Hugsað um gvuð á hlaupum

Er betra að sitja á kirkjubekk á sunnudagsmorgni og hugsa um hlaup, eða að hugsa um gvuð á hlaupastígum úti? Nú segi hver maður það sér sjálfur. Hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins tilheyra síðari hópnum. Þeir taka sunnudaginn snemma og halda til Laugar með hlaupagír sín. Á Stétt úti mátti í dag greina Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlækni, Þorvald, Maggie og skrifara. Veður fagurt, sól skein í heiði, logn og hiti um 4 stig. Fórum rólega af stað. Á Ægisíðu sat fyrir okkur Guðmundur Löve, nýrisinn upp af sjúkrabeði og mátti ekki við því að horast.  Hann slóst í för með okkur og það var haldið áfram. 

Maggie er náttúrlega í sérflokki og setti strax vegalengd á milli sín og okkar hinna. Fljótlega dróst skrifari aftur úr þeim hinum, m.a.s. Ólafur Þorsteinsson skildi frænda sinn eftir. Skýringin var trúlega sú að skrifari var á utanvegaskóm og þeir eru mun hægari  en hefðbundnir hlaupaskór. Þetta var allt í lagi meðan maður mjakaðist áfram, ég vissi ég myndi ná þeim fyrr eða síðar. Sunnudagshlaup eru félagshlaup og enginn er skilinn eftir.

Það var við flugvöll sem ég náði Magga og Óla og saman áttum við hlaup inn í Nauthólsvík. Þar var gengið og Guðmundur sagði stutta sögu. Svo haldið áfram  í Kirkjugarð. Þar brá hins vegar svo við að þau hin héldu hlaupi áfram, jafnvel þótt um brekku væri farið. Við frændur urðum einir eftir og sáum þau hin ekki eftir það. Við gengum á hefðbundnum stöðum og ræddum ýmis mál persónufræðilegs eðlis, en frændi minn er einhver mestur persónufræðingur í Vesturbænum. Og ekki er komið að tómum kofanum þegar bílnúmer ber á góma. Eitt slíkt vakti athygli okkar á leiðinni: Ó 1. Situr á 35 ára gömlum Audi.

Við fórum hefðbundna leið um Klambra, Hlemm og Sæbraut. Gengið á völdum stöðum, sóttum hyllingu á Café París, Túngatan gengin. Ekki rekur mig minni til þess að okkur hafi þrotið umræðuefni á þessari leið, enda fimm jarðarfarir í Hrútafirðinum frá áramótum. Aðeins einn af föstum gestum Samtakanna í Potti, dr. Einar Gunnar. Rætt um eftirminnilega Dalamenn.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband