"Ég hef alltaf rétt fyrir mér!" - af Berlínarhlaupi

Það hvarflaði að ritara að hlaup væri ekki góð hugmynd er hann sté út af vinnustað sínum í dag og fékk í fangið austanstrenginn og fann kuldann nísta merg og bein. En hlauparar eru haldnir einhverri sjálfskvalafýsn, mér lék forvitni á að vita hvaða vitleysingar myndu mæta í kvöld til hlaupa, og hverjir ekki. Það hefur nefnilega verið regla í Samtökum Vorum að þeim mun verra sem veðrið er - þeim mun fleiri mæta til hlaupa. Mér var það ofarlega í huga hvort þessi regla væri enn í almennu gildi.

Mæting olli ekki vonbrigðum, á annan tug hlaupara mættu,  of margir til þess maður nenni að telja þá alla upp, en þessir mættu ekki: próf. Fróði, Flosi (ja, hann er eiginlega afsakaður, nýskorinn maðurinn), Magnús, Sjúl, Vilhjálmur og Ó. Þorsteinsson. Vart þarf að taka fram að dr. Baldur Símonarson er undanþeginn hlaupaskyldu og nærveru hans aðeins krafist á sunnudögum. Á mánudögum er hlaupið með þjálfara og dáist ég í hvert sinn er þjálfarinn dúkkar upp að fórnfýsi og trú á breyska mannskepnuna, óvíða sér maður slíka ódrepandi trú á jafn vonlausu samsafni metnaðarlausra, miðaldra karlmanna sem nota hvert tækifæri til þess að hlífa sér, stytta, fara hægar, sleppa þéttingum, og þannig mætti áfram telja. Nei, þeir gefast ekki upp. Hlaupa fram og tilbaka blindgötuna, elta uppi lúsera sem fara hægt, hvetja þá áfram og láta finna að fylgst er með öllum.

Svo sem menn hafa væntanlega tekið eftir var vitlaust veður í dag, spáð 25 m/sek og kalt. Var því ákveðið að fara öfugan, hefðbundinn föstudag: oní bæ, upp Bankastræti, Laugaveg, inn á Rauðarárstíg og svo um Klambra og þannig tilbaka með vindinn í bakið. Eins og menn vita erum við blómasalinn að koma úr langferð um framandi lönd, óhlaupnir með öllu s.l. viku, illa þungir og slappir sökum ólifnaðar. Af þeim sökum fórum við okkur hægt í þetta skiptið, héldum okkur við hlaupafélaga sem töldu sig sæmda af því að fara með okkur, þar í hópi voru Kalli, Jörundur og dr. Friðrik. En þrátt fyrir að hægt væri farið kom þjálfarinn alltaf öðru hverju að athuga með okkur og passa að við værum ekki að svindla. Þannig fylgdum við hópnum nokkurn veginn, en við Hringbraut splundraðist hópurinn, þau fremstu komust yfir, en við sem forðumst óðagotið, biðum eftir grænu ljósi. Sáum þau hverfa.

Af þessum sökum varð uppi nokkur óvissa um framhaldið, enda hafði ræða þjálfarans að mestu týnst í hávaðarokinu á Brottfararplani Vesturbæjarlaugar. Og þar með leiðarlýsing. En við djöfluðumst upp Bankastrætið og Laugaveginn, inn á Snorrabraut, snerum þar í suður og hlupum út að Hringbraut. Hér fullyrti Jörundur að hann hefði alltaf á réttu að standa: vitnaði þar til lúpínustofnsins, virkjanamála, veru Bandaríkjahers hér á landi, og loks vaxtar kanínustofns í Vestmannaeyjum sem æti pysjuna. Blómasalinn var alveg til í að véfengja þessa fullyrðingu og heimtaði skýringar, en um það leyti vorum við týndir, lentum í undirgöngum sem hefðu skilað okkur austur á Hellisheiði hefði Kalli ekki verið í hópnum og leiðbeint okkur um hvert bæri að fara til þess að komast á Hlíðarfót.

Þar mættum við þjálfara vorum, og sáum hina hlauparana koma skeiðandi, þeir héldu áfram, og við á eftir, en fórum áfram hægt. Á þessum slóðum var veður skaplegra, vindur ekki jafn ágengur. Á þessum kafla upphófust miklar umræður um þau hlaup sem framundan eru í Hlaupasamtökum Vorum: aðalhlaupið næsta ár er Berlínarmaraþon. Einar blómasali er þegar farinn að undirbúa pöntun gistingar fyrir 40 hlaupara+áhangendur, flug, boð í sendiráðið o.fl. sem nauðsynlegt verður að teljast. Búið er að skipa fararstjórn: Helmut er fararstjóri í krafti sérþekkingar sinnar, faglegur ráðgjafi er Jörundur (eini félagi Hlaupasamtakanna sem hefur hlaupið Berlínarmaraþon), leitað verður eftir að geðlæknir Lýðveldisins verði sérlegur ráðgjafi hlaupsins sökum þekkingar sinnar á staðháttum, blómasalinn verður sérfræðingur aðfanga, ritari annast öll diplómatísk tengsl, og þannig áfram. Reynt verður að nýta þá miklu þekkingu og reynslu er Samtök Vor geta státað af.

Stífur vindur í bakið vestur Ægisíðu, mættum hópi ungra Valsara sem hrópuðu hvatningarorð til okkar og fannst greinilega mikið til koma að sjá svo gamla menn hreyfa sig. Á Móttökuplani voru nokkrir góðir hlauparar og þar var teygt. Spurt hefur verið hvort Fyrsti Föstudagur sé næsta föstudag. Um það þarf að leita úrskurðar próf. Fróða, sem er helzti varðveizlumaður regluhaldsreglna Hlaupasamtakanna og getur einn úrskurðað í erfiðum túlkunarmálum er varða hefðir og reglur, og búið til nýjar þegar svo ber undir og nauðsyn krefur. Er þessu erfiða álitamáli hér með skotið til hans óskeikula vísdóms. Einnig rætt um Flórídaferð þeirra Helmuts og dr. Jóhönnu, en þau fara í næstu viku og verða yfir jól. Um sama leyti munum vér endurheimtan hafa úr Franz Kára hinn margvísa og verður það mikill hvalreki fyrir Samtök Vor (enn og aftur tek ég fram að hér er á engan hátt sneitt að fýsískri birtingarmynd félaga vors og frábið mér athugasemdir þar að lútandi!). En jól sækja óneitanlega að og víst að margir eru uppteknir af jólaboðum og annarri óreglu. Í Móttökusal lá Björn kokkur og viðhafði aðdáunarverða viðleitni til þess að byggja upp skrokk sinn: tók m.a. magaæfingar þær sem próf. Fróði mælti með að ritari tæki hafandi horft á belginn á honum eftir e-a utanlandsferðina. Hér hentu sér niður blómasali og ritari og hófu að byggja líkami sína með magaæfingum. Þá varð einhverjum á orði (ég ætla ekki að segja hver, það gæti eyðilagt Flórídaferðina): "Já, Ágúst er nú sjálfur orðinn svoldið feitur, héld hann mætti aðeins bæta við magaæfingarnar."

Legið vana samkvæmt í potti, rætt um byggingaframkvæmdir á Neshaga og Kvisthaga, framkvæmdaaðili var spurður hvort Ó. Þorsteinsson hefði ekki haft samband. "Já, heitir hann Ó. Þorsteinsson, jú, hann hafði samband." Um bruna í Vogum, og annað uppbyggilegt. Það var eiginlegt of kalt til þess að vera í barnapotti, og mann hryllti við að fara upp úr og í útiklefa til þess að klæðast. En allt hafðist það og á endanum var steðjað til móts við verkefni kvöldsins: tengja vask í nýju eldhúsi ritara.

Næst er æfing á miðvikudag kl. 17:30 - þá er þjálfari Rúnar Reynisson, sem er einn harður nagli, en umburðarlyndur og sér í gegnum fingur sér með veikleika hlaupara eins og ritara og blómasala. Vel mætt, í gvuðs friði. Ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband