Fuglinn Fönix

Ritari risinn úr öskustónni eins og fuglinn Fönix, feitur, þungur, slappur – en óbugaður. Hitti fyrir félaga mína í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar á þessum sunnudagsmorgni og voru þessir: Ólafur Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Flosi, Einar blómasali og Friðrik kenndur við Melabúðina. Veður hreint með ólíkindum, stillt og hiti við frostmark. Sunnudagsmorgnar gerast ekki öllu betri. Sagt frá brunahringingu að morgni og stuttu spjalli fóstbræðra. Einhverjum ónotum var hreytt í ritara vegna fjarveru hans og orð haft á vaxtarlaginu, ístran sögð eiga ískyggilega stutt niður í tær. Við þessu var bara að búast og öllu tekið af karlmennsku.

Farið rólega af stað og skeiðað út Sólrúnarbraut á hægu tempói, enda snjóföl á jörðu og víða hált. Rætt um hlaupin sem framundan eru. Fullt er í Laugaveginn, þá liggur fyrir að fara í Mývatnsmaraþon, heilt eða hálft, svo RM og loks eru það þeir sem taka maraþon í útlöndum. Upplýst að samþykkt hafi verið í frægri veizlu að stefna á Boston-maraþon 2010.

Það var létt yfir hópnum, enda valinkunn góðmenni á ferð. Sem fyrr greindi var ritari þungur og stirður eftir hartnær tveggja vikna fjarveru frá hlaupum vegna meiðsla og veikinda. Það verður erfitt að koma til baka þegar aðrir hlauparar eru í fantaformi, en má ekki bíða að hlaupaskórnir séu dregnir fram. Bara að kýla á það! Hlaupið var af þessari ástæðu ekki alveg sársaukalaust, en það var annað hvort að duga eða drepast. Því var ákjósanlegt að eiga kost á þessari sérstöku tegund líkamshreyfingar svo sem hún er iðkuð á sunnudagsmorgnum, sambland af hlaupi og göngu í bland við menningarlega umræðu og fróðleik. Á þann hátt býr maður sig undir alvöruhlaup eins og eru hlaupin á mánudögum þegar þjálfarar gefa engin grið. Svona gengu nokkurn veginn þankarnir þennan morgun.

Staldrað við í Nauthólsvík, sagðar sögur af fólki og sjúkdómum. Haldið áfram á hægu tölti í kirkjugarð þar sem Ó. Þorsteinsson heyrði kallað á sig í gær, þó ekki hinum megin frá. Er hér var komið vorum við frændur orðnir einir aftastir og var ég honum þakklátur að aumkva sig yfir mig og skilja mig ekki einan eftir eins og svo oft vill henda.  Við drógumst fljótlega aftur úr enda tókum við mörg gönguhlé sem eru nauðsynleg þegar margt þarf að kryfja og greina. Nú var embættismannakerfið tekið til sérstakrar skoðunar og dugði ekki skemmri vegalengd en Klambratún að Svörtuloftum til þess að afgreiða málið.

Hinir löngu komnir er við komum til Laugar. Mætt Ljóðskáld Lýðveldisins. Að potti voru auk hlaupara dr. Baldur, dr. Einar Gunnar og Mímir. Rætt um bernaise-sósugerð og nautakjöt, en af því mun vera nóg við hóflegu verði í ónefndri hverfisverzlun. Framundan Þorrablót og meira óhóf í mat og drykk. Hvernig endar þetta? Hvenær endar þetta? Fer ekki að koma utanlandsferð? Tímabært að blása til Berlínarkvölds með myndasýningu og meðlæti. Hvað segist?

Meira á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband