Varastöð: Nesið

Það var komið að lokuðum dyrum á Vesturbæjarlaug í morgun kl. 9:45 - miði á hurð sem upplýsti um bilun. Ég sendi sms á valda einstaklinga og stefndi þeim á Neslaugina, sem er varastöð hlaupara í Hlaupasamtökunum. Þangað mættu fjórir hlauparar: Vilhjálmur, Sjúl, Einar blómasali og Ólafur ritari. Við hittum fyrir hlaupara í TKS sem voru búnir að hlaupa, fara á óguðlegum tíma á sunnudagsmorgnum.

Prófaði nýja Nimbus Gel 9 skó - skó ársins tvö ár í röð. Fann fyrir öfund annarra hlaupara yfir þessum happafeng, sem smellpössuðu og urðu samstundis sem framlengdur hluti af líkama hlauparans. Við lögðum í hann i fremur köldu veðri og norðangjólu. Haldið austur úr og stefnt á hefðbundið. Fyrst gerist það að við mætum Ólafi Þorsteinssyni við Skerjafjörð, hafði hann þá haldið venju sinni að fara fyrr út að hlaupa vegna skuldbindinga heima fyrir. Það var gerður stuttur stanz og menn ræddu málin stuttlega, rifjaðar upp nokkrar gamlar sögur, og svo haldið áfram.

Þá gerist það að við mætum Magnúsi þar sem hann skeiðar á móti okkur. Hafði mætt á réttum tíma í Vesturbæjarlaug og gekk þar inn og aðgætti allar gáttir. Var þá búið að opna laugina. Hann slóst í för með okkur og áfram var hlaupið austur úr. Í Nauthólsvík var staldrað við lengi og sagðar fallegar sögur úr ferðaskrifstofubransanum. Þar náði okkur Geðlæknir Lýðveldisins á reiðhjóli og tóku menn spjall saman og vörpuðu fram tilgátum ýmisslegs eðlis.

Nú héldum við Maggi og Sjúl áfram og vorum farnir að stirðna upp og tók tíma að losa um það á hlaupum. Farinn Hlíðarfótur og hjá Gvuðsmönnum og Hringbrautin tilbaka. Tempóið var rólegt enda bara sunnudagur. Hlupum með Magga til VBL og þaðan áfram á Nesið. Samkvæmt úri Sjúl fórum við 11,1 km - en mig grunar að það hafi klippt burt nokkur horn hér og þar. Einar og Villi kváðust hafa farið 14 km - farið á Klambratúnið og Bergþórugötuna niður í bæ og þá leið út á Nes aftur. Komu hálftíma á eftir okkur Sjúl til Laugar.

Tekið vel á því á sunnnudegi - nú hlakka menn til þess að komast í átakahlaup á mánudegi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband