Vorið kallaði á mig

Það var ótrúlega fallegt veður í dag. Ritari dró út reiðhjólið úr bílskúrnum og sté á fákinn. Byrjaði á því að fara á N1 stöðina við Ægisíðu að blása lofti í dekkin - þar var komin sjálfvirk, nútímaleg dæla, sem dælir óumbeðið þegar fólk er búið að velja heppilegan þrýsting í dekki. Ekki vissi ég hvað reiðhjóladekk þolir - en lét vaða. Allt gekk vel með framdekkið, en þegar kom að afturdekkinu dró dælan allt loft úr dekkinu og neitaði að skila því aftur hvað þá heldur að bæta við. Eftir mikið puð og púl, gafst ég upp á þessu nútímalega appírati og hvarf á næstu benzínstöð, Skeljung við Birkimel þar sem Magnús félagi okkar starfaði á sokkabandsárum sínum. Þar var gamaldags loftdæla sem gerði það sem hún var beðin um.

Að þessu búnu var hægt að leggja í hann, niður Dunhaga og út á Ægisíðu, þaðan hjólað austur að Kringlumýrarbraut og svo upp Suðurhlíðar og hefðbundið til baka. Það vakti athygli hve fáir voru á ferli í þessu undurfagra veðri - enn er sandur á brautum sem gerir línuskautafólki erfitt um vik að athafna sig og finnst manni alveg tímabært að borgaryfirvöld fari að vakna og hefji vorhreingerningar, því að VORIÐ ER HÉR! Ég gizkaði á að þetta hefði verið ca. 10 km túr - en svona veit maður ekki fyrir víst nema maður eigi Garmin. Ég á ekki Garmin. Bjössi á Garmin. Hann er námfús hlaupari og kokkur, ég fylgdist með aðdáun í gær þegar hann hlýddi á útskýringar Benna. Og hugsaði sem svo: úr því Björn getur lært þetta, get ég þá ekki líka lært á Garmin? Eiginlega er þetta alveg ómissandi tæki. Annars veit maður ekki hversu langt er farið, hversu hratt, púls og annað sem máli skiptir. Kannski maður fari að horfa í kringum sig...

Þó verður að segjast eins og er að það var örlítið kalt í dag og hálfgert gluggaveður. En hjólið mælist  þegar kemur að því að skrá í hlaupadagbókina, sem ég vona að allir muni eftir. Kveðjur eru sendar frá Kína, Birgir fór út að borða og var tekin mynd af honum við það tækifæri og send upp á skerið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Ég skal kenna þér á Garmin. Ég hef áður séð hvernig tölvuhræðsla getur brotist út sem andúð á tækjum og dylgjur um að þau séu lítt nauðsynleg.

Þegar óttinn fer mun skilningurinn koma.

Kári Harðarson, 16.3.2008 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband