Óheiðarlegur blómasali tekur á rás

Föstudagur, veður fagurt, gerist ekki betra, himinn heiður, vindur hægur, hiti 5 gráður. Menn voru enn ýrir af gleði yfir afmæli félaga okkar, Gísla Ragnarssonar, rektors Ármúlaakademíunnar, en hann fyllir sjötta áratuginn um þessar mundir, en ber aldurinn vel,  er vel ern, les sjálfur og hefur fótavist, en þarf aðstoð við að klæða sig. Mættir: Þorvaldur, Helmut, Einar blómasali (mættur 16:2o), Kári, Bjössi, Brynja, dr. Jóhanna, Rúna, Denni, ritari, - þannig að það vantaði lykilpersónur, Magnús, Villa, próf. Fróða o.fl.

Menn voru einbeittir (ég skil ekki af hverju ég gleymi að nefna Benedikt) - Benedikt var á plani og leiðbeindi Bjössa um notkun Garmin 305 - blómasalinn kom blaðskellandi og tranaði sér inn í umæðuna með sína 101 útgáfu af Garmin sem styðst ekki einu sinni við gervitungl. Þarna stóðum við meðan Bensi fræddi Bjössa um stillingar, og aðrir voru farnir af stað. Ég lagði í hann og horfði á eftir Helmut, Jóhönnu, Þorvaldi og Kára - en sú uppstilling átti eftir að breytast. Á Ægisíðu heyrði ég fnæs að baki mér og tipl fóta - það voru Benni og Bjössi þegar þeir tóku fram úr mér. Áfallið kom hins vegar við flugvöllinn - og var þó farið hratt tempó - þá heyrði ég gamalkunnugt tipl - nei þetta getur ekki verið að gerast! Jú, blómasalinn kom skeiðandi fram úr mér og slóst í för með fremstu hlalupurum, Benna, Bjössa, Helmut og dr. Jóhönnu, og hélt í við mannskapinn, þrátt fyrir að hafa "gleymt" að borða í hádeginu, aftur.

Ég fékk félagsskap af Þorvaldi, við fórum hefðbundið, um Öskjuhlíð, um Veðurstofuhálendið, Hlíðar, Klambra, Hlemm, Sæbraut og þannig tilbaka, nema hvað Þorvaldur stytti um Laugaveg, ég fór fulla 11,5 km. Þar var reynt ítrekað að keyra á okkur, en við lifðum af. Hitti Denna við Kristskirkju, hann var lerkaður eftir Poweradehlaup í gærkvöldi og saman skeiðuðum við niður Hofsvallagötu. Denni upplýsti að hann hefði borgað 200 kr. þátttökugjald í hlaupinu, en væri á móti með boð upp á snittur og drykki í boði Powerade um kvöldið. Blómasalinn varð dularfullur á svipinn er hann heyrði þetta.

Í Brottfararsal voru helztu hlauparar dagsins og teygðu - engar skýringar fengust á frammistöðu blómasala, hann át ekki í hádeginu, en teigaði í sig orkudrykk fyrir hlaup. Við söknuðum ýmissa góðra hlaupara, svo sem próf. Fróða, Magnúsar, dr. Friðriks o. fl. Síðar kom í ljós að próf. Fróði komst ekki til hlaupa vegna mikilvægra starfa í þágu Lýðveldisins.

Í potti var legið um stund og kom í ljós að flestir hlauparar eru á leið til Akureyris, sem er bær norðarllega á  Íslandi og tapaði í kvöld keppni menntaskólanema um um þekkingu. Mættur Vilhjálmur eftir að hafa hlaupið kringum flugvöllinn, en missti af okkur hinum vegna seinnar komu. Hann var bara rólegur og staldraði við góða stund og hélt uppi vitrænum standard á samræðunum.

Í gvuðs friði, ritari. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband