það er sami hausinn sem flytur með manni hvert sem farið er. Þennan sama haus mætti grandskoða þegar vandi steðjar að og menn vilja leita yfirborðslegra lausna.  

Svona var nú malað þegar hlaupin var hefðbundin sunnudagsleið fram hjá Tobíasi og þeim hjónum. Við vorum samt bjartsýnir og vonumst til þess að Laug opni nk. fimmtudag, 15. april. Þá verða menn og konur að fara að gyrða sig í brækur, spenna á sig skúana og leggja braut undir sóla. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband