Bloggfærslur mánaðarins, október 2018

Skrifari uppfræðir tannlækninn

"Magnús" sagði ég. "Hefurðu velt því fyrir þér að tærnar, að undanskilinni stórutá og litlutá, bera engin nöfn? Fingurnir heita allir eitthvað, en þessar þrjár tær heita ekki neitt." Magnús var bæði hissa og sleginn. "En vissirðu líka að það er ætlast til þess að þú getir hreyft hverja og eina þeirra individúellt. Þetta sagði snyrtifræðingur mér þegar ég var í fótsnyrtingu eitt sinn. Og hún bað mig aukinheldur um að hreyfa eina tiltekna tá. Þegar það tókst ekki fullyrti hún að það þyrfti bæði gáfur og einbeitingu til þess að sveigja líkamann að duttlungum hugans." Nú var Magnús aldeilis dolfallinn, og er hann þó útskrifaður úr anatómíu.

Þeir frændur, Formaður til Lífstíðar og skrifari, mættu einir til boðaðs sunnudagshlaups kl 10:10 sl sunnudag. Veður stillt og milt, hiti 9 gráður og hlaup ákjósanlegt. Þarna spannst eitt samfellt samtal sem aldrei féll niður og var þó farin hefðbundin leið um Nauthólsvík, Kirkjugarð, Veðurstofu, Klambra, Sæbraut og þannig til Laugar. Hittum fjölda fólks sem vildi ná af okkur tali og veittum við fúslega áheyrn þótt það ylli töf á hlaupi. Pottur fjölmennur og var þar ekki töluð vitleysan frekar en endranær.

Nú rann upp miðvikudagur og voru þessir mættir til hlaups: skrifari, Benz, blómasali, Hjálmar og Ólafur heilbr. Bjart veður en svalt og varð töf á brottför þeirra þriggja þar eð Hjálmar vildi ræða einhverjar nýstárlegar nýbyggingar í Vesturbæ, við Benz lýstum frati á þá og lögðum í hann. Hittum fyrir tannlækninn snemma á Ægisíðu með HUND. Segi og skrifa: HUND. Var hann að passa hundinn fyrir son sinn og var hundurinn hinn geðþekkasti, eins og Magnús sjálfur. Héldum við Benzinn svo áfram för okkar. Spurt var um Benzling og fékkst svarið greiðlega: "Hann er að hlaupa inni á bretti með kellingum." Útmáluðum við báðir hvílík fásinna slíkt væri þegar byðist að hlaupa í svölu haustloftinu fylltu benzíngufum frá vellinum. Nema hvað Benzinn hélt uppi paról í hlaupinu, fyrst ættfræði sem hefði sómt sér vel í hvaða sunnudagshlaupi sem er, og svo flugvélar, flugvélamótorar og saga þeirra. Við fórum nokkuð greitt inn í Nauthólsvík og svo inn á skógarstíga í Öskjuhlíðinni, út að nýju tröppunum sem eru að taka á sig mynd og þá leið til baka. Ekki vitum við hvað varð af félögum okkar, en ekki voru þeir komnir til Laugar er við hurfum þaðan eftir vel heppnað miðvikudagshlaup.


Hvarerann Kvaran?

Ja, er von menn spyrji þegar hvert hlaupið á fætur öðru er þreytt hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins og afrekshlaupari vor lætur ekki sjá sig? Er maðurinn orðinn svo Hallur úr heimi að hann hefur gleymt uppeldisstöðvunum? Eða eru þeir einfaldlega hættir að sleppa út af Grundinni svona seint? Svona hljómuðu spurningarnar í vaskra sveina hópi er mættur var á föstudagssíðdegi til þess að spretta úr spori. Þessir voru: Bjarni Benz, blómasali, skrifari, Ólafur Gunn., og Benzlingur. 

Veður fallegt en frekar napurt. Planið var að fara að skoða spjöll þau er unnin hafa verið á tröppunum upp á Veðurstofuhálendið, sem þýddi í reynd hlaup inn að Kirkjugarði hið stytzta. Menn voru ágætlega sprækir, en eitthvað fór fljótlega að kastast í kekki með þeim feðgum og ræddu þeir málin með hávaða sín í millum eins og tveir tröllkarlar staddir í sitthvorum landsfjórðungnum. Sonurinn vildi fara að snæða flatböku, en faðirinn að skoða söguleg spjöll á hefðbundinni hlaupaleið Samtakanna. Það var allnokkur hávaði og leist mér ekki á að verða samferða þeim ópum niður Laugaveginn.

Því var það léttir er við komum inn að Kirkjugarði, fórum að tröppunum og létum í ljós vanþóknun okkar á framkvæmdinni og tókum að því loknu beinustu leið tilbaka. Umræða spannst um konfektbitana sem Kaupmaður Vor trakteraði okkur félagana á sl sunnudag, og þrír þeirra hurfu hljóðalaust ofan í blómasalann áður en nokkur náði að segja bú eða bé. Þótti það með þeim mun meiri ólíkindum að sami maður hafði nýlokið við að segja okkur frá miklum edik-kúr sem hann væri að hefja og væri til þess fallinn að hann tapaði 15 kílóum hið minnsta á aðeins þremur mánuðum. Þótti okkur áformin hafa farið fyrir lítið fullsnemma. 

Er ekki að orðlengja nema við ljúkum þarna ágætu hlaupi og komum kátir og endurnærðir á sál og líkam til Laugar. 

Næst er boðið til hlaups að sunnudegi kl 10:10. Vel mætt!


“Sá aumingi!”

Fáir mættir á boðuðum hlaupadegi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, nánar tiltekið Bjarni Benz og Skrifari. Hefðbundið sunnudagshlaup framundan. Skrifari gjóaði augum um allt og hafði á orði að Einar hefði haft góð orð um að mæta. “Sá aumingi!” hreytti þá Benzinn út úr sér. Ekki er auðvelt að giska á hvað búið hefur að baki svo eindreginni yfirlýsingu, en hlaupið þreyttum við tveir í suðvestan garra, hliðarvindi út alla Ægisíðu, en það truflaði hvorki hlaup né innihaldsríka umræðu um hvaðeina er til framfara horfir í landi voru. 

Sem við erum að tölta inn í Nauthólsvíkina laumast hjólafantur að baki okkur og dinglar mikið í bjöllu sína. Kom það mér á óvart þar sem við hlupum á göngustíg og hjólastígurinn greinilega merktur til hliðar við okkur. Var þá ekki téður Einar mættur á reiðhjóli og sagði að hann hefði tafist vegna þess að hann hefði þurft að ræða við konu sína! Stuttur stanz gerður við Braggann og úttekt framkvæmd og stráin skoðuð. Haldið svo áfram um Öskjuhlíð og hjá Garði og næst gerð úttekt á spellvirki við uppgöngu á Veðurstofuhálendið, en þar er búið að rífa upp tröppur og þarf að klífa moldarbing til þess að komast leiðar sinnar.

Á Klömbrum falaðist Benzinn eftir hjólfáki blómasala og fékk að renna sér út að Flókagötu. Nú var tekinn Laugavegurinn enda langt síðan að staða verzlunarrýma var könnuð þar. Mest fór fyrir steinkössum sem rísa þar á hverjum lófastórum bletti og gamla tímanum lyft í burtu. Bjarni fór niður Laugaveginn og Bankastrætið með hávaða og bægslagangi eins og honum er einum lagið. Skrifari hugsaði með sér að það væri ekki vitlausara en hvað annað að eyða sunnudögunum svona úr því að ferð í Kirkjugarðinn með Formanni til Lífstíðar væri ekki í boði. Vonandi rætist úr því næsta sunnudag.

Nú kom rúsínan í pylsuendanum. Kaupmaður vor hafði boðað okkur á sinn fund að hlaupi loknu og kíktum við til hans á kontórinn þar sem við þágum kaffi og súkkulaðimola yfir spjalli um peisið í maraþonhlaupum. Vart er hægt að hugsa sér betri lok á hlaupi en þetta. Svo var setið í Potti í klukkutíma og rætt um hlaup dagsins og þá sem fjarstaddir voru. Sunnudagarnir gerast ekki öllu betri.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband