Færsluflokkur: Bloggar

Þekkt góðmenni í Vesturbænum hlaupa á sunnudagsmorgni

Fjögur þekkt góðmenni í Vesturbænum mættu til hlaups frá Vesturbæjarlaug að morgni sunnudagsins 29. marz. Þetta voru þeir Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Friðrik kaupmaður og Ólafur ritari. Eðlilega var ræða Davíðs á landsfundinum efst á Baugi og töldu menn  sig sjá merki um benjamín í uppsiglingu, einkennin væru ótvíræð.

Upplýst að brottför Sahara-hlaups hefur frestast vegna vatnavaxta! Í Sahara! Ákvörðun um brottför verður tekin að kveldi 29. marz.

Nýfallinn snjór var yfir öllu, en veður annars gott og hagstætt hlaupurum. Sem fyrr bar álitsgjafa í Garðabænum á góma og ritari inntur eftir því hvað hann hefði fyrir sér í því að álitsgjafinn færi að sýna sig á meðal vina og hlaupafélaga, en orðrómur í þessa veru hefur verið afar þrálátur. Í morgun spurði m.a. Bjarni Felixson um Villa, hvað þetta væri með hann, hvort hann væri alveg hættur að láta sjá sig.

Eins og menn þekkja er persónufræðin í aðalhlutverki á sunnudögum. Svo var og í dag. Einna bezt dugði okkur umfjöllun Ólafs Þorsteinssonar um nýskipaðan sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins, hún hófst við Hofsvallagötu og entist okkur langleiðina inn í kirkjugarð. Afi saksóknara var formaður stjórnmálaflokks og endaði sem sendiherra. Haraldur Guðmundsson formaður Alþýðuflokksins. Ólafur sýndi sig vera einkar fróður um alla hans ætt.

Fjölmargir góðborgarar voru á ferli og oftar en ekki þekkti Ólafur þá og þurfti að heilsa þeim, og helzt tala lítillega við þá. Staðnæmst á réttum stöðum og sagðar sögur. Allar fallegar. Rætt um New York maraþon, en þangað fara Friðrik og Rúna, auk Helmuts og dr. Jóhönnu. Jörundur hefur hlaupið í New York og segir það skemmtilegasta maraþonið, en brautin erfiðari en í Berlín.

Við bentum Frikka á tréð hans Magga við Óttars platz og sögðum honum af hverju það væri kallað tréð hans Magga. Fórum niður á Sæbraut og þá leið tilbaka. Að hlaupi loknu voru menn sammála um að sjaldan hefði hlaup verið öllu ánægjulegra, veður gott og félagsskapurinn góður. Gæðastund í potti með hefðbundinni áhöfn.

Ólmir hestar – Heavy Horses

24 mættir – hið minnsta. Þegar Hlaupasamtökin söfnuðust til hlaups í dag stóð yfir myndataka af e-u óskilgreindu tagi og sætti það furðu að myndefnið var ekki hlauparar Samtaka Vorra, heldur einhverjir skringilegir karaktérar á Brottfararplani. Ágúst var mættur með eyðimerkurhúfu og var það hald manna að nú mættu bedúínakonur í eyðimörkinni fara að vara sig. Þjálfarar báðir mættir og lögðu til rólegt hlaup um Víðimel út að Dælustöð í Skerjafirði (og bíða þar). Þrátt fyrir þetta var tempóið út komið á gott ról þegar á Suðurgötu og greinilegt að það var hugur í mönnum. Við mættum Einari Baldvin þegar við komum í Skerjafjörð, hann hljóp í öfuga átt. Blómasalinn hætti fljótlega þar sem hann taldi sig þurfa að sinna fjölskylduerindum í stað þess að hlaupa. Einhver sagði að hann hefði snúið við af því Frikki sagði honum frá tilboðinu á ýsuflökunum í Melabúðinni, en ég held að það sé lygi.

Við komu út að Dælustöð var gefin út skipun um eftirfarandi: þrír 800 m sprettir í vesturátt, 1 mín. hvíld á milli, 2 mín. fyrir þá sem vildu taka fleiri en 3 spretti. Svo var bara gefið merki um brottför og menn sprettu úr spori. Menn eru náttúrlega misjafnlega staddir í þoli og hraða og það sýndi sig á þessum kafla, það gisnaði hópurinn á leiðinni vesturúr. Þá mættum við Benedikt sem hljóp öfugt eins og Einar Baldvin. Það tekur á að hlaupa 800 m á spretti og maður veltir því fyrir sér hvenær spretturinn taki enda. En þetta gekk vel, maður hélt nokkurn veginn í við hina og sá hvenær þeir hægðu á sér.

Svo kom að næsta spretti og hann náði út alla Ægisíðuna út að Hofsvallagötu. Á leiðinni mættum við Neshópi og voru þar nokkur þekkt andlit, þ. á m. nýbakaður doktor, Jóhanna Einarsdóttir, skólasystir ritara úr Reykjavíkur Lærða Skóla, svo að oss er vandi á höndum: hver er dr. Jóhanna? Hér var ritari orðinn einn, en hann grillti Sirrý á undan sér. Svo er bara að skella sér á Nesið, í Skjólum dúkkaði Helmut upp, og á Nesvegi fóru Ágúst og Rúnar fram úr mér. Hér var þriðji sprettur í gangi og engin leið að vita um hvenær honum lyki. Ég var í góðum gír og treysti mér áfram út á Lindarbraut (sem var uppnefnd Unter den Linden í potti).

Leiðin tilbaka var einföld og ritari hélt tempói til loka. Einn af þessum frábæru vordögum þegar allt gengur hlaupara í hag, veður, aðstæður, og annað. Það var teygt við Sundlaug og skrafað saman. Ég sagði Bigga brandara sem er vart hafandi eftir, en má samt fljóta. Íþróttafréttamenn segja stundum hluti án þess að hugsa, þetta er dæmi: „Dunga tekur Baggio aftanfrá, enda þekkjast þeir frá því þeir léku saman hjá Fiorentina.“

Pottur vel mannaður. Prófessor Fróði í aðalhlutverki, enda líður senn að brottför. Áfram flugu góð ráð honum til handa. Það væri að æra óstöðugan að tilgreina þau öll, en það laut að úlfaldahlandi, illa þefjandi hlaupurum, Bragakaffi í boði Magga á afmælisdaginn hans 2. apríl og hvað Ágúst ætti að gera á frídaginn (máttu ekki hlaupa? spurðu menn). Ekki var verra að Sif Jónsdóttir langhlaupari mætti í pott og gat miðlað góðum ráðum. Friðrik sagði sögu sem Biggi missti af sökum athyglisbrests, hann heimtaði að fá söguna sagða aftur, en Friðrik neitaði. Þá heimtaði Birgir að ritari segði söguna í pistli kvöldsins, en ég segi bara: BIRGIR! FYLGSTU MEÐ!

Að svo mæltu er ritari horfinn til mikilvægra embættisverka á suðlægari slóðum. Slóðin á hlaup Ágústs verður birt fljótlega á bloggi og vonandi berum við gæfu til þess að halda Fyrsta Föstudag 3. apríl n.k. og fylgjast þá með lokasprettinum í Hlaupinu Mikla. Í gvuðs friði.


Víkingaskip

Olíuskip? Nei, víkingaskip. Í útiklefa stóð yfir svo mergjað baktal gagnvart helztu félögum að þegar komið var í Brottfararsal lágu þeir hver um annan þveran í óstöðvandi hikstakasti. Meira um það seinna. Fjöldi mætra hlaupara mættir: ritari man að greina frá dr. Friðriki, dr. Jóhönnu, próf. Dr. Fróða, Einari blómasala, Helmut, Þorvaldi, Birni, Ósk, Hjálmari, Bjarna, Eiríki, Benna, Unu, Þorbjörgu, þeirri hortugu, syni dr. Friðriks sem vill forðast föður sinn í vigt, svo voru ritari, Friðrik kaupmaður, dr. Karl. Þjálfarar veikir eða í útlöndum.

Við blasti frelsið, við gátum leikið okkur eins og mýsnar. En, nei! Eiríkur hafði tekið að sér hlutverk kavalérans. Hann hrópaði skipanir til hlaupara á Plani eins og alvanur skátaforingi. Una hrópaði upp í angist: Ég vil ekki gera það sama og við gerðum í síðustu viku! Ég neita að gera sömu æfingu aftur! Henni var kurteislega bent á að þetta væru ekki einhverjar fasistabúðir, hún gæti í raun gert það sem hugur hennar stefndi til. Ábendingin kom henni skemmtilega á óvart og nýjar gáttir hugsunarinnar opnuðust þessari miklu hlaupakonu. Eiríkur lifði sig inn í sitt nýja hlutverk sem leiðtogi og sýndi sannan myndugleik, tókst að teyma mannskapinn af stað, sem er alltaf gott teikn.

Svo sem fram kom í skeytasendingum dagsins var ritari fyrirsjáanlega feitur og þungur eftir nokkurra vikna fjarveru frá hlaupum vegna meiðsla. Hann hélt sig vísvitandi aftarlega til þess að vera ekki að þvælast fyrir hinum æstari hlaupurum. Próf. Fróði enn á fullu að æfa sig fyrir Sahara (mikið verður maður feginn þegar þetta Sahara-ævintýri er afstaðið!) og þeir Kaupþings-fóstbræður að búa sig undir London. Sem betur fer eru enn til góðar sálir í hópi vorum, sem sjá aumur á hægfara aumingjum eins og ritara. Bjarni sýndi mér þann heiður að hlaupa með mér út í Skerjafjörð, sömuleiðis voru dr. Friðrik og sonur nálægir og Þorbjörg ekki langt undan. Aðrir voru Gone in 60 Seconds. M.a.s. blómasalinn.

Veður gott til hlaupa, 9 stiga hiti, rigning, einhver vindur, en alla vega gott undirlag og hálkulausir stígar. Farið hefðbundið út á Birkimel og Suðurgötu og í Skerjafjörð og að Skítastöð, þar stóðu þeir eins og álkur þegar okkur Þorbjörgu bar að. Ég sneri tilbaka enda ætlaði ég ekki að fara út í einhverja ævintýramennsku með fótinn á mér þegar hann er á batavegi. Þau hin ætluðu í fartleik, 1, 2, 3, 4, 5, 4, 3, 2, 1 mín. Það var farið inn að Sléttuvegi og svo tilbaka aftur. Ritari fór einn tilbaka um Ægisíðu og stytztu leið tilbaka til Laugar. Mætti Neshlaupurum, m.a. Denna og Rúnu. Svo kemur alltaf hópur hlaupara sem hrópar nafn mitt hástöfum, vafalítið í virðingarskyni.

Hlutirnir fóru að gerast í potti. Lengi vel lá ég einn með þýzkum og brezkum túristum. Svo kom blómasalinn og viðurkenndi uppgjöf, hafði misst sig í hádegismatnum og það eyðilagði hlaup dagsins. Honum var bent á hið alkunna lögmál orsakar og afleiðingar, en hann setti hljóðan. Svo mættu þeir hver af öðrum, Eiríkur, Hjálmar, Helmut, Björn, Friðrik, Bjarni og var þá pottur fullsetinn. Upp var tekin umræða um mat og matreiðslu, símafyrirtæki, bankafyrirtæki og um það rætt hvenær mennirnir með járnin væru líklegir til að birtast. Björn dró nokkrar historíur um merkilega túrista sem hann hitti þegar hann var að kokka (og leika golf) á hótelinu í Stykkishólmi og hann hirti upp á leið sinni. Kynlegir kvistir. Hlaupið næst miðvikudag.


Mæting góð í alvitlausu veðri

Einkennileg árátta að mæta einna helzt til hlaupa þegar veður er svo glóruvitlaust að það er ekki hundi út sigandi. Nei, þá flykkjast hlauparar í Hlaupasamtökunum til Laugar og gera sig klára í hlaup. Í dag töldu talnaglöggir menn 22 til 23 hlaupara sem vildu hlaupa í roki og rigningu og hálu undirlagi. Ekki verða einstakir hlauparar taldir upp, en þess þó getið að hvorki Björn né Birgir voru mættir. Kátína ríkti í Brottfararsal og fengu menn vart hamið hlaupagleðina sem ólgaði.

Þjálfarar lögðu til að farið yrði út að Skítastöð og eftir það ákveðið um framhaldið. Farið hefðbundið um Víðimel og út á Suðurgötu. Við flugvallarendann buldi á okkur austanhríðin og haglélið. Það var ekki skemmtilegt. Farið út að Skítastöð og þar lögð upp áætlun um spretti, en ég lét mér nægja að skokka tilbaka úr Skerjafirði og um Ægisíðu til Laugar. Á leiðinni komu hlauparar á fullum spretti og fóru fram úr mér, lengdu á Nes. Við vorum nokkrir letingjar sem töldum skynsamlegast að ljúka hlaupi við Hofsvallagötu og þarf engum að koma á óvart að Magnús og Einar blómasali voru í þeim hópi.

Legið lengi í potti og rætt um stjórnmálaástandið.

Minnt er á afhendingu viðurkenningar sem hlaupahópur ársins 2008 n.k. miðvikudag.

Óvæntar fréttir verða fljótlega birtar um Fyrsta Föstudag 6. febrúar n.k.

Fuglinn Fönix

Ritari risinn úr öskustónni eins og fuglinn Fönix, feitur, þungur, slappur – en óbugaður. Hitti fyrir félaga mína í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar á þessum sunnudagsmorgni og voru þessir: Ólafur Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Flosi, Einar blómasali og Friðrik kenndur við Melabúðina. Veður hreint með ólíkindum, stillt og hiti við frostmark. Sunnudagsmorgnar gerast ekki öllu betri. Sagt frá brunahringingu að morgni og stuttu spjalli fóstbræðra. Einhverjum ónotum var hreytt í ritara vegna fjarveru hans og orð haft á vaxtarlaginu, ístran sögð eiga ískyggilega stutt niður í tær. Við þessu var bara að búast og öllu tekið af karlmennsku.

Farið rólega af stað og skeiðað út Sólrúnarbraut á hægu tempói, enda snjóföl á jörðu og víða hált. Rætt um hlaupin sem framundan eru. Fullt er í Laugaveginn, þá liggur fyrir að fara í Mývatnsmaraþon, heilt eða hálft, svo RM og loks eru það þeir sem taka maraþon í útlöndum. Upplýst að samþykkt hafi verið í frægri veizlu að stefna á Boston-maraþon 2010.

Það var létt yfir hópnum, enda valinkunn góðmenni á ferð. Sem fyrr greindi var ritari þungur og stirður eftir hartnær tveggja vikna fjarveru frá hlaupum vegna meiðsla og veikinda. Það verður erfitt að koma til baka þegar aðrir hlauparar eru í fantaformi, en má ekki bíða að hlaupaskórnir séu dregnir fram. Bara að kýla á það! Hlaupið var af þessari ástæðu ekki alveg sársaukalaust, en það var annað hvort að duga eða drepast. Því var ákjósanlegt að eiga kost á þessari sérstöku tegund líkamshreyfingar svo sem hún er iðkuð á sunnudagsmorgnum, sambland af hlaupi og göngu í bland við menningarlega umræðu og fróðleik. Á þann hátt býr maður sig undir alvöruhlaup eins og eru hlaupin á mánudögum þegar þjálfarar gefa engin grið. Svona gengu nokkurn veginn þankarnir þennan morgun.

Staldrað við í Nauthólsvík, sagðar sögur af fólki og sjúkdómum. Haldið áfram á hægu tölti í kirkjugarð þar sem Ó. Þorsteinsson heyrði kallað á sig í gær, þó ekki hinum megin frá. Er hér var komið vorum við frændur orðnir einir aftastir og var ég honum þakklátur að aumkva sig yfir mig og skilja mig ekki einan eftir eins og svo oft vill henda.  Við drógumst fljótlega aftur úr enda tókum við mörg gönguhlé sem eru nauðsynleg þegar margt þarf að kryfja og greina. Nú var embættismannakerfið tekið til sérstakrar skoðunar og dugði ekki skemmri vegalengd en Klambratún að Svörtuloftum til þess að afgreiða málið.

Hinir löngu komnir er við komum til Laugar. Mætt Ljóðskáld Lýðveldisins. Að potti voru auk hlaupara dr. Baldur, dr. Einar Gunnar og Mímir. Rætt um bernaise-sósugerð og nautakjöt, en af því mun vera nóg við hóflegu verði í ónefndri hverfisverzlun. Framundan Þorrablót og meira óhóf í mat og drykk. Hvernig endar þetta? Hvenær endar þetta? Fer ekki að koma utanlandsferð? Tímabært að blása til Berlínarkvölds með myndasýningu og meðlæti. Hvað segist?

Meira á morgun.


Allur að koma til

Fagur dagur til hlaupa, en fáir mættir: Bjössi kokkur, Kalli kokkur, S. Ingvarsson, Eiríkur, Þorvaldur, Benedikt og ritari. Bjarni lét svo lítið að kíkja við í Brottfararsal um það bil sem við vorum að leggja í hann. Gömul kona í Kópavogi beið eftir akstri og Bjarni gat ekki brugðist henni. Við lögðum til að hann hlypi í Voginn og tæki kellinguna á bakið. Honum fannst það ekki góð hugmynd. Enginn gaf sig fram  til þess að leiða hópinn, svo að Þorvaldur var beðinn um að taka að sér að teyma hópinn á rekspöl.

Jólaundirbúningurinn var mönnum ofarlega í huga á Sólrúnarbraut, einkum póstkortin. Áður en maður vissi af var umræðan komin út á einkennilegar brautir. Eiríkur fór að tala um fábreytni póstflokkunarstarfsins, þarna stæðu menn og flokkuðu og flokkuðu, fengju sífellt nýja bunka, skutluðu þeim inn í tilheyrandi hólf og þegar þeir sneru sér við væri kominn nýr bunki til að sortéra. Þannig héldi þetta áfram í það endalausa og starfinu yrði aldrei lokið. Nei, sagði Bjössi, svo snappa þeir og fara með haglara inn í næsta stórmarkað og plaffa á mannskapinn, drepa 20 manns eða svo. Menn tóku almennt undir þessa lýsingu og töldu ástæðu til þess að vera á varðbergi gagnvart sínu nánasta umhverfi, einkum nú um jólin, þegar mikið er að gera hjá póstflokkunarfólki.

Það var þokkaleg færð, búið að ryðja brautina, en samt rann maður svolítið til í snjónum. Stillt og ekki sérstaklega kalt. Hópurinn hélt hópinn af mikilli samheldni inn í Nauthólsvík og ræddi málin af mikilli spekt. Þá skildi með okkur, þeir sem fóru hraðar yfir létu gamminn geisa, en við Þorvaldur fórum fetið. Upp gegnum djúpan snjó hjá  Hi-Lux og það var erfitt og þungt. Upp brekkuna og svo nokkuð hefðbundið tilbaka. Við vorum nokkuð frískir og slökuðum í raun aldrei á. Fórum þó Laugaveg, sem var ekki góð hugmynd á þessum tíma, allt fullt af fólki og við þurftum að fara á svigi. Eina jákvæða var að stéttin var þurr.

Þegar komið var til Laugar var þar mættur próf. Fróði og hafði farið 5 km. Hann er að fara Sólstöðuhlaup á morgun, hlaupið frá 11:20 eða þar um bil og eitthvað fram eftir degi, í rúma fjóra klukkutíma. Löng hefð er fyrir þessu hlaupi og eru menn hvattir til að mæta í Vesturbæjarlaug og taka þátt í hlaupinu.

Blómasalinn var í útiklefa. Hann kom til ritara hátíðlegur í bragði og rétti honum penna merktan Sindrason. Hvað nú, hugsaði ritari. Æ sér gjöf til gjalda. Þetta fæ ég að heyra í framtíðinni, að hann hafi gefið mér penna. Svo fer hann að miða tímatalið við daginn þegar hann færði mér penna. Þegar hann rifjar upp liðna tíma og segir: Jú, munið þið ekki, góðir drengir? Þetta gerðist tveimur vikum áður en ég gaf ritara pennann. Þannig voru nú hugrenningarnar hjá manni í útiklefa í dag eftir hlaup.

Svo var setið í potti góða stund og rætt um áfengi. Svolítið um mat líka. Framundan mikil neyzla. Maggi kom í pott og við ræddum um bíla. Toyota og Chevrolet eru að sameinast. Ákveðið hefur verið að fyrri hlutann úr Toyota og seinni hlutann í Chevrolet í nafnið á nýja bílnum: Toylet. Svo verður hægt að kaupa Toylet Sedan, sem hlýtur að vera mjög seljanlegt nafn á bíl. „Ertu á bíl?“ „Já, ég kom á toiletsetunni.“ Ágúst vill kaupa sér nýjan bíl. Allir réðu honum frá því. Hann hlustaði ekki á það. Hann vill kaupa sér eitthvað krassandi, svarta drossíu með lituðu gleri svo að hægt verði að fela sig og gera ýmislegt sem þolir ekki dagsljós. „Eins og hvað..?“ spurðum við. „Ulla á fólk!“ sagði prófessorinn. Einhverjum hefði dottið eitthvað annað í hug.

Gott hlaup að baki og hressandi, minn allur að koma til eftir að hafa dottið í ótímabært sukk í Danaveldi. En nú er komin sú árstíð að hlaup litast mjög af hátíðahöldum. Aldrei mikilvægara en nú að láta hlaup ekki falla niður. Huga þarf að tímasetningu hlaupa um jólin, t.d. annandaginn, þegar laug er trúlega aðeins opin til 18. Tilkynningar eða tillögur um hlaup verða sendar út eftir hendinni. Í gvuðs friði og njótið hátíðarinnar! Ritari.  


Spurt er: Var hlaupið?

Ritari er þjóðhollur einstaklingur sem gerir sér far um að umgangast eldri kynslóðir af virðingu fyrir þjóðararfinum og af hreinræktaðri fróðleiksþrá. Af þeirri ástæðu tókst hann á hendur ferð til Viðeyjar í gærkvöldi í boði Viðeyjarjarls, Örlygs Hálfdanarsonar. en ætlunin var að snæða svið og drekka með valdar veigar. Hópur góðra félaga úr Vesturbæjarlaug átti ánægjulega kvöldstund saman við ræðuflutning, vísnakveðskap og söng og endaði ævintýralega. Af þeirri ástæðu hljóp ekki þessi hlaupari í dag, sunnudag. En mætti í pott til að hitta félaga sína og samkvæmt þeirra frásögn hlupu: Magnús Júlíus, Einar blómasali, Flosi barnakennari, Þorvaldur og Jörundur prentari. Þeir munu hafa farið hratt yfir og ekki gert nein stopp. Kemur það ekki á óvart þar sem Ó. Þorsteinsson, eigandi kampavínslitrar koníaksstofu á hjólum, frændi minn og vinur, var fjarri góðu gamni sökum mikilla hlaupa að undanförnu og því tæplega sagt orð af viti í hlaupi. Í potti voru mættir dr. Baldur Símonarson, dr. Einar Gunnar og dr. Mímir. Þar var ekki töluð vitleysan. Þar vantaði ekki andlega spektina. Hvað næst? Jólahlaðborð? Meira um það seinna.

Tekin upp sjóböð á ný - Réttstaða í Nauthólsvík

Maður skynjaði vængjaslátt sögunnar þegar á bílaplani Vesturbæjarlaugar. Ritari heyrði hróp og köll, hvað er í gangi? Hann sá Magnús Júlíus út undan sér, baðandi út öllum öngum og kallandi, en nær stóð Gísli Ragnarsson, rektor Ármúlaakademíunnar, mættur galvaskur til hlaupa á ný og kjaftaði á honum hver tuska. Maður skynjaði strax að hér voru breytingar í vændum. Það urðu fagnaðarfundir í Brottfararsal þegar Gísli rak inn höfuðið, enn muna allmargir eftir þessum gamla hlaupara og báru kennsl á hann, sumir áttu þó í erfiðleikum með að finna nafn til þess að máta við andlitið. Enn á ný var mæting slík að það væri að æra óstöðugan að nefna alla. Hlauparar sátu í Brottfarasal fyrir hlaup og reyndu að skemmta sér. Þar var m.a. að finna Vesturbæjarblaðið alræmda, og við sáum strax við nánari skoðun að fréttin um Berlínarhlaupið hafði eitthvað ruglast saman við frétt sem er við hliðina: Jólabazar á Grund, og gott ef þetta var ekki Ágúst á myndinni sem fylgdi með fréttinni.

Það var kalt í veðri í kvöld, komið frost. Heiðskírt og einhver vindur, tilvalið fyrir sjóböð, enda hiti orðinn þolanlegur. Gísli hafði strax orð á þessu og margir af helztu Nöglum Samtakanna tóku undir, Flosi, Bjössi o.fl. Þjálfari hafði einhver orð um að það væri orðið kalt og menn ættu að nota smokka. Frekari fyrirmæli komu ekki og menn lögðu í hann af varkárni. Aldrei þessu vant voru Eiríkur og Benedikt til friðs, héldu sig fyrir aftan fremstu hlaupara og fylgdu hópnum að mestu inn í Nauthólsvík. Mættur ónefndur blómasali og ónefndur jógakennari var einnig með í hlaupi kvöldsins. Mikið rætt um sjóböð á leiðinni inn eftir - ritari hugsaði: Er þeim alvara? Það var komið fjögurra stiga frost.

Þegar komið var inn í Nauthólsvík og reyndi á karlmennskuna voru aðeins þrír hlauparar sem skiluðu sér til sjóbaða, bæði Flosi og Bjössi virtust hafa mikilvægari erindum að sinna annars staðar: Gísli, Helmut og ritari. Það var farið niður að sjó, en þar var vart þverfótað fyrir baðfólki, flest af því af erlendu bergi brotið, margt af því ungar konur. Við afklæddumst í snatri og skelltum okkur í svala Atlanzhafsölduna og endurnýjuðum kynnin við gamlan vin. Þetta var afar hressandi og er mælt með þessari heilsubót við hvern þann sem á við einhverja vanheilsu að stríða. Á hinn bóginn er til vanza hversu margar ungar og fallegar konur voru á ströndinni í dag og urðum við því að bíða um stund niðri í vatninu áður en við gátum komið upp úr. Það hafðist þó á endanum og við gátum farið að tína á okkur spjarirnar. Það tókst nú ekki betur en svo að ritari þurfti aðstoð við að reima á sig skóna og renna upp úlpunni. Aðrir hlauparar voru löngu horfnir svo að við tygjuðum okkur til heimfarar um Hlíðarfót.

Um tíma hélt ég að fingurnir myndu losna af mér - en ekki varð af því. Við vorum daufir af kulda, en hörkuðum af okkur og héldum áfram hlaupi. Við Flugvallarveg hvarf Gísli, Helmut sagði að hann ætlaði að stytta sér leið. Við áfram hjá Gvuðsmönnum og urðum kristilegir til hjartans. Væntum Gísla þá og þegar, hægðum á okkur og fórum að skyggnast um eftir honum yfir sléttuna. Engin merki um Gísla. Helmut varð áhyggjufullur. Ég reyndi að hressa hann við. Líklega hefði Gísli bara dottið ofan í skurð og lægi þar fótbrotinn og biði þess sem verða vildi. Helmut varð enn niðurdregnari. Þá sagði ég: en sjáðu sóknarfærin í stöðunni, þú getur alltaf sótt um starfið hans Gísla! Hér tók Helmut aftur gleði sína og færðist allur í aukana.

Við hittum Ósk í Laug - hún hafði farið Suðurhlíðar. Blómasalinn var í útiklefa og lá einhver ósköp á. Þar var og Hjálmar íþróttakennari og jós athugasemdum um vaxtarlag viðstaddra yfir þá. Svo var farið í pott, það var ljúft eftir kælingu í sjó. Þorvaldur enn með puttann innbundinn. Magnús Júlíus kominn tilbaka. Svo skilaði sér hver hetjan á fætur annarri í pott. Þar var setið um nokkurt skeið. Nú er brýnt að fara að ákveða hefðbundnar skemmtanir, Fyrsti Föstudagur er 5. desember n.k. - fyrir liggur hugmynd um hvernig kristilegt væri að halda upp á þann ágæta dag í potti, með jólasöng og gleði, og heitt kakó á brúsa.

Nú hverfur ritari til starfa í þágu Lýðveldisins á erlendri grund um stund - en snýr tilbaka á ný fljótlega. Í gvuðs friði.

Önugur þjálfari öðlast lækningu

Hann á það sammerkt með álitsgjafa vorum að vera jafnan önugur þegar hann mætir til hlaups og hreytir ónotum í okkur hlaupara. Meira um það seinna.

Ólafur Þorsteinsson frændi minn sagði mér í gær söguna af próf. dr. Psychopatis, sem eitt sinn hljóp með Samtökum Vorum, en hætti þegar hann uppgötvaði að með okkur hlypi bifvélavirki.

Veður hið bezta til hlaupa, hauststilla og andkalt. Gerist ekki betra. Mættir fjölmargir hlauparar: Magnús, Flosi, Ágúst, dr. Jóhanna, Björn, Einar Þór, Una, Benedikt, Friðrik, ritari, Rúnar þjálfari, Ósk, Hjálmar, og einhverjar fleiri sem mig vantar nöfnin á.

Skipun um að hlaupa út að Dælustöð í Skerjafirði og þar yrðu gefin út fyrirmæli um frekari aðgerðir. Björn bólginn um ökkla eftir að hafa dröslast með hjólfák sinn niður í kjallara. Ég sagði honum söguna af kollega mínum sem fór út með ruslið fyrir konuna sína og fótbrotnaði. Hann er lögfræðingur.

Menn voru frekar léttir á sér og til í að taka á því. Orðum verður ekki eytt að Benna sem hvarf með það sama. Óþreyja hlaupara var slík að ekki var beðið eftir Ágústi, þess vegna fengust engar frásagnir af Þingstaðahlaupi, sem mun hafa verið þreytt s.l. laugardag. Þess í stað var hlauipið upp á Víðimel og þaðan út á Suðurgötu og út í Skerjafjörð. Við Skítastöð var stoppað og ákveðið að taka fartlek. 1 mín., 2 mín. 3 mín. og svo trappa niður. Suðurhlíðar. Það var lagt í hann og tekið vel á því. Mig furðaði á því hve frískur blómasalinn var - fyrstu mínútuna. Eftir það var frammistaðan bara dapurleg - og fljótlega skildi ég hann eftir. Fylgdi hinum fremstu bara nokkuð vel eftir, þjálfarinn passaði upp á okkur og sá til þess að menn heltust ekki úr lestinni og tækju sína þéttinga.

Farið upp Suðurhlíðar á þéttingi, en þar sem þjálfarinn sagði að maður ætti að láta sér líða vel gætti ég þess að ofgera mér ekki. Taldi mig þó vera á þéttingi. Nú er farið að dimma svo að það fer að verða til vandræða. Þannig þorði maður ekki að fara alveg á fullum dampi í Öskjuhlíðinni og við Perluna, hafandi dæmin af Ágústi og þjálfara, sem eru duglegir að reka tærnar í í myrkrinu. Fórum okkur hægt niður Stokkinn hjá Perlu. Eftir það var tekinn síðasti þéttingurinn, eða það hélt þjálfarinn, sem var allur að lagast í skapinu.

Þegar ég kom að flugbrautarendanum gaf ég þó í vegna þess að mig grunaði að blómasalinn væri einhvers staðar stutt að baki mér og freistaði þess að ná mér til þess að niðurlægja mig. Ég beið þess að heyra tiplið margfræga. Það varð ekki - ég komst alla leið út að Hótel Sögu áður en hann náði mér og hafði hleypt í sig ofurmannlegum krafti til þess að geta halað inn þessa löngu vegalengd sem skildi okkur að. Á sama tíma kom Flosi skeiðandi og náði okkur líka. Það er gaman að sjá hvernig við drögum hver annan áfram.

Í potti var rætt hispurslaust um frammistöðu fjölmiðla í þeirri kreppu sem ríður yfir og voru menn sammála um að þeir stæðu ekki undir nafni. Blaðamenn væru strengjabrúður hagsmunaaðila og sinntu ekki samfélagslegu hlutverki sínu og skyldum við land og þjóð. Ítrekað væri verið að dubba menn upp sem sérfræðinga í málefnum kreppunnar, sem árum saman hefðu predikað blessun hins frjálsa framtaks, sem á endanum leiddi okkur í þrot.

Próf. Fróði kom móður og másandi í pott, búinn að fara 16 km - alltaf leitandi að okkur, en fór í öfuga átt, út á Nes, þegar við héldum í austur. Þetta er með endemum seinheppinn maður, að fara á mis við okkar gefandi félagsskap, hlaupa einn í myrkrinu hjá Gróttu. Prófessorinn er frumtýpa hins einmana hlaupara, hann einn  stefnir á Sahara og er einn í því prógrammi, meðan við hin vorum saman í undirbúningnum að Berlín allt árið, og það með frábæra leiðsögn þjálfara allan tímann. Hér er hann aleinn að þreifa sig áfram án leiðsagnar þjálfaðra aðila. Gerist það öllu einmanalegra? Ég spyr.

Kalt

Það var kalt í kvöld. Hiti við frostmark, hvass vindur á norðvestan. Við þessar aðstæður er það sérstök áskorun að mæta til hlaupa og spretta úr spor út Ægisíðu. Félagar Hlaupasamtakanna eru þekktir fyrir að fjölmenna til hlaupa þegar aðstæður eru þeim andstæðar og jafnvel óvinveittar. Þeim líður bezt illa. Að hlaupa einir í myrkri, kulda og móti stormi - það er hin sanna sæla. Því var það sérstakt tilhlökkunarefni að mæta til hlaups í dag. Mættur stór hópur hlaupara og vegna hinna sérstöku aðstæðna skulu þeir allir nefndir: Una, Þorbjörg, Margrét, Ósk, og tvær til viðbótar sem ég hef ekki nöfnin á (engin furða, nýjar konur daglega), dr. Friðrik, Magnús Júlíus, Flosi, Ágúst, Bjössi, Eiríkur, Benedikt, Hjálmar og ritari. Jú og Rúnar þjálfari.

Heit umræða í útiklefa um ástand mála. Björn vill byltingu, vill blóð. Við hinir erum stilltari, við höldum að stjórnvöldum þætti óheppilegt að fá byltingu ofan í slæma stöðu mála. Enn bætast við aðilar í periferíu Samtakanna og eru orðnir hluti af umræðunni, ónefndur stjórnmálafræðiprófessor er farinn að blanda sér í samtöl og hlýtur að koma sterklega til álita sem næsti hlaupari án hlaupaskyldu. Sjáum tl hvað æxlast.

Löng samvera í Brottfararsal. Nú er svo komið að hlauparar hafa ekki metnað til þess að fara langt. Nú er farið stutt. 10-12 km. Þjálfarar orðnir hálf andlausir, orðnir eins og hluti af hópnum og vilja bara þjást með okkur í stað þess að kvelja okkur. Ákveðið að fara um garða til að byrja með og sjá svo til. Lentum á gröfu og jarðvinnumönnum á leið okkar sem lokuðu fyrir frjáls hlaup. Sumir kusu að klifra yfir gröfuna, aðrir skynsamari og breyttu leiðinni, kom í sama stað niður, við mættumst aftur við Arnargötu.

Eftir þetta var farið í Skerjafjörð, Nauthólsvík og inn að Garði, þar var tekin vinstribeygja upp á skógarstíg upp í Öskjuhlíðina, gamall leynistígur sem Flosi þekkti. Farið um skógarstíga um stund, komið út á Flugvallarveg og út hjá Gvuðsmönnum. Svo vesturúr. Þessir léttstígu lögðu lykkju á leið sína undir Hringbraut, fóru eitthvert inn í hverfi og svo í Vestbyen, Kirkjugarðsstíg, Ljosvallagötu og eitthvað. Ég fór hins vegar Hringbraut og stytztu leið tilbaka. Var þungur og óinnblásinn í dag.

Eftir hlaup höfðu einhverjir orð á að þetta hefði verið gaman. Það er einkennilegt hvað hin perversa skynjun félaga Hlaupasamtakanna á því hvað er skemmtilegt er fljót að sökkva inn hjá fólki. Líklega vegna þess að maður endurtekur hlutina nógu oft... Í útiklefa flutti Skerjafjarðarskáld vísuna sem Birgir sendi okkur um daginn, þessa:

Hugarvíl og harmur dvín
er horfi ég á frúna.
Hún er eina eignin mín
sem ekki rýrnar núna.

Og lét á sér skilja að hann hefði orkt þetta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband