Önugur þjálfari öðlast lækningu

Hann á það sammerkt með álitsgjafa vorum að vera jafnan önugur þegar hann mætir til hlaups og hreytir ónotum í okkur hlaupara. Meira um það seinna.

Ólafur Þorsteinsson frændi minn sagði mér í gær söguna af próf. dr. Psychopatis, sem eitt sinn hljóp með Samtökum Vorum, en hætti þegar hann uppgötvaði að með okkur hlypi bifvélavirki.

Veður hið bezta til hlaupa, hauststilla og andkalt. Gerist ekki betra. Mættir fjölmargir hlauparar: Magnús, Flosi, Ágúst, dr. Jóhanna, Björn, Einar Þór, Una, Benedikt, Friðrik, ritari, Rúnar þjálfari, Ósk, Hjálmar, og einhverjar fleiri sem mig vantar nöfnin á.

Skipun um að hlaupa út að Dælustöð í Skerjafirði og þar yrðu gefin út fyrirmæli um frekari aðgerðir. Björn bólginn um ökkla eftir að hafa dröslast með hjólfák sinn niður í kjallara. Ég sagði honum söguna af kollega mínum sem fór út með ruslið fyrir konuna sína og fótbrotnaði. Hann er lögfræðingur.

Menn voru frekar léttir á sér og til í að taka á því. Orðum verður ekki eytt að Benna sem hvarf með það sama. Óþreyja hlaupara var slík að ekki var beðið eftir Ágústi, þess vegna fengust engar frásagnir af Þingstaðahlaupi, sem mun hafa verið þreytt s.l. laugardag. Þess í stað var hlauipið upp á Víðimel og þaðan út á Suðurgötu og út í Skerjafjörð. Við Skítastöð var stoppað og ákveðið að taka fartlek. 1 mín., 2 mín. 3 mín. og svo trappa niður. Suðurhlíðar. Það var lagt í hann og tekið vel á því. Mig furðaði á því hve frískur blómasalinn var - fyrstu mínútuna. Eftir það var frammistaðan bara dapurleg - og fljótlega skildi ég hann eftir. Fylgdi hinum fremstu bara nokkuð vel eftir, þjálfarinn passaði upp á okkur og sá til þess að menn heltust ekki úr lestinni og tækju sína þéttinga.

Farið upp Suðurhlíðar á þéttingi, en þar sem þjálfarinn sagði að maður ætti að láta sér líða vel gætti ég þess að ofgera mér ekki. Taldi mig þó vera á þéttingi. Nú er farið að dimma svo að það fer að verða til vandræða. Þannig þorði maður ekki að fara alveg á fullum dampi í Öskjuhlíðinni og við Perluna, hafandi dæmin af Ágústi og þjálfara, sem eru duglegir að reka tærnar í í myrkrinu. Fórum okkur hægt niður Stokkinn hjá Perlu. Eftir það var tekinn síðasti þéttingurinn, eða það hélt þjálfarinn, sem var allur að lagast í skapinu.

Þegar ég kom að flugbrautarendanum gaf ég þó í vegna þess að mig grunaði að blómasalinn væri einhvers staðar stutt að baki mér og freistaði þess að ná mér til þess að niðurlægja mig. Ég beið þess að heyra tiplið margfræga. Það varð ekki - ég komst alla leið út að Hótel Sögu áður en hann náði mér og hafði hleypt í sig ofurmannlegum krafti til þess að geta halað inn þessa löngu vegalengd sem skildi okkur að. Á sama tíma kom Flosi skeiðandi og náði okkur líka. Það er gaman að sjá hvernig við drögum hver annan áfram.

Í potti var rætt hispurslaust um frammistöðu fjölmiðla í þeirri kreppu sem ríður yfir og voru menn sammála um að þeir stæðu ekki undir nafni. Blaðamenn væru strengjabrúður hagsmunaaðila og sinntu ekki samfélagslegu hlutverki sínu og skyldum við land og þjóð. Ítrekað væri verið að dubba menn upp sem sérfræðinga í málefnum kreppunnar, sem árum saman hefðu predikað blessun hins frjálsa framtaks, sem á endanum leiddi okkur í þrot.

Próf. Fróði kom móður og másandi í pott, búinn að fara 16 km - alltaf leitandi að okkur, en fór í öfuga átt, út á Nes, þegar við héldum í austur. Þetta er með endemum seinheppinn maður, að fara á mis við okkar gefandi félagsskap, hlaupa einn í myrkrinu hjá Gróttu. Prófessorinn er frumtýpa hins einmana hlaupara, hann einn  stefnir á Sahara og er einn í því prógrammi, meðan við hin vorum saman í undirbúningnum að Berlín allt árið, og það með frábæra leiðsögn þjálfara allan tímann. Hér er hann aleinn að þreifa sig áfram án leiðsagnar þjálfaðra aðila. Gerist það öllu einmanalegra? Ég spyr.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, stutt heyrist mér það hafa verið. Það er varla að maður svitni í fötin, ef frá er talinn blómasalinn, sem geymir svitann í fötunum milli æfinga. Sumir hlupu inn í Fossvog og svo í humátt aftur til baka á eftir félögunum, þaðan Hlíðarfót, út Ægisíðun. Þéttingur á þétting ofan, en allt kom fyrir ekki. Félagarnir fóru fyrir flugbraut.  Þeir styttu.  Og þegar komið var til Laugar var eins og þar færi fyrsti og eini hlauparinn sem nokkru sinni hefið þangað komið. Þar var enginn. Einsemdin er hirðir, mig mun ekkert bresta.

Benedikt (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 08:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband