Víkingaskip

Olíuskip? Nei, víkingaskip. Í útiklefa stóð yfir svo mergjað baktal gagnvart helztu félögum að þegar komið var í Brottfararsal lágu þeir hver um annan þveran í óstöðvandi hikstakasti. Meira um það seinna. Fjöldi mætra hlaupara mættir: ritari man að greina frá dr. Friðriki, dr. Jóhönnu, próf. Dr. Fróða, Einari blómasala, Helmut, Þorvaldi, Birni, Ósk, Hjálmari, Bjarna, Eiríki, Benna, Unu, Þorbjörgu, þeirri hortugu, syni dr. Friðriks sem vill forðast föður sinn í vigt, svo voru ritari, Friðrik kaupmaður, dr. Karl. Þjálfarar veikir eða í útlöndum.

Við blasti frelsið, við gátum leikið okkur eins og mýsnar. En, nei! Eiríkur hafði tekið að sér hlutverk kavalérans. Hann hrópaði skipanir til hlaupara á Plani eins og alvanur skátaforingi. Una hrópaði upp í angist: Ég vil ekki gera það sama og við gerðum í síðustu viku! Ég neita að gera sömu æfingu aftur! Henni var kurteislega bent á að þetta væru ekki einhverjar fasistabúðir, hún gæti í raun gert það sem hugur hennar stefndi til. Ábendingin kom henni skemmtilega á óvart og nýjar gáttir hugsunarinnar opnuðust þessari miklu hlaupakonu. Eiríkur lifði sig inn í sitt nýja hlutverk sem leiðtogi og sýndi sannan myndugleik, tókst að teyma mannskapinn af stað, sem er alltaf gott teikn.

Svo sem fram kom í skeytasendingum dagsins var ritari fyrirsjáanlega feitur og þungur eftir nokkurra vikna fjarveru frá hlaupum vegna meiðsla. Hann hélt sig vísvitandi aftarlega til þess að vera ekki að þvælast fyrir hinum æstari hlaupurum. Próf. Fróði enn á fullu að æfa sig fyrir Sahara (mikið verður maður feginn þegar þetta Sahara-ævintýri er afstaðið!) og þeir Kaupþings-fóstbræður að búa sig undir London. Sem betur fer eru enn til góðar sálir í hópi vorum, sem sjá aumur á hægfara aumingjum eins og ritara. Bjarni sýndi mér þann heiður að hlaupa með mér út í Skerjafjörð, sömuleiðis voru dr. Friðrik og sonur nálægir og Þorbjörg ekki langt undan. Aðrir voru Gone in 60 Seconds. M.a.s. blómasalinn.

Veður gott til hlaupa, 9 stiga hiti, rigning, einhver vindur, en alla vega gott undirlag og hálkulausir stígar. Farið hefðbundið út á Birkimel og Suðurgötu og í Skerjafjörð og að Skítastöð, þar stóðu þeir eins og álkur þegar okkur Þorbjörgu bar að. Ég sneri tilbaka enda ætlaði ég ekki að fara út í einhverja ævintýramennsku með fótinn á mér þegar hann er á batavegi. Þau hin ætluðu í fartleik, 1, 2, 3, 4, 5, 4, 3, 2, 1 mín. Það var farið inn að Sléttuvegi og svo tilbaka aftur. Ritari fór einn tilbaka um Ægisíðu og stytztu leið tilbaka til Laugar. Mætti Neshlaupurum, m.a. Denna og Rúnu. Svo kemur alltaf hópur hlaupara sem hrópar nafn mitt hástöfum, vafalítið í virðingarskyni.

Hlutirnir fóru að gerast í potti. Lengi vel lá ég einn með þýzkum og brezkum túristum. Svo kom blómasalinn og viðurkenndi uppgjöf, hafði misst sig í hádegismatnum og það eyðilagði hlaup dagsins. Honum var bent á hið alkunna lögmál orsakar og afleiðingar, en hann setti hljóðan. Svo mættu þeir hver af öðrum, Eiríkur, Hjálmar, Helmut, Björn, Friðrik, Bjarni og var þá pottur fullsetinn. Upp var tekin umræða um mat og matreiðslu, símafyrirtæki, bankafyrirtæki og um það rætt hvenær mennirnir með járnin væru líklegir til að birtast. Björn dró nokkrar historíur um merkilega túrista sem hann hitti þegar hann var að kokka (og leika golf) á hótelinu í Stykkishólmi og hann hirti upp á leið sinni. Kynlegir kvistir. Hlaupið næst miðvikudag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband