Tekin upp sjóböð á ný - Réttstaða í Nauthólsvík

Maður skynjaði vængjaslátt sögunnar þegar á bílaplani Vesturbæjarlaugar. Ritari heyrði hróp og köll, hvað er í gangi? Hann sá Magnús Júlíus út undan sér, baðandi út öllum öngum og kallandi, en nær stóð Gísli Ragnarsson, rektor Ármúlaakademíunnar, mættur galvaskur til hlaupa á ný og kjaftaði á honum hver tuska. Maður skynjaði strax að hér voru breytingar í vændum. Það urðu fagnaðarfundir í Brottfararsal þegar Gísli rak inn höfuðið, enn muna allmargir eftir þessum gamla hlaupara og báru kennsl á hann, sumir áttu þó í erfiðleikum með að finna nafn til þess að máta við andlitið. Enn á ný var mæting slík að það væri að æra óstöðugan að nefna alla. Hlauparar sátu í Brottfarasal fyrir hlaup og reyndu að skemmta sér. Þar var m.a. að finna Vesturbæjarblaðið alræmda, og við sáum strax við nánari skoðun að fréttin um Berlínarhlaupið hafði eitthvað ruglast saman við frétt sem er við hliðina: Jólabazar á Grund, og gott ef þetta var ekki Ágúst á myndinni sem fylgdi með fréttinni.

Það var kalt í veðri í kvöld, komið frost. Heiðskírt og einhver vindur, tilvalið fyrir sjóböð, enda hiti orðinn þolanlegur. Gísli hafði strax orð á þessu og margir af helztu Nöglum Samtakanna tóku undir, Flosi, Bjössi o.fl. Þjálfari hafði einhver orð um að það væri orðið kalt og menn ættu að nota smokka. Frekari fyrirmæli komu ekki og menn lögðu í hann af varkárni. Aldrei þessu vant voru Eiríkur og Benedikt til friðs, héldu sig fyrir aftan fremstu hlaupara og fylgdu hópnum að mestu inn í Nauthólsvík. Mættur ónefndur blómasali og ónefndur jógakennari var einnig með í hlaupi kvöldsins. Mikið rætt um sjóböð á leiðinni inn eftir - ritari hugsaði: Er þeim alvara? Það var komið fjögurra stiga frost.

Þegar komið var inn í Nauthólsvík og reyndi á karlmennskuna voru aðeins þrír hlauparar sem skiluðu sér til sjóbaða, bæði Flosi og Bjössi virtust hafa mikilvægari erindum að sinna annars staðar: Gísli, Helmut og ritari. Það var farið niður að sjó, en þar var vart þverfótað fyrir baðfólki, flest af því af erlendu bergi brotið, margt af því ungar konur. Við afklæddumst í snatri og skelltum okkur í svala Atlanzhafsölduna og endurnýjuðum kynnin við gamlan vin. Þetta var afar hressandi og er mælt með þessari heilsubót við hvern þann sem á við einhverja vanheilsu að stríða. Á hinn bóginn er til vanza hversu margar ungar og fallegar konur voru á ströndinni í dag og urðum við því að bíða um stund niðri í vatninu áður en við gátum komið upp úr. Það hafðist þó á endanum og við gátum farið að tína á okkur spjarirnar. Það tókst nú ekki betur en svo að ritari þurfti aðstoð við að reima á sig skóna og renna upp úlpunni. Aðrir hlauparar voru löngu horfnir svo að við tygjuðum okkur til heimfarar um Hlíðarfót.

Um tíma hélt ég að fingurnir myndu losna af mér - en ekki varð af því. Við vorum daufir af kulda, en hörkuðum af okkur og héldum áfram hlaupi. Við Flugvallarveg hvarf Gísli, Helmut sagði að hann ætlaði að stytta sér leið. Við áfram hjá Gvuðsmönnum og urðum kristilegir til hjartans. Væntum Gísla þá og þegar, hægðum á okkur og fórum að skyggnast um eftir honum yfir sléttuna. Engin merki um Gísla. Helmut varð áhyggjufullur. Ég reyndi að hressa hann við. Líklega hefði Gísli bara dottið ofan í skurð og lægi þar fótbrotinn og biði þess sem verða vildi. Helmut varð enn niðurdregnari. Þá sagði ég: en sjáðu sóknarfærin í stöðunni, þú getur alltaf sótt um starfið hans Gísla! Hér tók Helmut aftur gleði sína og færðist allur í aukana.

Við hittum Ósk í Laug - hún hafði farið Suðurhlíðar. Blómasalinn var í útiklefa og lá einhver ósköp á. Þar var og Hjálmar íþróttakennari og jós athugasemdum um vaxtarlag viðstaddra yfir þá. Svo var farið í pott, það var ljúft eftir kælingu í sjó. Þorvaldur enn með puttann innbundinn. Magnús Júlíus kominn tilbaka. Svo skilaði sér hver hetjan á fætur annarri í pott. Þar var setið um nokkurt skeið. Nú er brýnt að fara að ákveða hefðbundnar skemmtanir, Fyrsti Föstudagur er 5. desember n.k. - fyrir liggur hugmynd um hvernig kristilegt væri að halda upp á þann ágæta dag í potti, með jólasöng og gleði, og heitt kakó á brúsa.

Nú hverfur ritari til starfa í þágu Lýðveldisins á erlendri grund um stund - en snýr tilbaka á ný fljótlega. Í gvuðs friði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband