Færsluflokkur: Bloggar
13.10.2008 | 22:13
Geðhlaup
Það var allt annað líf að hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í dag. Þegar ritari mætti í Brottfararsal var Vilhjálmur Bjarnason þegar mættur og búinn að króa kanadískt sjónvarpsteymi af úti í horni og hélt ádíens. Þegar Jörundur kom var hann líka drifinn út í horn og kynntur sem síðasti kommúnistinn á Íslandi, 67 ára ungmenni sem hlypi eins og hind. Mér var ekki ljóst hvað þarna var í gangi eða hvað verið væri að kynna, Hlaupasamtök eða kynlega kvisti. Það setti að mér ugg þegar ég sá hvað VB var... kátur. Sumir hlauparar hafa talið það merki um vonda hluti. Hraðaði mér í útiklefa og sá á leiðinni Þorvald gera æfingar á mottu í líkamsræktarsal sem minntu á eitthvað indverskt
Í útiklefa var þegar mannmergð, mættir Björn og Bjarni, stuttu síðar Flosi, Einar blómasali og Helmut. Þetta var bara fyrirboði um það sem varð í hlaupinu, mæting hreint með ólíkindum og almennt góð stemmning. Dr. Friðrik, dr. Jóhanna, báðir þjálfarar, próf. dr. Fróði, Eiríkur, Una og svo fullt af hlaupurum sem ég þekkti ekki. Kanadíska teymið var að snövla í kringum okkur, hafði langt viðtal við Villa úti á stétt og við færðum okkur út til þess að komast í mynd. Þjálfari flutti pistil um hlaup dagsins og greinilegt að það á að fara að herða á hlaupurum, fyrirmæli um Skítastöð og Nes og þéttinga á milli.
Menn eru raunverulega í góðum fílíng þessi missirin og allir að koma til eftir Berlín. Það var farið á léttu skeiði út, farið hefðbundið um Hagamel og þannig út á Suðurgötu og út í Skerjafjörð. Blómasalinn ólmur eins og foli sem ærslast fram úr öðrum hlaupurum, greinilegt að hann ætlaði að gera rósir í hlaupi dagsins. Rifjuð upp viðskiptahugmynd Birgis frá gærdeginum, hún útfærð frekar og þróuð með aðstoð góðra manna. Tempóið var undir 5 mín. Og ekki alveg það sem maður hafði hugsað sér. Stemmning þó öll önnur en í þunglyndislegu sunnudagshlaupinu menn bara léttir og sprækir og sáu ekkert nema tækifæri framundan.
Ekki var slegið af á Ægisíðu, gefið í ef eitthvað var, blómasalinn og Eiríkur og lá einhver ósköp á. Svo gerðist það fyrirsjáanlega, blómasalinn gafst upp við Hofsvallagötu og gekk beygður til Laugar. Eiríkur hélt áfram á Nes, sem og við hin. Neshópur var á sínum stað, en nokkuð gisinn og vantaði margar mikilvægar persónur. Ekki var slegið af hraðanum hér, áfram kringum 5 mín. Tempó. Ég fór Lindarbraut ásamt með ótilgreindu fólki (maður þekkir orðið ekki helminginn af fólkinu sem hleypur með okkur), Ágúst og Bjarni fóru fyrir golfvöll, hvað um aðra varð veit ég ekki. Það gekk vel að halda uppi hraða og eygði ég hina hröðu hlaupara alllengi en var þó alla jafna einn. Ekkert nýtt þar!
Komið á ný til Laugar. Þar stóðu hlauparar á stétt og teygðu. Það fylgir því alltaf sérstök stemmning að hlaupa á haustin og minnir á bernskuárin þegar maður var götustrákur. Upplýst er að ferðum ritara fækkar mjög á næstunni og hann getur hlaupið ótruflaður í allan vetur án þess að tefjast af utanferðum og öllum þeim ósóma sem þeim fylgja. Jörundur var með skemmtilega kenningu á stétt sem hann kenndi próf. Fróða. Sá hafði sagt að við vöðvasliti væri gott að innbyrða prótein. Með sömu röksemdafærslu mætti fullyrða að við beinbroti væri gott að innbyrða beinamjöl.
Pottur óvenjuvel mannaður, þótt ekki væri VB viðstaddur. Margt rætt af speki og þó tók steininn úr þegar Ágúst upplýsti að hann væri þegar kominn með lagið Þrjú tonn af sandi á heilann fyrir Sahara-hlaupið og óttaðist að það myndi sitja fast í höfðinu á honum meðan á hlaupi stæði. Þannig glataðist mikilvægur tími við það að hrista hausinn í hlaupinu til þess að losna við lagið úr höfðinu.
Samþykkt að hlaupa langt n.k. miðvikudag. Tillaga um 24 km. Ja, ekki styttra sagði Ágúst og vildi helst fara 28 km. Enda er hann í prógrammi fyrir Sahara. Hlauparar mæti með drykki með sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2008 | 16:24
Á sunnudagsmorgni
Á leiðinni inn Sólraunarbraut reyndi ég að leiða talið að hlaupum og öðru uppbyggilegu - en menn féllu jafnóðum í sama barlóminn og svartsýnisrausið. Staldrað við í Nauthólsvík og beðið eftir Ólafi Þorsteinssyni, sem var venju fremur hægur í dag. Til þess að lífga upp á sellskapið var ákveðið að óska eftir klámsögu. Eina klámið sem ÓÞ datt í hug var nýleg skilnaðarsaga.. Þótti heldur rýrt. Hlaupið framhjá HR sem sumir viðstaddra töldu að myndi fljótlega sameinast HÍ með meðfylgjandi gráti og gnístran tanna. Haldið áfram á hægu tempói, inn í kirkjugarðinn sem þótti afar vðeigandi viðkomustaður á þessum tímum. Kíktum á eitt nýlegt leiði, en könnuðumst ekki við viðkomandi. Áfram hefðbundið um Veðurstofuhálendi og þannig áfram. Hér fór einhver að segja frá leikhúsför, stykkið var Fýsn, merkilegt verk og skemmtilegt - en þunglyndislegt í aðra röndina. Ekki verður hann skafinn af okkur, menningarbragurinn, alltaf er gefandi fyrir andann að hlaupa í þessum hópi.
Við biðum eftir ÓÞ á Rauðarárstígnum, sem undirstrikar enn og aftur samstöðuna í hópnum: hér er enginn skilinn eftir. Það var ákveðið að fara Laugaveginn vegna ríkjandi norðanáttar og vegna þess að við vildum sjá hann eins og við munum aldrei sjá hann aftur. Veröld sem var. Við bentum á öll fyrirtækin sem við töldum að myndu rúlla á næstu vikum og mánuðum. Birgir, sem er mikill frumkvöðull og hugsuður, kom fram með nýja viðskiptahugmynd sem hægt væri að finna stað í verzlunarhúsnæði blómasalans og hann geta lagt til súlur, sklirúm, rúm frá ameríska hernum og Birgir og ritari myndu leggja til hugvit, verkvit og handverk. Starfsemi af þessu tagi gæti orðið mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið í landinu.
Fáir á ferli á Laugavegi og í miðbæ, enda veður ekki þesslegt að bjóði til mikillar útiveru. Tíðindalítið eftir þetta, lengd hlaups á að gizka 11 km. Pottur vel mannaður: dr. Einar Gunnar, dr. Baldur Sím., Jörundur kominn af 69 hlaupi með Pétri Reimarss., Helga og Stefán, svo komu dr. Jóhanna og Helmut óhlaupin. Setið fram undir eitt og rætt margt gáfulegt. Jörundur með áhyggjur af því að Lúpínuandstæðingafélagið fylltist af Sjálfstæðismönnum, þeir væru orðnir honum sammála í pólitík.
Nú gildir ekkert annað en halda ótrauður áfram og því verður hlaupið á morgun kl. 17:30 - við höldum okkar striki hvað sem á dynur. Það kostar ekkert að hlaupa og fylla sig af súrefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2008 | 23:09
Trappað niður fyrir Berlín
Stutt í potti og svo haldið til kynningarfundar í safnaðarheimili Neskirkju þar sem farið var yfir undirbúninginn fyrir hlaup og dagskrána. Undir lokin var ég orðinn svolítið smeykur vegna allra varnaglanna og viðvarananna fyrir hlaupið. Mesta athygli vakti þó matseðillinn á Matz og Moritz sem við ætlum að borða á eftir hlaup, þar er hægt að fá ekta þýzkt hlaðborð og stóra bjóra! Ef ég þekki mitt fólk rétt mun ásýnd stóra bjórsins leiða hlaupara síðasta spölinn, eins og hann gerir á föstudögum.
Sprettir á miðvikudag og svo aftur á fimmtudagsmorgun kl. 06:25 frá VBL. Í gvuðs friði. Ritari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2008 | 21:12
Týndur sonur snýr aftur
Mjög ströng fyrirmæli gengu út í dag um hlaup: bara stutt og taka létta spretti. Þeim sem ekki ætluðu í Berlínarhlaup var gefinn kostur á öðrum útleiðum. Farið á þéttu stími út að Skítastöð. Þar skiptist hópurinn í tvennt eða þrennt, einhverjir fóru á Nes, aðrir héldu áfram austur, og þéttur hópur afrekshlaupara tók spretti: 400 - 300 - 200 - 100 með einnar mínútu hvíld á milli - þrjú holl þannig. Ætlunin var að fara þetta á hálfmaraþonhraða, en þegar á reyndi var hraðinn AÐEINS meiri. Hvað eiga menn líka að gera þegar þeir finna orkuna og úthaldið? Ritari var ánægður að geta svona nokkurn veginn hangið í þeim Margréti, Benna, Eiríki og Unu. Þessir sprettir voru teknir á leiðinni um Hlíðarfót og hjá Gvuðsmönnum lauk seinasta holli og við fórum á hálfmaraþonskokki tilbaka.
Eftir á fréttist af hlaupurum sem fóru 10-12 km á tempóinu 4:40 - 5, sem er nokkuð gott og sýnir hið góða form hlaupara. Sjaldan betra, allir í góðu ástandi, lítið um meiðsl. Góður pottur.
Kom það á óvart er heim var komið og rýnt var í rúðuna: hver blasti við þar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2008 | 17:08
Fimm athuganir
Sr. Ólafur Jóhannsson vakti athygli ritara á því í Morgunskýli að uppi á snaga héngi reyfið af velþekktum atgervismanni í Vesturbænum, manni sem gat sér gott orð í blómasölu hér á árum áður, en hefur snúið sér að öðrum efnum í seinni tíð. Jú, þarna héngu garmarnir, en hvorki sást tangur né tetur af innihaldinu.
Athugun II
Magnús tannlæknir kom galvaskur til hlaupa með það sérstaka erindi frá frú Sigurlínu að menn tækju eftir nýjum og glæsilegum fatnaði sem keyptur var í Bison-útláti í Kringlu (outlet): forláta gallabuxur, grá treyja (NB: ekki græn!) og nýjar og flottar nærbuxur sem Magnús veifaði framan í viðstadda. "Nú er mér ekkert að vanbúnaði að lenda í góðu slysi og í framhaldinu á Skadestuen - ég þarf ekki að skammast mín fyrir að mæta hjúkrunarliði í svona flottu garmenti."
Athugun III
Vilhjálmur Bjarnason var glaðbeittur er hann mætti til hlaups í morgun. Hann hafði fallega sögu að segja. S.l. fimmtudag hringdi síminn Brunahringingu kl. 8:32. Á hinum endanum var Ó. Þorsteinsson, þekktur velunnari útivistar og hreyfingar í Vesturbænum, og hafði þær fréttir að færa að kl. 7:30 þá um morguninn hefði maður fengið hægt andlát á Landspítala. Hringt var í Ó. Þorsteinsson kl. 8:30 og honum færð tíðindin. Reuter sefur aldrei. Ólafur lét það verða sitt fyrsta verk að hringja beint í V. Bjarnason og færa honum fréttirnar. Nú skiptist í tvennt hver viðbrögð voru: annars vegar segir Vilhjálmur að hann hafi brugðist við af hægð og sagt: Jæja, Ólafur minn, þú hefur einkennilegan húmor. Á hinn bóginn mun Ó. Þorsteinssyni hafa virst Vilhjálmur bregðast æfur við. Var rifjuð upp nafnbót sem Foringi Hvítu Mannanna gaf dr. B. Símonarsyni fyrir margt löngu: B. Telefónsson. Var það til þess að endurgjalda prófessornum fyrir nafnbót sem hann gaf téðum foringja og hangir enn sem fastast við hann. Var það niðurstaða Vilhjálms að þeir Ólafar, og jafnvel fleiri, hefðu svipaðan húmor.
Athugun IV
Upplýst var i Esjugöngu að Helmut og dr. Jóhanna hefðu fyrr á þessum degi hlaupið 25 km og 28 km til undirbúnings Berlín. Tóku svo Esjuna í beinu framhaldi. Vel af sér vikið. Ennfremur kom fram að Birgir hefði laumað sér í hlaup með sunnudagshlaupurum og hlýtur að teljast einkar lúalegt, píska sér áfram gagngert til þess að hala sig upp töfluna. Hver þarf óvini þegar hann á slíka vini?
Athugun V
Fyrrnefndur atgervismaður úr stétt blómasala sendi út skeyti á eter um að hann hefði á þessum degi hlaupið einn, og hlaupið 27 km. Hlaupið var í kyrrþey.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2008 | 21:28
Aðeins fyrir karlmenni
Á leiðinni tilbaka var sett í fluggírinn og farið á meðaltempói kringum 4:50 - og á köflum á 4:20 eða þar um bil. Tekið vel á því. Nú bíða menn bara spenntir eftir morgundeginum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2008 | 22:47
Súkkulaðifíkn
20 manna harðskeyttur hópur mættur til hlaups á mánudegi. Allir helztu hlauparar Hlaupasamtakanna mættir, auk þjálfara. Rúnar þjálfari mjög leyndardómsfullur með kraga eins og settir eru á hunda sem búið er að meðhöndla á dýraspítala. (Þegar ég segir "með kraga" - þá á ég við að hann hélt á krögunum í hendinni, hafði þá ekki um hálsinn.) Hann gaf ekkert upp annað en að farið yrði um garða og út að Skítastöð. Þar yrðu svo gefin nánari fyrirmæli. Hver þekkir leiðina um Garða? enginn gaf sig fram. Þekkir enginn leiðina? - nú var bent á Flosa, bróður ritara. Flosi þekkir leiðina, sagði einhver. Já, bara fara hægt, engin læti, halda hópinn. Svo mörg voru þau orð.
Aldrei þessu vant var farið rólega, m.a.s. þekktir hraðafantar eins og Benedikt og Eiríkur voru bara rólegir. Á leiðinni var rætt um júlílöberinn og ekki laust við að téður hlaupari væri sperrtur eins og hani á fjóshaug. Derraði sig einhver ósköp og virtist hafa endurheimt löngunina til hlaupa, eins og sá sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Við Skítastöð voru lagðar línur: 200 m á spretti, 100 m hvíldarhlaup, aftur 200 m, og endurtekningar þannig 10 sinnum. Hvaða tilgangi þetta átti að þjóna var okkur hulið, en treystum því að þetta væri gott fyrir hálfmaraþon n.k. laugardag.
Blómasalanum var mikið í mun að sanna að hann ætti nýlega heimta viðurkenningu verðskuldaða og tók vel á því. Tiplið fræga endurómaði um allan Skerjafjörðinn. Aðrir góðir hlauparar voru ekki síðri og draup sviti af hverju andliti eftir að við höfðum tekið sprettina. Svo mátti velja: halda áfram kvalræðinu eða gera eitthvað annað. Við Bjarni og blómasalinn vorum skynsamir og fórum fetið út í Nauthólsvík, meðan aðrir féllust á að láta kvelja sig áfram, þ.á m. Birgir í illaþefjandi hlaupafatnaði og er ekki til yndisauka fyrir félaga hans. Veit ekki hvaða tengsl voru milli pottsins sem geymdi fiskisúpuna og óhreinlætis, en hér er þörf á góðri úrlausn úrræðagóðrar eiginkonu.
Við sem sagt áfram og upp Hi-Lux og þá tók hasarinn við. Sprett úr spori upp brekkuna og í reynd alla leið upp að Perlu. Telst sem tveir þéttingar. Niður stokk og farið um hjá Gvuðsmönnum og aftur þétt á Hringbraut. Langur þéttingur alla leið út að Sóleyjargötu. Hér fór blómasalinn í forystu og sýndi hvað í honum býr. Menn veltu fyrir sér hvað vakið hefði hlauparann í þessum lata manni. Var það tilnefning Rúnu? Eitthvað annað? Alla vega var maðurinn óstöðvandi í kvöld, og greinilegt að stefnir í harða keppni milli ritara og blómasala í hálfu á laugardaginn, fylgist með. Bræður munu berjazk, ok at bönum verðazk!
Á Brottfararplani mættust félagar úr ýmsum áttum og var teygt, ekki vanþörf þegar stefnir í átök. Hér small sprengjan: einhver sagði við Helmut ...og Þjóðverjar bara farnir heim! Ritari bjóst við því að Helmut, þessi prúði drengur, myndi bregðast við með tilfinningaþrungnum hætti, en hann sagði bara: Já, þetta var allt Íslendingum að kenna. Í potti var sögð svo átakanleg saga að hún verður ekki endurflutt hér í pistli, enda er gætt nærveru sálar í pistlum ritara. Þá tók Björn yfir pottinn og hóf mikinn ádíens, sögur úr ýmsum áttum af þekktum persónum.
Nánast hvíld n.k. miðvikudag, mesta lagi 12 km.
Bloggar | Breytt 19.8.2008 kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2008 | 17:57
Sunnudagur, sagðar fallegar sögur
Vilhjálmur ávarpaði hópinn af Tröppum við upphaf hlaups og var það tekið sem teikn um gott ástand mála. Fluttar fregnir af því nýjasta í Lýðveldinu, enda Ó. Þorsteinsson ávallt með ferskar fréttir frá Reuter. Menn fylgjast af áhuga með framkvæmdum á Kvisthaga 4, þar sem opna á milli hæða í næstu viku. Af því tilefni fór álitsgjafinn að reikna og komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdirnar væru óréttlætanlegar út frá hagfræðilegu sjónarmiði. Það sló hálfgert í brýnu með þeim fóstbræðrum í kirkjugarðinum þar sem hópurinn var staddur á því augnabliki. En þó var líkt og greri um heilt áður en yfir lauk. Enda gáfust ýmislegt tilefni til að gleðjast, jarðarfarir eru jafnan nokkrar og skiptast þeir félagar á um að bera. Nýjast er að mönnum þykir spölurinn í Dómkirkjunni heldur stuttur; betra að vera í Hallgrímskirkju, þar er gangan löng og góður tími til að njóta stundarinnar.
Menn hafa áhyggjur af þróun Ólympíuleikanna, Ó. Þorsteinsson spáði því að áður en langt um liði yrði farið að keppa í pönnukökubakstri, réttritun og dráttarvélaakstri í þessari merku keppni. Athygli manna væri beint frá karlmannlegum íþróttum eins og rómverskri glímu, knattspyrnu og spretthlaupi. Alls kyns nýjar "íþróttir" væru leiddar til öndvegis á hverjum, nýjum leikum. Við þetta væri ekki unandi. Heimur versnandi fer.
Sumir kunna ekki að hlaupa Sunnudagshlaup. Þeir æða áfram eins og hauslausar hænur og yfirgefa hópinn, sjá sig um hönd, og snúa við, en eru horfnir jafnóðum og taka ekki hin lögbundnu stopp þegar sagðar eru sögur og gefnar vísbendingar. Það gera hins vegar fastir hlauparar og njóta hlaups til hins ýtrasta.
Ég naut þess heiðurs að verða samferða Vilhjálmi og Ólafi frænda mínum, og við rákumst á ónefndan veðurfræðing við Tollhúsið, sem gift er skáldi Lýðveldisins, og var ekki um annað að ræða en gera stuttan stanz og gera úttekt á ástandi mála.
Svo mjög lifðu menn sig inn í hlaupið að við frændur vorum síðastir að renna í hlað og má heita að slíkt sé einsdæmi, en lýsir líka alvöru málsins. Mannval í potti, þó vantaði dr. Einar Gunnar. Nokkuð um persónufræði og áfram sagðar fallegar sögur. Ó. Þorsteinsson náði að æsa Bjarna upp yfir flugvallarmálum og strunsaði sá síðarnefndi úr potti með öskrum, en Teddi horfði í kringum sig og sagði: ég er eins og fermingarstrákur við hliðina á honum þessum!
Framundan róleg vika, hvíld fyrir hálfmaraþon n.k. laugardag. Liðkun lima. Í gvuðs friði, ritari.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2008 | 14:46
Hann er feitur, hann er latur, hann er hlaupari júlímánaðar
Í hófi að loknu hefðbundnu föstudagshlaupi, höldnu að heimili Bigga og Unnar, þar sem innbyrt var gómsæt fiskisúpa löguð af meistarakokknum Bjössa, var krýndur hlaupari júlímánaðar. Rúna sá um að velja gripinn og hafði þau orð um hann að hann væri feitur, latur, sífellt svangur, vildi drekka, borða súkkulaði og þrifist jafnt á mótlæti sem meðlæti. Var honum útdeilt veglegum verðlaunaborða og súkkulaðisósu á flösku. En sjálfur var júlílöberinn fjarverandi að berjamó með fjölskyldu og var því fjarri góðra vina faðmi.
Hvað um það, mættir til hlaups: Vilhjálmur, Flosi, Eiríkur, Bjössi, Biggi, Helmut, dr. Jóhanna, Kári, Rúna, ritari og... blómasalinn sást í Brottfararsal með sýnishorn af hlaupatreyjum og buxum sem verða valdar fyrir Berlín. Nú er komið að því að trappa niður fyrir Reykjavíkurmaraþon og fara róleg hlaup um helgi og í næstu viku. Engu að síður virtu ónefndir hlauparar fyrirmæli þjálfara í þá veru að vettugi og settu í fluggírinn frá fyrstu byrjun. Verður að teljast makalaust að Helmut, sá prúði drengur, skuli láta etja sér út í svona vitleysu. Hann og Bjössi fóru fremstir og fóru hratt og skildu aðra hlaupara eftir. Svona framferði er óþekkt í hópi vorum, sem leggur áherslu á samveru og samræður á hlaupum, þar sem gáfulegar umræður um háleit málefni sitja í fyrirrúmi.
Aðrir fóru hægar og ræddu málefni dagsins, skipti á fólki í borgarstjórn höfuðborgarinnar. Einnig var töluvert rætt um blómasalann og kom mönnum saman um að þar færi öflugur hlaupari en latur. Tilgreind voru ýmis dæmi þess að hann ætti inni töluverða orku á hlaupi en nýtti hana ekki til þess að fara hratt, annað hvort af leti eða vegna þess að hann hafði misst sig í áti í hádeginu. Ekki hvarflaði þó að neinum að hann stæði uppi sem júlílöber áður en dagurinnn væri að kveldi kominn. En það eru fleiri latir en blómasalinn. Birgir og Eiríkur voru ekki að nenna að hlaupa og voru afar hægir, þannig að ritari náði að hanga í þeim. En þannig er það stundum, dagsformið fræga, stundum er þessi sprækur, næst er einhver annar sprækari, og alltaf einhver sem setur tempóið og dregur hópinn áfram.
Það gerðist markvert í hlaupinu að við mættum þjálfara á Hofsvallagötu og vorum myndaðir í bak og fyrir. Hann hefur lofað brekkusprettum á mánudag, til þess að liðka fæturna, eins og það er kallað. Fjölmennt í potti og rætt um lögun fiskisúpu. Loks hvarf hver til síns heima að undirbúa kvöldið. Ritari þakkar ánægjulegt kvöld að Bigga. Guðlaun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2008 | 21:43
Ástin ríkir ofar hverri kröfu - Gay Pride framundan
Hér segir frá hlaupi í elzta og virðulegasta hlaupahópi landsins, Hlaupasamtökum Lýðveldisins, föstudaginn 8. ágúst 2008. Dagurinn einstakur til hlaupa og mæting eftir því. Þegar ritari kom í útiklefa blasti við honum sjálfur Gunnlaugur Pétur Nielsen af Bostonfrægð. Einnig viðstaddur bróðir ritara, próf. dr. Flúss, konrektor til Vestbyens Ungdomsakademi Hagatorgensis. Við skiptumst á gamanyrðum og ræddum ýmsa einkennilega karaktéra sem við höfum kynnst í gegnum morgunpott eða síðdegishlaup. Um stund örvæntum við um þátttöku í hlaupi dagsins, en svo birtust þeir hver af öðrum, Helmut, Kári, Birgir og Einar blómasali. Í Brottfararsal voru mættar dr. Jóhanna og dr. Anna Birna. Við söknuðum vina í stað, einbeittra hlaupara, sem láta sig ekki vanta þegar góð hlaup eru í boði, engin nöfn verða nefnd hér.
Veðurblíða einstök og gerist ekki betra veður til hlaupa en í dag. Skýjað, logn og hiti um 12 gráður. Samstaða um að eiga kyrrlátt og hægt hlaup saman. Margir óhlaupnir hlauparar sem þörfnuðust hlaupareynslu, svo sem eins og blómasalinn, Helmut og dr. Jóhanna, tvö síðastnefnd nýkomin frá Toronto í Kanada. Aðrir með góða reynslu eins og Biggi og ritari, með um 30 km á góðu stími frá s.l. miðvikudegi. Menn höfðu áhyggjur af Birgi og hans nýjustu áhugamálum, var nýbúinn að uppgötva mann sem hann sagði að héti Mengele og hefði bjargað dvergum í Þýzkalandi nazismans frá útrýmingu. Lýsti hann afreki þessu í smáatriðum, en menn voru ekki vissir hvort hann hefði ætlað að bjarga þeim eða ætlað að gera tilraunir á þeim. Birgir var þess fullviss að þetta væri mannvinur sem hefði platað foringjann og bjargað dvergunum. Þess vegna væru til dvergar í Þýzkalandi nútímans.
Helmuti leiddist masið í Birgi og spurði hvort menn þyrftu að sitja undir svona vitleysu alla leiðina. Líklega hefur það verið um þetta leyti sem fór að draga sundur með fólki. Gunnlaugur og blómasalinn fóru fremstir og héldu uppi hraða, á eftir komu Helmut, ritari, dr. Jóhanna og Flosi, Kári og Birgir en þeir drógust fljótlega aftur úr. Það var derringur í blómasalanum og hann vildi, óhlaupinn maðurinn, sýna að það væri eitthvert púður í honum. Það er náttúrlega lítið mál fyrir menn sem aldrei mæta til hlaupa að spretta úr spori meðal manna sem fara 29 km á 5:14 meðaltempói og hreykja sér af því. En svona var þetta í dag.
Minnst var á hlaup Hare Krishna í gær og spurt hvort einhverjir hefðu farið, enginn kannaðist við að hafa hlaupið kílómetrana fimm raunar sagt sem svo að það tæki því ekki að fara í gallann fyrir svo stutta vegalengd, fólk væri rétt að hitna þegar hlaupi lyki. Er komið var inn í Nauthólsvík var ljóst að fólki var alvara með hlaupi dagsins, ekki slegið af, farið um Hi-Lux og upp án þess að þétta, áfram hefðbundið, Veðurstofa, Hlíðar, Klambratún (þéttingur), Hlemmur og niður á Sæbraut. Hér voru Birgir og Kári týndir okkur og taldir af. Þétt vestur úr og til Laugar.
Mannval í potti, bæði gildir limir Hlaupasamtakanna og verðandi. Setið lengi og rætt um Berlín og önnur brýn málefni. Aldrei er hægt í pistli að endurgefa neitt af því sem sagt er í potti og því er bezt fyrir áhugasama að mæta og verða aðnjótandi umræðunnar. Birgir upplýsti að næsta föstudag verður í boði fiskisúpa Hlaupasamtakanna að heimili hans í grandaskjólum (þar sem kettirnir öskra af hungri, skríða upp á þak á stiganum sem reistur var til höfuðs staranum og Biggi var rétt búinn að drepa sig á hér um árið og Jörundur kunni að segja okkur frá, sællar minningar). Samþykkt var að þetta yrði jafnframt Fyrsti Föstudagur þessa mánaðar, en beðið er eftir að Rúna tilnefni hlaupara júlímánaðar og velji viðkomandi heppilega viðurkenningu. Magnús mættur í útiklefa og gat upplýst að hann væri allur að koma til, byrjaður að æfa með minniháttar fólki, fyndi ekki til sársauka í hné og þetta væri allt að koma. Alls kyns elskulegheit í gangi, m.a. sagðist Birgir elska Einar blómasala, en ég veit ekki hvað það merkir.
Á morgun er Gay Pride og félagar Hlaupasamtakanna munu mæta þar og sýna samstöðu með baráttu samkynhneigðra. Gleðilega hátíð. Í gvuðs friði, ritari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)