Þekkt góðmenni í Vesturbænum hlaupa á sunnudagsmorgni

Fjögur þekkt góðmenni í Vesturbænum mættu til hlaups frá Vesturbæjarlaug að morgni sunnudagsins 29. marz. Þetta voru þeir Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Friðrik kaupmaður og Ólafur ritari. Eðlilega var ræða Davíðs á landsfundinum efst á Baugi og töldu menn  sig sjá merki um benjamín í uppsiglingu, einkennin væru ótvíræð.

Upplýst að brottför Sahara-hlaups hefur frestast vegna vatnavaxta! Í Sahara! Ákvörðun um brottför verður tekin að kveldi 29. marz.

Nýfallinn snjór var yfir öllu, en veður annars gott og hagstætt hlaupurum. Sem fyrr bar álitsgjafa í Garðabænum á góma og ritari inntur eftir því hvað hann hefði fyrir sér í því að álitsgjafinn færi að sýna sig á meðal vina og hlaupafélaga, en orðrómur í þessa veru hefur verið afar þrálátur. Í morgun spurði m.a. Bjarni Felixson um Villa, hvað þetta væri með hann, hvort hann væri alveg hættur að láta sjá sig.

Eins og menn þekkja er persónufræðin í aðalhlutverki á sunnudögum. Svo var og í dag. Einna bezt dugði okkur umfjöllun Ólafs Þorsteinssonar um nýskipaðan sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins, hún hófst við Hofsvallagötu og entist okkur langleiðina inn í kirkjugarð. Afi saksóknara var formaður stjórnmálaflokks og endaði sem sendiherra. Haraldur Guðmundsson formaður Alþýðuflokksins. Ólafur sýndi sig vera einkar fróður um alla hans ætt.

Fjölmargir góðborgarar voru á ferli og oftar en ekki þekkti Ólafur þá og þurfti að heilsa þeim, og helzt tala lítillega við þá. Staðnæmst á réttum stöðum og sagðar sögur. Allar fallegar. Rætt um New York maraþon, en þangað fara Friðrik og Rúna, auk Helmuts og dr. Jóhönnu. Jörundur hefur hlaupið í New York og segir það skemmtilegasta maraþonið, en brautin erfiðari en í Berlín.

Við bentum Frikka á tréð hans Magga við Óttars platz og sögðum honum af hverju það væri kallað tréð hans Magga. Fórum niður á Sæbraut og þá leið tilbaka. Að hlaupi loknu voru menn sammála um að sjaldan hefði hlaup verið öllu ánægjulegra, veður gott og félagsskapurinn góður. Gæðastund í potti með hefðbundinni áhöfn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband