16.11.2007 | 21:32
Where have all the flowers gone?
Rúna var með rafmagnslausan Garmin og þar með gagnslausan. Af hverju fólk mætir með rafmagnslaus leiðsagnartæki í hlaup er mér hulið, en við hughreystum Rúnu með að farnar yrðu kunnar leiðir og engin hætta á að villast. Er komið var út á stétt fóru menn strax að tala um að líklega yrði norðangarri á Sæbrautinni og því skynsamlegt að fara aðrar leiðir, stytta og fara í skjóli milli húsi. Ég, verandi fulltrúi hugsýnar prófessors Fróða um dugmikla hlaupara og öflug Hlaupasamtök, reyndi að blása hug og metnaði í hjörtu hlaupara, en með misjöfnum árangri. Farið hratt út og get ég með góðri samvizku sagt að ég var í hópi fremstu hlaupara sem fóru hratt yfir, líklega á 5 mín. tempói, þar voru auk mín Magnús, Denni og Hjörleifur. Þetta eru allt afbragðshlauparar og fara hratt yfir, eru léttir á sér. Við inntum Denna eftir fregnum af Nesi og fengum að heyra að til hafi staðið að reka Friðbjörn formann fyrir að hlaupa með Hlaupasamtökunum, og staðið hafi trúarbragðastyrjöld og nornaveiðar vikum saman meðan verstu hryðjurnar gengu yfir.
Öftustu menn voru blómasali og Birgir jógi og fleiri, og alla leiðina heyrði maður í Birgi, hann þagnaði ekki eitt augnablik. Ekki var nú talað af viti þar, það var bullað og bullað og merkilegt hvað menn geta haldið áfram að prjóna við vitleysuna. Áhyggjur af vinslitum milli ónefnds álitsgjafa og þekkts velunnara hlaupa og útivistar í Vesturbæ, frænda ritara, en ég fullyrti að allt það væri orðum aukið og ekkki til að vera að velta sér upp úr. Frændi minn væri slíkt valmenni að hann væri fljótur að gleyma úlfúð og misgjörð. Á kúrsi út í Skerjafjörð lentu Gísli og Denni í miklum ættfræðisamræðum sem snerust um einhverja Gísla, Kjartana og Ragnara - og fór viðstöddum fljótt að blöskra orðræðan.
Þessi sterki hópur hefur það sér til ágætis að hann vill gjarnan þétta raðirnar, enginn skilinn eftir, beðið eftir seinkomnum og seinhlaupnum. Þannig fórum við nokkurn veginn samtímis upp Hi-Lux og brekkuna, tímajafnað er upp var komið. Beðið extra eftir blómasalanum sem var extra-seinn. Þannig áfram um Veðurstofuhálendið, MH og Klambra. Það togaðist á í okkur að gefa í og slaka á og bíða eftir þeim sem sein voru, vissum ekki alveg hvernig við áttum að hegða okkur. Hins vegar má það segja okkur til hróss að við fórum nokkuð hratt yfir - eftir á sagði Hjörleifur að við hefðum verið á sæmilegu tempói, en ég vil meina að við hefðum farið nokkuð hratt yfir og verið á góðum hraða.
Hér urðu vonbrigðin, á Klömbrum. Þar tóku menn sig saman um að forðast Norðurhliðina, völdu Laugaveginn, ég var djúpt í frásögn af merkilegum mönnum á Rauðarárstíg, var að leiðbeina Birgi um eitthvað, þegar ég lenti á járnstólpa við fortóið með hnéð mitt og hef sennilega maskað hnéskelina, en lét ekki á neinu bera og hélt áfram hlaupinu. Ég var ósáttur við að stytta um Laugaveginn, en það vildi svo til að í hópnum í dag voru slíkir opinberunarsinnar og gjallhyrningar að ekki var við neitt ráðið, það átti að sýna sig og opinbera á helztu verzlunargötu Reykvíkinga í von um að hitta fyllibittur, verzlunarsjúka Íslendinga, veðsjúka menn og fleira í þeim dúr.
Við skeiðuðum eftir Laugaveginum, og tókum eftir því að við höfðum götuna út af fyrir okkur, það komu einfaldlega engir bílar! Það var ljúft, um þetta leyti hafði Rúna blandað sér í hóp fremstu manna og lék grunur á að hún ætlaði að reyna að trekkja menn upp á síðustu metrunum. Menn héldu tempói og slógu ekki af - nema blómasalinn sem týndist eftir Klambra og sást ekki aftur fyrr en nokkuð var liðið á pott. Svo var bara gefið í, Laugavegur, Bankastræti, Austurstræti, Ingólfstorg, Kvosin og upp Túngötu, niður Hofsvallagötu, við hús númer 16 sagði Magnús: "Náum ljósunum!" en þau voru að breytast í grænt. Hann gaf í og náði ljósum, við hin urðum að játa okkur sigruð. Sem var allt í lagi og breytti litlu. Komum nokkuð jafnsnemma á plan. Teygðum vel og ræddum málin. Mættur Þorleifur Borgarstjóri, að beiðni Birgis bukkuðum við okkur og beygðum, fórum nánast á hnén í fullkominni lotningu, svo var haldið í skýli. Þar hélt leikritið áfram, gvuð veit hvar þetta endar.
Í potti beið dr. Anna Birna, það fyrsta sem hún sagði þegar ritari birtist var: "Æ, nú man ég, að ég á eftir að panta mér gistingu í Brussel." Gvuð má vita hvaða hugrennningatengsl þar búa að baki. Síðan komu öðlingarnir hver af öðrum. Stefnir í vandræði með heimilissátt hjá þeim feðgum Helmut, Teiti og Tuma; þeir bræður lýstu yfir að þeir ætluðu að styðja MR í Morfís-keppni kvöldsins, en Helmut mun vilja styða FÁ. Birgir hélt áfram að bulla í potti, makalaust hvað hann endist til þess að bulla, vitleysan veltur upp úr honum án þess að nokkurn enda virðist að sjá á henni. Menn sátu gáttaðir og hlustuðu - en svo hafa þeir líklega hugsað sem svo: Er ég virkilega hérna ennþá að hlusta á þetta? NEI! Menn steðjuðu úr potti og héldu til sinna verka í Lýðveldinu.
Fyrirsögnin vísar til þess að fjarverandi voru margir góðir hlauparar og félagar sem menn sakna, og mega gjarnan fara að sýna sig, nefnum engin nöfn, að góðum sið frænda míns, Ó. Þorsteinssonar, sem aldrei segir nafnlausar sögur. Ritari.
14.11.2007 | 21:28
Blómasali bilar í baki - ráðgerir stóra hluti
Vilhjálmur Bjarnason hafði gleymt jakka. Bað mig að útvega sér einn slíkan. Ég fór og talaði við blómasalann, falaðist eftir jakka handa VB. Hann seldi mér í hendur illaþefjandi treyju. "Þetta er ekki jakki" sagði ég. "Þetta er nógu gott í hann Vilhjálm Bjarnason" sagði Kristján Skerjafjarðarskáld, sem mættur var í útiklefa. Ég fór með treyjuna í Brottfararsal og hugðist rétta Vilhjálmi. Honum hryllti greinilega við tilhugsuninni um að draga treyjuna á skrokkinn og þvertók fyrir að þiggja boð blómasalans, rak mig öfugan út í klefa að skila treyjunni. Ég flutti honum kveðju Skerjafjarðarskáldsins. "Já, segðu honum frá mér að hann sé leirskáld!" hrópaði VB. Enn fór ég í útiklefa, grýtti treyjunni í blómasalann, en hafði ekki geð í mér að segja Kristjáni hvað VB vildi segja honum, mér fannst það einum of, sagði bara að Villi hefði efasemdir um skáldaæðina í honum.
Aðrir mættir Friðrik, Jörundur, Þorvaldur, Þorbjörg, Una, ókunn kona, Rúnar þjálfari... Þessi hópur hélt af stað út í myrkrið og hafði þá eina skipun að fylgja þjálfaranum. Vandinn var hins vegar sá að þeir Vilhjálmur og Þorvaldur settu strax í fluggírinn, þjálfarinn á eftir og konurnar. Við hinir vorum fótum seinni að ná upp hraða, og um það bil sem menn komu út á Einimel voru fremstu hlauparar horfnir sjónum okkar. Við fórum sem leið lá út á Ægisíðu og vonuðumst til þess að hitta þau þar, sáum þeim bregða fyrir öðru hverju á einhverjum bakleiðum um Grímsstaðaholtið, Einar blómasali emjandi af samvizkubiti, aðrir vongóðir um að hitta mannskapinn þegar hann sneri niður á Síðuna. Við hlupum áfram í myrkrinu og pössuðum okkur á að rekast ekki á fólk eða reiðhjól, en sem menn muna er mikið myrkur á Ægisíðu á þessum tíma árs. Rákumst öðru hverju á heila hlaupahópa eða einstaka hlaupara sem virtust hafa villst frá hópi sínum; hélt þessu fram allt hlaupið. Rætt um húsnæðisverð og húsnæðiskaup á Ægisíðu og í Skerjafirði, við héldum hópinn fjórir: Jörundur, Friðrik, blómasali og ritari. Einnig um horfur í efnahagsmálum, rekstur fyrirtækja, einnig um heilsufar ónefndra hlaupara.
Eins og menn vita er það helzta skemmtun tiltekinna hlaupara að þrjóskast við að fara í sjóinn á miðvikudögum. Að þessu sinni ráku þeir Helmut og Friðrik harðan áróður fyrir því að farið yrði í sjóinn, erfitt var að standa gegn þessu og varð niðurstaðan sú að tveir framangreindir hlauparar auk ritara fóru í 6 gráðu kaldan sjóinn og þreyttu sund. Fóru að því loknu upp á rampinn og klæddust að nýju. Kemur þá ekki móður og másandi Rúnar þjálfari, búinn að þefa okkur uppi og greinilega ekki búinn að gefa upp alla von um að það mætti fá okkur til þess að taka nokkra spretti. Hann beið eftir að við lykjum okkur af á planinu, svo var haldið um Hlíðarfót, blómasalinn og Jörundur löngu farnir. Við fórum á rólegu tempói og ræddum um maraþonhlaup. Á Hringbrautinni tókum við nokkra góða spretti og tókum allir vel á því. Ótrúlegt var að sjá þessa veiku og gömlu menn spretta svona úr spori. Mættu margir yngri menn taka þá sér til fyrirmyndar. Er þrautseigja, en jafnframt umburðarlyndi, þjálfarans aðdáunarvert og hefur hann góð áhrif á menn, sem maður hefði jafnvel afskrifað sem vonlaus keis.
Við teygðum vel á stétt og rifjuðum upp sögur úr Eyjum, m.a. þegar vinirnir Einar og Ó. Þorsteinsson voru staddir þar á pæjumóti, og Einar yfirgaf vin sinn orðalaust, tók síðasta bát í land, veifandi til Ólafs sem átti leið niður á hafnarbakka. Vilhjálmur forvitnaðist um vinslit sem greint var frá í seinasta pistli, vinslit sem hann vissi ekki að hefðu átt sér stað. Ég greindi eftir minni frá því sem frændi minn sagði um þennan viðburð s.l. mánudag. Fullyrti VB að þetta væri tóm vitleysa, hann hefði einfaldlega leiðrétt ónákvæmar upplýsingar frá Ólafi og væri ekkert nýtt.
Í potti sat Eiríkur Jórvíkurfari, vel hlaupinn hlaupari, og sagði frægðarsögur af hlaupinu í Nýju Jórvík. Við lögðum drög að maraþoni í Berlín á næsta ári, meira um það frá blómasalanum fljótlega. Svo var rætt um mat og jólahlaðborð - hér sprakk Eiríkur. "Hvaða snakk er þetta eiginlega! Hafa menn ekki gert sér grein fyrir að þetta er ekki hópur einhverra grallara og gálgafugla! Þetta eru alvöru hlaupasamtök. Hér verður að bæta við Boot Kamp æfingum kl. sex á morgnana, við verðum að krefjast þess að menn taki hlaupin alvarlega. Við verðum að fara að gera kröfur til hlaupara og ekki sætta okkur við fólk sem ekki tekur á því. 1. febrúar 2008 höldum við 10 km hlaup og þeim sem ekki hlaupa undir 40 mín. verður meinað að hlaupa með okkur framvegis!" Var hann í miklum ham og ljóst að mikill hlaupari er mættur til þess að láta til sín taka.
Jörundur og blómasalinn tóku kast yfir mikilli fjarveru ritara og miklum ferðalögum. En vonandi grípur framkvæmdagleði blómasalann og hann kemur því í verk sem um var rætt í potti. Næst: föstudagur.
Pistill Ritara | Breytt 15.11.2007 kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2007 | 21:11
Menningarviðburður við Flugvöllinn
Því er ekki að neita að ýmsir viðstaddir uppgötvuðu möguleikana sem fylgdu því að þjálfaralaust var í kvöld, því ekki að óhlýðnast, fara hefðbundið, vera frjáls? Nei, af einhverjum inngrónum undirlægjuhætti og ósjálfstæði var ákveðið að gera eins og þjálfarinn lagði daginn upp, menn fóru tiltölulega rólega af stað, nema þeir Magnús og Þorvaldur sem sýna engu auktoríteti respekt - settu allt á fullt og Guðmundur með þeim. Ég tölti með Gísla á skaplegum hraða, mættum Benedikt sem kom út úr myrkrinu á Ægisíðu og slóst í för með okkur. Hann var rólegur framan af, svo náði Una okkur í Skerjafirði og eftir það var útséð með alla skynsemi.
Hér gerðust hlutirnir. Á móti okkur kemur kunnugleg vera, hlaupari í Balaklövu, þrútinn af átökum og áreynslu, þekktur velunnari hlaupa og útivistar í Vesturbæ, frændi ritara, sjálfur Ó. Þorsteinsson, en svo langt er um liðið síðan flestir hlauparar hafa hlaupið að þeir báru ekki kennsl á hlauparann. Líklega má einnig útskýra það með ellihrörnun ónefndra hlaupara, sem vissulega eru farnir að nálgast gamals aldur eins og það heitir. Nema hvað, við mætumst þarna í myrkrinu og var ekki laust við að sæluhrollur færi um viðstadda, að mæta Formanni til Lífstíðar á þessum stað - en síðar kom í ljós að hamingjan er skammvinn sæla, meira um þetta seinna.
Björn náði okkur, Una - hún yfirgaf okkur og tók Benedikt með, þau reyndu að ná fremstu hlaupurum. Ég veit ekkert um öftustu menn, það var eitthvert stjórnleysi í gangi í kvöld, menn runnu eins og safn af rollum um allar trissur án þess að hafa nokkurt markmið. Einhverjir söfnuðust saman við Nauthól og tóku spretti upp að Hi-Lux, ég fór fljótlega um Hlíðarfót, fór einn og þannig líður mér bezt: illa, einn. Mig grunar að Einar blómasali hafi ekki mætt til þess að mótmæla því að ég gleymdi að kaupa súkkulaði í síðustu utanferð minni. Hann er svo viðkvæmur.
Ég fór til þess að gera stutt í dag, hef haldið mig utan við þjálfunarprógramm að mestu, enda meira í útlöndum en forsetinn og því aðeins raunhæft að halda í horfinu, en ekki að stefna á einhverjar framfarir. Menn veltu fyrir sér heilsufari Ágústs, ég sagði þeim að nefna hann ekki ógrátandi, svo skelfilegt væri ástandið á þeim bænum og óvíst að hann hlypi meira, annar spítalamatur heitir Einar blómasali, en við búum sem betur fer við gott heilbrigðiskerfi sem getur boðið þeim úrræði við hæfi, endurhæfingu, göngugrindur og hvaðeina.
Í potti féll sprengjan: vinslit eru orðin með þeim VB og Ó. Þorsteinssyni. Frændi minn vildi ekkert tala um það, nefndi óeiningu um persónufræði og ártöl og gjallarhornssýki ónefnds íbúa í Garðabænum, annað væri það ekki. Við gengum á hann um ástæður þess að sletzt hefði upp á vinskapinn, en hann vildi ekki ræða það frekar. Setið um stund í potti, fræðst um aðstæður Kára sem fór á bókmenntahátíð í Nantes, hitti þar Íslendinga, hljóp í hádeginu á stuttbuxum! Rætt um vaxtastefnu Seðlabanka, vaxtaokur bankanna og fleira í þeim dúr.
Ég verð að koma á framfæri ábendingu um gott lesefni, sjálfsagt eru einhverjir búnir að lesa þetta rit: Tveir húsvagnar eftir Marinu Lewycku, í þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar, sem á skemmtilegar rispur þegar svo ber undir. Búinn með Arnald. Næst hlaupið á miðvikudag. Í gvuðs friði (vitiði annars hver átti þessa línu? Jóhannes úr Kötlum). ritari.
7.11.2007 | 21:59
Sjósund í nóvember
Einhver skarkali varð í Brottfararsal - en VB hafði stjórn á ástandinu, og áður en vitað var af voru menn komnir út á stétt og farnir að hlýða á þjálfarann, sem lagði línurnar: farið skyldi hægt af stað, það væri það eina skynsamlega. Inn í Nauthólsvík, bannað að fara í sjóinn, svo gætu menn annað hvort farið Hlíðarfót eða inn í kirkjugarð eða upp löngu brekkuna sem við fórum um daginn, Suðurhlíð eða hvað hún heitir, hjá Perlu og svo vestur úr. Það þurfti ekki að messa mikið yfir okkur, aumingjunum, við þökkuðum fyrir okkur og fórum bara hægt, fyrst ég, blómasalinn og Friðrik, svo bættist Magnús í hópinn, og var þakklátur fyrir að fá að dingla með okkur rolunum. Hann er að stíga upp úr kvefi og ekki vel frískur. Sömuleiðis var Friðrik að rísa upp úr veikindum, og ekki þarf að orðlengja um heilsufarið á blómasalanum, hann er nú bara spítalamatur og er mesta furða að ekki sé búið að stoppa hann upp eða búa til úr honum sýningardæmi fyrir kandídata.
Við fórum svo hægt yfir að það er raunar rannsóknarefni hvernig hægt er að færa fætur svo hægt hvorn fram fyrir annan og jafnframt vera á hreyfingu. Fljótlega misstum við af öðrum og sprækari hlaupurum, en undum sælir við félagsskap hver annars og umræður um ýmisleg málefni, ekki öll hafandi eftir, en hvað um það: við áttum góða stund þarna félagarnir. Allir í þokkalegu formi, meiðsli gerðu ekki vart við sig og áður en við vissum af vorum við komnir í Nauthólsvík. Björn hafði haft á orði að baðast, svo að við Friðrik fórum niður á ramp í leit að Birni; engan sáum við björninn, en sögðum sem svo, að úr því við værum komnir þarna væri synd að sleppa sjósundi: drifum okkur úr og skelltum okkur í svala ölduna, sem var yndisleg. Okkur varð hugsað til próf. Fróða, sem er einn mikill áhugamaður um sjósund, en getur, heilsu sinnar vegna, því miður, ekki sinnt því sem skyldi. Friðrik þótti leiðinlegt að hafa misst af októberstigi vegna veikinda sinna. Þá upplýsti ég hann um hina nýju reglu Ágústs: ef menn hafa á annað borð baðazt í október - þá eiga þeir októberstig um alla framtíð. Þessi regla varð til þegar ljóst var að Ágúst myndi missa af októberbaði 2007. Magnús og blómasalinn stóðu hjá og eru vitni um sjóbað okkar Friðriks. Óskast það fært til bókar. Vorum fegnir að enginn var búfénaðurinn á staðnum, sá hefði aldeilis verið æstur í að sleikja af okkur saltið.
Við klæddumst að nýju og vorum bara frískir, héldum áfram með þeim Magnúsi og Einari um Hlíðarfót og tókum eftir mikilli umferð framhjá félagsheimili Kristsmanna - og vörpuðum fram þeirri spurningu hvort ekki myndi umferðin færast í aukana með heilum háskóla á þessum slóðum, hvort ekki þyrfti að stækka veginn. Á Hringbraut ákvað ég að fara að ráðum þjálfara og tók þrjá spretti, sem entust mér frá Valsheimili að Háskóla. Með því skildi ég félaga mína eftir sem voru ekki jafn vel á sig komnir í kvöld og ég - þó má segja það blómasala til hróss að hann var ekki langt undan og reyndi sitt bezta til þess að spretta þrátt fyrir slæmt bak. Á plani var Skerjafjarðarskáld mætt og hafði góð orð um það ágæta uppbyggingarstarf er fram færi á vegum Hlaupasamtakanna í Vesturbænum. Við teygðum, sögðum nokkra brandara, flutt ein vísa, farið í pott. En bara stutt, það voru einhverjir leikir í Evrópukeppninni.
Þetta hlaup var einstaklega vel heppnað, ég fann ekki til meiðsla í mjöðm sem hafa verið að angra mig, og fór bara skynsamlega. Mér hugnast það þegar þjálfarar heimila skynsamleg hlaup og eru ekki að spenna menn meira en skynsamlegt getur talist, en fellst hins vegar á það sjónarmið að líkaminn hafi gott af því að gera eitthvað sem er óvænt og hann býst ekki fyllilega við, svo sem eins og að taka nokkra létta spretti.
PS
Sú athugasemd hefur verið gerð við sunnudagspistil að mér hafi láðst að greina rétt frá greiningu dr. Baldurs á persónufræði frænda míns Ó. Þorsteinssonar Víkings, þar sem fram kom að gæðastjórnun væri ábótavant í frásögnum Ólafs af ættum manna, tengslum, skyldleika, fæðingarárum o.s.frv. Mér er ljúft og skylt að staðfesta að dr. Baldur setti vissulega fram þessa skýringu, að Ólafur væri vísvitandi ónákvæmur til þess að vekja menn til lífs og umhugsunar og kalla eftir leiðréttingum og til þess að heyra hvort þeir væru með fullri meðvitund og hlustandi eftir þeirri speki sem í boði er hverju sinni. Það er minn lapsus að hafa fellt niður þessa skýringu, eða kannski kvikyndisskapur - svona er maður illa innrættur. Vigtun í fyrramálið - og svo útlönd. Í gvuðs friði, ritari.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.11.2007 | 21:58
Frábært hlaup á Nesi
Svo sem fram kom í pistli gærdagsins var lokað í Vesturbæjarlaug í dag frá kl. 13:00 vegna starfsdags, og því voru góð ráð ódýr: lá beint við að steðja á Nesið í faðm vina og velunnara sem þar fylla flokka trimmara á Nesi og kalla sig Trimmklúbb Seltjarnarness, þangað áttum við heimboð frá föstudegi, raunar frá sjálfum formanninum, Friðbirni. Óhjákvæmilegt er að láta þess getið að þegar Friðbjörn upplýsti að hann væri formaður flokksins, spurði ritari forviða: Er ekki Jóhanna formaður? Nei, ég var kosinn formaður á seinasta aðalfundi. Kosinn? spurði ritari aldeilis hlessa. Hjá okkur þekkist slíkt ekki. Þar verða menn formenn og halda embætti meðan öndin blaktir í vitum þeirra.
Það kallar á mikla hæfileika að rata frá inngangi og að afgreiðslu í Neslaug vegna framkvæmda sem þar standa yfir. Ekki leit vel út með þátttöku framan af, aðeins ritari og Björn kokkur mættir. Við Björn áttum kyrrlátt spjall um ýmsar náttúrur, m.a. hina ótrúlegu umbreytingu sem orðin er á Guðmundi, stundum nefndum "hinum sterka" og vorum við sammála um að ýmsir félagar í blómasölubransanum mættu taka hann sér til fyrirmyndar. Svo rættist úr og kunnugleg andlit streymdu inn, tilheyrandi Magnúsi, Þorvaldi, Benedikt, Einari blómasala, Kalla kokki og, loks birtist sjálfur Ó. Þorsteinsson sem að óbreyttu hlýtur að teljast óliklegastur manna til að hlaupa í öðru sveitarfélagi. Við hittum Denna og Kristján á Nesi, og einhverja fleiri hlaupara og var tjáð að við yrðum að fara upp að skóla þar sem fram færi upphitun. Þangað komum við í einfaldri röð skokkandi, og hlýtur að hafa verið afar tilkomumikil sýn, sérílagi þar sem á flötinni við skólann voru aðallega konur, og svo nokkrir eldri herramenn. Þar bar ég kennsl á Guðrúnu Geirs, Jóhönnu Einars, Friðbjörn, Sæmund og Hauk Sigurðss., en þekkti ekki fleiri. Var okkur fagnað með lófataki og boðið að taka þátt í upphitun, sem við þáðum með þökkum og gerðum okkar bezta til þess að finna rétt tempó - en ef satt skal segja eru æfingar af þessu tagi ekki okkar sterkasta hlið.
Að upphitun lokinni var lagt af stað og gefin út lína um það að farið yrði í flokkum, og farið mislangt, gefnir upp ýmsir valkostir, það átti að fara austur úr, sumir máttu snúa við á Hofsvallagötu, aðrir Suðurgötu, og þannig áfram, Hlíðarfót eða Öskjuhlíð, allt eftir smekk. Ég var ótrúlega vel stemmdur fyrir hlaup - en líklega fullmikið klæddur, í Balaklövu og flíspeysu, því þegar út var komið og af stað farið fann ég að ekki var eins kalt í veðri og ég áleit fyrst. Var á báðum áttum framan af hvað ég ætti að fara langt eða hversu hratt. Líklega hefur verið farið fullhratt út og ég fann að ég myndi ekki halda í við fremstu hlaupara sem voru býsna frískir. Rætt um árangur Eiríks okkar í New York maraþoni - ég spurði TKS-fólk hvort þau hefðu átt fulltrúa í því hlaupi, en svo var ekki. Það er farið að dimma mjög þessi missirin og því eins gott að vera vel sýnilegur, í endurskinsfatnaði, og þannig voru margir í kvöld.
Þegar á reyndi var veður hið bezta, mátulega svalt, hægur vindur þrátt fyrir ljótar spár, þannig að hlaupið reyndist á við ljúffengustu máltíð - um þetta var full samstaða að hlaupi loknu. Hvað um það ég skeiðaði beittur, og líklega allt of hratt með mönnum eins og Benedikt og Þorvaldi, og trúlega höfum við haldið hópinn nokkuð þétt út að Ægisíðu, þá fór að draga í sundur með fólki. Á þessum punkti var ég kominn í félagsskap við fólk af Nesi, Denna, Kristján og unga konu sem ég kann ekki nafnið á. Og við héldum hópinn það er eftir lifði hlaups, fórum austur úr inn í Nauthólsvík, og þaðan um Hlíðarfót, um lendur Kristsmanna Krossmanna, og svo aftur vestur úr. Ekki héld ég að tal hafi fallið niður eina mínútu alla þessa leið, og minnir Denni um margt á Bigga, nema hvað hann talar í eðlilegri tónhæð.
Á þessum tímapunkti var m.a. rætt um árshátíðir, upplýst að TKS er með árshátíð ár hvert í febrúar, í golfskálanum á Nesi. Var ýjað að því að félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins væru velkomnir á árshátíðir Nesverja ef áhugi væri fyrir hendi. Bíður það staðfestingar formanns - enda eru félagar Hlaupasamtakanna mjög trúir sínum formanni, og vænta þess að TKS-fólk sé sama sinnis gagnvart sínum formanni.
Það er svolítið skrýtið með hlaup, að eftir því sem hlauparar hitna upp, auka þeir hraðann og bæta í. Þannig var það í þessum fjögurra manna hópi sem þessi hlaupari hljóp með í kvöld, það var gefið í á Hringbraut og farið býsna greitt. Denni allur að eflast og koma til, farinn að hlaupa mun hraðar en maður hefur mátt venjast og hálfvegis farinn að verða til vandræða. Enn og aftur óskaði ég þess að hafa blómasalann við hlið mér sem alltaf er skynsamur á hlaupum og fer ekki hraðar en svo að fólki líður vel á meðan það hleypur. Svo var tilhugsunin um það að við Háskólann var ekki stutt í mark, nei, við þurftum að skáskjóta okkur hjá VBL og halda áfram vestur úr, það var erfitt.
Á Nesi hittum við blómasalann niðurbrotinn, hann hafði aftur fengið í bakið, þrátt fyrir gott hlaup í gær, miklar teygjur og beygjur, en þær höfðu greinilega vakið falsvon. Hann var beygður maður og stutt í krók. Jafnframt mættum við Ó. Þorsteinssyni - sem var öllu brattari, og bara ánægður með hlaup, hafði farið fulla porsjón, um hlaðið hjá Kristsmönnum og þaðan tilbaka. Ég sagði honum tvær sögur. Önnur var af týndum bíllykli. Svo var mál með vexti að ritari týndi bíllykli á leið til Brussel, og uppgötvaði það ekki fyrr en hann kom heim. Svo að lykillinn gat verið einhvers staðar á leiðinni: ráðuneyti-KEF-flugvél-Kastrup-SASvél-Zaventem-lest-hótel-leigubíll-Zaventem-SASvél-Kastrup-KEF... o.s.frv. Byrjaði að senda út tölvupósta - og fékk eðlilega engin svör, nema frá hótelbókunarkeðju. Nema hvað, næst þegar ég fer um Leifsstöð ráfa ég að móttöku lögreglu og spyr hvort þeir hafi fundið bíllykil sem... Já, ert þú ekki í e-u ráðuneyti... Við fengum fyrirspurn frá þér og svöruðum, en Stjórnarráðið er með svo öfluga vírusvörn að m.a.s. lögreglan kemst ekki gegn með svarpóst! Þeir voru með lykilinn minn.
Hin sagan laut að því er ég sat um daginn á Radisson SAS Scandinavia ásamt fyrrv. yfirmanni mínum, Birni Bjarnasyni, og Halldóri Grönvold hjá ASÍ og við áttum gott spjall um landsins gagn og nauðsynjar. Einhvern tíma hefur leðurveski mitt runnið úr jakkavasa mínum, sem er við jakkalafið, Boss-veski sem ektafrú mín gaf mér og er því hlaðið tilfinningalegri investeringu, en hafði ekki að geyma nema tiltölulega fánýta hluti. Jafnskjótt og ég uppgötvaði missinn, heim kominn, sendi ég tölvupóst á Radisson SAS og spurði hvort þeir hefðu fundið veskið. Þeir spurðu á móti á hvaða hóteli ég hefði verið - ég nefndi Scandinavia. Og viti menn! Stuttu síðar fékk ég póst um að ekki einasta hefðu þeir fundið veskið, þeir myndu póstleggja það daginn eftir! Þetta kallar maður þjónustu! Oftar en ekki hefur maður vanist því að fá engin svör við fyrirspurnum sínum.
En þetta var svona útúrdúr, og aðallega settur inn í þeim tilgangi að hvetja fólk til þess að láta einskis ófreistað til þess að endurheimta glataða hluti. Það er fullur poki af glötuðum bíllyklum hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli sem bíða þess að eigendurnir sækja þá. Það kostar 25 þús. kall að láta gera nýja lykla! Önnur sólskinssaga: ég tapaði veski inni á Louvre-safninu í París fyrir tveimur árum, sem ég taldi að ég myndi aldrei endurheimta. Kom tveimur dögum síðar - og viti menn! Enn og aftur hafði einhver skilvís meðborgari komið því í deildina sem varðveitir muni er hafa glatast. Þannig er þetta bara! Aldrei að gefast upp.
Jæja, við mættum aftur til Laugar, og þar var þjálfarinn og leiðbeindi um teygjur, þar voru Björn kokkur, Benedikt, Denni, Kristján o.fl. Í potti bað ég Björn að segja aftur söguna af hásetanum ófótvissa, sem var að smyrja sér samloku með hangikjöti og ítölsku salati þegar reið yfir alda, og það næsta sem Björn sá var samloka sem lak niður tölvuskjáinn í næsta herbergi, og Stefán háseti bograndi undir tölvuborði, í því sama herbergi. "Stefán minn, nú þarft þú að fara að læra stíga ölduna" sagði Björn við þennan óheppna félaga sinn. Góð saga. Gott hlaup, enn einn góður hlaupadagurinn. Okkur var sagt að koma sem oftast til hlaupa á Nesi, og er næsta víst að við munum aftur láta reyna á gestrisni félaga vorra í vestrinu. Næst er miðvikudagshlaup frá Vesturbæjarlaug, vel mætt. Ritari.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2007 | 14:58
Hiksti á Melum
Það hlýtur að hafa gripið um sig mikill hiksti hjá ákveðnum, ónefndum manni að Melum í Hrútafirði, þvottaegta Reykvíkingi og Vesturbæingi, á þessum degi, allt frá því ritari mætti til hlaups um tíuleytið í morgun og þar til yfir lauk. Fyrir á fleti var Vilhjálmur Bjarnason, sem mjög er farinn að mildast í framkomu við ritara í seinni tíð, allur hinn ljúfasti, en vildi ólmur halda áfram greiningu sinni á athyglissýki ónefnds hlaupara. Rifjuð upp greining sálfræðings í Odda og svo áfram um viðbrögð Ó. Þorsteinssonar við viðtali vð VB í viðskiptablaði þar sem Ólafs var í engu getið.
Spáð hafði verið stormi, en harðgerustu hlauparar voru engu síður mættir einbeittir til hlaups, þessir: Einar blómasali, Guðmundur, Þorvaldur, Vilhjálmur og ritari. Þó stefndi í að VB heyktist á hlaupi því að hann hafði gleymt jakka og leit á tíma illa út með þátttöku af hans hálfu, en fyrir hvatningu félaganna lét hann tilleiðast að hlaupa spottakorn með okkur, fyrst ætlaði hann upp á horn, en svo teygðist á þessu, niður fyrir Einimel, út á Ægisíðu og alla leið út að Kvisthaga. Þá kvaddi hann en við hinir héldum áfram. Mikið rætt um næringarfræði og átaksfræði í tilefni af því að Guðmundur hefur létzt um ein tíu kíló síðan í vor, og auk þess bætt sig geysilega í úthaldi og þoli. Við blómasalinn spurðum hvernig farið væri að þessu, fengum fyrirlestur um mataræði og strax þá sáum við tormerki á að geta leikið þetta eftir Guðmundi - en sem kunnugt er erum við Einar báðir matmenn og erfiðustu ákvarðanir hjá okkur lúta að takmörkunum á þeim vettvangi. Það átti að hætta að borða kjöt, hætta í súkkulaði, borða minna... og þar fram eftir götunum. Í staðinn fórum við að rifja upp það sem var í matinn í gærkvöldi.
Guðmundur vildi stytta um Hi-Lux, taldi sig eiga brýnt erindi í eldhús sitt sem er í rúst, líkt og eldhús ritara var fyrir fáeinum vikum. Einar blómasali hrópaði hins vegar: Það er enginn skilinn eftir í þessum hópi, áfram veginn! Þannig að það voru fjórir hlaupafélagar sem skeiðuðu áfram í kirkjugarðinn þar sem við uppgötvuðum að var komið hið besta veður og VB hefði ekki orðið meint af því að fylgja okkur eftir. Við ákváðum að fara Laugaveginn svo að Guðmundur fengi ekki jafnmiklar skammir heimkominn, en jafnframt til þess að rifja upp öll hús við Laugaveginn sem ónefndur velunnari hlaupa og útivistar í Vesturbænum fullyrti að hýstu starfsemi með vafasamt orðspor. Fórum hratt yfir og sáum aðallega fólk af erlendum uppruna eða túrhesta í bænum. Rætt um arkitektúr í miðbæ, og haldið áfram um Kvos og upp Túngötu.
Urðum mjög hissa að hitta Birgi á tröppum Vesturbæjarlaugar, óhlaupinn og líklega óþveginn. Hann virtist tímabundinn og hafði ekki tíma til að spjalla, kvaðst vera á leið í doktorsvörn. Hlaut miklar háðsglósur fyrir vikið. Við Einar teygðum vel að loknu hlaupi, enda snúið við blaðinu í þeim efnum í seinni tíð. Erum báðir að lagast í skrokknum við að teygja vel eftir hvert hlaup.
En í pott mættu auk blómasalans og ritara, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar. Rætt um barnmargar fjölskyldur á fyrri tíð og fyrirhugaðar breytingar á þjóðleiðinni norður í land, sem mun fara um bæjarhlaðið á Melum í framtíðínni. Það kom mér á óvart að heyra dr. Baldur fullyrða að það væri undanekning ef Ó. Þorsteinsson færi rétt með ættir eða fæðingarár þeirra manna sem persónufræði hans næði til. Hingað til hef ég verið þeirrar skoðunar að frændi minn væri einhver mestur persónufræðíngur þjóðarinnar. Það álit hefur nú beðið hnekki þar til annað breytir þar einhverju um.
Á morgun er lokað að Laugu þegar hlaup á að fara fram. Af þeirri ástæðu verður hlaupið frá Neslaug kl. 17:30 - Hlaupasamtökin eru með formlegt boð upp á vasann frá Trimmklúbbi Seltjarnarness þar að lútandi. Hlaup hefst með grindarbotnsæfingum á grasbala ofan við laug - eru það skylduæfingar og ekki undan þeim vikist, ef einhverjum skyldi hafa dottið það í hug. Vel mætt! Ritari.
2.11.2007 | 22:41
Einkennilegt hlaup
Já, ég segi það og skrifa: þetta var einkennilegt hlaup. Ég saknaði minna beztu félaga: Gísla, Jörundar, Agústs, Magnúsar.... Ekki þar með að vöntun væri á góðum hlaupafélögum: Þorvaldur, Vilhjálmur, Denni, Einar blómasali, Björn kokkur, Hjörleifur, dr. Jóhanna, og svo fólk af Nesi, Brynja og dr. Friðbjörn. Enn og aftur skal áréttað að gestir úr öðrum sóknum eru hjartanlega velkomnir í okkar hóp að hlaupa, þótt aðeins sé á tímabundnum basis. Það gladdi mig innilega að hitta fyrir dr. Sjúl í Brottfararsal, hann hafði myndavél meðferðis og myndaði hlaupara hátt og lágt. Hann hefur ekki hlaupið frá RM sökum beinbrots, en er allur að koma til og mun hefja hlaup að nýju fljótlega. VB tók að sér að kenna Sjúl að taka portrettmyndir, benti honum á hvernig taka mætti myndir af fólki þannig að liti út fyrir að það væri fávitar. Sko!, sjáðu, sagði VB, ég skal taka mynd af fávita, sagði hann og beindi myndavélinni að mér. Ég forðaði mér.
Mér fannst veður válynd, vindur í sókn, kólnandi. Við lögðum í hann að lokinni photoshoot á tröppum VBL - óheppilegt kannski að ávallt þegar einhver mætir með myndavél eru helztu hlauparar fjarverandi, en hins vegar fullt að aðskotafólki af Nesi á vettvangi, sbr. forsíðu bloggsins. Til umhugsunar. Við lögðum hikandi í hann og vorum fremstir, ritari og Þorvaldur, og reyndum að teyma hitt fólkið með okkur. Farið hægt út og af einhverri einkennilegri ástæðu var ég fyrstur, ásamt með Þorvaldi og Hjörleifi. Rætt um margvísleg málefni, eins og oftast á föstudögum eitthvað um áfengi og áfengisbölið, enda Fyrsti Föstudagur. Það var nýbreytni að hafa með okkur fólk af Nesi sem verið er að innleiða í sannleik um hefðir og kúltúr Samtakanna, sumir voru að heyra um Hi-Lux-brekkuna og vildu vita hvar hún væri og hvað hefði gerst þar. Brynja tók að sér í sönnum uppfræðsluanda að fræða viðstadda um hvað þar hefði gerst og hvers vegna þessi brekka væri svona merkileg í sögu Samtakanna. Þá komu gestir af Nesi með sögu sem var, ef ekki hliðstæð, þá alla vega svipuð: hlaupið var eftir Laugavegi og niður Bankastræti, hlaupari vel við vöxt varð fyrir því að kona á BMW renndi niður rúðunni, rétti út höndina, kleip í rasskinnina á viðkomandi og sagði: Ég vil hafa mína menn vel útilátna! eða eitthvað í þeim dúr. Heyrir þetta til sögu TKS.
Það var haldið í hann svolítið fumkennt, en hins vegar reyndist Þorvaldur góður leiðtogi framan af, teygði menn áfram af mikilli einbeitni framan af, en þegar hans leiðsögn þraut tók raunar við Hjörleifur og má segja að hann hafi tekið við hlutverki Ágústs, að halda uppi tempói og hraða. En sumsé, þarna erum við stödd á Ægisíðu, og var einkennileg blanda fólks saman komin, sumir úr Vesturbæ, og sumir af Nesi, en allt fór vel og vinsamlega fram. Eins og verða vill dróst í sundur með fólki, og skiptir ekki máli hvaða leið einstakir hlauparar fóru, en við helztu hlauparar fórum hefðbundið án þess að slá af: Nauthólsvík, Hi-Lux, Veðurstofa, Hliðar, Klambrar, Hlemmur, Sæbraut og þannig tilbaka, og ef eitthvað var, þá var gefið í, hér sá Hjörleifur um að halda uppi hraðanum, helzt hefði ég viljað hafa blómasalann við hlið mér til þess að hafa afsökun til þess að hvílast eða að ganga, en því var ekki að fagna; og eftir á að hyggja var ég feginn því. Maður hefur gott af að reyna aðeins meira á sig en mann langar til hverju sinni. Þarna fóru sumsé ritari, Hjörleifur, dr. Jóhanna og dr. Friðbjörn og héldu fínum takti alla leið til loka hlaups - en gátu jafnframt átt samtöl.
Á plan mættu ýmsir sem höfðu stytt: blómasali, Denni, Brynja og fleiri í þeirri kategoríu. Gengið til potts. Fórum í Örlygshöfnina og sátum þar góða stund, mættur var Sjúl, óhlaupinn frá RM, en að öðru leyti í góðum gír. Margt spaklegt rætt sem ekki verður haft eftir, m.a. um fjármálaleg málefni, enda hélt VB ádíens í potti og hafði skoðanir í mörgum greinum. Verður fróðlegt að halda áfram greiningu og umfjöllun í morgunhlaupi sunnudags.
Í trúum anda Samtakanna var haldið til drykkju að Mimma, þangað mætti fjöld manns, og verða þeir eigi taldir sem þar voru mættir. En þeir voru eigi færri en tíu. Hlaup að nýju næstkomandi sunnudag. Í gvuðs friði, ritari.
Pistill Ritara | Breytt 3.11.2007 kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2007 | 21:56
Lengi getur vont versnað (og gott bessnað...nei)
Mér leist satt að segja ekki á að hlaupa í dag þegar ég gekk út úr Stjórnarráðinu um hádegisbil, norðangarri og kalt. Fór að rifja upp allar helztu og þekktustu afsakanir sem menn hafa beitt í gegnum tíðina, en ég sá fyrir mér persónu próf. Fróða, þar sem hann segir hæðnisfullur: Sólskinshlaupari! Svo að ég mætti á tilskildum tíma. Gísli hafði lofað prófessornum að fara með honum í sjóinn til þess að tryggja októberbað og -stig. Ég er enn í útiklefa og tek ekki mark á kalendernum, aðeins hitastiginu. Það var svolítið kalt og ég kveikti á hitalampanum og klæddi mig í snatri. Mætti í Brottfararsal, þar var Þorvaldur mættur óvenjusnemma, ég spurði hvort hann hefði verið rekinn (þetta er standardfrasi þegar blómasalinn mætir (of) snemma - hva? er búið að reka þig?). Þorvaldur brást vel við spurningunni og taldi áhyggjuna óþarfa. Svo bættust þeir við hver af öðrum: próf. Ágúst, Magnús, Birgir, blómasalinn, Guðmundur, Benedikt, Þorbjörg, og loks dúkkaði sjálfasti Kári hinn franski upp, gekk um kyssandi hlaupara á báðar eins og sannur Franzmaður. Rúnar þjálfari mættur og gaf fyrirskipanir: taka þétting eftir dælustöðina og alveg út í Nauthólsvík og bannað að tala saman á meðan! Menn horfðu hver á annan: hvernig er þetta hægt? Látum vera þótt menn spretti úr spori, en að hætta að tala saman. Menn klóruðu sér í kollunum og brutu heilana, en voru engu nær. Prófessorinn lyfti varfærnislega hendi og sagði: "ég er með vottorð".
Það var farið rólega út, eða svo taldi ég. Ekki vorum við farin langt þegar grá jeppabifreið varð á vegi okkar og hóf að flauta á okkur af mikilli frekju, en svo kom í ljós að innandyra var konrektor ungdómsakademíunnar við Hagatorg, og eiginkona hans, mágkona ritara. Var þeim fagnað með ágætum af öllum hlaupurum. Haldið áfram á Ægisíðu, og nú brá svo við að veður var með allra bezta móti, vind hafði lægt og það var hrein unun að skeiða skeiðið. Ef frá eru skildar tvær pylsur sem hringluðu í maga ritara og létu vita af sér. Prófessorinn hafði hálfvegis gert sér vonir um sjóbað, en með bæði Gísla og dr. Friðrik fjarverandi, helztu hvatamenn sjóbaða, var lítill metnaður til baða, nema hvað ritari er ávallt til í glapræði og vitleysu ef góðir menn standa þétt að baki. Svo var ekki í dag og virtist prófessornum létt. Ég spurði hann hvort þetta væri ekki slæmt, að missa af októberstigi. "En ég er með októberstig!" sagði prófessorinn - "ég er búinn að baðast í október, það var í október í fyrra!" Þetta fannst mér einkennilegt svar, enda leit ég svo á að menn þyrftu að safna inn stigum ár hvert. En hér upplýsti prófessorinn um nýja reglu: sá maður sem þegar hefur baðast í tilteknum mánuði - er með þann mánuð um alla framtíð! Ég verð að segja að mér finnst þetta harla einkennileg regla: hún beinlínis stuðlar að því að menn baðist einu sinni í mánuði einhvern af helztu mánuðum ársins og svo ekki söguna meira. Þetta finnst manni ekki í anda Hlaupasamtakanna og ekki beinlínis karlmannlegt. Til nánari skoðunar til þess bærra aðila.
Fljótlega kom í ljós hver munur er á hlaupurum þessi misserin, við sáum reykinn eftir Guðmund sem er farinn að leika þann ljóta leik að skilja aðra hlaupara eftir og hlýðir ekki fyrirmælum þjálfara um að fara hægt út og taka þétting eftir dælustöð. Aðrir eins og Magnús, Benedikt og fleiri skildu okkur hina eftir. Einhvers staðar á brautinni dúkkaði Una upp, spræk og frísk. Ég hélt mig við öftustu hlaupara, blómasalann og Þorbjörgu, ég út af pylsunum, Einar orðinn feitur, þungur og bakveikur af baktali sem hleypir bólgum á verstu staði. En hlaup er bara hlaup og engin keppni - þannig að hver gerir sitt bezta. Við skeiðuðum áfram og reyndum hvað við gátum, en fljótlega fóru ýmsir hlauparar að bila, Ágúst fyrstur, gömul meiðsli tóku sig upp; svo blómasalinn, bakið ónýtt; ritara þótti gott að hafa svona bilaða menn með sér sem afsökun fyrir því að þurfa ekki að sperra sig og fara bara stutt.
Við fórum út í Nauthólsvík, en tókum okkur gönguhlé á milli í anda sunnudagshlaupa. Áttum löng trúnaðarsamtöl um okkur hugðnæm málefni, sem ekki verður uppljóstrað um hér. Fengum í bakið hóp af hlaupurum á Hringbraut sem höfðu farið eitthvað lengra en við, létum okkur nægja Hlíðarfót, sem er góð vegalengd og hentug veiku fólki eins og okkur, 8 km. Komum nokkuð jafnsnemma á plan og aðrir hlauparar. Þar var teygt, togað, og skrafað. Loks stefnt á pott. Í potti urðu langar umræður um margvíslegar náttúrur, efnafræði, efnisfræði málmiðna, málmframleiðslu o.s.frv. En þó ber þess að geta að í pott mættu einvörðungu Kári, Einar, Birgir og Ólafur ritari. Og Þorbjörg stutta stund. Rætt um gler sem byggingarefni, tekið dæmi af byggingu í Smáralind sem er nær alfarið úr gleri og þykir mjög hentugt. Hér varð Birgir mjög tómeygður, glíkur frænda mínum Ó. Þorsteinssyni þegar hann fékk svínslegu vísbendingaspurningarnar frá VB, og svo sagði hann: "Já, er það þarna einhvers staðar á landsbyggðinni?" Svona tala bara innfæddir, bona fide Vesturbæingar og ætti að veita sérstök verðlaun fyrir þetta viðhorf til umheimsins.
Hér féllu svo mörg gullkorn að skömm væri að veita öðrum en þeim sem nenna að hlaupa og mæta til potts, en þó þetta: frönsk speki, elsku barnið mitt, et gulrætur, þær bæta sjónina; et fisk, það bætir minnið; en helzt af öllu: et fisk sem borðar gulrætur, því það tryggir að þú munir það sem þú sást. Í gvuðs friði, þar til á föstudag, ritari.
28.10.2007 | 20:27
Köben í þrennum greinum
Rifjað upp samtal þeirra fóstbræðra VB og ÓÞ frá sunnudeginum seinasta og laut að veðurlýsingu fyrir Ísland, þar sem VB dró upp afar dökka mynd af útlitinu og sagði flughræddasta manni landsins að það líti út fyrir mikinn túrbúlans í millilandaflugi þann daginn. Á daginn kom að þetta varð þægilegasta flug Ólafs frá upphafi. Mælst til stofnunar dionýsískra samtaka opinberra starfsmanna er hefðu að markmiði að efla hag þeirra á allan veg þannig að verjast mætti ofsóknum þeim á hendur sem trúarofsóknum.
Það var farið hægt út, einhver hafði á orði að kaupstaðarlykt svifi um loftin, en menn gerðu sér ekki rellu út af því. Er ekki bara virðingarvert að menn skuli hlaupa þrátt fyrir áfengisgufur fyrir vitum. Veður ákjósanlegt til hlaupa, andkalt en stillt, og rosaleg hálka. Kom það enda á daginn að ritari bjargaði ekki færri en tveimur félögum frá falli og beinbrotum - en minnist þess ekki að hafa uppskorið miklar þakkir fyrir. Nei, maður er alltaf einmana og vinalaus. Aðalumræðuefni út í Nauthólsvík var Kaupmannahafnarferð Ó. Þorsteinssonar og var hún honum endalaus uppspretta hnyttilegra frásagna, en jafnframt hneykslanlegra.
VB sagði frá greiningu sinni á flughræðslu Ólafs Þorsteinssonar. Hann hafði varpað fram þessum vanda til greiningar á kaffistofu í Odda þar sem margt sálfræðinga var statt. Nú gekk fram einn sálfræðingur og hafði jafnframt starfað sem flugfreyja og spurði þriggjs spurninga: fylgist viðkomandi með ljósvakamiðlum og hlerar eftir að nafn hans sé nefnt? (Já, sagði VB); les viðkomandi prentmiðla og leitar nafns síns? (Já, sagði VB.); hefur téður aðili yfir að ráða einkanúmeri? (Já, sagði VB). Sjáðu til, þetta er athyglissýki.
Hér voru hlauparar sem þrumu lostnir. Athyglissýki, hjá manni sem búinn er að afhrópa fjölda fólks og greina með gjallarhornssýki. Getur það verið? Hlaupið áfram í kirkjugarð og staldrað við nýlegt leiði í garðinum. Hér tuldraði VB eitthvað um uppáhaldsiðju Ó. Þorsteinssonar. Ekki var hægt að gera löng stopp því að menn kólnuðu hratt niður. Áfram um Veðurstofu og Hlíðar og rætt um fyrirhugaða árshátíð hlaupara. Við Einar og Ólafur lentum á eftir hinum sem voru tiltölulega frískir - en náðum þeim svo á Rauðarárstíg og eftir það var samfylgd nokkuð samfelld. Enn var vatn að hafa úr fonti á Sæbraut og var það ljúft.
Komið til Laugar og allir óbrotnir, sem var kraftaverk miðað við hvernig færðin var. Þar biðu margir fróðir menn, en sumir þrasgjarnir með eindæmum og ekki mjög áheyrilegir af þeim sökum. Hlaupið er á morgun, en þá verður ritari í háloftunum. Í gvuðs friði. Ritari.
Pistill Ritara | Breytt 3.11.2007 kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2007 | 21:37
Dapurlegt ástand skrokkanna
Nú var liðin vika frá því að ritari mætti til hlaupa. Frá er talin mæting s.l. miðvikudag er hann mætti til Laugar í þeim tilgangi einum að skola af sér ferðarykið eftir erfiða ferð um Atlanzála - og orsakaðist af brýnum erindum í höfuðstað Evrópu, Brusli. En á miðvikudag hitti hann fyrir kæran félaga, próf. dr. Fróða og hafði hlaupið heila fjóra kílómetra, virtist allur vera að koma til og ljómaði af stolti yfir árangrinum. Ég spurði hverjir hefðu verið að hlaupa, hann varð hugsi og sagði, það var ég, og Magnús, og Reynir og ..., og svo voru einhverjir vesalingar á eftir okkur. Með því vísandi til ekki minni hetja en Einars blómasala, Björns matreiðslumanns og dr. Friðriks. Ég hitti einnig Einar og Björn og átti við þá gott samtal. Einar minnti mig á að sig vantaði MoM.
En í kvöld var annað upp á teningnum. Hér var harðsnúið fólk mætt til hlaupa, fyrstan mátti kenna Gísla Súrsson á Uppsölum, svo hvern af öðrum, Björn kokk, Ágúst, Friðrik, og svo þrennt af Nesi: Rúnu, Brynju og Friðbjörn. Er það ánægjulegt að fólk úr öðrum sóknum skuli sjá sér hag í að mæta til hlaupa með Samtökum Vorum og eru þau ævinlega velkomin.
Nokkuð kunnuglegar kýtur urðu í Brottfararsal, kvörtuðu menn yfir ummælum um sig í pistlum ritara, þeir hefðu glatað góðum starfstækifærum þegar tilvonandi vinnuveitendur hefðu gúgglað nöfn þeirra og lesið ýmislegt misjafnt um þá á veraldarvefnum. Þó var ekki að heyra að fólk vildi að hætt yrði ritun um þá atburði helzta er verða á hlaupum í Samtökunum. Menn veittu athygli að próf. Ágúst virtist óbugaður með fótinn frá Kamtsjatka og virtist einbeittur í að prófa hann enn og aftur.
Fámennur hópurinn hélt af stað út í óvissa tíð. Horfur voru tvísýnar, spá lofaði ekki góðu, veður kólnandi, en samt þolanlegt þegar var lagt í hann. En þegar komið var niður á Ægisíðu kárnaði gamanið, Ágúst byrjaði að kvarta ógurlega yfir ástandi líkamans og var harla svartsýnn á að hann næði að ljúka nokkru hlaupi af viti. Við félagar hans vorum sammála honum um að ástæðulaust væri að vera bjartsýnn á að hann næði að ljúka hlaupi af viti í dag. Samt vorum við Gísli mjög uppbyggilegir og sögðumst mundu fara hægt og stutt með honum af fullkominni meðaumkun með dapurlegu ástandi hans. Aðrir hlauparar skæðir, vildu ólmir hefja hlaupið, spretta úr spori og fara að hlaupa af einhverri alvöru. En þetta var dagur aumingjanna og bara farið hægt.
Þetta var hættulegt hlaup, vindur jókst af suðaustri er kom nær flugvelli og vorum við í strekkingsvindi og hundslappadrífu. Ekki kjörið, en viðunandi. Er hér var komið hófu menn að skyrpa og spýta af miklum móð og mátti maður hafa sig allan við að víkja sér undan slettunum. Á einum tímapunkti lenti sletta frá Ágústi á buxnaskálm minni - og sá ég mitt óvænna, nú yrði ekki hjá því komist að þvo buxurnar, en þær hafa sloppið við þvott í allt haust.
Eins og alltaf á föstudögum var aðalumræðuefnið áfengisdrykkja og áfengisböl - og sýndist sitt hverjum. Einhverjir töldu að enn væri eftir fyrsti föstudagur í október - en dræmlega var tekið í það, við þegar búin að taka þennan dag út tvisvar. Samstaða var um að næst yrði fyrsti föstudagur hinn 2. nóvember næstkomandi. Svo var það sjóbaðið: við nudduðum því inn hjá prófessornum að hann ætti enn eftir októberbaðið og bentum á að hann gæti bjargað sér með sjóbaði hinn 31. október. Hann var heldur vondaufur um að það hefðist, en Uppsala-Gísli reyndi að örva hann til dáða og vekja honum von um að það mætti baðast. Ef ekki verður af baði missir prófessorinn af Október-stigi, sem hefur ekki gerst svo lengi sem elztu menn muna. Ástandið er alvarlegt.
Í Nauthólsvík sveigðum við af braut, fórum um nýmalbikaðar brautir sem eru fjölmargar í Öskjuhlíð, en Nesfólkið fór hefðbundið. Við höfðum allir áhyggjur af Ágústi, að hann færi að reyna um of á veika krafta sína. Fórum um Hlíðarfót gegnum votlendi óhefðbundið og vöknuðum sumir hverjir í fætur, Gísli og Björn styttu, en við Ágúst fórum rétta vegalengd - vorum samt jafnan fremstir. Er hér var komið fór að hlaupa í prófessorinn sú gamla árátta að gefa í og á endanum var farið gizka hratt allt til Háskóla - en hann lét ekki bilbug á sér finna og fór heill í gegnum þessa raun. Er nú bara að takast á við letina - en prófessorinn hefur látið í ljós þá skoðun að hann nenni ekki að hlaupa.
Í potti var mjög rætt um persónufræði og hlaup, en einnig svolítið um hlaup. Við bættist blómasali veikur sem kvaðst hafa bara hugsað um koníak í morgunmat, krafði ritara um MoM. Þó urðu mjög áleitnar umræður um sjúkdóma, veikindi, meiðsli, sjúkraþjálfara, meðferðir og fleira óviðeigandi sem ekki á heima í hlaupahópi. Menn forðuðu sér. Næst: sunnudagshlaup.