Líklega venst maður hávaðanum

Maður vorkennir sumum. Meira um það seinna.

Veðurblíðan var einstök í Vesturbæ Lýðveldisins þennan sunnudagsmorgun, sól skein í heiði og hitinn skreið bara upp á við, ekki bærðist hár á höfði manna og er hér einkum átt við þá sem hafa hár að það megi bærast, en ekki ónefndra manna sem hafa svo lítið hár að maður spandérar ekki einu sinni sjampói á þá, hvað þá hárnæringu. Mættir sjö vaskir hlauparar til hlaups: Magnús, Bjarni, dr. Friðrik, Einar blómasali, Kári, Birgir og ritari. Menn furðuðu sig á því að einhverjum sæmilega innréttuðum hlaupara skyldi detta í hug að sleppa hlaupi á svona degi, nema vitað var að Jörundur og Gísli eru meiddir, sem að vísu er ekki afsökun í hópi vorum, en skýring. Aðrar fjarvistar óútskýrðar, utan hvað það spurðist út er leið á hlaup að Ó. Þorsteinsson Víkingur væri að undirbúa mikla afmælisveizlu í Austurbæ Lýðveldisins og hefði af þeim sökum neyðst til að sleppa hlaupi.

Það voru miklir gleðimenn sem sprettu úr spori frá Vesturbæjarlaug stundvíslega kl. 10:10 í morgun og tóku strikið niður á Ægisíðu. Þar var hafflöturinn spegilsléttur, bleikir akrar, slegin tún, tíbrá yfir Bláfjöllum í fjarska, Öskjuhlíðin svalaði björtu höfði í himinblámans blátæru lind. Það var létt yfir mönnum, margir brandarar fuku og má segja að menn hafi hlegið óslitið frá Hofsvallagötu og inn í kirkjugarð, en þar hlæja menn ekki, þar eru menn hátíðlegir og virða helgi staðarins.

Við fórum fetið á þessu hlaupi svo sem jafnan er gert á sunnudögum.  En með því að hinir meiri sagnamenn og gáfumenn voru fjarverandi þennan dag urðum við að láta okkur nægja að rifja upp gamlar sögur og vaselínbrandara, en það er alltaf einhver sem er ekki búinn að heyra sumar sögur og því ómaksins vert að láta þær flakka enn einu sinni. Þetta var í einu orði sagt yndislegt hlaup (þetta voru að vísu tvö orð, en maður tekur nú bara svona til orða). Maður hreinlega skildi ekki menn sem slepptu hlaupi á svona degi, maður vorkenndi þeim, slíkur var léttleikinn og gleðin yfir að eiga kost á að vera úti í náttúrunni þegar hún skartar sínu fegursta, á léttu tölti, í kátra sveina hópi.
Það var enginn derringur í mönnum, við héldum hópinn og tókum því rólega, slepptum að vísu nokkrum göngustoppum sem hefð er um á sunnudögum, en það skýrist af því að okkar beztu menn voru fjarverandi og lítið um persónufræði eða vísbendingar. Ekki er ég frá því að hraði hafi verið farinn að aukast undir það síðasta, en það hefur bara verið vegna þess að menn voru farnir að gleyma sér. Skiluðu sér allir nokkuð jafnsnemma til Laugar og áttu góða stund í potti með þeim dr. Einari Gunnari og dr. Baldri - aðallega rætt um þá keppni sem framundan er hjá VB og horfur þar. Jörundur mættur í pott, er frá hlaupi næstu þrjár vikur vegna meiðsla.

Einar blómasali tilkynnti fjarvistir - hann verður í Danaveldi næstu daga, og fylgdu þeim upplýsingum matseðillinn næstu vikuna. Hann missir því af hlaupi á morgun og miðvikudag - en kveðst vera skráður í hlaup n.k. fimmtudag. Svona er þetta bara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband