Færsluflokkur: Bloggar
27.4.2008 | 13:37
Líklega venst maður hávaðanum
Veðurblíðan var einstök í Vesturbæ Lýðveldisins þennan sunnudagsmorgun, sól skein í heiði og hitinn skreið bara upp á við, ekki bærðist hár á höfði manna og er hér einkum átt við þá sem hafa hár að það megi bærast, en ekki ónefndra manna sem hafa svo lítið hár að maður spandérar ekki einu sinni sjampói á þá, hvað þá hárnæringu. Mættir sjö vaskir hlauparar til hlaups: Magnús, Bjarni, dr. Friðrik, Einar blómasali, Kári, Birgir og ritari. Menn furðuðu sig á því að einhverjum sæmilega innréttuðum hlaupara skyldi detta í hug að sleppa hlaupi á svona degi, nema vitað var að Jörundur og Gísli eru meiddir, sem að vísu er ekki afsökun í hópi vorum, en skýring. Aðrar fjarvistar óútskýrðar, utan hvað það spurðist út er leið á hlaup að Ó. Þorsteinsson Víkingur væri að undirbúa mikla afmælisveizlu í Austurbæ Lýðveldisins og hefði af þeim sökum neyðst til að sleppa hlaupi.
Það voru miklir gleðimenn sem sprettu úr spori frá Vesturbæjarlaug stundvíslega kl. 10:10 í morgun og tóku strikið niður á Ægisíðu. Þar var hafflöturinn spegilsléttur, bleikir akrar, slegin tún, tíbrá yfir Bláfjöllum í fjarska, Öskjuhlíðin svalaði björtu höfði í himinblámans blátæru lind. Það var létt yfir mönnum, margir brandarar fuku og má segja að menn hafi hlegið óslitið frá Hofsvallagötu og inn í kirkjugarð, en þar hlæja menn ekki, þar eru menn hátíðlegir og virða helgi staðarins.
Við fórum fetið á þessu hlaupi svo sem jafnan er gert á sunnudögum. En með því að hinir meiri sagnamenn og gáfumenn voru fjarverandi þennan dag urðum við að láta okkur nægja að rifja upp gamlar sögur og vaselínbrandara, en það er alltaf einhver sem er ekki búinn að heyra sumar sögur og því ómaksins vert að láta þær flakka enn einu sinni. Þetta var í einu orði sagt yndislegt hlaup (þetta voru að vísu tvö orð, en maður tekur nú bara svona til orða). Maður hreinlega skildi ekki menn sem slepptu hlaupi á svona degi, maður vorkenndi þeim, slíkur var léttleikinn og gleðin yfir að eiga kost á að vera úti í náttúrunni þegar hún skartar sínu fegursta, á léttu tölti, í kátra sveina hópi.
Það var enginn derringur í mönnum, við héldum hópinn og tókum því rólega, slepptum að vísu nokkrum göngustoppum sem hefð er um á sunnudögum, en það skýrist af því að okkar beztu menn voru fjarverandi og lítið um persónufræði eða vísbendingar. Ekki er ég frá því að hraði hafi verið farinn að aukast undir það síðasta, en það hefur bara verið vegna þess að menn voru farnir að gleyma sér. Skiluðu sér allir nokkuð jafnsnemma til Laugar og áttu góða stund í potti með þeim dr. Einari Gunnari og dr. Baldri - aðallega rætt um þá keppni sem framundan er hjá VB og horfur þar. Jörundur mættur í pott, er frá hlaupi næstu þrjár vikur vegna meiðsla.
Einar blómasali tilkynnti fjarvistir - hann verður í Danaveldi næstu daga, og fylgdu þeim upplýsingum matseðillinn næstu vikuna. Hann missir því af hlaupi á morgun og miðvikudag - en kveðst vera skráður í hlaup n.k. fimmtudag. Svona er þetta bara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2008 | 16:16
Varastöð: Nesið
Prófaði nýja Nimbus Gel 9 skó - skó ársins tvö ár í röð. Fann fyrir öfund annarra hlaupara yfir þessum happafeng, sem smellpössuðu og urðu samstundis sem framlengdur hluti af líkama hlauparans. Við lögðum í hann i fremur köldu veðri og norðangjólu. Haldið austur úr og stefnt á hefðbundið. Fyrst gerist það að við mætum Ólafi Þorsteinssyni við Skerjafjörð, hafði hann þá haldið venju sinni að fara fyrr út að hlaupa vegna skuldbindinga heima fyrir. Það var gerður stuttur stanz og menn ræddu málin stuttlega, rifjaðar upp nokkrar gamlar sögur, og svo haldið áfram.
Þá gerist það að við mætum Magnúsi þar sem hann skeiðar á móti okkur. Hafði mætt á réttum tíma í Vesturbæjarlaug og gekk þar inn og aðgætti allar gáttir. Var þá búið að opna laugina. Hann slóst í för með okkur og áfram var hlaupið austur úr. Í Nauthólsvík var staldrað við lengi og sagðar fallegar sögur úr ferðaskrifstofubransanum. Þar náði okkur Geðlæknir Lýðveldisins á reiðhjóli og tóku menn spjall saman og vörpuðu fram tilgátum ýmisslegs eðlis.
Nú héldum við Maggi og Sjúl áfram og vorum farnir að stirðna upp og tók tíma að losa um það á hlaupum. Farinn Hlíðarfótur og hjá Gvuðsmönnum og Hringbrautin tilbaka. Tempóið var rólegt enda bara sunnudagur. Hlupum með Magga til VBL og þaðan áfram á Nesið. Samkvæmt úri Sjúl fórum við 11,1 km - en mig grunar að það hafi klippt burt nokkur horn hér og þar. Einar og Villi kváðust hafa farið 14 km - farið á Klambratúnið og Bergþórugötuna niður í bæ og þá leið út á Nes aftur. Komu hálftíma á eftir okkur Sjúl til Laugar.
Tekið vel á því á sunnnudegi - nú hlakka menn til þess að komast í átakahlaup á mánudegi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2008 | 15:02
En hvað með hreinsun stíga?
![]() |
Vorhreinsun gatna í Reykjavík er hafin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2008 | 20:08
Vorið kallaði á mig
Að þessu búnu var hægt að leggja í hann, niður Dunhaga og út á Ægisíðu, þaðan hjólað austur að Kringlumýrarbraut og svo upp Suðurhlíðar og hefðbundið til baka. Það vakti athygli hve fáir voru á ferli í þessu undurfagra veðri - enn er sandur á brautum sem gerir línuskautafólki erfitt um vik að athafna sig og finnst manni alveg tímabært að borgaryfirvöld fari að vakna og hefji vorhreingerningar, því að VORIÐ ER HÉR! Ég gizkaði á að þetta hefði verið ca. 10 km túr - en svona veit maður ekki fyrir víst nema maður eigi Garmin. Ég á ekki Garmin. Bjössi á Garmin. Hann er námfús hlaupari og kokkur, ég fylgdist með aðdáun í gær þegar hann hlýddi á útskýringar Benna. Og hugsaði sem svo: úr því Björn getur lært þetta, get ég þá ekki líka lært á Garmin? Eiginlega er þetta alveg ómissandi tæki. Annars veit maður ekki hversu langt er farið, hversu hratt, púls og annað sem máli skiptir. Kannski maður fari að horfa í kringum sig...
Þó verður að segjast eins og er að það var örlítið kalt í dag og hálfgert gluggaveður. En hjólið mælist þegar kemur að því að skrá í hlaupadagbókina, sem ég vona að allir muni eftir. Kveðjur eru sendar frá Kína, Birgir fór út að borða og var tekin mynd af honum við það tækifæri og send upp á skerið.
Bloggar | Breytt 16.3.2008 kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2008 | 23:07
Óheiðarlegur blómasali tekur á rás
Föstudagur, veður fagurt, gerist ekki betra, himinn heiður, vindur hægur, hiti 5 gráður. Menn voru enn ýrir af gleði yfir afmæli félaga okkar, Gísla Ragnarssonar, rektors Ármúlaakademíunnar, en hann fyllir sjötta áratuginn um þessar mundir, en ber aldurinn vel, er vel ern, les sjálfur og hefur fótavist, en þarf aðstoð við að klæða sig. Mættir: Þorvaldur, Helmut, Einar blómasali (mættur 16:2o), Kári, Bjössi, Brynja, dr. Jóhanna, Rúna, Denni, ritari, - þannig að það vantaði lykilpersónur, Magnús, Villa, próf. Fróða o.fl.
Menn voru einbeittir (ég skil ekki af hverju ég gleymi að nefna Benedikt) - Benedikt var á plani og leiðbeindi Bjössa um notkun Garmin 305 - blómasalinn kom blaðskellandi og tranaði sér inn í umæðuna með sína 101 útgáfu af Garmin sem styðst ekki einu sinni við gervitungl. Þarna stóðum við meðan Bensi fræddi Bjössa um stillingar, og aðrir voru farnir af stað. Ég lagði í hann og horfði á eftir Helmut, Jóhönnu, Þorvaldi og Kára - en sú uppstilling átti eftir að breytast. Á Ægisíðu heyrði ég fnæs að baki mér og tipl fóta - það voru Benni og Bjössi þegar þeir tóku fram úr mér. Áfallið kom hins vegar við flugvöllinn - og var þó farið hratt tempó - þá heyrði ég gamalkunnugt tipl - nei þetta getur ekki verið að gerast! Jú, blómasalinn kom skeiðandi fram úr mér og slóst í för með fremstu hlalupurum, Benna, Bjössa, Helmut og dr. Jóhönnu, og hélt í við mannskapinn, þrátt fyrir að hafa "gleymt" að borða í hádeginu, aftur.
Ég fékk félagsskap af Þorvaldi, við fórum hefðbundið, um Öskjuhlíð, um Veðurstofuhálendið, Hlíðar, Klambra, Hlemm, Sæbraut og þannig tilbaka, nema hvað Þorvaldur stytti um Laugaveg, ég fór fulla 11,5 km. Þar var reynt ítrekað að keyra á okkur, en við lifðum af. Hitti Denna við Kristskirkju, hann var lerkaður eftir Poweradehlaup í gærkvöldi og saman skeiðuðum við niður Hofsvallagötu. Denni upplýsti að hann hefði borgað 200 kr. þátttökugjald í hlaupinu, en væri á móti með boð upp á snittur og drykki í boði Powerade um kvöldið. Blómasalinn varð dularfullur á svipinn er hann heyrði þetta.
Í Brottfararsal voru helztu hlauparar dagsins og teygðu - engar skýringar fengust á frammistöðu blómasala, hann át ekki í hádeginu, en teigaði í sig orkudrykk fyrir hlaup. Við söknuðum ýmissa góðra hlaupara, svo sem próf. Fróða, Magnúsar, dr. Friðriks o. fl. Síðar kom í ljós að próf. Fróði komst ekki til hlaupa vegna mikilvægra starfa í þágu Lýðveldisins.
Í potti var legið um stund og kom í ljós að flestir hlauparar eru á leið til Akureyris, sem er bær norðarllega á Íslandi og tapaði í kvöld keppni menntaskólanema um um þekkingu. Mættur Vilhjálmur eftir að hafa hlaupið kringum flugvöllinn, en missti af okkur hinum vegna seinnar komu. Hann var bara rólegur og staldraði við góða stund og hélt uppi vitrænum standard á samræðunum.
Í gvuðs friði, ritari.
Bloggar | Breytt 15.3.2008 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2008 | 15:52
Nafnlausar sögur af hlaupum
Svofelldlega hefur um verið rætt á rafrausi í tilefni hlaupa:
Enn er hlaupið.
Bezti hlaupadagur ársins í gær. Hægur sunnan, hlýtt. Mæting ágæt, en menn litu hver á annan, þegar í ljós kom, að suma hávaðasama félagsmenn vantaði til hlaups. Svo sem ekkert sérstakir hlauparar, en ágætir í félagslegu tilliti. Einhverjum varð á orði, að hópferð til Kanarí á vegum Félags eldir borgara í Reykjavík, kynni að skýra fjarveru sumra. Athugasemdin vakti undrunarsvip, en enginn virtist hafa neitt við þetta að bæta. Aðrir kunna að vera uppteknir í dómsal við þingfestingar.
Ágúst er að komast í fyrra horf, og hljóp all duglega, var í fararbroddi ásamt lærisveini. Þorvaldur og tannlæknir Magnús styttu um Bogahlíð og þóttust góðir, komust fremst, en Ágúst urraði upp úr eins manns hljóði; "þarna er Magnúsi rétt lýst, og hann hefur platað Þorvald með sér, þetta hefði hann ekki átt að reyna". Ég skeiðaði hljóður með Meistara mínum, enda ekki mitt að hugsa, heldur að hlaupa. Að sjálfsögðu náðum við þeim á miðjum Rauðarárstíg. Magnús reyndi að slá á létta strengi, til að þynna aðeins skap Ágústar. Það misfórst algjörlega. Hlupu menn þó sæmilega sáttir, hver á sínu tempói það sem eftir lifði, en hljóður var hópurinn. (Um hlaup 16.2. 2008).Og enn þetta mánudaginn 19. feb. 2008:
Mánudagssprettur og Den forsvundne fulmægtig.
Nú háttar þannig til í Vesturbænum að vindurinn fer aðeins í eina átt í einu, svona oftast. Svo háttaði til í kvöld, þegar afar þéttur hópur var saman komin í anddyri VBL. Vil ég geta þess sérstaklega í upphafi að blik í augum stefnanda vakti strax athygli mína. Það var í þeim fastur ásetningur. Eitthvað stórt í uppsiglingu. Djarfur maður í hópnum mætti til hlaupa í stuttbrókum. Hugsuðu ýmsir sitt, en enginn sagði neitt. Hann var ekki með fyrstu mönnum aftur til laugar, og þótti víst einhverjum Snorrabúð stekkur. Norsk kona var sögð hafa slæðst í hópinn, lyfjafræðingur. Engum sögum fer af henni.
Tungli náð á tröppum og skemmst frá að segja að karlar og konur, sem eigi voru ófáar, hlupu með bros á vör mót suðaustan. Sem fyrr óhlýðnuðustu sumir ströngum fyrirmælum þjálfara; settu í yfirgír strax á Suðurgötu og sást sá ágæti maður vart meir. Framhaldsskólakennari sagðist hafa orðið var við það þegar sá óhlýðni geystist fram úr honum. Ekki það að hann hefði séð hann, heldur heyrði hann þytinn. Menn í potti, eftir hlaup, settu upp spurnarsvip við þessi tíðindi.
En kona ein ágæt, þýðversk að þjóðerni, gerði hvað hún gat að halda í við manninn þann. Tókst það bærilega. Hún dró hann uppi á miðri Ægisíðu, en hann hafði þá reyndar staðið þar og beðið, og var orðinn hálfkaldur þegar hún kom. Mátti hann síðan elta hana á "tiempo forte" út að Lindarbraut. Þau skiptust ekki á orðum fyrr en þangað var komið, enda taka þau hlaupin alvarlega, sem ekki verður þó sagt um alla. Eftir að yfir ásinn var komið og hillti undir Rekagranda, sést létthlaupandi maður framundan. Fjaðurmagnaður stíll, afslappaður. Nú, það er ekkert með það að utansveitarmaður reyndist þarna á ferð, ekki sérlega hraður í skrefinu, og alls ekki eins hranalegur og margur hefur fram haldið. En hann hljóp á táberginu, og slíkt er náttúrulega ekki boðlegt langhlaupara. Var honum bent á það. Eftir hlaup spurðust menn fyrir um skipakomur frá Kanarí, þaðan hefur ekki komið svo mikið sem eitt einasta bréf. Ég mun senda fyrirspurn á Klörubar, á morgun, hvort þar hafi nokkuð sést til "Den forsvundne fulmægtig".
Ritari meiddur. Í gvuðs friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2007 | 20:56
Sensitive Plant
Mér varð hugsað til þess hvort einhverjir Íslendingar hefðu náð í miða á tónleikana - gaman að Óli Palli komst inn. Hann verðskuldaði það.
Ég hafði efasemdir um að þetta gengi upp hjá þeim, virtist á Un-Ledded konsertinum að Page réði ekki lengur við rafmagnsgítarinn - það voru greinilega óþarfa áhyggjur ef marka má myndbrotin frá tónleikunum sem birt hafa verið.
Ég keypti miða á tónleika Plants í Laugardalshöllinni í apríl 2005, fyrir mig og 13 ára son minn og 17 ára dóttur mína. Þau hafa ótilneydd tileinkað sér ást á tónlist Led Zeppelin. Daginn sem tónleikarnir fóru fram gengum við í bæinn og hvað sáum við þar: sjálfastan Plant á rölti um Laugaveginn. Við vorum ekkert að ónáða goðið, en snerum við og römbuðum svo á hann í verzluninni Dogma, þar sem hann var hálfgert í felum fyrir menntaskólakrökkum sem höfðu uppgötvað hann. Hann skoðaði boli og við leituðum í paník að bréfmiða og penna til þess að biðja um eiginhandaráritun. Sonurinn var sendur fram til hans - og Robert brást vel við, spurði hann að nafni: Gunnar - ég get skrifað það, er það með einu eða tveimur n-um?
Á leiðinni heim sagði drengurinn: Þetta er einhver bezti dagur í lífi mínu! Um kvöldið var svo farið á konsertinn. Pabbinn var með þrettán ára klumpinn á öxlunum allt kvöldið svo að hann sæi það sem fram fór á sviðinu. En tók að sama skapi fullan þátt i gleðinni með öskrum og hoppum. Drengurinn fór lítillega hjá sér og sagði: pabbi, er ekki ástæða til að róa sig? En ég sagði: Gunnar, þetta eru rokktónleikar sem þú átt aldrei eftir að upplifa aðra eins aftur! Hér gildir að vera með!
Það var ekki þurr þráður á kroppi þessa hlaupara þegar út var komið.
Mér verður stundum hugsað til þess hvort Íslendingar hafi endurgoldið vináttuna sem þeim var sýnd þegar þessi mesta rokkhljómsveit sögunnar samdi lag um veruna á Íslandi: Come from the land of the ice and snow, from the midnight sun, where the hot springs blow, o.s.frv. Það hefur satt að segja stundum hvarflað að mér hvort ekki hafi verið ástæða til þess að sýna þakklæti okkar í verki með viðurkenningu af einhverju tagi, t.d. á Bessastöðum. En kannski er þetta bara ofstæki í brjáluðum og óforbetranlegum Zeppelinmanni.
![]() |
Flottasti söngvari rokksögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2007 | 23:51
"Ég hef alltaf rétt fyrir mér!" - af Berlínarhlaupi
Það hvarflaði að ritara að hlaup væri ekki góð hugmynd er hann sté út af vinnustað sínum í dag og fékk í fangið austanstrenginn og fann kuldann nísta merg og bein. En hlauparar eru haldnir einhverri sjálfskvalafýsn, mér lék forvitni á að vita hvaða vitleysingar myndu mæta í kvöld til hlaupa, og hverjir ekki. Það hefur nefnilega verið regla í Samtökum Vorum að þeim mun verra sem veðrið er - þeim mun fleiri mæta til hlaupa. Mér var það ofarlega í huga hvort þessi regla væri enn í almennu gildi.
Mæting olli ekki vonbrigðum, á annan tug hlaupara mættu, of margir til þess maður nenni að telja þá alla upp, en þessir mættu ekki: próf. Fróði, Flosi (ja, hann er eiginlega afsakaður, nýskorinn maðurinn), Magnús, Sjúl, Vilhjálmur og Ó. Þorsteinsson. Vart þarf að taka fram að dr. Baldur Símonarson er undanþeginn hlaupaskyldu og nærveru hans aðeins krafist á sunnudögum. Á mánudögum er hlaupið með þjálfara og dáist ég í hvert sinn er þjálfarinn dúkkar upp að fórnfýsi og trú á breyska mannskepnuna, óvíða sér maður slíka ódrepandi trú á jafn vonlausu samsafni metnaðarlausra, miðaldra karlmanna sem nota hvert tækifæri til þess að hlífa sér, stytta, fara hægar, sleppa þéttingum, og þannig mætti áfram telja. Nei, þeir gefast ekki upp. Hlaupa fram og tilbaka blindgötuna, elta uppi lúsera sem fara hægt, hvetja þá áfram og láta finna að fylgst er með öllum.
Svo sem menn hafa væntanlega tekið eftir var vitlaust veður í dag, spáð 25 m/sek og kalt. Var því ákveðið að fara öfugan, hefðbundinn föstudag: oní bæ, upp Bankastræti, Laugaveg, inn á Rauðarárstíg og svo um Klambra og þannig tilbaka með vindinn í bakið. Eins og menn vita erum við blómasalinn að koma úr langferð um framandi lönd, óhlaupnir með öllu s.l. viku, illa þungir og slappir sökum ólifnaðar. Af þeim sökum fórum við okkur hægt í þetta skiptið, héldum okkur við hlaupafélaga sem töldu sig sæmda af því að fara með okkur, þar í hópi voru Kalli, Jörundur og dr. Friðrik. En þrátt fyrir að hægt væri farið kom þjálfarinn alltaf öðru hverju að athuga með okkur og passa að við værum ekki að svindla. Þannig fylgdum við hópnum nokkurn veginn, en við Hringbraut splundraðist hópurinn, þau fremstu komust yfir, en við sem forðumst óðagotið, biðum eftir grænu ljósi. Sáum þau hverfa.
Af þessum sökum varð uppi nokkur óvissa um framhaldið, enda hafði ræða þjálfarans að mestu týnst í hávaðarokinu á Brottfararplani Vesturbæjarlaugar. Og þar með leiðarlýsing. En við djöfluðumst upp Bankastrætið og Laugaveginn, inn á Snorrabraut, snerum þar í suður og hlupum út að Hringbraut. Hér fullyrti Jörundur að hann hefði alltaf á réttu að standa: vitnaði þar til lúpínustofnsins, virkjanamála, veru Bandaríkjahers hér á landi, og loks vaxtar kanínustofns í Vestmannaeyjum sem æti pysjuna. Blómasalinn var alveg til í að véfengja þessa fullyrðingu og heimtaði skýringar, en um það leyti vorum við týndir, lentum í undirgöngum sem hefðu skilað okkur austur á Hellisheiði hefði Kalli ekki verið í hópnum og leiðbeint okkur um hvert bæri að fara til þess að komast á Hlíðarfót.
Þar mættum við þjálfara vorum, og sáum hina hlauparana koma skeiðandi, þeir héldu áfram, og við á eftir, en fórum áfram hægt. Á þessum slóðum var veður skaplegra, vindur ekki jafn ágengur. Á þessum kafla upphófust miklar umræður um þau hlaup sem framundan eru í Hlaupasamtökum Vorum: aðalhlaupið næsta ár er Berlínarmaraþon. Einar blómasali er þegar farinn að undirbúa pöntun gistingar fyrir 40 hlaupara+áhangendur, flug, boð í sendiráðið o.fl. sem nauðsynlegt verður að teljast. Búið er að skipa fararstjórn: Helmut er fararstjóri í krafti sérþekkingar sinnar, faglegur ráðgjafi er Jörundur (eini félagi Hlaupasamtakanna sem hefur hlaupið Berlínarmaraþon), leitað verður eftir að geðlæknir Lýðveldisins verði sérlegur ráðgjafi hlaupsins sökum þekkingar sinnar á staðháttum, blómasalinn verður sérfræðingur aðfanga, ritari annast öll diplómatísk tengsl, og þannig áfram. Reynt verður að nýta þá miklu þekkingu og reynslu er Samtök Vor geta státað af.
Stífur vindur í bakið vestur Ægisíðu, mættum hópi ungra Valsara sem hrópuðu hvatningarorð til okkar og fannst greinilega mikið til koma að sjá svo gamla menn hreyfa sig. Á Móttökuplani voru nokkrir góðir hlauparar og þar var teygt. Spurt hefur verið hvort Fyrsti Föstudagur sé næsta föstudag. Um það þarf að leita úrskurðar próf. Fróða, sem er helzti varðveizlumaður regluhaldsreglna Hlaupasamtakanna og getur einn úrskurðað í erfiðum túlkunarmálum er varða hefðir og reglur, og búið til nýjar þegar svo ber undir og nauðsyn krefur. Er þessu erfiða álitamáli hér með skotið til hans óskeikula vísdóms. Einnig rætt um Flórídaferð þeirra Helmuts og dr. Jóhönnu, en þau fara í næstu viku og verða yfir jól. Um sama leyti munum vér endurheimtan hafa úr Franz Kára hinn margvísa og verður það mikill hvalreki fyrir Samtök Vor (enn og aftur tek ég fram að hér er á engan hátt sneitt að fýsískri birtingarmynd félaga vors og frábið mér athugasemdir þar að lútandi!). En jól sækja óneitanlega að og víst að margir eru uppteknir af jólaboðum og annarri óreglu. Í Móttökusal lá Björn kokkur og viðhafði aðdáunarverða viðleitni til þess að byggja upp skrokk sinn: tók m.a. magaæfingar þær sem próf. Fróði mælti með að ritari tæki hafandi horft á belginn á honum eftir e-a utanlandsferðina. Hér hentu sér niður blómasali og ritari og hófu að byggja líkami sína með magaæfingum. Þá varð einhverjum á orði (ég ætla ekki að segja hver, það gæti eyðilagt Flórídaferðina): "Já, Ágúst er nú sjálfur orðinn svoldið feitur, héld hann mætti aðeins bæta við magaæfingarnar."
Legið vana samkvæmt í potti, rætt um byggingaframkvæmdir á Neshaga og Kvisthaga, framkvæmdaaðili var spurður hvort Ó. Þorsteinsson hefði ekki haft samband. "Já, heitir hann Ó. Þorsteinsson, jú, hann hafði samband." Um bruna í Vogum, og annað uppbyggilegt. Það var eiginlegt of kalt til þess að vera í barnapotti, og mann hryllti við að fara upp úr og í útiklefa til þess að klæðast. En allt hafðist það og á endanum var steðjað til móts við verkefni kvöldsins: tengja vask í nýju eldhúsi ritara.
Næst er æfing á miðvikudag kl. 17:30 - þá er þjálfari Rúnar Reynisson, sem er einn harður nagli, en umburðarlyndur og sér í gegnum fingur sér með veikleika hlaupara eins og ritara og blómasala. Vel mætt, í gvuðs friði. Ritari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2007 | 21:58
Frábært hlaup á Nesi
Svo sem fram kom í pistli gærdagsins var lokað í Vesturbæjarlaug í dag frá kl. 13:00 vegna starfsdags, og því voru góð ráð ódýr: lá beint við að steðja á Nesið í faðm vina og velunnara sem þar fylla flokka trimmara á Nesi og kalla sig Trimmklúbb Seltjarnarness, þangað áttum við heimboð frá föstudegi, raunar frá sjálfum formanninum, Friðbirni. Óhjákvæmilegt er að láta þess getið að þegar Friðbjörn upplýsti að hann væri formaður flokksins, spurði ritari forviða: Er ekki Jóhanna formaður? Nei, ég var kosinn formaður á seinasta aðalfundi. Kosinn? spurði ritari aldeilis hlessa. Hjá okkur þekkist slíkt ekki. Þar verða menn formenn og halda embætti meðan öndin blaktir í vitum þeirra.
Það kallar á mikla hæfileika að rata frá inngangi og að afgreiðslu í Neslaug vegna framkvæmda sem þar standa yfir. Ekki leit vel út með þátttöku framan af, aðeins ritari og Björn kokkur mættir. Við Björn áttum kyrrlátt spjall um ýmsar náttúrur, m.a. hina ótrúlegu umbreytingu sem orðin er á Guðmundi, stundum nefndum "hinum sterka" og vorum við sammála um að ýmsir félagar í blómasölubransanum mættu taka hann sér til fyrirmyndar. Svo rættist úr og kunnugleg andlit streymdu inn, tilheyrandi Magnúsi, Þorvaldi, Benedikt, Einari blómasala, Kalla kokki og, loks birtist sjálfur Ó. Þorsteinsson sem að óbreyttu hlýtur að teljast óliklegastur manna til að hlaupa í öðru sveitarfélagi. Við hittum Denna og Kristján á Nesi, og einhverja fleiri hlaupara og var tjáð að við yrðum að fara upp að skóla þar sem fram færi upphitun. Þangað komum við í einfaldri röð skokkandi, og hlýtur að hafa verið afar tilkomumikil sýn, sérílagi þar sem á flötinni við skólann voru aðallega konur, og svo nokkrir eldri herramenn. Þar bar ég kennsl á Guðrúnu Geirs, Jóhönnu Einars, Friðbjörn, Sæmund og Hauk Sigurðss., en þekkti ekki fleiri. Var okkur fagnað með lófataki og boðið að taka þátt í upphitun, sem við þáðum með þökkum og gerðum okkar bezta til þess að finna rétt tempó - en ef satt skal segja eru æfingar af þessu tagi ekki okkar sterkasta hlið.
Að upphitun lokinni var lagt af stað og gefin út lína um það að farið yrði í flokkum, og farið mislangt, gefnir upp ýmsir valkostir, það átti að fara austur úr, sumir máttu snúa við á Hofsvallagötu, aðrir Suðurgötu, og þannig áfram, Hlíðarfót eða Öskjuhlíð, allt eftir smekk. Ég var ótrúlega vel stemmdur fyrir hlaup - en líklega fullmikið klæddur, í Balaklövu og flíspeysu, því þegar út var komið og af stað farið fann ég að ekki var eins kalt í veðri og ég áleit fyrst. Var á báðum áttum framan af hvað ég ætti að fara langt eða hversu hratt. Líklega hefur verið farið fullhratt út og ég fann að ég myndi ekki halda í við fremstu hlaupara sem voru býsna frískir. Rætt um árangur Eiríks okkar í New York maraþoni - ég spurði TKS-fólk hvort þau hefðu átt fulltrúa í því hlaupi, en svo var ekki. Það er farið að dimma mjög þessi missirin og því eins gott að vera vel sýnilegur, í endurskinsfatnaði, og þannig voru margir í kvöld.
Þegar á reyndi var veður hið bezta, mátulega svalt, hægur vindur þrátt fyrir ljótar spár, þannig að hlaupið reyndist á við ljúffengustu máltíð - um þetta var full samstaða að hlaupi loknu. Hvað um það ég skeiðaði beittur, og líklega allt of hratt með mönnum eins og Benedikt og Þorvaldi, og trúlega höfum við haldið hópinn nokkuð þétt út að Ægisíðu, þá fór að draga í sundur með fólki. Á þessum punkti var ég kominn í félagsskap við fólk af Nesi, Denna, Kristján og unga konu sem ég kann ekki nafnið á. Og við héldum hópinn það er eftir lifði hlaups, fórum austur úr inn í Nauthólsvík, og þaðan um Hlíðarfót, um lendur Kristsmanna Krossmanna, og svo aftur vestur úr. Ekki héld ég að tal hafi fallið niður eina mínútu alla þessa leið, og minnir Denni um margt á Bigga, nema hvað hann talar í eðlilegri tónhæð.
Á þessum tímapunkti var m.a. rætt um árshátíðir, upplýst að TKS er með árshátíð ár hvert í febrúar, í golfskálanum á Nesi. Var ýjað að því að félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins væru velkomnir á árshátíðir Nesverja ef áhugi væri fyrir hendi. Bíður það staðfestingar formanns - enda eru félagar Hlaupasamtakanna mjög trúir sínum formanni, og vænta þess að TKS-fólk sé sama sinnis gagnvart sínum formanni.
Það er svolítið skrýtið með hlaup, að eftir því sem hlauparar hitna upp, auka þeir hraðann og bæta í. Þannig var það í þessum fjögurra manna hópi sem þessi hlaupari hljóp með í kvöld, það var gefið í á Hringbraut og farið býsna greitt. Denni allur að eflast og koma til, farinn að hlaupa mun hraðar en maður hefur mátt venjast og hálfvegis farinn að verða til vandræða. Enn og aftur óskaði ég þess að hafa blómasalann við hlið mér sem alltaf er skynsamur á hlaupum og fer ekki hraðar en svo að fólki líður vel á meðan það hleypur. Svo var tilhugsunin um það að við Háskólann var ekki stutt í mark, nei, við þurftum að skáskjóta okkur hjá VBL og halda áfram vestur úr, það var erfitt.
Á Nesi hittum við blómasalann niðurbrotinn, hann hafði aftur fengið í bakið, þrátt fyrir gott hlaup í gær, miklar teygjur og beygjur, en þær höfðu greinilega vakið falsvon. Hann var beygður maður og stutt í krók. Jafnframt mættum við Ó. Þorsteinssyni - sem var öllu brattari, og bara ánægður með hlaup, hafði farið fulla porsjón, um hlaðið hjá Kristsmönnum og þaðan tilbaka. Ég sagði honum tvær sögur. Önnur var af týndum bíllykli. Svo var mál með vexti að ritari týndi bíllykli á leið til Brussel, og uppgötvaði það ekki fyrr en hann kom heim. Svo að lykillinn gat verið einhvers staðar á leiðinni: ráðuneyti-KEF-flugvél-Kastrup-SASvél-Zaventem-lest-hótel-leigubíll-Zaventem-SASvél-Kastrup-KEF... o.s.frv. Byrjaði að senda út tölvupósta - og fékk eðlilega engin svör, nema frá hótelbókunarkeðju. Nema hvað, næst þegar ég fer um Leifsstöð ráfa ég að móttöku lögreglu og spyr hvort þeir hafi fundið bíllykil sem... Já, ert þú ekki í e-u ráðuneyti... Við fengum fyrirspurn frá þér og svöruðum, en Stjórnarráðið er með svo öfluga vírusvörn að m.a.s. lögreglan kemst ekki gegn með svarpóst! Þeir voru með lykilinn minn.
Hin sagan laut að því er ég sat um daginn á Radisson SAS Scandinavia ásamt fyrrv. yfirmanni mínum, Birni Bjarnasyni, og Halldóri Grönvold hjá ASÍ og við áttum gott spjall um landsins gagn og nauðsynjar. Einhvern tíma hefur leðurveski mitt runnið úr jakkavasa mínum, sem er við jakkalafið, Boss-veski sem ektafrú mín gaf mér og er því hlaðið tilfinningalegri investeringu, en hafði ekki að geyma nema tiltölulega fánýta hluti. Jafnskjótt og ég uppgötvaði missinn, heim kominn, sendi ég tölvupóst á Radisson SAS og spurði hvort þeir hefðu fundið veskið. Þeir spurðu á móti á hvaða hóteli ég hefði verið - ég nefndi Scandinavia. Og viti menn! Stuttu síðar fékk ég póst um að ekki einasta hefðu þeir fundið veskið, þeir myndu póstleggja það daginn eftir! Þetta kallar maður þjónustu! Oftar en ekki hefur maður vanist því að fá engin svör við fyrirspurnum sínum.
En þetta var svona útúrdúr, og aðallega settur inn í þeim tilgangi að hvetja fólk til þess að láta einskis ófreistað til þess að endurheimta glataða hluti. Það er fullur poki af glötuðum bíllyklum hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli sem bíða þess að eigendurnir sækja þá. Það kostar 25 þús. kall að láta gera nýja lykla! Önnur sólskinssaga: ég tapaði veski inni á Louvre-safninu í París fyrir tveimur árum, sem ég taldi að ég myndi aldrei endurheimta. Kom tveimur dögum síðar - og viti menn! Enn og aftur hafði einhver skilvís meðborgari komið því í deildina sem varðveitir muni er hafa glatast. Þannig er þetta bara! Aldrei að gefast upp.
Jæja, við mættum aftur til Laugar, og þar var þjálfarinn og leiðbeindi um teygjur, þar voru Björn kokkur, Benedikt, Denni, Kristján o.fl. Í potti bað ég Björn að segja aftur söguna af hásetanum ófótvissa, sem var að smyrja sér samloku með hangikjöti og ítölsku salati þegar reið yfir alda, og það næsta sem Björn sá var samloka sem lak niður tölvuskjáinn í næsta herbergi, og Stefán háseti bograndi undir tölvuborði, í því sama herbergi. "Stefán minn, nú þarft þú að fara að læra stíga ölduna" sagði Björn við þennan óheppna félaga sinn. Góð saga. Gott hlaup, enn einn góður hlaupadagurinn. Okkur var sagt að koma sem oftast til hlaupa á Nesi, og er næsta víst að við munum aftur láta reyna á gestrisni félaga vorra í vestrinu. Næst er miðvikudagshlaup frá Vesturbæjarlaug, vel mætt. Ritari.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2007 | 22:29
Flanir að Laugum
Ef einhver hefur efast um að frændi minn og vinur, Ó. Þorsteinsson, væri persónufróðastur Íslendinga nú um stundir þá hljóta þær efasemdir að hafa rokið út um gluggann í þessu hlaupi. Ekki mátti minnast á þjóðþekktan Íslending öðruvísi en að nafni minn nefndi kvonfang, börn, foreldra, og svo að segja öll skyldmenni með það sama. Var engu líkara en óminnishegri hefði hafið sig til flugs upp af höfði hans miðað við tvo síðustu sunnudaga, þegar VB kom með afar snúnar vísbendingaspurningar um fólk og tengsl þess sem ekki var nokkur leið að ráða fram úr. Í þetta skiptið snerist spilið við, nú kom frændi með svör við öllum vangaveltum og tengingar í allar áttir. Að vísu kom engin vísbendingaspurning, en þær eru líka sérsvið Vilhjálms og allt í lagi að hvíla sig á þeim meðan hann er fjarri.
Það rigndi eins og á föstudag. Guðmundur hafði fréttir af laugardagshlaupi, sagði þar hafa verið fjölda þátttakenda, einkum kvenna, og farið hefði verð langt og hratt.
Ég fór rólega út með þeim Ólafi Þorsteinssyni og Einari blómasala. Einar er á leið til Ameríku og hleypur lítið næstu vikuna. Fer til Boston þar sem hann vonast til að ná fundum dr. Gunnlaugs Péturs, stórhlaupara. Ólafur er á batavegi eftir slæmsku í fótum sem hefur hamlað hlaupum upp á síðkastið, hann hefur aðeins farið stuttar vegalengdir, og hálfhaltrandi. Nú er hann undir nuddarahendi og stefnir allt í rétta átt. Mættum þjóðþekktum lögmanni og mátti engu muna að Ólafur felldi niður hlaup til þess að eiga við langt spjall.
Vitanlega var rætt um sviptingar í borgarstjórn, þátt manna og flokka og sýndist sitt hverjum. Engin ein lína var lögð, en vísað til viðtals við talsmanns Samtakanna í Útvarpi Sögu í fyrramálið. Hins vegar hafði frændi minn það fram að færa að fyrir mann af hans kalíber, vaskeægte Reykvíking í kynslóðir, sem fyllist kvíða við það eitt að ferðast austur fyrir Snorrabraut, væru átök innan Borgarstjórnar under sygekassegrænsen, nánast fullkomið niederlag. Hann eyddi gærkvöldinu með Framsóknarmönnum og fullyrti að þeir stæðu keikir með sínum manni, Birni Inga. Þeir sem þekkja hann, vita að þegar vel liggur á honum og mikið liggur við talar hann gjarnan dönsku, og á sunnudögum er honum sérleg þægð í að tala gamla kúgaratungumálið; en þegar stórtíðindi eins og þau sem nú eru uppi rekur á fjörur vorar má ekki minna en sletta þýzku í bland. Því er það nauðsynlegt hlaupurum að hafa þekkingu á tungum til þess að geta tekið þátt í hlaupum með árangri.
Eins og á föstudag fór að rigna. Það rigndi mikið. Í Nauthólsvík hélt Magnús áfram, honum var kalt. Aðrir stöldruðu við. Ó. Þorsteinsson hélt mikla skammarræðu yfir þeim sem fremstir höfðu farið og spurði hvort þeim lægi lífið við, að hlaupa eins og vitleysingar á allt of miklum hraða. Menn horfðu skömmustulegir hver á annan og höfðu engin svör. Svo sneru þeir við, blómasalinn og Ólafur - en aðrir héldu áfram. Þrír fóru Veðurstofuhálendið, Guðmundur, Þorvaldur og ritari. Hér upphófust mjög fróðlegar umræður um orkumál, upplýst að knýja mætti bíla með þrýstilofti og væri mun raunhæfari kostur en vetni. Þetta hefði m.a. verið reynt í Suður-Afríku og á Indlandi.
Það bætti í rigninguna og stefndi í sama veður og á föstudag. Við fórum hefðbundna sunnudagsleið án þess að stoppa, við óttuðumst kælinguna. Af þessum sökum, og vegna norðanáttarinnar, fórum við Laugaveg og höfðum þetta stutt. En það var sami hraðinn á Þorvaldi og á föstudag, en hann var vðráðanlegur. Það var yndislegt að hlaupa í þessari rigningu og gott að koma tilbaka til Laugar.
Ölhópurinn fór út 9:30, hljóp upp að Árbæjarstíbblu, 20 km, og af honum mættu þeir Gísli og Jörundur til potts. Jörundur heimtaði að verða skráður með viðurnefnið Lúpínu-Jörundur, hann gældi við þá hugmynd að kaupa hús Hákarla-Jörundar í Hrísey og verða sérvitur einbúi þar án tengsla við umhverfið; Gísli sagðist vera að velta fyrir sér að kaupa Uppsali í Selárdal og setjast að þar og verða einrænn, hverfa frá ys og þys hversdagsins. Setið að potti í klukkustund og haldið áfram að greina ástand mála í Lýðveldinu. Mikil persónufræði af hálfu frænda míns, en sjálfum mér til hróss get ég sagt að ég gat bætt í ýmsar gloppur sem voru á þekkingu manna á helztu ættum í landinu. Rætt um nám fullorðinna, prófatökur, doktorspróf, einkunnagjöf - m.a. var dr. Baldur Símonarson spurður hvort einhver tilgangur gæti verið með því að fullorðnir menn setjist á skólabekk, greinileg sneið til Ó. Þorsteinssonar sem setzt hefur aftur á skólabekk á gamals aldri. En Baldur kom á óvart með því að segja að margt gott gæti almennt leitt af því að menn hæfu nám að nýju, nám skemmdi engan eða meiddi.
Einhvers staðar djúpt í persónufræðinni barst talið að Laugum í Reykjadal, einhverju fegursta bæjarstæði sem fyrirfinnst nyrðra, og voru menn sammála um að það væru sannkallaðar Flanir, samfelld gróskuflæmi.
Þessi hlaupari er allur að koma til og taka gleði sína á ný, búinn að endurheimta eldhús sitt að mestu og getur farið að galdra fram dýrindis máltíðir innan skamms. Verður svo vonandi á morgun, að afloknu árangursríku hlaupi. Vel mætt! Ritari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)