Blómasalinn grét allan hringinn

Nú er eins gott að hann Jörundur okkar er á Tenerife. Sá hefði verið illþolanlegur í dag þegar ástand Lagarfljóts kom til tals, en hann sagði fyrir um þróunina áður en ráðist var í Kárahnjúkavirkjun. Um þetta voru menn sammála í hlaupi dagsins. Þátttaka fremur dræm, aðeins sex hlauparar mættir: próf. Fróði, Flosi,  Benzinn, Blómasalinn, Tobba og skrifari. En veðurblíðan slík að maður var bara lens. Spurt var: hvers konar idjót láta undir höfuð leggjast að hlaupa á slíkum degi? Byrjunin lofaði góðu og kom á daginn að þetta varð eitt af þessum eftirminnilegum hlaupum sakir heilbrigðis, menningar og skemmtunar. Þessa fara þeir á mis sem farnir eru að hlaupa sem tíðast á morgnana: þá er bara gónt á klukkur og talað um hlaup, ef minnst er á menningu eða persónufræði verða menn flóttalegir til augnanna. 

Nú var lagt upp og farið afar rólega. Í þetta skiptið náði skrifari ekki einasta að hanga í mönnum, hann fór fyrir hópnum ásamt Gústa og Benz, en þau hin fylgdu í kjölfarið. Rætt um stöðu Sjálfstæðisflokksins sem hefur skellt hurðum og vill loka landinu. Nefnd voru orð Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar, frá því í morgunútvarpi þar sem hann harmar einangrunarstefnu flokksins á landsfundinum og kvartaði yfir því að engin gengisstefna væri til staðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Um þetta flutti Blómasali snjalla tölu lengi hlaups og kvaðst mundu kjósa Framsókn. Hér hugsuðu sumir: eru þeir eitthvað skárri? Er þetta ekki liðið sem drap lífríki Lagarfljóts og stefnir að því að afgreiða Mývatn þegar það kemst næst til valda?

Sem fyrr segir var veður yndislegt og hlaupið gekk vel fyrir sig, skrifari að ná góðu formi eftir mánudagshlaupið, einna helzt að Einar hafi kvartað yfir hraða annarra hlaupara. Í Nauthólsvík skildi Flosi við hópinn, fór Hlíðarfót, enda á leiðinni í Powerade á morgun. Bjarni var horfinn í leit að Tobbu sem hafði dregist aftur úr hinum og munu þau hafa farið Hlíðarfót einnig. Við Gústi og Einar fórum Öskjuhlíðina, yfir hjá Veðurstofu, Klambra, Hlemm og Sæbraut. Það skal viðurkennt að við stöldruðum við hér og þar til þess að leyfa Einari að hvíla sig enda er karlinn þungur á sér þessa dagana.

Ekki verður komist hjá því að greina frá þeim mikla fróðleik sem rann upp úr Einari allt hlaupið, bæði efnafræðilegs og sagnfræðilegs eðlis. Hann sagði okkur frá byggingarefnum á blokkunum við Skúlagötu, í Hörpu og stálþilum við höfnina. Svo sagði hann okkur sögu Empire State byggingarinnar, en sú bygging var reist af framsýnum manni í kreppunni á þriðja og fjórða áratug seinustu aldar. Við fórum einmitt um Slippinn, framhjá Slippbarnum sem er með happy hour milli fjögur og sex alla daga og ákváðum að mæta þar eftir eitthvert föstudagshlaupið. Hvítur reykur liðaðist upp úr reykháfi skips í Slippnum og tókum við það sem merki um að búið væri að kjósa páfa. Komumst að því fyrst eftir hlaup að svo var í raun og veru.

Við ákváðum nefnilega að fara lengra í þetta skiptið, alla leið vestur á Grandaveg og þá leið tilbaka til Laugar. Teygðum inni eftir hlaup, líðan góð og stemmning fyrir að gera góða hluti á árinu. Aðrir hlauparar komnir í Pott. Bjarni Benz lagði til að titill pistils yrði "Blómasalinn grét allan hringinn." Ekki veit ég hvers vegna.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband