Mannval í fróðlegu sunnudagshlaupi

Kynning skrifara á hlaupi dagsins í pósti gærdagsins hefur greinilega kveikt í mörgum, en í henni er gefið vilyrði fyrir för um tvo kirkjugarða. Kirkjugarðar hafa á sér hugblæ eftirvæntingar og spennu hjá hlaupurum, þar er saga, þar er fróðleikur. Mætt í hlaup dagsins: Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Magnús tannlæknir, Þorvaldur, Denni skransali, Einar blómasali, Maggie og skrifari. Langt er síðan svo vel hefur verið mætt í sunnudagshlaup. Veður fallegt, en fremur svalt og einhver vindur á norðan. 

Einar sýndi okkur nýlegan VW Golf sem hann hefur fest kaup á af Marinó Björnssyni frá Fjósum í Svartárdal. Þegar Einar vildi ræða uppítöku á VW bjöllu 1964 eyddi Marinó talinu með því að ræða um óskylda hluti. Upphaf hlaups fór í að ræða þessi kaup blómasalans á nýlegri bifreið. Ó. Þorsteinsson taldi þetta vera glapræði hið mesta, aldrei að kaupa bíl af bílaleigum. Einar maldaði í móinn og taldi að það þyrfti bara að skoða undirvagninn, ef hann væri óhruflaður væri þetta í lagi. Um þetta var deilt alla leið í Skerjafjörð.

Í Nauthólsvík sagði Magnús okkur fallega Kirkjuráðssögu af manni sem meiddi sig við að leika golf. Hann hélt um pung sér og hafði sársaukagrettu á andliti. Hjúkrunarfræðingur kom að honum og bauðst til að nudda hann. "Er þetta ekki betra?", spurði konan. "Þetta er voða gott, en mér er samt enn illt í fingrinum." Gengið um sinn og svo hlaupið af stað og stefnan sett á Kirkjugarð. Í Garði var farin óhefðbundin leið, nú var farið að leiði tengdamóður blómasalans og sögð saga. Fleiri leiði skoðuð og svo haldið áfram.

Maggie var óþolinmóð og skildi ekki svona hlaup þar sem alltaf var verið að stoppa og segja sögur og flytja fróðleik. Á endanum yfirgaf hún hópinn og sást ekki meira fyrr en í Potti. En við hinir fórum hefðbundið hjá Veðurstofu, um Klambra og Hlemm. Hér gerðist það óvænta að í stað þess að fara Sæbraut fórum við Laugaveg, enda var framundan rúsínan í pylsuendanum: Hólavallagarður. Eftirvæntingin óx. Hlaupið fram hjá nærbuxnaverzlun á horni Barónsstígs og Laugavegar og út frá því spannst fjölskyldusaga. Inn í hana blönduðust bílnúmer og spurt var um bílnúmer. Hver átti R-67? Ó. Þorsteinsson svaraði án umhugsunar og flutti snjalla tölu um Thorsara. Þá spurði Einar um eitthvert númer. Ó. Þorsteinsson svaraði án umhugsunar og flutti snjalla tölu um Ásgeir Ásgeirsson, forseta Lýðveldisins, son hans ráðuneytisstjórann, tengdason ráðuneytisstjórans, þekktan barnakennara í Vesturbænum, en hér kom blómasalinn inn aftur og sagði: "Það er nú reyndar ég sem á þetta bílnúmer." Okkur getur öllum skjöplast.

Farið um Miðbæ og Austurvöll, heilsað upp á kunningja á Kaffi París. Nú var spennan í hámarki. Kirkjugarðurinn við Suðurgötu. Til að byrja með fékk Denni athyglina, því að hann leiddi okkur að leiðum afa síns og langafa og sagði sögu þeirra. Svo fundum við vökukonuna í garðinum, en hennar hefur Denni leitað árum saman. Að því loknu var farið að fjölskyldureit Formanns Vors og hlýtt á fróðleik um gerð hans og uppbyggingu.

Að hlaupi loknu voru menn sammála um að sjaldan hefði verið farið jafn fróðlegt hlaup og uppfullt af mannlegri hlýju og skemmtun.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband