Nafnlausar sögur af hlaupum

Svofelldlega hefur um verið rætt á rafrausi í tilefni hlaupa:

Enn er hlaupið.

Bezti hlaupadagur ársins í gær. Hægur sunnan, hlýtt. Mæting ágæt, en menn litu hver á annan, þegar í ljós kom, að suma hávaðasama félagsmenn vantaði til hlaups. Svo sem ekkert sérstakir hlauparar, en ágætir í félagslegu tilliti. Einhverjum varð á orði, að hópferð til Kanarí á vegum Félags eldir borgara í Reykjavík, kynni að skýra fjarveru sumra. Athugasemdin vakti undrunarsvip, en enginn virtist hafa neitt við þetta að bæta. Aðrir kunna að vera uppteknir í dómsal við þingfestingar.

Ágúst er að komast í fyrra horf, og hljóp all duglega, var í fararbroddi ásamt lærisveini. Þorvaldur og tannlæknir Magnús styttu um Bogahlíð og þóttust góðir, komust fremst, en Ágúst urraði upp úr eins manns hljóði; "þarna er Magnúsi rétt lýst, og hann hefur platað Þorvald með sér, þetta hefði hann ekki átt að reyna". Ég skeiðaði hljóður með Meistara mínum, enda ekki mitt að hugsa, heldur að hlaupa. Að sjálfsögðu náðum við þeim á miðjum Rauðarárstíg. Magnús reyndi að slá á létta strengi, til að þynna aðeins skap Ágústar. Það misfórst algjörlega. Hlupu menn þó sæmilega sáttir, hver á sínu tempói það sem eftir lifði, en hljóður var hópurinn. (Um hlaup 16.2. 2008).

Og enn þetta mánudaginn 19. feb. 2008:

Mánudagssprettur og Den forsvundne fulmægtig.

Nú háttar þannig til í Vesturbænum að vindurinn fer aðeins í eina átt í einu, svona oftast. Svo háttaði til í kvöld, þegar afar þéttur hópur var saman komin í anddyri VBL. Vil ég geta þess sérstaklega í upphafi að blik í augum stefnanda vakti strax athygli mína. Það var í þeim fastur ásetningur. Eitthvað stórt í uppsiglingu. Djarfur maður í hópnum mætti til hlaupa í stuttbrókum. Hugsuðu ýmsir sitt, en enginn sagði neitt. Hann var ekki með fyrstu mönnum aftur til laugar, og þótti víst einhverjum Snorrabúð stekkur. Norsk kona var sögð hafa slæðst í hópinn, lyfjafræðingur. Engum sögum fer af henni.  

Tungli náð á tröppum og skemmst frá að segja að karlar og konur, sem eigi voru ófáar, hlupu með bros á vör mót suðaustan. Sem fyrr óhlýðnuðustu sumir ströngum fyrirmælum þjálfara; settu í yfirgír strax á Suðurgötu og sást sá ágæti maður vart meir. Framhaldsskólakennari sagðist hafa orðið var við það þegar sá óhlýðni geystist fram úr honum. Ekki það að hann hefði séð hann, heldur heyrði hann þytinn. Menn í potti, eftir hlaup, settu upp spurnarsvip við þessi tíðindi.  

En kona ein ágæt, þýðversk að þjóðerni, gerði hvað hún gat að halda í við manninn þann. Tókst það bærilega. Hún dró hann uppi á miðri Ægisíðu, en hann hafði þá reyndar staðið þar og beðið, og var orðinn hálfkaldur þegar hún kom. Mátti hann síðan elta hana á "tiempo forte" út að Lindarbraut. Þau skiptust ekki á orðum fyrr en þangað var komið, enda taka þau hlaupin alvarlega, sem ekki verður þó sagt um alla. Eftir að yfir ásinn var komið og hillti undir Rekagranda, sést létthlaupandi maður framundan. Fjaðurmagnaður stíll, afslappaður. Nú, það er ekkert með það að utansveitarmaður reyndist þarna á ferð, ekki sérlega hraður í skrefinu, og alls ekki eins hranalegur og margur hefur fram haldið. En hann hljóp á táberginu, og slíkt er náttúrulega ekki boðlegt langhlaupara. Var honum bent á það. Eftir hlaup spurðust menn fyrir um skipakomur frá Kanarí, þaðan hefur ekki komið svo mikið sem eitt einasta bréf. Ég mun senda fyrirspurn á Klörubar, á morgun, hvort þar hafi nokkuð sést til "Den forsvundne fulmægtig".

Ritari meiddur. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband