Spurt er: Var hlaupið?

Ritari er þjóðhollur einstaklingur sem gerir sér far um að umgangast eldri kynslóðir af virðingu fyrir þjóðararfinum og af hreinræktaðri fróðleiksþrá. Af þeirri ástæðu tókst hann á hendur ferð til Viðeyjar í gærkvöldi í boði Viðeyjarjarls, Örlygs Hálfdanarsonar. en ætlunin var að snæða svið og drekka með valdar veigar. Hópur góðra félaga úr Vesturbæjarlaug átti ánægjulega kvöldstund saman við ræðuflutning, vísnakveðskap og söng og endaði ævintýralega. Af þeirri ástæðu hljóp ekki þessi hlaupari í dag, sunnudag. En mætti í pott til að hitta félaga sína og samkvæmt þeirra frásögn hlupu: Magnús Júlíus, Einar blómasali, Flosi barnakennari, Þorvaldur og Jörundur prentari. Þeir munu hafa farið hratt yfir og ekki gert nein stopp. Kemur það ekki á óvart þar sem Ó. Þorsteinsson, eigandi kampavínslitrar koníaksstofu á hjólum, frændi minn og vinur, var fjarri góðu gamni sökum mikilla hlaupa að undanförnu og því tæplega sagt orð af viti í hlaupi. Í potti voru mættir dr. Baldur Símonarson, dr. Einar Gunnar og dr. Mímir. Þar var ekki töluð vitleysan. Þar vantaði ekki andlega spektina. Hvað næst? Jólahlaðborð? Meira um það seinna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Hefðbundið hlaup um Sólrúnarbraut, Kirkjugarð, Veðurstofuhálendi, Hlíðar, Klambratún, Hlemm og Sjávarsíðun; heim. Með í för voru framannenfdir, títtnefndir tannlæknir, blómasali, barnakennari, 1 stk. Þorvaldur Gunnlaugsson, 1 stk. Jörundur Guðmundsson plús Ólaf Sveinsson, félagi okkar er starfar hjá Smith og Norland.

Að þessu sinni var hlaupið allan tímann, en þó nikkuðu menn í átt til hefðarinnar með því að segja á vissum stöðum: "Hér er ævinlega gengið" eða "Hér er ævinlega stoppað og sögð saga". Menn létu þó hjá líða að ganga eða stoppa, heldur var skokkað á jöfnum og þægilegum hraða nánast allan tímann þannig að menn héldu á sér hita og leið vel í morgunkulinu á fyrsta sunnudegi aðventu.

Umræðuefnið var þjóðlegt og þægilegt; engin viðkvæm deilumál eða hitamál bar á góma. Lítt eða ekki var rætt um ónefnda viðskiptafræðinga tvo, hverra vinátta er með þeim ólíkindum að sá laugardagur líður ekki að þeir ræðist við í síma. Auk þess á sér stað tenging milli 210 og 107  hvern sunnudag klukkan 08:05 stundvíslega, þar sem farið er yfir helstið hjá Reuter.

Pottur var í góðu jafnvægi að þessu sinni, gáfumenni hverfisins héldu okkur paról og foringinn sendi fulltrúa sinn til að taka manntal, en treysti sér ekki sjálfur eftir átök á hlaupabrautinni degi fyrr. Frú Helga fór heim með mjög jákvæða mynd af þeim prýðispiltum sem skipuðu sér hringinn í morgunpotti 30. nóvember.

Flosi Kristjánsson, 30.11.2008 kl. 21:03

2 identicon

"...hverra vinátta er með þeim ólíkindum að sá laugardagur líður ekki að þeir ræðist við í síma. Auk þess á sér stað tenging milli 210 og 107  hvern sunnudag klukkan 08:05..." - hinn pedantíski ritari veltir fyrir sér hvort hér vanti svo sem eins og eina neitun, þ.e. að sá dagur líði ekki að þeir tali ekki saman. Tvöföld neitun sem endar í jákvæðni, enda mikil elska ríkjandi milli þeirra fóstbræðra. Er þetta rangt hjá mér?

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband