Færsluflokkur: Bloggar

Mikilli úrkomu spáð - Inn-diss-lekt!

Miðvikudagar eru dagar langra hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, og sjóbaða, árið um kring. Yfir vetrarmánuðina fækkar sjósundum, en í ljósi veðurspár Veðurstofu Lýðveldisins er ljóst að menn geta líklega sleppt sjósundi á morgun, bleytan verður til staðar og fyrir hendi engu að síður. Hraustustu menn munu vaða elginn og finna eigi mun á því hvort þeir eru í sjó eða á landi. Þetta verður frábært!


mbl.is Veðurstofan varar við mikilli úrkomu á sunnanverðu landinu á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavíkurmaraþon í yndislegu veðri

Sjö voru skráðir í Reykjavíkurmaraþon af okkar hálfu í dag og þeir mættu allir. Fjórir voru skráðir í hálfmaraþon og þeir mættu einnig allir til hlaups. Framvarðarsveitin mætti til undirbúnings í VBL og gekk þaðan ofan í bæ. Menn höfðu áhyggjur af einstaka hlaupara, en svo dúkkuðu þeir upp hver af öðrum, Magnús alhress, nýbúinn að skrá sig í hálft, blómasalinn sömuleiðis í hálft, dr. Jóhanna í hálft, og Vilhjálmur í sitt tuttugasta. Ekki sást til Sjúl. Það var talið niður og taugarnar þandar til hins ítrasta, einkum hjá nýliðanum, Eiríki - sem hafði haft slæmar draumfarir og aftur og aftur spurt sig hvort þetta væri það sem hann vildi gera. Í næsta nágrenni var það sem kalla má periferíuna, Hjörleifur og Þórarinn biðu þess spenntir að hlaup hæfist. Svo var ræst.

 Það var mikil stemmning á Lækjargötunni og mikil spenna. Ræstir saman þeir sem ætluðu heilt maraþon á undir fimm klukkustundum, og þeir sem ætluðu hálft maraþon. Framan af var ég í kompaníi við Birgi, Eirík, dr. Jóhönnu og Andreas. Þau fóru út á hröðu tempói, 5:20. Mér fannst ég ráða vel við það og hafði ekki athugasemdir við taktinn. Farið hefðbundið sem leið lá um Fríkirkjuveg, Skothúsveg, Suðurgötu, o.s.frv. Ég ákvað að leyfa hinum fremstu að halda sínum takti og frekar reyna að slaka á. Ekkert hafði spurst til Sjúl, og höfðu menn áhyggjur af því að hann hefði klikkað á hlaupinu. Nema hvað, þegar ég er á fullri ferð út Norðurströndina, hver dúkkar ekki upp þar annar en Sjúl. "Sæll, Ólafur!" segir hann. Hann sagði farir sínar ekki sléttar, væri slæmur í mjöðm og vissi ekki hversu honum tækist til í dag. Kannski færi hann ekki nema 10 km. Ég sætti mig við skýringar hans - og taldi ekki ástæðu til að vera með þrýsting.

Við héldum hópinn inn í bæ. En þegar kom að því að taka ákvarðanir um breyttar hlaupaleiðir ákvað Sjúl að halda áfram með mér, fara alla vega 21 km. Ég var feginn því að hafa félagsskap, enda skiptir hann sköpum ef samræður eru uppbyggilegar. Fórum sömu leið og farin var í fyrra, inn Sæbraut, niður hjá Eimskipum og þar í gegn, upp hjá Kleppi og vesturúr. Vorum báðir í fínum gír og allt gekk vel.


Við vorum á góðum tíma í 21 km - 2 klst. Inn í Elliðaárdal og svo upp aftur og inn í Fossvogsdal, þetta er öfug 69 og við komnir á kunnuglegar slóðir. Pössuðum upp á að drekka vel á öllum drykkjarstöðvum, bæði vatn og orku. Ég hafði sagt Sjúl að heimferðin hæfist í Fossvogsdalnum. Allt gekk vel, þar til í Nauthólsvík, þá neituðu fætur Sjúl að bera hann lengra. Um þetta leyti hafði ég pundað á mig orkugeli og fengið límonaðidrykk hjá Gísla. Var klár í framhaldið, það voru vonbrigði að félagi minn skyldi ekki geta haldið áfram, en svona er þetta  stundum. Ég hélt áfram og skeiðaði um gamalkunnugar slóðir, flugvallarenda, Skerjafjörð, Ægisíðu. Hérna fór ég að verða var við þreytu og neyddist til að hvíla mig eilítið á Nesveginum, en tók svo upp hlaupið jafnóðum.

Þegar ég var kominn 35 km velti ég fyrir mér hvers vegna ég væri að þessu. Mér fannst ekki gaman að hlaupa á þessum tíma, jafnvel þó að ég hefði þrjá fylgdarmenn, Ágúst, Gísla og Sigurð Gunnsteinss., sem báru í mig drykki og næringu og hvöttu mig á allan hátt. Mér leiddist og hugsaði með mér að gera þetta aldrei aftur. Á Nesi vestanverðu, rétt hjá Gróttu, náði Jörundur mér, hann var í góðum gír og hafði ekki tíma til að staldra við, keyrði áfram. Ég gerði slíkt hið sama, en þegar ég var kominn 38 km fékk ég krampa í innanvert læri, frá kálfa og upp í nára. Varð að hvíla, ganga góðan spöl. Fór svo að hlaupa við fót, en þegar ég kom inn á Tryggvagötuna, og Ágúst hamaðist við að smella af mér myndum, kom næsta áfall: krampi í utanvert læri hægra megin. Ákvað að ganga inn í Lækjargötuna og freista þess að hlaupa með reistan makka síðasta spölinn. Framan við Stjórnarráðshúsið tölti ég af stað - en þá kom stóra áfallið: báðir kálfar læstust í skelfilegum krampa og ég varð að stöðva hlaup. Eftir á var mér sagt að viðstaddir hafi verið í meira áfalli en ég við þessa uppákomu: Helmut var við það að fá taugaáfall (eða var það hjartaáfall?) - hann hafði alla vega þungar áhyggjur af mér. Ég varð að hökta áfram en tókst að tölta síðasta spottann og vonandi halda höfði. Tími: 4 klst. 32 mín., nokkru verri tími en í fyrra.

Upp úr stendur frammistaða Jörundar og seigla, og ágætur árangur Eiríks í fyrsta maraþonhlaupi, 4 klst. 19 mín - sami tími og Jörundur og Andreas náðu.

Ég vil þakka þeim Gísla, Sigurði Gunnsteinssyni og Ágústi fyrir veittan stuðning meðan á hlaupi stóð, hann var ómetanlegur og sýnir að þótt eldri borgarar séu oft óáreiðanlegir í umferðinni, geta þeir samt sem áður þjónað nytsamlegum tilgangi í öðru samhengi.

Í gvuðs friði. Æfingar halda áfram sem fyrr á næstunni. Ritari.


Afrek utandagskrár

Einar blómasali og Anna Birna konan mín, sem stundum hefur hlaupið,  tóku áskorun kvikmyndatökumanna frá  ónefndu erlendu stórfyrirtæki um að stunda sjósund í Jökulsárlóni gegn greiðslu.

P7170050


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég veit að Einari verður varla trúað í næsta hlaupi.  Því ákvað ég að birta hér myndir sem ég tók við þetta tækifæri til að sannleikurinn nái fram að ganga, en það er yfirleitt æskilegast.

P7170027

 P7170030

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7170038

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Konan mín synti einnig ítrekað, þar til leikstjórinn æpti og klappaði af hrifningu og tökum lauk.  Ég var svo upptekinn af því að vera henni  til taks, að ég steingleymdi að taka myndir af hennar afrekum meðan hún synti.


P7170049

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hafði ekki geð í mér til að segja syndurunum að ég hafði mælt hitastig lónsins  núll gráður fyrr en eftir að þrekraunum lauk, enda vita þeir sem til þekkja að  sjósund er mjög andleg iðja.

Þessi Lónssundsprettur er utan hefðbundinnar hlaupadagskrár og því ómaklegt að  skrá stig fyrir, en gjörningurinn er samt skjalaður hérmeð.

PS: Ég var sjálfur ráðinn af leikstjóra sem "Iceberg pusher", en það er sá sem  syndir út í lónið og ýtir jökum til og frá til að gera leikmyndina sem  fallegasta.  Það afrek mitt telst ekki mikið enda var ég í kajak gallanum.

Með vinsemd og virðingu,

    Kári Harðarson

 

 


Það var langt í dag...

Svo sem boðað var í föstudagspistli var boðið upp á langhlaup í dag. Ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins var mættur í brottfararsal Vesturbæjarlaugar kl. 8:50 og beið þess að þar hópaðist fólk til langhlaups á fögrum sumarmorgni. Einu kunnuglegu andlitin sem birtust tilheyrðu Helmut og dr. Jóhönnu og sonum - öll með stírur í augum og ekki þessleg að þau stefndu á hlaup. Það var því einmana hlaupari sem lagði í hann í glimrandi hlaupaveðri, 13 stiga hita og logni. Það reyndi á andlegan styrk og karaktér að hefja hlaup að þessu sinni, aleinn eins og áður er komið fram, og vitandi það að framundan væru 25 langir kílómetrar í fullkominni einveru og einsemd. Vitanlega hefði verið skemmtilegra að hafa nokkra góða félaga við hlið sér, en það verður víst ekki á allt kosið öllum stundum. Þannig að ég reyndi að herða upp hugann, vera bjartsýnn, einbeittur og viljasterkur. Sem betur fer var fullkomið hlaupaveður og því hrein unun að streyma fram Ægisíðu á útopnuðu.

Mér varð hugsað til þess sem dr. Jóhanna sagði, hún rifjaði upp spurningu í potti í gær. Haukur spyr tvo pilta sem staddir voru í potti og töluðu sín á milli íslenzku: Eruð þið íslenzkir? Þeir horfðu hissa á hann og sögðu: Já! Og spurðu tilbaka: Eruð þið íslenzk? Já, sagði Haukur, við erum nú vön að hafa vara á okkur þegar við tölum saman um okkar heimulleg málefni og viðstaddir kunna að skilja það sem á milli okkar fer. Spurningin þótti svo einkennileg að furðu sætti.

Skeiðaði af krafti út í Nauthólsvík - ekki margir á ferli, fáir hlauparar. Mætti Sif Jónsdóttur langhlaupara í Fossvogi. Áfram inn að Víkingsheimili, undir Breiðholtsbraut og sem leið liggur upp Elliðaárdalinn og alla leið upp að Árbæjarlaug. Staldrað við, fyllt á vatnsbrúsa og svo tilbaka. Fór niður hinumegin í dalnum, og svo yfir á hólmann og þannig niðureftir. Aftur undir Breiðholtsbraut og inn í Fossvog. Þannig tilbaka. Líklega einir 22 km - nennti ekki í Laugardalinn, gat hugsað mér að fara í sjó í Nauthólsvík á bakaleiðinni - en þegar til kom var farið að kólna í veðri, hafgola, og ekki baðveður að sumri. Auk þess var ég einn að hlaupi, eins og áður er fram komið, og skv. reglum Ágústs telst það ekki sjóbað þegar menn fara einir í sjóinn og án eftirlits.
´
Mér fannst hlaup takast gizka vel. Ekki nein veruleg þreyta eða mæði í lokin. Nú verður hvílst meðan ritari heldur til starfa í þágu Lýðveldisins á erlendri grund - en stefnt er að löngu næstkomandi miðvikudag. Hvatt er til þess að hver og einn hlaupara stilli sig af miðað við hlaupaáætlun Ágústs og skrái samvizkusamlega öll hlaup. Vitanlega geta komið upp frávik og menn geta þurft að hliðra til með hlaup hér og hvar eins og raunin varð á s.l. miðvikudag hvað þennan hlaupara áhrærir. En menn geta alltaf bætt sér slík frávik upp, eins og gert var á þessum fagra degi.

Hittumst heil - hvet til átakahlaups á morgun, sunnudag, og á mánudag, þó án sjóbaða.

Góðar stundir!
Ritari


Hlaupið á föstudegi

Magnús hefur frétt af rauðleitu afbrigði af lúpínu og er búinn að tryggja sér einn sekk af þessari nýju tegund, vongóður um að Jörundur muni bregðast vel við þegar þessi nýi gróður teygir anga sína um garðinn hans. En Magnús rapportéraði einhverja taugaveiklun við dyrnar hjá Jörundi, hann má ekki sýna sig utandyra með bréfpoka, þá er strax farið að rjátla við dyrnar hjá Jörundi og farið að undirbúa útrás.

Ólafur Þorsteinsson er að mati V. Bjarnasonar einkennilegur maður. Rætt var um uppákomu á Skaga þar sem sonur G. Þórðarsonar skoraði umdeilt mark og þótti ekki karlmannleg framkoma. Þar öttu Skagamenn kappi við Keflvíkinga. Í stað þess að koma Keflvíkingum til bjargar og veita þá hlutlægu umsögn að markið hafi verið andstætt góðum sið í knattspyrnu, sagði frændi minn og vinur að Keflvíkingar væru svo orðljótir menn að ekki væri hægt að bjóða kvenmanni á kappleik í Keflavík. Það er umhugsunarefni hvers vegna ekki má bjóða kvenfólki á kappleiki þar sem orðljótir menn mæta, er kvenfólk minna orðljótt en karlar? Ekki rekur mig minni til þess. Við VB vorum sammála um að þessar áhyggjur Ó. Þorsteinssonar væru teikn um aldurdómlegan hugsunarhátt hans, karlmennsku og riddaramennsku gagnvart kvenfólki, en Ó. Þorsteinsson er kominn af reykvízkum aðli gegnum aldir.

Fátt í hlaupi: stöllur af Nesi, Rúna og Brynja, trúlega gíraðar áfram af loforði um Fyrsta Föstudag, Vilhjálmur, ritari, Haukur, Kári, Magnús, og dr. Jóhanna. Þetta var góður þéttur hópur. Í þetta skiptið voru engin Garmin-tæki og var það ákveðinn léttir. Þær Brynja og Rúna settu óneitanlega svip á hlaupið, leiddu framan af og voru alla jafna fremstar í flokki, en þó er skylt og rétt að greina frá því að Haukur var flottur í hlaupi í dag, teinréttur, bar höfuð hátt, lyfti fótum hátt á hlaupi og var bara glæsilegur forystumaður fyrir Hlaupasamtökunum, til sannrar prýði. Maður skammast sín ekki að hlaupa með slíkri úrvalssveit.

Eins og samsetning hópsins gefur til kynna var hraði ekki aðalmálið í kvöld. Það var silast áfram um Ægisíðu og út í Nauthólsvík. Þær héldu okkur við efnið dömurnar af Nesi. aðrir hægir. Nokkur hiti, líklega 16-17 gráður, en vindur sem kældi. Upp í Öskjuhlíð, Hi-Lux, og þar fram eftir götunum. Annað hefðbundið allt þar til er við komum að Ægisgötu, þá höfðu þær stallmeyjar af Nesi ákveðið að halda áfram Mýrargötu - Magnús horfði á mig og spurði: "eigum við fylgja þeim?" - skít og la´go hugsaði ég. Það var farið niður í Ánanaust og yfir á sjávarstíginn og svo alla leið út að Rekagranda - ekki var ég að nenna þessu. Yfir hjá Þokkabót og KR-heimili og þannig tilbaka til Laugar. Líklega einir 12-13 km. Fólk var í góðu formi eftir hlaup, það var teygt vel og látið braka í liðum.

Margt skrafað að hlaupi loknu, bæði utandyra og í potti. Mættir Ellert Schram og dr. Einar Gunnar Pétursson. Rætt um ævir sýslumanna og presta. Fram kom að Kári verður í Frakklandi á haustönn og fékk hann ýmis góð ráð um úthald einsemdar og kokkamennsku hins einmana karlmanns. 

Minnt er á hlaupaáætlun Á. Kvarans, ritari verður að vísu að tilkynna syndir: utanlandsferðir í þágu Lýðveldisins framundan. En til þess að bæta fyrir yfirsjónir undanfarinna daga verður hlaupið langt á morgun, farnir vonandi 25 km í fyrramálið frá Vesturbæjarlaug kl. 9. Áhugasömum er frjáls þátttaka.

Í gvuðs friði. Ritari.  


Keyptur Færeyingur

"Ég var að kaupa bát" sagði ónefndur blómasali er hann mætti til hlaups í gær. "En gaman!" sögðum við hinir, "þá geturðu boðið okkur, vinum þínum, út á sjó á sjóstangaveiðar." "Ekki spurning!" sagði okkar maður.

Einhverra hluta vegna varð mér hugsað til atriðis í myndinni "Gaukshreiðrið" þar sem Jack Nicholson býður vistmönnum geðsjúkrahússins í bátssiglingu og á veiðar á illa fengnum báti. Hvers vegna þessi hugrenningatengsl komu upp hjá mér get ég ekki útskýrt, svona koma nú upp undarlegar tengingar í kollinum á manni.

Hvað um það, ég sá fyrir mér myndarlega snekkju, altént hraðbát sem gæti tekið marga farþega, er glaðir munu sigla um sundin blá með vindinn þyrlandi upp hárinu. "Áttu bátinn einn?" spurði Magnús. "Nei, við eigum hann nokkrir saman," sagð blómasalinn. Þá fór glansinn ögn að fara af ævintýrinu. Og það var endanlega úti þegar hann bætti við: "Það er Færeyingur." Færeyingur er árabátur með færeysku lagi eftir því sem segir í orðabók Menningarsjóðs. Þá fer maður að skilja hvað vakir fyrir okkar manni: það á að virkja félaga Hlaupasamtakanna í að róa honum um sundin, þar sem hann situr í stafni og stjórnar og rennir fyrir ýsu á Faxaflóabugt. Nei, takk! Það skal aldrei verða!  

ÆÆÆÆÆÆ!!!!!!

Skyndilega er allt fullt af kommentum um akstur - æ mig auman! Jeg sem sat í mesta sakleysi og tók upp einfalda umsøgn frá konunni um gøngu hjúkrunarfrædinga annars vegar og kappakstur hins vegar - tvær frjettir sem vega salt. Nú er umræda á bloggsídunni OKKAR farin ad snúast um BÍLA - thetta er HLAUPASÍDA!!! Go away! Axel Kvaran flaug druslunni til Køben, nákvæmnismadur eins og bródir hans, prófessor Fródi. Í gvuds fridi. Ritari.

Óheppileg tímasetning eða hvað?

Það vekur athygli að kappakstursmaður fær tækifæri til þess að sýna "listir" sínar í Smáralind á sama tíma og hjúkrunarfræðingar í Reykjavík, Akureyri og á Selfossi standa fyrir fjöldagöngu til þess að hvetja til varkárni í umferðinni með það að markmiði að fækka alvarlegum slysum - hvort sem þau valda dauða eða varanlegri örorku. Annað hvort er þetta einkar óheppileg tímasetning eða sérdeilis merkileg kaldhæðni...
mbl.is Formúluökumaður sýnir listir sínar við Smáralind
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðnæturhlaup og Mývatn

Það væri synd að segja að hlauparar Hlaupasamtakanna hafi fjölmennt til almenningshlaupa þessa helgina: aðeins var vitað um tvo félaga í Mývatnsmaraþoni og einn var skráður í Miðnæturhlaupið í Laugardalnum - en tveir til viðbótar ef við lítum svo á að Rúna og Brynja hafi auka-aðild. Að norðan berast oss þau tíðindi að félagi Benedikt hafi hlaupið hálft maraþon í sex stiga hita og norðangarra á 1:41:08 sem er meðaltempó upp á 4;48 mín/km að því er próf. Fróði segir. Til hamingju með þetta Benedikt, þú eykur hróður Hlaupasamtakanna með þessari frammistöðu.

Í Laugardalnum var skaplegra veður en fyrir norðan, smá andvari og 16 stiga hiti kl. 22. Töluverður hópur safnaðist saman fyrir framan Laugardalslaug til að hita upp - en þó heyrði ég menn segja að þátttaka hafi verið minni en undanfarin ár. Ástæðan er trúlega sú að fólk er farið að fara meira út úr bænum um helgar og auk þess var margt annað í boði þennan dag: kapphlaup á Esjuna, Jónsmessuferð á Esjuna um kvöldið, o.fl. o.fl. Ég fór rólega af stað í hlaupinu, enda ekki búinn að hita upp. Þar að auki hafði ég asnast til að fá mér fiskisúpu fyrr um kvöldið sem reyndist ekki vera fyllilega sammála mér um að 10 km hlaup væri góð hugmynd. Það gutlaði í mér fyrstu 6-7 km svo að ég komst aldrei á verulega hreyfingu. Auk þess var ég niðurdreginn yfir því að hitta ekki einn einasta úr hinum glæsilega hópi Hlaupasamtakanna - einsemdin enn á ný...

Þegar ég hleyp svona þenkjandi meðfram Suðurlandsbraut sprettur mannvera upp úr grasinu, mér datt fyrst í hug írskur skógarálfur, en sé svo að hún er í gulum hjólajakka og útrústuð sem slík. Er þar ekki kominn próf. dr. Ágúst og mundar myndavél svo hrópandi: Glææææsilegt hjá þér, smellir af áður en ég næ að draga inn bumbuna, sperra kassann og líta upp - ósköp hlýt ég að hafa verið eymdarlegur á myndinni. En ég braggaðist loks af að hitta félaga minn og herti upp hugann. Svona fylgdi hann mér eftir á öllu hlaupinu, spratt upp hér og hvar á leiðinni þegar minnst varði og smellti af, og hrópaði: Glææææsilegt! Mér fannst hlaupið í raun varla hafið þegar ég kom í mark, upplifði það meira sem létta upphitun - og tíminn er sosum ekki neitt til að skrifa heim um 57 mín. eitthvað! Svona á maður náttúrlega bara að skammast sín fyrir og láta engan mann heyra, ég sem stefndi að því að fara undir 50 mín. (sem ég hef aldrei náð að gera). En fiskisúpa er fiskisúpa - ég heyrði að aðrir sem fengu sér af sömu porsjón hefðu legið fárveikir á eftir - ég fór þó 10 km! Ágúst sagði mér að Rúnu og Brynju hefði gengið vel, jafnvel farið undir 50... Hann hughreysti mig með því að segja að ég hefði þó sloppið undan skátunum. Skátarnir eru fólk sem fylgir hlaupurum eftir og tínir þá upp sem guggna á hlaupi. Mun það hafa gerst einhvern tíma er Ágúst veiktist í hlaupi, fékk svima og varð allur skrítinn, hélt sér við staur, að skátar komu, hentu honum aftur í bíl og hlúðu að honum. Var hann hinn versti yfir að fá ekki að ljúka hlaupi. Hefur aldrei þolað skáta eftir það.

Geri ráð fyrir að Ágúst birti myndir úr hlaupinu innan tíðar.

Það er hefðbundinn sunnudagur í dag - mæting 10:10.

Myndir frá Minningarhlaupi

Myndir frá minningarhlaupi Guðmundar Gíslasonar má nálgast hér

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband