Ólmir hestar – Heavy Horses

24 mættir – hið minnsta. Þegar Hlaupasamtökin söfnuðust til hlaups í dag stóð yfir myndataka af e-u óskilgreindu tagi og sætti það furðu að myndefnið var ekki hlauparar Samtaka Vorra, heldur einhverjir skringilegir karaktérar á Brottfararplani. Ágúst var mættur með eyðimerkurhúfu og var það hald manna að nú mættu bedúínakonur í eyðimörkinni fara að vara sig. Þjálfarar báðir mættir og lögðu til rólegt hlaup um Víðimel út að Dælustöð í Skerjafirði (og bíða þar). Þrátt fyrir þetta var tempóið út komið á gott ról þegar á Suðurgötu og greinilegt að það var hugur í mönnum. Við mættum Einari Baldvin þegar við komum í Skerjafjörð, hann hljóp í öfuga átt. Blómasalinn hætti fljótlega þar sem hann taldi sig þurfa að sinna fjölskylduerindum í stað þess að hlaupa. Einhver sagði að hann hefði snúið við af því Frikki sagði honum frá tilboðinu á ýsuflökunum í Melabúðinni, en ég held að það sé lygi.

Við komu út að Dælustöð var gefin út skipun um eftirfarandi: þrír 800 m sprettir í vesturátt, 1 mín. hvíld á milli, 2 mín. fyrir þá sem vildu taka fleiri en 3 spretti. Svo var bara gefið merki um brottför og menn sprettu úr spori. Menn eru náttúrlega misjafnlega staddir í þoli og hraða og það sýndi sig á þessum kafla, það gisnaði hópurinn á leiðinni vesturúr. Þá mættum við Benedikt sem hljóp öfugt eins og Einar Baldvin. Það tekur á að hlaupa 800 m á spretti og maður veltir því fyrir sér hvenær spretturinn taki enda. En þetta gekk vel, maður hélt nokkurn veginn í við hina og sá hvenær þeir hægðu á sér.

Svo kom að næsta spretti og hann náði út alla Ægisíðuna út að Hofsvallagötu. Á leiðinni mættum við Neshópi og voru þar nokkur þekkt andlit, þ. á m. nýbakaður doktor, Jóhanna Einarsdóttir, skólasystir ritara úr Reykjavíkur Lærða Skóla, svo að oss er vandi á höndum: hver er dr. Jóhanna? Hér var ritari orðinn einn, en hann grillti Sirrý á undan sér. Svo er bara að skella sér á Nesið, í Skjólum dúkkaði Helmut upp, og á Nesvegi fóru Ágúst og Rúnar fram úr mér. Hér var þriðji sprettur í gangi og engin leið að vita um hvenær honum lyki. Ég var í góðum gír og treysti mér áfram út á Lindarbraut (sem var uppnefnd Unter den Linden í potti).

Leiðin tilbaka var einföld og ritari hélt tempói til loka. Einn af þessum frábæru vordögum þegar allt gengur hlaupara í hag, veður, aðstæður, og annað. Það var teygt við Sundlaug og skrafað saman. Ég sagði Bigga brandara sem er vart hafandi eftir, en má samt fljóta. Íþróttafréttamenn segja stundum hluti án þess að hugsa, þetta er dæmi: „Dunga tekur Baggio aftanfrá, enda þekkjast þeir frá því þeir léku saman hjá Fiorentina.“

Pottur vel mannaður. Prófessor Fróði í aðalhlutverki, enda líður senn að brottför. Áfram flugu góð ráð honum til handa. Það væri að æra óstöðugan að tilgreina þau öll, en það laut að úlfaldahlandi, illa þefjandi hlaupurum, Bragakaffi í boði Magga á afmælisdaginn hans 2. apríl og hvað Ágúst ætti að gera á frídaginn (máttu ekki hlaupa? spurðu menn). Ekki var verra að Sif Jónsdóttir langhlaupari mætti í pott og gat miðlað góðum ráðum. Friðrik sagði sögu sem Biggi missti af sökum athyglisbrests, hann heimtaði að fá söguna sagða aftur, en Friðrik neitaði. Þá heimtaði Birgir að ritari segði söguna í pistli kvöldsins, en ég segi bara: BIRGIR! FYLGSTU MEÐ!

Að svo mæltu er ritari horfinn til mikilvægra embættisverka á suðlægari slóðum. Slóðin á hlaup Ágústs verður birt fljótlega á bloggi og vonandi berum við gæfu til þess að halda Fyrsta Föstudag 3. apríl n.k. og fylgjast þá með lokasprettinum í Hlaupinu Mikla. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband