Færsluflokkur: Bloggar

Hvað veit Ólafur Þorsteinsson?

Mættir til hlaups á sunnudagsmorgni: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur, Flosi og ritari. Veður ágætt, heiðskírt, stilla, en nokkuð kalt. Lagt upp á hægu nótunum og raunar farið rólega allan tímann með stoppum á hefðbundnum stöðum. Við fengum fréttir af Villa sem hefur verið með bezta móti upp á síðkastið.

Ekki skal orðlengt um hlaupið, það var hefðbundið í alla staði og skilaði okkur frískum og kátum tilbaka á Plan. En í potti kom sagan af því þegar Ólafur landlæknir stóð við próvíantborðið eftir jarðarför Ólafs Björnssonar prófessors og Hannes Hólmsteinn sagði við hann: "Ég vissi ekki að þú værir svona skyldur honum Ólafi Björnssyni." "Ja, þá veiztu ekki mikið." "En ég var bara að lesa um þetta í blaðinu í morgun." "Það er nú seint í rassinn gripið." Reiðist þá Hannes og segir: "En Ólafur hefur verið miklu gáfaðri en þú." "Það má vel vera" svarar landlæknir, "en ég vissi meira um læknisfræði."

Það kom vísbendingarspurning um bezt hærðu konu á Íslandi sem stóð í röðinni sem Ó. Þorsteinsson lenti í þegar hann kaus til Stjórnlagaþings í vikunni og var hún heimfærð til sveitar á Héraði. Við Baldur áttum kollgátun, nefndum Sigrúnu Aðalbjörnsdóttur í Akademíunni - og Baldur leiðrétti um leið upplýsingar frænda um heimasveit Sigrúnar sem mun vera á Norðurlandi. Áfram héldu skylmingar með orðum þar sem m.a. var glímt við vísbendingaspurningar Ólafs sem sumar hverjar hafa ótraustar forsendur innbyggðar og menn þurfa oft að hafa það í huga þegar þeir leita svara.

Blómasalinn mætti í pott en var óhlaupinn, hafði verið úti á galeiðunni alla nóttina og því lítt sofinn. Áfram fjallað um jólahlaðborð Samtakanna og hefur laugardagurinn 11. desember verið nefndur. Meira seinna.


Langhlaupari snýr við

Hefðbundin liðsuppstilling á sunnudagsmorgni í haustblíðunni: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Flosi, Jörundur, ritari og svo Rene í fyrsta skipti á sunnudegi. Frænda voru færðar árnaðaróskir í tilefni af sigri liðs hans í 1. deildinni og uppfærslu í úrvalsdeild. Hann var að sínu leyti sáttur við sína menn. Farið rólega út. jörundur nykominn úr smalamennsku í Borgarfirði og því lúinn eftir miklar göngur. Enda fór svo að hann dróst fljótlega aftur úr okkur og endaði með því að snúa við, bar við verkjum fyrir brjósti.

Við hinir áfram hefðbundið og gerðum stans í Nauthólsvík. Það er mikil vinna að vígja nýjan mann inn í hefðir sunnudagshlaupa og gekk á því alla leið inn að Kirkjugarði. Þar var enn og aftur rifjuð upp sagan af Brynleifi menntaskólakennara og frú Guðrúnu eiginkonu hans. Söguna flutti Ólafur frændi minn með nánast sama orðavali og staðreyndum og í fyrri flutningi.

Við áfram hjá Veðurstofu og þar dúkkaði upp hjólreiðamaður. Menn hrópuðu "Hjól!" - en þá kom í ljós að þetta var blómasalinn á leiðinni að sækja bíl sinn oní bæ - gat ekki látið hjá líða að heilsa upp á okkur, hafði farið eina 28 km í gær og hvíldi því í dag. Fylgdi hann okkur frænda frá Stokki og niður á Sæbraut og var margt skrafað og skeggrætt. M.a. bar á góma frássögn í blaði af eftirvæntingu blaðakonu vegna keppninnar Hrepparnir keppa. Frásögninni fylgdi ljosmynd af manni sem við þekkjum og myndatextinn þessi: "Skemmtilegur." Töldu menn eðlilegt að haft yrði samband við blaðakonuna og hún beðin um að gera grein fyrirr þessari einkunnargjöf.

Fórum um miðbæ, en hann var nánast tómur. Ólafur stoppaði á Austurvelli til þess að rabba við konu sem hann varð að eiga orðastað við. Er komið var til Laugar var þar dr. Jóhanna á leið út að hlaupa með útvarp í eyra. Í potti hefðbundin liðsskipan og einum betra: mættur Ólafur Jóhannes Einarsson frá Brussel. Ólafur frændi hóf að segja söguna af Brynleifi menntaskólakennara, en lenti þá í því að dr. Einar Gunnar gat upplýst viðstadda um að hann hefði sjálfur verið nemandi á Akureyri á þeim tíma er um ræðir og hann gat leiðrétt flestar staðreyndavillur í frásögn frænda míns, en þær voru nokkrar. Það hlakkaði í dr. Baldri sem hefur öðrum fremur haldið á lofti því sjónarmiði að frændi minn sé ónákvæmur í framsetningu staðreynda, svo að það sé nú pent orðað.

Loks urðu menn að haska sér enda stórleikur í sjónvarpi.

Stór hópur, fáninn bilaður

Þrjátíu manns hið minnsta voru mættir fyrir framan laug.  Blankalogn, fáninn lafði.  Skýjað og fremur hlýtt, 5-6 stig.  Ákjósanlegt hlaupaveður.  Þjálfarar sögðu okkur að hlaupa út að dælustöð, gefa þar í og fara suðurhlíðar upp að Perlu, svo stokkinn, og öfugan hlíðarfót út í Nauthólsvík.

Ég (Kári) hljóp með Dr. Kvaran, Jörundi og Þorvaldi, þóttist aldeilis forframaður af þessu fína accompanimenti.  Doktorinn er slæmur í Piriformis og reynir að hlífa  honum þessa dagana, var þar komin ástæðan fyrir því að ég gat orðið samferða honum.

Við kvöddum hann hjá Nauthól og styttum, tókum Hlíðarfót.  Aðrir hljóta að hafa farið eins og fyrir var lagt.

Ég sá Jóhönnu taka snögga byltu, hún skutlaðist til jarðar eins og hún hefði ætlað að forðast byssukúlu.  Hún var jafn snögg á fætur og skokkaði áfram eins og ekkert hefði í skorist, rétt rispaðist á hné, sagði hún mér í potti.

(Fært til bókar af mér því Ólafur Grétar er í Bruxelles eins og venjulega).

 

 


Það var hlaupið

Þar sem ritari er í New York skrái ég í hans stað.

Í gær, miðvikudag, hljóp stór hópur frá laug.  Sennilega voru mættir 30 manns, of margir til að nefna.

Ég var í hópi öftustu manna eins og venjulega, hljóp með Friðriki aftasta (ekki Friðriki fyrsta frá Melabúð) og Gunnhildi sem er að hugsa um að setjast hér að, nýkomin heim frá Malasíu.  Einnig hljóp með okkur Guðmundur heimilislæknir og kórfélagi minn úr Hamrahlíð.

Með okkur var önnur kona, gift starfsmanni í Framsóknarflokknum.  Hún hélt hópinn mjög tímabundið en leiddist svo biðin og skeiðaði fram úr okkur í Nauthólsvík.  Við tókum Hlíðarfót aftur til laugar en mig grunar að margir hafi farið þriggja brúa hlaup.

Veðrið var ágætt, hæg austanátt en kalt, 1 stigs hiti.

Með bestu kveðju, Kári

 


Tímar í Berlín

Birgir Jóakimsson, 3:42:47
Dr. Björn Guðmundsson, 3:55:58
Hjálmar Sveinsson, 3:50:47
Ósk Vilhjálmsdóttir 3:33:37.


Við þekkjum vatn þegar það skellur á okkur

Enn á ný var runninn upp hlaupadagur. Limir í Hlaupasamtökum Lýðveldisins mættu sprækir til hlaups. Langt á undan öllum var Flosi mættur, eins og skólastrákur ólmur að hefja fyrsta skóladag. Svo mættum við Ágúst. Ég hjálpaði honum í gegnum hliðið niður í klefa. Þetta vill vefjast fyrir fólki. Hann spurði hvernig „vélin“ vissi hvenær kortið væri útrunnið. „Hún bara veit það“ sagði ég, sem er oft einfaldasta svarið.

Blómasalinn mættur óvenjusnemma, var að raða verðmætum í geymsluhólf í Brottfararsal. Svo var farið í útiklefa. Þar voru auk okkar blómasala, Flosi, Helmut og Þorvaldur. Minniháttar erjur vegna væntanlegrar ferðar blómasala til New York.

Í Brottfararsal var fjöldi einstaklinga og mátti þar bera kennsl á dr. Friðrik, Ágúst, Jörund, Sirrý, þjálfara Rúnar, Birgi, dr. Jóhönnu, svo bættust Magga, Magnús tannlæknir og Friðrik kaupmaður við, einhverjum kann ritari að hafa gleymt.

Enn eru áformin margvísleg, þeir Berlínarfarar stefna á hlaup n.k. sunnudag, New York-farar í prógrammi. Aðrir búnir og hafa ekkert að keppa að, annað en halda sér í formi. Rólega út að Skítastöð. Þegar á Ægisíðu var komið var Biggi svo ólmur að hann æddi á undan öðrum. Senda varð mann á eftir honum til þess að hemja hann. En hjörðin ærðist og fór á 5 mín. tempói á eftir Bigga út að Skítastöð. Ekki gaman. Við blómasali þungir á okkur og stirðir vegna ofnæringar og hreyfingarleysis um nokkurra daga skeið. Rætt um landabruggun og áfengisdrykkju í Skerjafirði.

En við áttum bandamenn. Meðan aðrir ærsluðust áfram einbeittir að slá einhver met hópuðust þær að okkur Sirrý, Þorbjörg og stúlka sem heitir Jóhanna og hlýtur kenninefnið „hin síðhærða“ til aðgreiningar frá dr. Jóhönnu með drengjakollinn. Einnig var með okkur Þorvaldur og fljótlega heyrðist einkennishljóð Jörundar, sem mig vantar gott nafn á en dettur í hug „Seiglan“. Ritari hafði orð á að fara stutt, kannski Hlíðarfót, í mesta lagi Suðurhlíð. „Hvaða, hvaða!“ sagði fólk, „þú kemur náttúrlega með okkur, munar ekkert um það!“ Það fór svo að farið var yfir brúna á Kringlumýrarbraut og stefnt á Þriggjabrúahlaup.

Sem betur fer voru þreyttir og þungir hlauparar á ferð svo maður fann sér félagsskap við hæfi. Þegar komið er á Útvarpshæð er þetta nánast búið, svo er þetta bara niður á við. Hér vorum við blómasalinn orðnir einir og ræddum um matseðil helgarinnar,  hann lítur vel út. Hlupum yfir brúna vestur yfir Kringlumýrarbraut svo að þetta var alvöru þriggjabrúa. Sæbraut. Komum í Mýrargötu, þar gerðust hlutirnir. Við vorum nýbúnir að úthúða Kolaportinu, fólkinu þar, verðinu þar og óþefnum þar. Mætum strætisvagni sem sér ástæðu til þess að leggja sveig á leið sína, leita uppi poll sem var á götunni og gefa okkur væna dembu. Við rennblotnuðum og urðum illir, töldum að hér hafi verið á ferðinni bílstjóri sem öfundaði okkur af því að vera hlaupandi þegar hann þurfti að vinna.

Komum á Plan og sögðum farir okkar ekki sléttar. En vorum ánægðir að hafa farið Þriggjabrúa, þungir eins og við vorum. Í potti var töluð kínverska, þýzka, enska og íslenzka.

Góðar óskir fylgja félögum sem þreyta Berlínarmaraþon um helgina. Fylgist einkum með Bigga, hann á eftir að gera okkur stolt!



Hlaupið á Nes, baðast, móðganir

Ritari kom í Brottfararsal fullbúinn og sá þar próf. dr. Fróða tilsýndar. Sá virtist ekki í góðu skapi. Hann var illúðlegur. Ritari, sem er þekkt góðmenni, gekk út í krók Hlaupasamtakanna í Brottfararsal og gaf sig á tal við prófessorinn. Erfitt reyndist að draga orð upp úr honum ellegar að fá einhvern botn í hvað það var sem plagaði hann. En á endanum kom í ljós að hann var kominn á þá skoðun að ritari Hlaupasamtakanna væri illmenni, gagnstætt því sem almannarómur hefur andað um til þessa. Var í þessu sambandi vísað til frásagnar af seinasta hlaupi og pottsetu og virtist hlauparinnn hafa tekið hana fullmikið inn á sig. Þar sem talað var um langhlaup, endorfín, þunglyndi og annað sem við á.

Aðrir hlauparar voru þeim mun upprifnari, þessir mættir: Helmut, Flosi, Jóhanna, Rúna, Friðrik, Sirrý, Brynja, Jörundur, Þorvaldur, Ágúst, Birgir, ritari, Þorbjörg M., Kári, Anna Birna - en enginn blómasali. Á Brottfararplani var ráðleysið allsráðandi, enginn vissi hvað ætti að gera. Álitamál hvort fara ætti Ægisíðu eða upp á Víðimel og út á Nes. Á endanum réð Jóhanna för og farið var á Nes.

Farið allhratt af stað og áður en ritari vissi af var hann kominn á tempó með Ágústi og fleirum undir fimm mínútum, án þess að skilja þörfina á þessum hraða og hafandi í huga tilmæli þjálfara um að fara rólega næstu 26 daga. Það var norðangarri og við vorum með vindinn í hliðina á þessum stað. Flosi hélt mjög vel uppi hraða og greinilegt að hann er allur að koma til sem einn af helztu hlaupurum Samtaka Vorra. Aðrir, þ. á m. þekktir eyðimerkurhlauparar, máttu hafa sig alla við að halda í við þennan aldna barnaskólakennara úr Vesturbænum.

Það var skeiðað suður úr og einhver orð höfð um sjóbað. Ekki hafði ég mikla trú á sjóbaði í þessum kulda. Nema hvað, þeir Flosi og Ágúst klífa yfir kambinn niður á sandströndina suður af Gróttu. Svo kom hver hlauparinn á fætur öðrum, háttuðu og fóru í sjó. Ekki verður farið inn á smáatriði hér en furðu eru hlauparar orðnir frjálsir af sér í sjóböðum. Vatnið var svalandi í hitum sumars og endurnærandi. Bandarískar túristakellingar hrópuðu á Birgi: Jú möst bí kreisií!

Áfram. Sumir styttu og fóru stytztu leið til Laugar vegna þess að þeir eru í prógrammi og eru að undirbúa hlaup í Berlín eða New York. Við Helmut héldum fyrir golfvöll, Flosi og Ágúst á undan okkur. Einhvers staðar á þessum grjóti lagða malarstíg verður mér fótaskortur og misstíg mig, stefnir í slæma tognun. Allt uppfullt af heimskulegum golfurum, sem verða enn heimskulegri þegar haft er í huga golfmót MP-banka, þar sem áfengi virðist hafa leikið aðalhlutverkið, með þekktum afleiðingum. Ég sé fyrir mér 3ja vikna fjarveru frá hlaupum, en hugsa svo til ráðs sem dóttir mín, ballett-dansmærin, benti mér á: lyfta fæti upp í loft og láta blóðið streyma frá skaðasvæðinu, þannig að það lokaðist ekki inni í bólgunni. Þannig lá ég á Nesi. Helmut beið á meðan. Okkur varð kalt.

Hann sagði: Þú getur ekki hlaupið svona. Ég sagði: Við getum ekki hlaupið ekki svona, okkur verður of kalt. Svo lögðum við í hann hlaupandi og við hlupum tilbaka, mér fannst ég vera einfættur, en lét mig hafa það.

Pottur ótrúlega vel mannaður, Hlaupasamtökin mynduðu hring í barnapotti. Það losnaði um málbeinið hjá prófessornum og hann fékkst til að tjá sig um andúð sína á ritara. Kom fram að hann hafði í undirbúningi stofnun félags þeirra sem berjast gegn ritara, ekki ósvipað því sem Jörundur stofnaði til baráttu gegn lúpínu og malbikuðum stígum. Þarna mætti Einar blómasali og kvaðst hafa verið upptekinn við að "fiffa til bókhaldið" svo sem áreiðanlegir menn höfðu eftir honum. Rakel dúkkaði upp, óhlaupin að því er beztu menn vissu. Menning og skemmtun flóði út um allt og fóru menn harla ánægðir til síns heima að þessu loknu.

Sumir eru enn í prógrammi, fara langt í fyrramálið, 20-35 km. En við sem erum búnir með okkar markmið í ár - við getum slakað á og horft á fóbbolta úr sófanum, drukkið öl með ef því er að skipta. Í gvuðs friði, ritari.


Goldfinger revisited - gamlir kunningjar heimsóttir

Það voru nokkur kunnugleg andlit sem sýndu sig á Plani við brottför í langt hlaup dagsins i dag. Báðir þjálfarar mættir, Ósk, Eiríkur, Ólafur ritari, Þorbjargir tvær, Dagný, Flóki, og svo fólk sem ég hreinlega þekki ekki. Ljósmyndarar smelltu af myndum af andlitum hlaupara fyrir auglýsingu um Reykjavíkurmaraþon, voru annað hvort að leita að dæmigerðum hlaupurum eða kynlegum kvistum sem hlaupa. Vindur á sunnan og einhver rigning. Lagt í hann. Ritari ekki með það á hreinu hvað hann vildi gera, aðspurður kvaðst hann vilja fara 21 km. En hann var þreyttur eftir fyrri hlaup og átök, en langaði engu að síður til þess að hlaupa langt. Fann að líkaminn vildi endurnýja kynni sín af náttúru Íslands, eins og hún birtist hvað fegurst í Fossvogsdalnum, Goldfinger og í Elliðaárdalnum.

Ég gerði mér engar grillur um að hanga í fremsta fólki eins og ég gerði síðustu helgi. Enda var fólkið fljótlega horfið. Mér var alveg sama. Þjösnaðist áfram í sunnanroki út Ægisíðu og var að mestu einn. Mættum dr. Jóhönnu sem hefur líklega verið að ljúka sínum hefðbundna 18 km laugardagsskokki, og stuttu síðar Jörundi prentara, sem var að ljúka 27 km, hafandi farið um Kársnes, komið við hjá Ágústi í Lækjarhjalla (ekki fylgdi sögu hvort lokið var upp fyrir honum). Við flugvöll varð lognið aðeins meira og það var hreint með ágætum að hlaupa í Fossvoginn, en austarlega tók aftur að bæta í vind. Við Víkingsvöll sveigði ég inn í Kópavoginn og tók brekkuna erfiðu og þar upp hjá Goldfinger.

Yfir í Breiðholtið og upp hjá mömmu Gústa. Þegar komið var að Stíbblu varð mér hugsað til síðasta laugardags þegar fólkið gafst upp og ákvað að stytta. Ég hugsaði með mér að sú yrði ekki raunin í dag, það skyldi haldið áfram upp að Árbæjarlaug. Þetta var auðvelt og einfalt. Og þú, lesandi góður, kannt að hugsa: hvers vegna gerir hann þetta? Hvernig gerir hann þetta? En ég svara: ég get þetta, ég vil þetta!

Ég upp að Laug, inn að pissa og fylla á brúsa (með vatni, ekki hlandi). Svo áfram niður eftir. Þetta var yndislegt! Ég, ritari, einn með sjálfum mér, í náttúrunni miðri þegar hún er í fullum vexti, gróðurangan í lofti, á hægu krúsi eins og mér hentar bezt. Þetta gerist ekki betra. Niður úr, einstaka kona á ferli á undan mér, en ég lét þær í friði. Gerð stopp á völdum stöðum til að drekka, ég drekk ekki hlaupandi. Niðri við Breiðholtsbraut, inn við Teiga, á Sæbraut og svo við Ægisgötu.

Þreyta sat í ritara frá seinasta laugardegi, sprettum á mánudegi og löngu hlaupi sl. miðvikudag. Þess vegna voru ekki sett nein met, en ég var sáttur við að ljúka 24 km hlaupi á tveimur og hálfum tíma. Flestir aðrir hlauparar voru horfnir er komið var til Laugar, Eiríkur einn eftir með frú. Sátum lengi og spjölluðum saman í blíðunni.

Framundan: lokað í VBL 2. - 6. júní. Hvað gera hlauparar? Mér skilst að þjálfarar vilji halda fast við þá ætlan að hlaupa kl. 17:30 nk. mánudag, annan dag hvítasunnu, þrátt fyrir að Laugin loki kl. 18. Sama dag munu hlauparar skv. hefð hlaupa kl. 10:10 frá VBL. Ég mun ekki gera frekari tillögur um hlaup næstu viku þar eð ég verð í hvíldarvist í Reykholtsdal út vikuna. En vek athygli á Laugardalslaug og þeim leiðum sem þaðan liggja dag hvern greiðlega austur um sveitir, inn í Ellilðaárdal og þaðan upp úr.

Hvað gerðist í hlaupi kvöldsins?

Það var byrjað að rigna þegar ritari kom á hjólfáki sínum á Plan Vesturbæjarlaugar. Ritari Hlaupasamtakanna er umhverfisverndarsinnaður og nýtir því hið umhverfisvæna farartæki hjólfákinn til þess að flytja sig milli staða. Sama gerir bróðir hans, Flosi. Þeir eru Flóamenn. Flóamenn eru upp til hópa geðþekk góðmenni og annt um allt sem lífsanda dregur. Báðir lögðu hjólfákum sínum utan við Laug og gengu prúðmannlega í Salinn og þaðan þráðbeint í útiklefa.

Í Útiklefa er jafnan glatt á hjalla. Þar voru mættir og voru kátir, auk fyrrnefndra Flóamanna, Þorvaldur, Björn, Bjarni Benz og Eiríkur. Gamanyrði flugu, glensyrði um litaval manna þegar bolir eru annars vegar, Björn á grænni treyju, enginn á bleikri í þetta sinn, en allflestir í hefðbundnum svörtum lit Hlaupasamtakanna.

Í Brottfararsal voru allmargir hlauparar mættir, fjölmargir nýir eða nýlegir, ekki man ég nöfnin. Líklega hafa í allt verið um 20 mættir. Báðir þjálfarar mættir og voru kátir og frískir. Þá er að nefna Magnús, S. Ingvarsson, Jón Gauta, Þorbjörgu, Unu, og einhverja fleiri. Samþykkt að fara út að Dælustöð og ákveða í framhaldinu hvað yrði. Við vorum létt á okkur þegar við lögðum af stað í úrinu. Upp á Víðimel og þannig út í Skerjafjörð. Þar fór Margrét með heilmikla þulu sem var ofar skilningi okkar Máladeildarstúdenta, þetta var talnaruna svo margslungin og margræð að ekki var fyrir hvítan mann að skilja þetta. Menn horfðu hver á annan og spurðu: Hvað var atarna? Margrét horfði vorkunnfull á okkur og sagði: Æ, það er ekki eins og þið hafið ekki gert þetta áður!

Svo var lagt í hann. Menn fóru á spretti, en ritari fór með Bjarna og Þorbjörgu á hægri ferð. Upphaflega hafði hann hugsað sér að fara stuttan eymingja, svo lengri eymingja, loks Hlíðarfót. En með malandann úr Bjarna í eyranu er ómögulegt annað en gleyma vanlíðan sinni og halda áfram og út að Kringlumýrarbraut. Þar var ákveðið  að fara upp Suðurhlíðar í stað þess að mæta hinum spretthörðu. Við tókum brekkuna með látum og linntum ekki fyrr en upp við Perlu. Hér rigndi duglega, en það skipti engu máli, þetta var yndislegt! Nú var bara að fara niðurúr og klára hlaup með glans. Ritari var farinn að finna fyrir tognun í læri og ágerðist hún eftir því sem leið á hlaup.

Svo var tekið á því á Hringbrautinni hjá Flugvelli og ekkert gefið eftir. Mér skilst að aðrir hlauparar annars staðar hafi einnig tekið á því. Eiríkur var í sínu sóló prógrammi á Ægisíðu og má segja að prógrammið hans heiti Fram og aftur blindgötuna. 20 200 m sprettir. Þeim lauk nokkurn veginn á sama tíma og við Þorbjörg og Bjarni komum til Laugar. Mjög skemmtilegt hlaupaveður, rigning, en stilla.

Teygt lengi vel í Móttökusal. Í Potti fór fram umræða um persneska menningu og stjórnsýslu. Spurt hverjar atvinnuhorfur væru þar fyrir vel meinandi embættismenn af Íslandi. Einnig var rætt um afrek félaga okkar í Sahara, próf. dr. Ágústs Kvarans, og þann fagnað sem framundan er þegar hann snýr tilbaka úr Bjarmalandsför sinni.

Þekkt góðmenni í Vesturbænum hlaupa á sunnudagsmorgni

Fjögur þekkt góðmenni í Vesturbænum mættu til hlaups frá Vesturbæjarlaug að morgni sunnudagsins 29. marz. Þetta voru þeir Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Friðrik kaupmaður og Ólafur ritari. Eðlilega var ræða Davíðs á landsfundinum efst á Baugi og töldu menn  sig sjá merki um benjamín í uppsiglingu, einkennin væru ótvíræð.

Upplýst að brottför Sahara-hlaups hefur frestast vegna vatnavaxta! Í Sahara! Ákvörðun um brottför verður tekin að kveldi 29. marz.

Nýfallinn snjór var yfir öllu, en veður annars gott og hagstætt hlaupurum. Sem fyrr bar álitsgjafa í Garðabænum á góma og ritari inntur eftir því hvað hann hefði fyrir sér í því að álitsgjafinn færi að sýna sig á meðal vina og hlaupafélaga, en orðrómur í þessa veru hefur verið afar þrálátur. Í morgun spurði m.a. Bjarni Felixson um Villa, hvað þetta væri með hann, hvort hann væri alveg hættur að láta sjá sig.

Eins og menn þekkja er persónufræðin í aðalhlutverki á sunnudögum. Svo var og í dag. Einna bezt dugði okkur umfjöllun Ólafs Þorsteinssonar um nýskipaðan sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins, hún hófst við Hofsvallagötu og entist okkur langleiðina inn í kirkjugarð. Afi saksóknara var formaður stjórnmálaflokks og endaði sem sendiherra. Haraldur Guðmundsson formaður Alþýðuflokksins. Ólafur sýndi sig vera einkar fróður um alla hans ætt.

Fjölmargir góðborgarar voru á ferli og oftar en ekki þekkti Ólafur þá og þurfti að heilsa þeim, og helzt tala lítillega við þá. Staðnæmst á réttum stöðum og sagðar sögur. Allar fallegar. Rætt um New York maraþon, en þangað fara Friðrik og Rúna, auk Helmuts og dr. Jóhönnu. Jörundur hefur hlaupið í New York og segir það skemmtilegasta maraþonið, en brautin erfiðari en í Berlín.

Við bentum Frikka á tréð hans Magga við Óttars platz og sögðum honum af hverju það væri kallað tréð hans Magga. Fórum niður á Sæbraut og þá leið tilbaka. Að hlaupi loknu voru menn sammála um að sjaldan hefði hlaup verið öllu ánægjulegra, veður gott og félagsskapurinn góður. Gæðastund í potti með hefðbundinni áhöfn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband