Kalt

Það var kalt í kvöld. Hiti við frostmark, hvass vindur á norðvestan. Við þessar aðstæður er það sérstök áskorun að mæta til hlaupa og spretta úr spor út Ægisíðu. Félagar Hlaupasamtakanna eru þekktir fyrir að fjölmenna til hlaupa þegar aðstæður eru þeim andstæðar og jafnvel óvinveittar. Þeim líður bezt illa. Að hlaupa einir í myrkri, kulda og móti stormi - það er hin sanna sæla. Því var það sérstakt tilhlökkunarefni að mæta til hlaups í dag. Mættur stór hópur hlaupara og vegna hinna sérstöku aðstæðna skulu þeir allir nefndir: Una, Þorbjörg, Margrét, Ósk, og tvær til viðbótar sem ég hef ekki nöfnin á (engin furða, nýjar konur daglega), dr. Friðrik, Magnús Júlíus, Flosi, Ágúst, Bjössi, Eiríkur, Benedikt, Hjálmar og ritari. Jú og Rúnar þjálfari.

Heit umræða í útiklefa um ástand mála. Björn vill byltingu, vill blóð. Við hinir erum stilltari, við höldum að stjórnvöldum þætti óheppilegt að fá byltingu ofan í slæma stöðu mála. Enn bætast við aðilar í periferíu Samtakanna og eru orðnir hluti af umræðunni, ónefndur stjórnmálafræðiprófessor er farinn að blanda sér í samtöl og hlýtur að koma sterklega til álita sem næsti hlaupari án hlaupaskyldu. Sjáum tl hvað æxlast.

Löng samvera í Brottfararsal. Nú er svo komið að hlauparar hafa ekki metnað til þess að fara langt. Nú er farið stutt. 10-12 km. Þjálfarar orðnir hálf andlausir, orðnir eins og hluti af hópnum og vilja bara þjást með okkur í stað þess að kvelja okkur. Ákveðið að fara um garða til að byrja með og sjá svo til. Lentum á gröfu og jarðvinnumönnum á leið okkar sem lokuðu fyrir frjáls hlaup. Sumir kusu að klifra yfir gröfuna, aðrir skynsamari og breyttu leiðinni, kom í sama stað niður, við mættumst aftur við Arnargötu.

Eftir þetta var farið í Skerjafjörð, Nauthólsvík og inn að Garði, þar var tekin vinstribeygja upp á skógarstíg upp í Öskjuhlíðina, gamall leynistígur sem Flosi þekkti. Farið um skógarstíga um stund, komið út á Flugvallarveg og út hjá Gvuðsmönnum. Svo vesturúr. Þessir léttstígu lögðu lykkju á leið sína undir Hringbraut, fóru eitthvert inn í hverfi og svo í Vestbyen, Kirkjugarðsstíg, Ljosvallagötu og eitthvað. Ég fór hins vegar Hringbraut og stytztu leið tilbaka. Var þungur og óinnblásinn í dag.

Eftir hlaup höfðu einhverjir orð á að þetta hefði verið gaman. Það er einkennilegt hvað hin perversa skynjun félaga Hlaupasamtakanna á því hvað er skemmtilegt er fljót að sökkva inn hjá fólki. Líklega vegna þess að maður endurtekur hlutina nógu oft... Í útiklefa flutti Skerjafjarðarskáld vísuna sem Birgir sendi okkur um daginn, þessa:

Hugarvíl og harmur dvín
er horfi ég á frúna.
Hún er eina eignin mín
sem ekki rýrnar núna.

Og lét á sér skilja að hann hefði orkt þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband