Færsluflokkur: Bloggar
25.7.2008 | 22:42
Hitabylgja
Mönnum blöskraði þegar Bjarni heimtaði að fá að hlaupa ber að ofan vegna hitans. Ekki var minni efi í viðstöddum þegar Þorvaldur mætti í bleikum bol til hlaups. Þetta var ekki gæfulegt svona í upphafi hlaups þegar nokkrir vaskir karlar vildu hlaupa, þessir: Vilhjálmur, Þorvaldur, dr. Karl, Eiríkur, Ólafur ritari, Einar blómasali og Bjarni.
Rætt hafði verið um þétt hlaup með þéttingum á völdum stöðum. Hiti óbærilegur, 24 gráður og logn. Lagt í hann af skyldurækni einni saman og án þess að viðstaddir sættu aðkasti svo um munaði, þó urðu sviptingar í útiklefa milli manna sem hafa áhuga á efnahagsmálum.
Svo sem venja er var stefnan sett á Hefðbundið. Sumir voru framar en aðrir, Eiríkur fremstur á hröðu stími, Bjarni, blómasalinn og ritarinn þar á eftir, og aðrir þar á eftir. Þegar til átti að taka varð lítið úr þéttingum, ritari of þreyttur eftir tempóhlaup fimmtudagsins. Bjarni missti það út úr sér að Ó. Þorsteinsson væri með reisugilli í dag út af nýju háalofti. Menn urðu hálfhvumsa við og rak ekki minni til að hafa fengið boð um að mæta. Bjarni sagði að líklega hefði gengið illa að koma skilaboðum gegnum tölvurnar.
Sæbraut heillaði, en blómasalinn heimtaði Laugaveg þar sem hann taldi að þar yrði eftirspurn eftir myndarlegum hlaupurum. Laugavegurinn var hins vegar pakkaður og urðum við þrír að hlaupa á götunni megnið af leiðinnni. Ekki vildum við missa af reisugillinu, en vorum hissa á að vinur okkar og leiðtogi skyldi láta undir höfuð leggjast að bjóða okkur. Því voru gerð afbrigði. Farið um Austurvöll, þar sem fullt af fólki var að drekka áfengi í stað þess að hlaupa, Suðurgata, og staldrað við í kirkjugarðinum, þar fundum við vatnshana, skoluðum vel af okkur og drukkum. Áfram um Ljósvallagötu, Birkimel, Neshaga, Hjarðarhaga og á Kvisthaga. Þar var furðu hljótt og greinilegt að ef veizla var í gangi, voru veizlugestir afar hljóðlátir. Sannleikurinn var beizkur og rann upp fyrir okkur þegar Bjarni barði að dyrum og enginn svaraði. Ég var því feginn að Vilhjálmur var ekki með í för er hér var komið, hann hefði orðið æfur!
Fórum beygðir til Laugar yfir að hafa látið hafa okkur að fíflum, spurningin var bara: hver laug að hverjum. Var Bjarni að blekkja okkur eða lá eitthvað meira á bak við? Vilhjálmur var með hlutina á hreinu er komið var til Laugar: lýst hafði verið yfir reisugilli í Sunnudagshlaupi næstliðnu og því hafði Bjarni lög að mæla. Hér er skýringa þörf. 11,3 km. Takk fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2008 | 19:56
Tempó á fimmtudegi
Á tímum ráðleysis reynist ritari skárri en enginn - hann kom með tillögu um Föstudag. Þjálfarar hafa aldrei hlaupið Föstudag og því lenti forystukeflið í höndum ritara, hann varð að leiða hópinn áfram og fórst það vel úr... fæti? Án þess að fyrir lægju áætlanir þar um var tekið upp tempóhlaup þegar á Ægisíðu og tempói haldið allt til loka, enda frábærir hlauparar á ferð. Ritari uppgötvaði við flugvöll að hann var í hlutverki Benedikts, hins hljóðláta og einmana hlaupara sem leiddi hópinn og sagði ekki orð. Að baki honum gekk dælan, málæði nokkuð samfellt, en lítið sagt af viti sem ástæða er að halda til haga. Spurt var hvar ætti að fara um Öskjuhlíð. Um Hi-Lux, sagði ritari. Þau voru eitt spurningamerki. Þetta var því lærdómsríkt hlaup fyrir Þjálfara, beygt upp Hi-Lux og ekki slegið af upp brekkuna. Áfram um Kirkjugarð og Veðurstofuhálendi.
Hópurinn fór um Hlíðar og Klambratún og þaðan út á Sæbraut, Björn tók að sér Óðagotsdeildina, æddi yfir umferðarþungar götur og rétt slapp við að vera keyrður niður. Menn sáu að hann myndi spara gistingu í Berlín, honum dygði sjúkrabíll, ef ekki þaðan af verra. Hlaupi lokið á þéttu tempói. Lengd hlaups 11,3 km.
Á morgun er í boði hefðbundinn Föstudagur með þéttingum á fjórum stöðum. Á laugardag er langt og rólegt. Í gvuðs friði, ritari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2008 | 15:33
Æfingaáætlun 10. viku - frá Þjálfara
Æfingarnar
Síðasta vikan af þremur í erfiðri lotu. Síðan kemur róleg vika. Framhaldið verður svo þannig að 8. og 7. verða erfiðar en 6. vika rólegri enda Reykjavíkurmaraþonið í þeirri viku. 5. vikan verður erfið, sú 4. með lengsta hlaupinu 30 35 km og síðan byrja hvíldarvikurnar.
Í þessari viku ættuð þið að taka 5 æfingar jafnvel 6 fyrir þá sem treysta sér. Í æfingaáætluninni er ekki gert ráð fyrir löngu hlaupi heldur er áherslan á hraðaæfingar. Þið sem hafið náð að hlaupa langt sl. vikur ættuð að taka ykkur frí frá löngum hlaupum í þessari viku. Sérstaklega þið sem hlupuð mjög langt í þessari viku, þið verðið að passa að slíta ykkur ekki út! Þið sem hafið ekki verið að hlaupa langt eða viljið endilega hlaupa langt getið tekið æfingu I. Sprettur út og sett langt hlaup þar í staðinn. Bætið alls ekki við vegalengdina. Hlaupið þá vegalengd sem þið hlupuð síðast, styttið helst um 2-4 km. Eins og áður hefur verið sagt takið eina létta æfingu snemma morguns (þið sem hlaupið sex sinum gjarnan tvær). Eins og áður er áætlunin sett þannig fram að æfingunum er raðað eftir mikilvægi en ekki eftir því í hvaða röð á að taka æfingarnar.
Æfingaáætlun
I. Sprettur! 11 - 16 km 3-4 km upphitun, 2 km niðurskokk 6 - 10 km sprettur 4:15 - 4:50 - 5:20 (Takið þessa æfingu út ef þið viljið frekar hlaupa langt 20 24 km ætti að vera hæfilegt jafnvel styttra).
II. Brekkusprettir 7 - 13 km 3 - 5 km upphitun 2 km niðurskokk 2 - 5 km brekkusprettir. 4:15 - 4:30 - 5:15 (10 4 brekkusprettir í Bakkavör).
III. Þétt hlaup 10 km 5:15 - 5:40. Fyrir þá hörðu Fartlek 15 km 3 km upphitun 2 km niðurskokk 10 km Fartlek 4:15 4:30
IV. Rólegt hlaup 8 - 10 km 4:50 - 5:30 - 6:00 (gjarnan morgunhlaup)
V. Rólegt hlaup 8 km 4:50 - 5:30 - 6:00. Fyrir þá hörðu millilangt (15-17 km).
VI. Rólegt hlaup 6 - 10 km 4:50 - 5:30 - 6:00 (gjarnan morgunhlaup)
Meiðsl
Hjá mörgum okkar er líkaminn farinn að finna eitthvað til! Það er allt í lagi svo lengi sem það eru ekki meiðsli sem hrjá okkur. Ef eitthvað er farið að gefa sig takið út hörðu æfingarnar. En reynið að halda inni löngu hlaupunum og tempó. Hlustið vel á líkamann, passið skóna, drekkið og farið ekki svöng í hlaup (nema morgunhlaupin).
Reynsluboltar
Í hlaupahópnum er fullt af fólki sem hefur mikla reynslu af maraþoni og getur gefið góð ráð, bæði um það hvað á að gera en eins um það sem á ekki að gera eða hefur ekki reynst vel. Það er óþarfi að vera sífellt að finna upp hjólið. Sendið hvort öðru póst með spurningum og ráðleggingum eða okkur þjálfurum og við komum þessu í vikupóstinn og prjónum kannski eitthvað við það! Eins ef þið viljið spyrja okkur beint um ráðleggingar endilega sendið okkur póst.
Maraþon
Fyrir venjulegt fólk er maraþon þrekraun. Að hlaupa í 3 til 6 tíma er mjög erfitt líkamlega. Gengið er mjög á líkamann og maraþonið sjálft getur seint talist líkamsrækt. Þess vegna er mjög mikilvægt að undirbúa sig eins vel og maður getur undir átökin. Líkami hlaupara sem hleypur maraþon á 5 tímum verðu næstum því fyrir helmingi meira álagi en líkami hlaupara sem hleypur marþon á 2,5 tímum. Æfingar eiga að stuðla að því að minnka álagið og gera líkamann hæfari að takast á við það álag sem hann verður fyrir. Hugsið vel um mataræðið, drekkið á hlaupunum og ekki keyra ykkur út. Ef þið verðið mjög þreytt sleppið því þá að hlaupa, hvílið ykkur frekar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2008 | 20:35
Næsta porsjón af hlaupaáætlun
Hér kemur æfingaáætlun fyrir næstu viku, þ.e. 11. viku fram að Berlín eða vikan 14.-20. júlí (áætlanirnar munu alltaf byrja á mánudegi).
Æfingarnar
Æfingarnar eru svipaðar og í síðustu viku. Fjórar æfingar fyrir flesta, en má fara upp í fimm (prófið endilega að taka eina létta æfingu, 6-10 km, snemma að morgni á fastandi maga). Við leggjum til að þið takið allavega eina gæðaæfingu í viku. Að taka gæðaæfingu snýst ekki bara um að ná upp meiri hraða heldur einnig t.d. að styrkja sig, auka þolið, hækka mjólkursýruþröskuldinn og fleira. Löngu æfingarnar sem eru númer 1, 2 og 3 þessar vikur verða auðveldari viðfangs þegar teknar eru stífar æfingar öðru hvoru. Ef þið hafið einhverja hugmynd um það á hvaða tíma þið ætlið að hlaupa maraþonið þá getur verið ágætt að hlaupa á þeim hraða inni í löngu hlaupunum. Byrja með 20 - 30 mínútna þéttingum eftir 80 mínútur t.d.
Áætlun
I. Langt og rólegt 23 - 28 km (Hálft 20 - 22 km) (5:00 - 5:45 - 6:30) - Eftir 80 mín 4km (4:20 - 5:00 - 5:30 eða á maraþonhraða og þá aðeins lengra!)
II. Fartlek 12 - 14 km - 3 km upphitun 2 km niðurskokk - 7 - 8 km Fartlek (4:15 - 4:30 - 5:15)
III. Rólegt hlaup 8 - 10 km (4:50 - 5:30 - 6:00)
IV. Langt interval 9 - 11 km - 3 km upphitun 2 km niðurskokk - 4-6x1000m (90s) (3:30 - 4:00 - 4:30)
V. Rólegt hlaup 10 km (4:50 - 5:30 - 6:00)
Upphitun á að vera á svipuðum hraða og í rólegu hlaupunum. Niðurskokk hægar.
Nú er nauðsynlegt að æfa eins reglulega og hægt er
Reynið að halda inni æfingadögunum. Æfingum í áætluninni er raðað eftir mikilvægi. Sleppið frekar þeim sem eru í lokin en þeim í upphafi. Færið samt ekki æfingar á milli vikna. Látið líða viku á milli löngu æfinganna. Ferðalög koma líka oft róti á æfingar. Reynið að fara eins oft út og þið getið þegar þið eru að heiman. Þið þurfið ekki að hlaupa langt, aðalmálið er að hreyfa sig, að hlaupa 5-6 km er betra en ekkert. Kannski væri ekki vitlaust að hlaupa þá hraðar eða snemma á morgnana.
Það er gott að setja sér markmið
Að setja sér tímamarkmið getur verið svolítið erfitt. Eftir hálft maraþon í Reykjavík í ágúst getum við reiknað út hugsanlegan tíma ykkar út frá tímanum þar. Ef þið hafið nú þegar ákveðinn tíma í huga skulið þið reikna út hvað þið þurfið að hlaup km á mörgum mínútum (og sek) (sjá töflu hér að neðan). Til að markmiðið náist þurfið þið að geta hlaupið í dag á þessum hraða í minnst 50 mínútum og í 80 mínútur 6 vikum fyrir maraþonið. Markmiðið getur líka verð bara að komast alla leið sértsaklega fyrir þá sem hafa aldrei hlaupið heilt maraþon áður.
Keppnishlaup
Takið endilega þátt í keppnishlaupum fram að Reykjavíkurmaraþoninu. Það er ákveðin æfing í því að hlaupa keppnishlaup. Einnig er gott að læra að halda aftur að sér og slíkt. Það eru að vísu mjög fá keppnishlaup hér í nágrenninu á þessum tíma. Vatnsmýrahlaupið (7. ágúst) sem er bara 5 km en er skemmtilegt og hægt að nota það sem góða æfingu.
Matur
Passið að borða reglulega yfir daginn. Það er ekki gott að hafa ekki nóg af orku áður en farið er á æfingu eða í keppnishlaup. Líkur á meiðslum aukast og gæði æfinganna verða ekki eins mikil. Einnig að passa þegar æfingarmagnið er orðið mikið að borða strax eftir æfingar til að uppbygging vöðva hefjist sem fyrst. Athugið, ef þið takið morgunæfingar, sem eiga að vera léttar - engin áreynsla, á fastandi maga, að borða strax og þið komið heim - áður en þið farið í sturtu!!
Tímatafla
Klst. - Mín/km - (nákvæmt)
5,00 - 7:05 - (7:07)
4,50 - 6:50 - (6:52)
4,40 - 6:35 - (6:38)
4,30 - 6:20 - (6:24)
4,20 - 6:10 - (6:10)
4,15 - 6:00 -(6:03)
4,10 - 5:55 - (5:55)
4,00 - 5:40 - (5:41)
3,50 - 5:25 - (5:27)
3,45 - 5:20 - (5:20)
3,40 - 5:10 - (5:13)
3,30 - 4:55 - (4:59)
3,20 - 4:40 - (4:44)
3,10 - 4:30 - (4:30)
3,00 - 4:15 - (4:16)
Bloggar | Breytt 16.7.2008 kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2008 | 23:13
Góð endurkoma...
Föstudagur. Fyrsti Föstudagur. Ritari er fjölskyldumaður og setur skyldur við fjölskylduna ofar öllu. Af þeirri ástæðu ók hann syni sínum á Bikarmót í Kebbblavík og systur sinni til flugvallar í sömu ferð. Þess vegna var óljóst um hlaup - hann sendi út aðvörun í pósti og kvaðst hugsanlega geta mætt kl. 17. En vegna hagstæðra skilyrða á Reykjanesbraut kom hann til Laugar rétt um það bil sem Hlauparar voru að leggja í hann; þóttist bera kennsl á Þorvald og Vilhjálm meðal annarra hlaupara. Er hann gekk inn á Móttökuplan mætti hann próf. Fróða. Hann spurði hver ég væri. Ég sagðist verða tilbúinn eftir stutta stund. Fór í útiklefa og klæddist á mettíma, kom út aftur og sá að Planið var tómt. Ég hafði verið yfirgefinn - enn einu sinni. En fyrr um daginn hafði ég sent út skilaboð um að ég myndi ná þeim aftasta og feitasta.
Mér var það mótdrægt að leggja í hann, aleinn, feitur, þungur og óhlaupinn síðustu vikuna. En ekki var undan því vikist að hlaupa. Veður hið ákjósanlegasta, ekki meira um það. Ákvað að freista þess að ná öftustu hlaupurum og fór því af stað á töluverðu tempói, en fann að þetta yrði sennilega of erfitt. Hægði ferðina og sætti mig við að fara bara hefðbundinn föstudag, það yrði þá bara Bónus að ná hinum hægari hlaupurum. Gerði allt rétt og hélt vel áfram, náði Kára við kirkjugarð og sá Vilhjálm og Þorvald skammt undan. Kári meiddur og skildi ég hann eftir slíkan, áfram um Veðurstofuhálendi. Hitti Villa og Þorvald aftur í Hlíðunum - en skildi líka við þá og hélt áfram um Hlemm og niður á Sæbraut.
Hugleiddi að lengja til þess að ergja próf. Fróða - en ákvað að vera skynsamur og fór um Ægisgötu. Hugsaði sem svo að prófessorinn væri með eintómar blekkingar þegar hann "lengdi" - hann var í rauninni að forðast hækkanir og þar með að gera sér ferðina auðveldari.
Náði félögum mínum við Laug. Þar voru Helmut, dr. Jóhanna, Birgir, Denni, og þeir Friðbjörn og Ólafur Darri af Nesi. Teygt og togað, upplýst að Fyrsti Föstudagur yrði á Verönd að Vallarbraut. Hér voru góð ráð dýr, því að ritari þurfti að úthugsa strategíu til þess að komast til embættisverka. Á endanum varð til brilljant flétta til þess að villa um fyrir heimilisfólki og gera mögulega þátttöku á Nesinu. Spurning hver staða hlaupara er - tæpir þrír mánuðir í Berlín. Ekkert bólar á prógrammi - hver gerir prógramm, þjálfararnir eða Þjálfarinn? Í gvuðs friði. Ritari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2008 | 21:25
Hárgreiðslustaði hér má kalla...
Mönnum varð á orði að það væri einkennilega samsettur hópur hlaupara í dag. Það voru Birgir, Eiríkur, ritari, Þorvaldur, Denni, Rúna, Anna Birna og Elín Soffía skorarformaður - þrír lyfjafræðingar. Vindur blés á vestan, en veður annars gott. Fréttir bárust af því að ónefndir blómasalar hefðu undirbúið brottför úr Borginni upp úr miðjum degi og tekið stefnuna á túndruna þar sem spáð er snjókomu og frosti - en allar spár mæla með því að fólk haldi sig við höfuðborgarsvæðið. Svona skilur maður ekki.
Við vorum þung á okkur eftir langt miðvikudagshlaup, maður hlunkaðist áfram og var ekki viss um að 10 km væru góð hugmynd. En ekki kom til greina að hætta við, það var bara að halda áfram. Eiríkur sprækur og fór á undan okkur. Heitt í veðri og sjóbað æskilegt. Birgir í óþveginni skyrtu svo að menn höfðu tvöfalda ástæðu til að reyna að hlaupa frá honum. Aðrir spakir, en þungir á sér.
Farið hefðbundið um Nauthólsvík og Flanir, lúpínan í blóma, upp Hi-Lux, en engir þéttingar í brekkunni. Farið á rólegum dampi um kirkjugarð, Veðurstofuhálendi og Hlíðar. Rætt um störf unglinga í ýmsum þjónustustofnunum þar sem þeir þurfa að sæta afar dónalegri framkomu eldri borgara.
Ákveðið að fara Laugaveg til þess að gefa vegfarendum kost á að að njóta fagurra fótleggja og íturvaxinna hlaupara. Sprett niður verzlunargötuna á útopnuðu og farið um Austurvöll þar sem var mannmergð að njóta veitinga og hlusta á tónlist. Upp Túngötu - hún var erfið.
Í potti hélt Birgir mikla reiðitölu um hárgreiðslufólk, um hárskurð, hárgreiðslu, hárþvottaefni og hármykingarefni. Sá enga ástæðu fyrir þessu, hefði kliptt hár sitt frá tvítugsaldri og það bara gengið vel.
Bloggar | Breytt 28.6.2008 kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2008 | 22:15
Hugtakaruglingur
Hlaup dagsins var hefðbundið, bæði leið, hraði og umræðuefni. Menning og upplýsing í fyrirrúmi. Hlaupið af list. Sjóbað ekki talin góð hugmynd af þorra hlaupara.
Skipt var um formann í Framsóknarflokki á Plani. Þar var Valgerður Sverrisdóttir og var henni óðara snarað í embættið af Ó. Þosteinssyni með hálf réttindi. Við Flóamenn stóðum hjá gneypir og þögðum, en hugsuðum okkar.
Það var atgervisþurrð í potti, vantaði bæði dr. Baldur og dr. Einar Gunnar, að ekki sé minnst á Vilhjálm Bjarnason. Jörundur mættur eftir hlaup með Öl-hópi. Fregnir af Gísla Ragnarss. - sem er allur að koma til, fer vonandi að láta sjá sig fljótlega.
Bloggar | Breytt 23.6.2008 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2008 | 18:19
Feitur hlaupari í Svíþjóð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2008 | 15:45
Í rangri messu...
Ánægjulegt er að geta sagt frá því að það var hlaupið á þessum Hvítasunnudagsmorgni frá Vesturbæjarlaug. Sem fyrr voru það merkisberar útivistar og hollrar hreyfingar í Vesturbæ Lýðveldisins sem stóðu fyrir viðburðinum, félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, þeir Ól. Þorsteinsson, Þorvaldur, Bjarni, Birgir, Einar blómasali og ritarinn. Veður þolanlegt, blautt og einhver vindur.
Ólafur Þorsteinsson sagði frá mikilli veizlu sem hann sótti s.l. föstudag og haldin til heiðurs Geðlækni Lýðveldisins sextugum. Mikið var um dýrðir og margt þjóðþekktra andlita. Frekari lýsingar á veizluhöldum minntu á efnistökin í Heljarslóðarorrustu.
Ritari allstirður eftir hlaup gærdagsins, en lét sig hafa það að staulast á eftir þeim hinum, sem voru frískir eins og venjulega. Farið hefðbundið um Sólrúnarvelli og austurúr. Mikið var notalegt að geta stoppað í Nauthólsvík og gengið smáspöl. Ólafur Þorsteinsson lýsti yfir því að flugvöllurinn skyldi fluttur, Birgir tók undir með honum. Aðrir voru þessu andvígir og spratt upp hávaðadeila þarna á stígnum um hvort flugvöllurinn fengi að vera eða hvort hann yrði að víkja. Þetta stefndi í vandræði þegar einhver tók upp á að hlaupa af stað og hinir eltu, misklíð gleymdist og menn voru þess í stað sammála um að seint gengi að byggja Nauthól, hinn nýja skemmtistað við ströndina.
Komið í kirkjugarðinn. Þar er hægt að skrúfa frá vatni og drekka. Á hinni hefðbundnu hlaupaleið okkar á sunnudögum eru tveir vatnsfontar - en ekki enn búið að skrúfa frá vatni þótt langt sé liðið á sumar. Þetta er hneyksli og tímabært að Jakob Frímann grípi til sinna ráða sem einhver helzti framfaramaður miðborgarinnar og láti skrúfa frá vatninu. Gengið í garðinum og menn anda að sér angan vorsins og horfa á gróður fara grænkandi.
Haldið áfram og farið hefðbundið um Veðurstofuhálendið, Hlíðar, Hlemm og niður á Sæbraut. Ekki bar neitt til tíðinda á þessum kafla og héldu menn friðinn að kalla. Er kemur að tónlistarhúsi þarf að fara yfir Sæbrautina og hjá Útvarpshúsinu gamla og Seðlabanka vegna framkvæmda við Tónlistarhús. Við gengum langar leiðir og ræddum þjóðþrifamálefni.
Það sást til Flosa í laug og flugu einhverjar glósur um hvaða messu hann hefði sótt á þessum degi, alla vega ekki þá sem Ó. Þorsteinsson stýrði með sínum takmörkuðu réttindum í Nessókn. Mættir dánumenn í potti, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar - og fluttar helztu fréttir.
Næst hlaupið á morgun, annan í hvítasunnu, kl. 10:10.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2008 | 22:17
Þetta var erfitt!
Þetta leit vel út í byrjun, farið mjög rólega af stað, menn í góðum gír, flestir skynsamir í hádegismat, nema Sjúl sem lenti í kínverskum réttum, og svo kollegi hans dr. Guðbrandsson sem missti sig í kökum og tertum um fjögurleytið. Tíðindalítið inn í Nauthólsvík, þar fór hópurinn að tvístrast, einhverjir styttu, en við Sjúl, Ágúst, Jóhanna og Helmut héldum áfram, og Una spottakorn. Helmut fór 69 - við hin upp brekkuna yndislegu inn í Kópavog og hjá Goldfinger. Þetta var eilítið erfitt og ég fór að finna að æfingin á mánudag sat enn í mér. Strákurinn á Hjólinu (Magic) fylgdi okkur eftir og var bara duglegur.
Garmintæki eru merkileg fyrir þær sakir að hvert tæki um sig sýnir sjálfstæða mælingu. Í hlaupinu í kvöld voru Jóhanna, Ágúst og Sjúl með hvert sitt tækið, og ekkert þeirra sýndi sömu mælingu. Tæki Ágústs tók upp á því að hætta að mæla í miðju hlaupi, svo að hann varð að ræsa það á ný, og mæling kvöldsins með öllu ómarktæk.
Við áfram undir Breiðholtsbraut og upp í hverfið, inn í Elliðaárdal og upp að Stíbblu. Þar yfirgaf Jóhanna okkur, Ágúst og Sjúl héldu áfram. Ég gerði mig líklegan til þess að fylgja Jóhönnu, en mætti hrópum og köllum félaga minna, sem kölluðu mig aumingja og lyddu ef ég ætlaði að stytta. Þrátt fyrir mikla þreytu í fótum, og litla kallinn í höfðinu sem var á fullu að öskra: "Hvíldu þig! Hvíld er góð!" - yfirvann ég mótstöðuna með ofurmannlegu, andlegu átaki, og hélt í humátt á eftir þeim félögum. Hugsaði með mér: er þetta skynsamlegt?
Þetta er í sjálfu sér ekki mikil lenging og við fórum létt með þetta. Stöldruðum við í Lauginni, bættum á vatnsforðann, og Ágúst létti á sér. Við vorum ánægðir með það. Áfram niðurúr, vorum í góðum gír. Niðri á Miklubraut fór þreytan að segja til sín og ég fann fyrir þörf til þess að ganga smáspeli, fyrst við brú á Miklubraut, þar næst í Laugardalnum og svo í Borgartúni. En hér kom í ljós hve hinn andlegi styrkur er mikilvægur, því að þótt mér virtist ég vera að ganga fram af sjálfum mér líkamlega, neitaði andinn að gefast upp og við héldum áfram um Skúlagötu, Mýrargötu, upp Ægisgötu og svo á hægu tölti niður Hofsvallagötu og vorum nokkuð ánægðir að ljúka hlaupi um áttaleytið.
Sonur minn, sundkappinn, útskýrði fyrir mér eftir hlaup að sá vandi sem ég hefði upplifað í hlaupinu væri klassískur vandi afreksmanna í íþróttum, að kveða niður litla, neikvæða kallinn sem ávallt hljómaði í eyranum. Gegn þessu væru til margar, þekktar aðferðir og munum vér á næstu vikum kynna hlaupurum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins aðferðir til þess að kveða kallinn í kútinn.
Það var tómlegt í Móttökusal, við Sjúl einir að teygja. Dr. Flúss að fara og próf. Fróði einn í potti. En framundan eru bjartir tímar: Fyrsti Föstudagur að Kaplaskjólsvegi 31 með tilheyrandi flatbökuáti og bjórdrykkju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)