Flanir að Laugum

Í þetta skiptið kom blómasalinn á skikkanlegum tíma til hlaups, en Ó. Þorsteinsson var seinn. Hann hafði eytt morgninum í símtal frá Brussel - á hinum endanum var samvizka Þjóðarinnar, skoðanahafi og álitsgjafi og var ekki skemmt. "Hlustið á Útvarp Sögu í fyrramálið kl. 8:30 - þá verður ykkar maður í viðtali." Honum var greinilega mikið niðri fyrir og hafði frá mörgu að greina. Aðrir mættir: Magnús, Guðmundur, Jón Kári, Ólafur ritari og svo Þorvaldur. Flosa sást bregða fyrir, en hljóp ekki.

Ef einhver hefur efast um að frændi minn og vinur, Ó. Þorsteinsson, væri persónufróðastur Íslendinga nú um stundir þá hljóta þær efasemdir að hafa rokið út um gluggann í þessu hlaupi. Ekki mátti minnast á þjóðþekktan Íslending öðruvísi en að nafni minn nefndi kvonfang, börn, foreldra, og svo að segja öll skyldmenni með það sama. Var engu líkara en óminnishegri hefði hafið sig til flugs upp af höfði hans miðað við tvo síðustu sunnudaga, þegar VB kom með afar snúnar vísbendingaspurningar um fólk og tengsl þess sem ekki var nokkur leið að ráða fram úr. Í þetta skiptið snerist spilið við, nú kom frændi með svör við öllum vangaveltum og tengingar í allar áttir. Að vísu kom engin vísbendingaspurning, en þær eru líka sérsvið Vilhjálms og allt í lagi að hvíla sig á þeim meðan hann er fjarri.

Það rigndi eins og á föstudag. Guðmundur hafði fréttir af laugardagshlaupi, sagði þar hafa verið fjölda þátttakenda, einkum kvenna, og farið hefði verð langt og hratt.

Ég fór rólega út með þeim Ólafi Þorsteinssyni og Einari blómasala. Einar er á leið til Ameríku og hleypur lítið næstu vikuna. Fer til Boston þar sem hann vonast til að ná fundum dr. Gunnlaugs Péturs, stórhlaupara. Ólafur er á batavegi eftir slæmsku í fótum sem hefur hamlað hlaupum upp á síðkastið, hann hefur aðeins farið stuttar vegalengdir, og hálfhaltrandi. Nú er hann undir nuddarahendi og stefnir allt í rétta átt. Mættum þjóðþekktum lögmanni og mátti engu muna að Ólafur felldi niður hlaup til þess að eiga við langt spjall.

Vitanlega var rætt um sviptingar í borgarstjórn, þátt manna og flokka og sýndist sitt hverjum. Engin ein lína var lögð, en vísað til viðtals við talsmanns Samtakanna í Útvarpi Sögu í fyrramálið. Hins vegar hafði frændi minn það fram að færa að fyrir mann af hans kalíber, vaskeægte Reykvíking í kynslóðir, sem fyllist kvíða við það eitt að ferðast austur fyrir Snorrabraut, væru átök innan Borgarstjórnar under sygekassegrænsen, nánast fullkomið niederlag. Hann eyddi gærkvöldinu með Framsóknarmönnum og fullyrti að þeir stæðu keikir með sínum manni, Birni Inga. Þeir sem þekkja hann, vita að þegar vel liggur á honum og mikið liggur við talar hann gjarnan dönsku, og á sunnudögum er honum sérleg þægð í að tala gamla kúgaratungumálið; en þegar stórtíðindi eins og þau sem nú eru uppi rekur á fjörur vorar má ekki minna en sletta þýzku í bland. Því er það nauðsynlegt hlaupurum að hafa þekkingu á tungum til þess að geta tekið þátt í hlaupum með árangri.

Eins og á föstudag fór að rigna. Það rigndi mikið. Í Nauthólsvík hélt Magnús áfram, honum var kalt. Aðrir stöldruðu við. Ó. Þorsteinsson hélt mikla skammarræðu yfir þeim sem fremstir höfðu farið og spurði hvort þeim lægi lífið við, að hlaupa eins og vitleysingar á allt of miklum hraða. Menn horfðu skömmustulegir hver á annan og höfðu engin svör. Svo sneru þeir við, blómasalinn og Ólafur - en aðrir héldu áfram. Þrír fóru Veðurstofuhálendið, Guðmundur, Þorvaldur og ritari. Hér upphófust mjög fróðlegar umræður um orkumál, upplýst að knýja mætti bíla með þrýstilofti og væri mun raunhæfari kostur en vetni. Þetta hefði m.a. verið reynt í Suður-Afríku og á Indlandi.

Það bætti í rigninguna og stefndi í sama veður og á föstudag. Við fórum hefðbundna sunnudagsleið án þess að stoppa, við óttuðumst kælinguna. Af þessum sökum, og vegna norðanáttarinnar, fórum við Laugaveg og höfðum þetta stutt. En það var sami hraðinn á Þorvaldi og á föstudag, en hann var vðráðanlegur. Það var yndislegt að hlaupa í þessari rigningu og gott að koma tilbaka til Laugar.

Ölhópurinn fór út 9:30, hljóp upp að Árbæjarstíbblu, 20 km, og af honum mættu þeir Gísli og Jörundur til potts. Jörundur heimtaði að verða skráður með viðurnefnið Lúpínu-Jörundur, hann gældi við þá hugmynd að kaupa hús Hákarla-Jörundar í Hrísey og verða sérvitur einbúi þar án tengsla við umhverfið; Gísli sagðist vera að velta fyrir sér að kaupa Uppsali í Selárdal og setjast að þar og verða einrænn, hverfa frá ys og þys hversdagsins. Setið að potti í klukkustund og haldið áfram að greina ástand mála í Lýðveldinu. Mikil persónufræði af hálfu frænda míns, en sjálfum mér til hróss get ég sagt að ég gat bætt í ýmsar gloppur sem voru á þekkingu manna á helztu ættum í landinu. Rætt um nám fullorðinna, prófatökur, doktorspróf, einkunnagjöf - m.a. var dr. Baldur Símonarson spurður hvort einhver tilgangur gæti verið með því að fullorðnir menn setjist á skólabekk, greinileg sneið til Ó. Þorsteinssonar sem setzt hefur aftur á skólabekk á gamals aldri. En Baldur kom á óvart með því að segja að margt gott gæti almennt leitt af því að menn hæfu nám að nýju, nám skemmdi engan eða meiddi.

Einhvers staðar djúpt í persónufræðinni barst talið að Laugum í Reykjadal, einhverju fegursta bæjarstæði sem fyrirfinnst nyrðra, og voru menn sammála um að það væru sannkallaðar Flanir, samfelld gróskuflæmi.

Þessi hlaupari er allur að koma til og taka gleði sína á ný, búinn að endurheimta eldhús sitt að mestu og getur farið að galdra fram dýrindis máltíðir innan skamms. Verður svo vonandi á morgun, að afloknu árangursríku hlaupi. Vel mætt! Ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband