Frábært hlaup á Nesi

Svo sem fram kom í pistli gærdagsins var lokað í Vesturbæjarlaug í dag frá kl. 13:00 vegna starfsdags, og því voru góð ráð ódýr: lá beint við að steðja á Nesið í faðm vina og velunnara sem þar fylla flokka trimmara á Nesi og kalla sig Trimmklúbb Seltjarnarness, þangað áttum við heimboð frá föstudegi, raunar frá sjálfum formanninum, Friðbirni. Óhjákvæmilegt er að láta þess getið að þegar Friðbjörn upplýsti að hann væri formaður flokksins, spurði ritari forviða: Er ekki Jóhanna formaður? Nei, ég var kosinn formaður á seinasta aðalfundi. Kosinn? spurði ritari aldeilis hlessa. Hjá okkur þekkist slíkt ekki. Þar verða menn formenn og halda embætti meðan öndin blaktir í vitum þeirra.

Það kallar á mikla hæfileika að rata frá inngangi og að afgreiðslu í Neslaug vegna framkvæmda sem þar standa yfir. Ekki leit vel út með þátttöku framan af, aðeins ritari og Björn kokkur mættir. Við Björn áttum kyrrlátt spjall um ýmsar náttúrur, m.a. hina ótrúlegu umbreytingu sem orðin er á Guðmundi, stundum nefndum "hinum sterka" og vorum við sammála um að ýmsir félagar í blómasölubransanum mættu taka hann sér til fyrirmyndar. Svo rættist úr og kunnugleg andlit streymdu inn, tilheyrandi Magnúsi, Þorvaldi, Benedikt, Einari blómasala, Kalla kokki og, loks birtist sjálfur Ó. Þorsteinsson sem að óbreyttu hlýtur að teljast óliklegastur manna til að hlaupa í öðru sveitarfélagi. Við hittum Denna og Kristján á Nesi, og einhverja fleiri hlaupara og var tjáð að við yrðum að fara upp að skóla þar sem fram færi upphitun. Þangað komum við í einfaldri röð skokkandi, og hlýtur að hafa verið afar tilkomumikil sýn, sérílagi þar sem á flötinni við skólann voru aðallega konur, og svo nokkrir eldri herramenn. Þar bar ég kennsl á Guðrúnu Geirs, Jóhönnu Einars, Friðbjörn, Sæmund og Hauk Sigurðss., en þekkti ekki fleiri. Var okkur fagnað með lófataki og boðið að taka þátt í upphitun, sem við þáðum með þökkum og gerðum okkar bezta til þess að finna rétt tempó - en ef satt skal segja eru æfingar af þessu tagi ekki okkar sterkasta hlið.

Að upphitun lokinni var lagt af stað og gefin út lína um það að farið yrði í flokkum, og farið mislangt, gefnir upp ýmsir valkostir, það átti að fara austur úr, sumir máttu snúa við á Hofsvallagötu, aðrir Suðurgötu, og þannig áfram, Hlíðarfót eða Öskjuhlíð, allt eftir smekk. Ég var ótrúlega vel stemmdur fyrir hlaup - en líklega fullmikið klæddur, í Balaklövu og flíspeysu, því þegar út var komið og af stað farið fann ég að ekki var eins kalt í veðri og ég áleit fyrst. Var á báðum áttum framan af hvað ég ætti að fara langt eða hversu hratt. Líklega hefur verið farið fullhratt út og ég fann að ég myndi ekki halda í við fremstu hlaupara sem voru býsna frískir. Rætt um árangur Eiríks okkar í New York maraþoni - ég spurði TKS-fólk hvort þau hefðu átt fulltrúa í því hlaupi, en svo var ekki. Það er farið að dimma mjög þessi missirin og því eins gott að vera vel sýnilegur, í endurskinsfatnaði, og þannig voru margir í kvöld.

Þegar á reyndi var veður hið bezta, mátulega svalt, hægur vindur þrátt fyrir ljótar spár, þannig að hlaupið reyndist á við ljúffengustu máltíð - um þetta var full samstaða að hlaupi loknu. Hvað um það ég skeiðaði beittur, og líklega allt of hratt með mönnum eins og Benedikt og Þorvaldi, og trúlega höfum við haldið hópinn nokkuð þétt út að Ægisíðu, þá fór að draga í sundur með fólki. Á þessum punkti var ég kominn í félagsskap við fólk af Nesi, Denna, Kristján og unga konu sem ég kann ekki nafnið á. Og við héldum hópinn það er eftir lifði hlaups, fórum austur úr inn í Nauthólsvík, og þaðan um Hlíðarfót, um lendur Kristsmanna Krossmanna, og svo aftur vestur úr. Ekki héld ég að tal hafi fallið niður eina mínútu alla þessa leið, og minnir Denni um margt á Bigga, nema hvað hann talar í eðlilegri tónhæð.

Á þessum tímapunkti var m.a. rætt um árshátíðir, upplýst að TKS er með árshátíð ár hvert í febrúar, í golfskálanum á Nesi. Var ýjað að því að félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins væru velkomnir á árshátíðir Nesverja ef áhugi væri fyrir hendi. Bíður það staðfestingar formanns - enda eru félagar Hlaupasamtakanna mjög trúir sínum formanni, og vænta þess að TKS-fólk sé sama sinnis gagnvart sínum formanni.

Það er svolítið skrýtið með hlaup, að eftir því sem hlauparar hitna upp, auka þeir hraðann og bæta í. Þannig var það í þessum fjögurra manna hópi sem þessi hlaupari hljóp með í kvöld, það var gefið í á Hringbraut og farið býsna greitt. Denni allur að eflast og koma til, farinn að hlaupa mun hraðar en maður hefur mátt venjast og hálfvegis farinn að verða til vandræða. Enn og aftur óskaði ég þess að hafa blómasalann við hlið mér sem alltaf er skynsamur á hlaupum og fer ekki hraðar en svo að fólki líður vel á meðan það hleypur. Svo var tilhugsunin um það að við Háskólann var ekki stutt í mark, nei, við þurftum að skáskjóta okkur hjá VBL og halda áfram vestur úr, það var erfitt.

Á Nesi hittum við blómasalann niðurbrotinn, hann hafði aftur fengið í bakið, þrátt fyrir gott hlaup í gær, miklar teygjur og beygjur, en þær höfðu greinilega vakið falsvon. Hann var beygður maður og stutt í krók. Jafnframt mættum við Ó. Þorsteinssyni - sem var öllu brattari, og bara ánægður með hlaup, hafði farið fulla porsjón, um hlaðið hjá Kristsmönnum og þaðan tilbaka. Ég sagði honum tvær sögur. Önnur var af týndum bíllykli. Svo var mál með vexti að ritari týndi bíllykli á leið til Brussel, og uppgötvaði það ekki fyrr en hann kom heim. Svo að lykillinn gat verið einhvers staðar á leiðinni: ráðuneyti-KEF-flugvél-Kastrup-SASvél-Zaventem-lest-hótel-leigubíll-Zaventem-SASvél-Kastrup-KEF... o.s.frv. Byrjaði að senda út tölvupósta - og fékk eðlilega engin svör, nema frá hótelbókunarkeðju. Nema hvað, næst þegar ég fer um Leifsstöð ráfa ég að móttöku lögreglu og spyr hvort þeir hafi fundið bíllykil sem... Já, ert þú ekki í e-u ráðuneyti... Við fengum fyrirspurn frá þér og svöruðum, en Stjórnarráðið er með svo öfluga vírusvörn að m.a.s. lögreglan kemst ekki gegn með svarpóst! Þeir voru með lykilinn minn.

Hin sagan laut að því er ég sat um daginn á Radisson SAS Scandinavia ásamt fyrrv. yfirmanni mínum, Birni Bjarnasyni,  og Halldóri Grönvold hjá ASÍ og við áttum gott spjall um landsins gagn og nauðsynjar. Einhvern tíma hefur leðurveski mitt runnið úr jakkavasa mínum, sem er við jakkalafið, Boss-veski sem ektafrú mín gaf mér og er því hlaðið tilfinningalegri investeringu, en hafði ekki að geyma nema tiltölulega fánýta hluti. Jafnskjótt og ég uppgötvaði missinn, heim kominn, sendi ég tölvupóst á Radisson SAS og spurði hvort þeir hefðu fundið veskið. Þeir spurðu á móti á hvaða hóteli ég hefði verið - ég nefndi Scandinavia. Og viti menn! Stuttu síðar fékk ég póst um að ekki einasta hefðu þeir fundið veskið, þeir myndu póstleggja það daginn eftir! Þetta kallar maður þjónustu! Oftar en ekki hefur maður vanist því að fá engin svör við fyrirspurnum sínum.

En þetta var svona útúrdúr, og aðallega settur inn í þeim tilgangi að hvetja fólk til þess að láta einskis ófreistað til þess að endurheimta glataða hluti. Það er fullur poki af glötuðum bíllyklum hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli sem bíða þess að eigendurnir sækja þá. Það kostar 25 þús. kall að láta gera nýja lykla! Önnur sólskinssaga: ég tapaði veski inni á Louvre-safninu í París fyrir tveimur árum, sem ég taldi að ég myndi aldrei endurheimta. Kom tveimur dögum síðar - og viti menn! Enn og aftur hafði einhver skilvís meðborgari komið því í deildina sem varðveitir muni er hafa glatast. Þannig er þetta bara! Aldrei að gefast upp.

Jæja, við mættum aftur til Laugar, og þar var þjálfarinn og leiðbeindi um teygjur, þar voru Björn kokkur, Benedikt, Denni, Kristján o.fl. Í potti bað ég Björn að segja aftur söguna af hásetanum ófótvissa, sem var að smyrja sér samloku með hangikjöti og ítölsku salati þegar reið yfir alda, og það næsta sem Björn sá var samloka sem lak niður tölvuskjáinn í næsta herbergi, og Stefán háseti bograndi undir tölvuborði, í því sama herbergi. "Stefán minn, nú þarft þú að fara að læra stíga ölduna" sagði Björn við þennan óheppna félaga sinn. Góð saga. Gott hlaup, enn einn góður hlaupadagurinn. Okkur var sagt að koma sem oftast til hlaupa á Nesi, og er næsta víst að við munum aftur láta reyna  á gestrisni félaga vorra í vestrinu. Næst er miðvikudagshlaup frá Vesturbæjarlaug, vel mætt. Ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband