19.10.2007 | 21:58
Lífsgleði á tréfæti
Er ég mætti til Laugar í dag var enginn kominn í Brottfararsal. Fór út í útiklefa og klæddist hlaupafatnaði. Það var svo hlýtt í dag að engin þörf var fyrir Balaklövu, en hafði þó hanzka til öryggis. Ég rakst fljótlega á Vilhjálm Bjarnason, sem er farinn að sýna af sér skilyrt viðbrögð þegar ritari birtist, og var ekki að spyrja að því, orðastimpingar hófust með það sama, ritari ásakaður um að ausa svívirðingum og ósóma yfir hlaupara, kalla þá geðstirða eða skapvonda: er ég skapvondur, spurði VB. Ég reyndi að gera það bezta úr aðstæðum og sagði eitthvað á þá leið að vissulega kæmi fyrir að hann væri í góðu skapi, en oftar væri hann, með orðum ÓÞ, "önugur og afundinn" - vildi þannig þvo hendur mínar af því að vera að stimpla menn geðvonda. Hann sleppti ekki þessu máli, fullyrti að ritari færi með ósannindi um menn, því til sönnunar réðst hann á Jörund við komu í Sal og spurði: Jörundur, erum við ekki vinir? Jú, sagði Jörundur, við erum ævilangir vinir. Hefur nokkurn tíma fallið skuggi á vináttu okkar? Nei, sagði Jörundur, aldrei. Við erum ekki alltaf sammála, en vinslit eru aldrei inni í myndinni.
Er hér var komið sá ég mann sem ég kannaðist við, en kom ekki alveg fyrir mig; svo rifjaðist upp fyrir mér að hér var kominn maður sá er kallaður var prófessor Fróði meðan hann var og hét, og þótti nokkuð efnilegur um sinn. Ég heilsaði honum vinsamlega en þó ekki kunnuglega, enda verður maður feiminn þegar svo langt líður frá því að menn mæta til hlaupa og fyrnist yfir kunningsskapinn. Samskipti öll voru nokkuð stirð, og í bland varð maður var við fálæti hlaupara gagnvart hinum fjarverandi prófessor. Aðrir hlauparar tíndust í Sal: Gísli, Jón Kári, dr. Jóhanna, VB, Jörundur, Þorvaldur, próf. Fróði, Denni og Hjörleifur. Töluverð umræða spratt í Brottfararsal um Ágúst og ástand hans, sýndist glöggum viðstöddum að hann væri kominn með gervifót, var spurt hvort hann hefði keypt það nýjasta frá Össuri; nei, nei, hann hafði frétt af gamalli kerlingu á Kamtsjatka sem hefði verið á tréfæti og geispað golunni, fékk hann fyrir slikk. Menn véfengdu þetta og töldu að hann myndi aldrei hafa tímt að snara fram stórum upphæðum fyrir fót, líklega væri þetta fótur af norðlenzku hrossi, sjálfdauðu. Þannig gekk umræðan - og voru tilgátur studdar veiklulegum fyrirspurnum prófessorsins um hvort ekki væri örugglega farið hægt og stutt, eða: vill ekki einhver fara hægt og stutt? svo vísað sé beint í hinn fróða mann. Jú, jú, við förum öll hægt og stutt sagði Gísli á Uppsölum.
Veður var gott og tilvalið til hlaupa, smávindur sem átti eftir að koma okkur í vandræði síðar. Ég hafði á orði að allur agi og skipulag væri farið út um þúfur eftir að prófessorinn hætti að mæta, hann væri drifkraftur langra hlaupa, svo sem 69. Nú mætti heita að þau hefðu fallið niður og aðeins væri farið mjög stutt, í mesta lagi 11,3 km. Prófessorinn lifnaði allur við er hann heyrði þetta og varð brattari. "Já, þetta datt mér í hug." Menn voru feimnir er haldið var af stað, ekki vitað hver ætti að taka forystuna, Þorvaldur var mjög framarlega í þessu og teygði okkur áfram. Hefðbundið niður á Ægisíðu, eftir á var skopast með að Ágúst hefði sagt æ-i á Ægisíðu og fengið sting í síðuna. Hann er undir meðhöndlun dansks sjúkraþjálfara sem talar ensku og enginn skilur. Við fórum afar varfærnislega út, enda vorum við undirbúin undir að prófessorinn dytti sundur þá og þegar með sinn tréfót - við fræddum fóthafa fótsins um ýmislega kosti og galla þess að hafa tréfót, rifjuðum meðal annars upp ævisögu Stefáns Jónssonar á löppinni og ævintýri hans á einum fæti. Ágúst fór aumingja allra aumingja, Ægisíðu út að Suðurgötu og þaðan norður Suðurgötu og óskilgreindar leiðir til Laugar, ekki er einu sinni til nafn á svona hlaupaleið! Hann var enn með efasemdir um sjósund síðasta miðvikudags og reyndi að eyða upplýsingum um þá sem þreyttu sjósund í sjö gráðu heitum sjónum, Gísli, Björn kokkur og ritari.
Hlaupið í hægðum (á maður að segja "sínum" eða "okkar" - hvernig skilja menn slíkt?) áfram veginn og var hefðbundinn galsi í gangi. VB upplýsti um sýningu á Terpentínu - menn söknuðu þeirra ÓÞ og Einars blómasala, en fögnuðu Denna skransala sem veigamikilli viðbót við hópinn. Áfram fyrir flugvöll og inn í Nauthólsvík - þar gáfust ónefndir hlauparar upp og fóru Hlíðarfót. Helztu og beztu hlauparar héldu áfram - og hver birtist þarna hlaupandi utan úr dimmunni? Nema sjálfastur Birgir Þorsteinn Jóakimsson, búinn að ná öftustu hlaupurum og vinna sig áfram og upp að fremstu hlaupurum. Hann hafði þá skýringu á seinkomu sinni að honum hefði verið falin forsjá með dóttur sinni veikri heima, og hefði viljað stytta þann tíma sem hún væri ein og grátandi, veik og illa haldin. Menn spurðu: skildirðu hana eftir eina heima, veika og...? Já, já, ég þurfti að fara að hlaupa! Jörundur sagðist hafa heyrt grát frá heimili Birgis síðustu nótt. Hélt að Birgir hefði gleymt að gefa dætrum sínum að borða og þær væru grátandi úti á stétt að biðja um mat. Nei, þá var það kötturinn sem var greinilega búið að svelta um lengri tíma, hann stóð úti á stétt vælandi eins og hann væri krakki. Jörundur, þessi góði maður, tók hann undir sinn verndarvæng og leyfði honum að skríða undir pallinn hjá sér - þar sem hann (kötturinn) er vanur að gera allar sínar þarfir.
Upp Hi_Lux og ekki slegið af: Jörundur, Birgir, dr. Jóhanna, ritari, Hjörleifur og Denni - samstæður hópur hlaupara. Eftir því sem leið á hlaup óx okkur ásmegin og við urðum hressari - enn var rætt um nafnið Miklatún/Klambratún. Birgir kvaðst hafa spurt VB hvernig auka mætti hraða á hlaupi - VB stóð á gati. Svarið var: auka tíðni í færzlu fóta, eða lengja skref. Hér var náttúrlega ekki spurt um persónur, sem er sérsvið VB. Áfram um Harmahlíð og Hlíðar, hér var ritari orðinn verulega frískur og tók þétting á Klömbrum. Hann nam umræður að baki sér um sjálfan sig: "Ég get náð honum hvenær sem er. Spurðu hann, hver var á eftir honum fram að 35 km í RM - og hver fór fram úr honum á 35 km..." og annað eftir þessu. Ég tók þétting á Klambratúni og spretti verulega úr spori - ég heyrði tiplið í Jörundi á eftir mér.
Svo var farið hefðbundið um Sæbraut og tilbaka, á nokkuð góðum hraða og held ég að Ágúst hefði verið ánægður með okkur. Alla vega hugsaði ég að þetta hlaup væri góður undirbúningur fyrir þá tíma er prófessorinn kemur tilbaka og fer að stýra okkur í Bakkavarir og 69. Ekki seinna vænna! Er mætt var í pott voru þar Flosi og Gísli og létu sig hverfa fljótlega, en Ágúst sat áfram með okkur. VB fékk súluna sína, en var bent á að súlan væri í raun I-biti. Við sátum alllengi í potti og spjölluðum saman - svo kom Anna Birna og settist að Laugu. Denni upplýsti um drenginn sinn þrítugan sem enn er í fæði heima - nú þyrmdi yfir Önnu Birnu: Jésús, verður Dobermanninn enn heima eftir 20 ár? Ákveðið var að fresta Fyrsta Föstudegi sem margir telja sig eiga inni eftir miklar fjarverur - en auðvitað geta menn kennt sér sjálfir um fyrir sakir aumingjaskapar.
Gott hlaup að baki í góðra vina hópi - framundan hlaup á laugardag kl. 10 og svo sunnudag kl. 10:10, nóg í bili. Í gvuðs friði, ritari.
17.10.2007 | 21:10
"Það varðar yður ekki um...!"
Nú var þjálfarinn mættur: Rúnar. Þjálfarar eru á móti fólki sem talar mikið. Þeim finnst að fólk eigi að þegja og hlusta. Það gekk erfiðlega að fá fólk til að þegja og hlusta úti á stétt, en á endanum tókst það að mestu og menn hlýddu á línu dagsins: hlaupa 10 km og taka þéttinga í lokin, fara hægt út. Þetta reyndist sumum um megn, kannski eru menn svona illa gefnir, hlustuðu ekki eða er um megn að fara eftir leiðbeiningum. M.a.s. öðlingur eins og Magnús gaf blankan fjandann í leiðbeiningar þjálfara og setti á fullan kúrs áfram þegar frá byrjun. Ég held raunar það sé vegna þess að Magnús er eins og Flosi, er bara með eina hraðastillingu og heldur henni. Nóg var af fínum hlaupurum að fara með, Eiríkur á leið í New York maraþon eftir þrjár vikur og í miðju prógrammi, Benedikt bættist í hópinn og virtist frískur, aðrir: Gísli, Jörundur, dr. Jóhanna o.fl. Veður gott, nánast enginn vindur og hlýnandi.
Farið í rólegheitum austur Ægisíðu, fremst fóru Magnús, dr. Jóhanna og einhverjir fleiri - en við Ó. Þorsteinsson og VB vorum aftastir og alveg rólegir. Ég upplýsti þá um stöðu mála í eldhúsinu: loks kominn með nýtt eldhús og farinn að elda gómsætar máltíðir. Lýsti herlegheitunum fyrir frænda mínum, og aðstæðum öllum. Svo fóru ákveðnir karaktérar að grúppéra sig saman og varð fljótlega séð í hvað stefndi: í Nauthólsvík fóru Gísli, ritari og Björn matreiðslumaður niður á ramp, dr. Jóhanna á eftir sem vitni, við strippuðum og skelltum okkur í svalandi Atlanzhafsölduna, 7 gráðu heita. Vorum ekki lengi, en það hressti okkur við. Klæddumst á ný og töltum Hlíðarfót - skilst að aðrir hafi farið út að Suðurhlíð, upp Löngubrekku og tilbaka framhjá Perlu. Auglýst er eftir heiti á þessari hlaupaleið. Er við komum út að Hringbraut mættum við Magnúsi Eldibrandi sem fór þar um og leit hvorki til hægri né vinstri. Öskruðum á hann að bíða. Magnús er samvizkusamur maður og hlýðinn, fer eftir því sem honum er sagt, tók þéttinga sem þjálfarinn hafði fyrirskipað, meðan við hin bættum aðeins í frá Valsvelli og út að háskóla.
Gott hlaup og uppfrískandi. Ég missti af mánudagshlaupi vegna tenginga heimafyrir á vaski og uppþvottavél, en ég var hins vegar mættur út á Eiðistorg um sexleytið og sá þar kuldabláar manneskjur hlaupa hjá í norðangarranum, allir í vetrargírinu. "Aumingja fólkið!" hugsaði ég og faldi mig svo ekki sæist að ég væri að skrópa. Ekki vill maður vera stimplaður sólskinshlaupari. En ég hafði, að eigin mati, gilda afsökun fyrir fjarveru.
Í pott söfnuðust valdir einstaklingar og var áfram rætt um uppskriftir að chili con carne, aukaverkanir ýmislegar sem þarf að kolefnisjafna. Upplýst var að próf. Fróði væri að skríða saman og væri væntanlegur á næstu mánuðum, sem er eins gott, aðeins eru tveir sjóbaðsdagar eftir í október til þess að bjarga mánaðarstigi og ég fæ ekki séð að hann hafi tök á að bjarga því, nema svindla; hins vegar má benda á þann möguleika að hann mæti beint í Nauthólsvík og hlaupi tvö skref niður á ramp (sem er lágmarkið - mæta hlaupandi), fari í sjóinn og bjargi stigi. En hvað veit maður, kannski liggur hann undir fiðri og harmar hlutskipti sitt. Blómasalinn í Boston að braska. Ó. Þorsteinsson á leið til Danaveldis, þannig að sunnudagshlaup verður tíðindalítið og dauft. En enn er föstudagshlaup og aldrei að vita nema hlutirnir gerist þar. Nóg sagt um sinn. kv. ritari.
14.10.2007 | 22:29
Flanir að Laugum
Ef einhver hefur efast um að frændi minn og vinur, Ó. Þorsteinsson, væri persónufróðastur Íslendinga nú um stundir þá hljóta þær efasemdir að hafa rokið út um gluggann í þessu hlaupi. Ekki mátti minnast á þjóðþekktan Íslending öðruvísi en að nafni minn nefndi kvonfang, börn, foreldra, og svo að segja öll skyldmenni með það sama. Var engu líkara en óminnishegri hefði hafið sig til flugs upp af höfði hans miðað við tvo síðustu sunnudaga, þegar VB kom með afar snúnar vísbendingaspurningar um fólk og tengsl þess sem ekki var nokkur leið að ráða fram úr. Í þetta skiptið snerist spilið við, nú kom frændi með svör við öllum vangaveltum og tengingar í allar áttir. Að vísu kom engin vísbendingaspurning, en þær eru líka sérsvið Vilhjálms og allt í lagi að hvíla sig á þeim meðan hann er fjarri.
Það rigndi eins og á föstudag. Guðmundur hafði fréttir af laugardagshlaupi, sagði þar hafa verið fjölda þátttakenda, einkum kvenna, og farið hefði verð langt og hratt.
Ég fór rólega út með þeim Ólafi Þorsteinssyni og Einari blómasala. Einar er á leið til Ameríku og hleypur lítið næstu vikuna. Fer til Boston þar sem hann vonast til að ná fundum dr. Gunnlaugs Péturs, stórhlaupara. Ólafur er á batavegi eftir slæmsku í fótum sem hefur hamlað hlaupum upp á síðkastið, hann hefur aðeins farið stuttar vegalengdir, og hálfhaltrandi. Nú er hann undir nuddarahendi og stefnir allt í rétta átt. Mættum þjóðþekktum lögmanni og mátti engu muna að Ólafur felldi niður hlaup til þess að eiga við langt spjall.
Vitanlega var rætt um sviptingar í borgarstjórn, þátt manna og flokka og sýndist sitt hverjum. Engin ein lína var lögð, en vísað til viðtals við talsmanns Samtakanna í Útvarpi Sögu í fyrramálið. Hins vegar hafði frændi minn það fram að færa að fyrir mann af hans kalíber, vaskeægte Reykvíking í kynslóðir, sem fyllist kvíða við það eitt að ferðast austur fyrir Snorrabraut, væru átök innan Borgarstjórnar under sygekassegrænsen, nánast fullkomið niederlag. Hann eyddi gærkvöldinu með Framsóknarmönnum og fullyrti að þeir stæðu keikir með sínum manni, Birni Inga. Þeir sem þekkja hann, vita að þegar vel liggur á honum og mikið liggur við talar hann gjarnan dönsku, og á sunnudögum er honum sérleg þægð í að tala gamla kúgaratungumálið; en þegar stórtíðindi eins og þau sem nú eru uppi rekur á fjörur vorar má ekki minna en sletta þýzku í bland. Því er það nauðsynlegt hlaupurum að hafa þekkingu á tungum til þess að geta tekið þátt í hlaupum með árangri.
Eins og á föstudag fór að rigna. Það rigndi mikið. Í Nauthólsvík hélt Magnús áfram, honum var kalt. Aðrir stöldruðu við. Ó. Þorsteinsson hélt mikla skammarræðu yfir þeim sem fremstir höfðu farið og spurði hvort þeim lægi lífið við, að hlaupa eins og vitleysingar á allt of miklum hraða. Menn horfðu skömmustulegir hver á annan og höfðu engin svör. Svo sneru þeir við, blómasalinn og Ólafur - en aðrir héldu áfram. Þrír fóru Veðurstofuhálendið, Guðmundur, Þorvaldur og ritari. Hér upphófust mjög fróðlegar umræður um orkumál, upplýst að knýja mætti bíla með þrýstilofti og væri mun raunhæfari kostur en vetni. Þetta hefði m.a. verið reynt í Suður-Afríku og á Indlandi.
Það bætti í rigninguna og stefndi í sama veður og á föstudag. Við fórum hefðbundna sunnudagsleið án þess að stoppa, við óttuðumst kælinguna. Af þessum sökum, og vegna norðanáttarinnar, fórum við Laugaveg og höfðum þetta stutt. En það var sami hraðinn á Þorvaldi og á föstudag, en hann var vðráðanlegur. Það var yndislegt að hlaupa í þessari rigningu og gott að koma tilbaka til Laugar.
Ölhópurinn fór út 9:30, hljóp upp að Árbæjarstíbblu, 20 km, og af honum mættu þeir Gísli og Jörundur til potts. Jörundur heimtaði að verða skráður með viðurnefnið Lúpínu-Jörundur, hann gældi við þá hugmynd að kaupa hús Hákarla-Jörundar í Hrísey og verða sérvitur einbúi þar án tengsla við umhverfið; Gísli sagðist vera að velta fyrir sér að kaupa Uppsali í Selárdal og setjast að þar og verða einrænn, hverfa frá ys og þys hversdagsins. Setið að potti í klukkustund og haldið áfram að greina ástand mála í Lýðveldinu. Mikil persónufræði af hálfu frænda míns, en sjálfum mér til hróss get ég sagt að ég gat bætt í ýmsar gloppur sem voru á þekkingu manna á helztu ættum í landinu. Rætt um nám fullorðinna, prófatökur, doktorspróf, einkunnagjöf - m.a. var dr. Baldur Símonarson spurður hvort einhver tilgangur gæti verið með því að fullorðnir menn setjist á skólabekk, greinileg sneið til Ó. Þorsteinssonar sem setzt hefur aftur á skólabekk á gamals aldri. En Baldur kom á óvart með því að segja að margt gott gæti almennt leitt af því að menn hæfu nám að nýju, nám skemmdi engan eða meiddi.
Einhvers staðar djúpt í persónufræðinni barst talið að Laugum í Reykjadal, einhverju fegursta bæjarstæði sem fyrirfinnst nyrðra, og voru menn sammála um að það væru sannkallaðar Flanir, samfelld gróskuflæmi.
Þessi hlaupari er allur að koma til og taka gleði sína á ný, búinn að endurheimta eldhús sitt að mestu og getur farið að galdra fram dýrindis máltíðir innan skamms. Verður svo vonandi á morgun, að afloknu árangursríku hlaupi. Vel mætt! Ritari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2007 | 21:50
Tíðindaríkt hlaup fær sögulegan endi
Vesalingur minn var mættur snemma til hlaups. Hafði hitt Gísla fyrr um daginn og ræddum við um hlaup dagsins, eðlilega var ég því spenntur og óþreyjufullur að hitta félaga mína, hafandi vanrækt Hlaupasamtökin nokkur undanfarin hlaup vegna framkvæmda í eldhúsi mínu. Horfur voru góðar, veður gott og lofaði dagurinn góðu um hlaupið. Svo fór fólk að tínast inn: Þorvaldur, Denni, Hjörleifur, Jón, dr. Jóhanna, og svo kom blómasalinn og ætlaði að vera með ádíens en var rekinn út í útiklefa að skipta um, á síðustu stundu kom svo Birgir á hjólfáki sínum. Fleiri komu ekki til hlaups í dag.
Þrátt fyrir að blómasalinn væri með Garmin var farið hægt út og hægast fór Einar sjálfur, hann var varkár. Mér varð hugsað til þess hversu gífurlega þéttur þessi hópur væri, samstaðan alger um vitleysisganginn og galsann, en jafnframt sannfæring um að í heilbrigðum líkama blakti heilbrigð sál. Meira um það seinna, en vissulega voru menn ósáttir við að ekki fleira af Nesi mætti, aðeins Denni einn og fyrirhugaði ekki einu sinni að taka þátt í Fyrsta Föstudegi.
Það var þeyst eftir Sólrúnarbraut í austur og smám saman bætti í vind, það var rætt um átök í borgarstjórn og voru ýmsar kenningar uppi um hvað hefði búið að baki stjórnarskiptum, þó báru menn sig karlmannlega og var engan grát að heyra í hópnum. Rætt um feðranir og hversu áreiðanlegar upplýsingar þar að lútandi væru, tekin dæmi úr Tékkóslóvakíu. Er kom í Skerjafjörð, og þó einkum fyrir flugvallarenda, brast á með stórhríð úr suðaustri, því allra versta sem hugsast getur hér á suðvesturhorninu. Á tímabili virtist sem við stæðum kyrr, þótt við hlypum, svo mikill var hamagangurinn. Í Nauthólsvík fór að rigna, og það bætti í , svo jókst rigningin og á endanum var eins og hellt væri úr fötu. Við fórum upp Hi-Lux og vorum furðu létt. Er hér var komið sögu héldu hópinn Þorvaldur, Hjörleifur, dr. Jóhanna, ritari, Birgir og blómasalinn var einhvers staðar rétt fyrir aftan okkur. Það rigndi og rigndi og hefðin bauð að farið yrði framhjá kirkjugarðinum, um Veðurstofuhálendi, niður hjá menntaskólanum við Harmahlíð, þaðan gegnum hverfið og út á Klambratún. Menn voru misheilir í því að halda vegalengdir, sumir skáru horn og styttu - engin nöfn nefnd af virðingu fyrir eiginkonum og börnum.
Einhver einbeittastur hlaupari í hópi vorum er Þorvaldur, segja má að hann hafi haldið uppi tempói í kveld, og bætti í ef eitthvað er. Þessu tóku menn eftir á Klambratúni, þá var gefið í og farið gizka hratt, téður Þorvaldur fremstur. Sökum óhagstæðra vindátta var farið niður Laugaveg og gefið í ef eitthvað er. Mikið af fyllibyttum dettandi út af búllum við þessa höfuðgötu Höfuðborgarinnar, vertarnir bentu á hlauparana og sögðu: þið ættuð að taka ykkur þessa menn til fyrirmyndar. Við áfram og slógum lítt af. Í Kvos var gefið í, kveikt á túrbóinum og sprett úr spori og ekki slakað á fyrr en á Landakotshæð - en bara stutt - framundan var brekka niður á við og helztu hlauparar duttu niður brekkuna.
Það rigndi mikið í hlaupi dagsins, þessi hlaupari var gersamlega niðurrigndur er tilbaka var komið og gerði ekki greinarmun á svita og regni. Í Brottfararsal var mætt Sif Jónsdóttir, langhlaupari, Sifjar Jónsdóttur í eignarfalli, hún hélt á bol með upprunalegu heiti Hlaupasamtakanna og merki, þá hét hópurinn Hlaupahópur Vesturbæjarins, enda aðeins staddur á sokkabandsárum sínum, áður en menn áttuðu sig á virðing hans og vegferð. Birgir tók bolinn og mun búa til nýtt logo fyrir Samtökin. Þá er þess að geta að dr. Anna Birna var mætt og sat í potti með helztu hlaupurum. Svo var rifjað upp að í dag var Fyrsti Föstudagur, Denni kvaðst vera upptekinn og gæti ekki mætt.
Ég mætti á Mimmann á tilsettum tíma, og áður en ég vissi orðið af, var ég umkringdur kvenfólki, og var bara feginn að aðrir skyldu halda sig heima, þær mættu Sif, Jóhanna og Anna Birna og undi ég mér vel í þeim félagsskap þar til kom að því að sinna málefnum fjölskyldunnnar.
Næstu hlaup:
laugardagur kl. 10
sunnudagur kl. 10:10
Í gvuðs friði, ritari.
10.10.2007 | 21:04
Fjandinn hleypur í Gamalíel
Miðvikudagar eru dagar hinna löngu hlaupa. Ritari var búinn að lofa Gísla góðu, löngu hlaupi og sjóbaði. Mikið hefði nú verið gaman að geta nartað í forskot prófessors Fróða - einkum nú þegar hann er slasaður og fær sér enga björg veitt og ekki væntanlegur til hlaupa næstu þrjá mánuðina. Smátt og smátt má hala inn sjóbaðspunkta og fá ónefndan íbúa í Kópavogi til þess að byrja að svitna af ángist. En af þessu varð ekki, því miður. Ykkar maður var búinn að pakka niður í hlaupatöskuna, gefa síðustu leiðbeiningar um niðurlagningu flísafúgu og stefndi út úr húsi. En þá sló hann sú hugsun að hann hefði skyldum að gegna við fleiri en hlaupafélagana, staldraði við, lagði niður hlaupatösku, sneri við, fór inn í eldhús, á hnén og byrjaði að gluða út fúgujukki. Á því gekk þar til klukkan var langt gengin í sjö - þá loks datt inn hlé og færi gafst á að fara til Laugar.
Á leið í bíl mínum suður Hofsvallagötu tók ég eftir hópi fólks sem hljóp við fót, kannaðist við suma. Ég hraðaði mér í útiklefa og skveraði mér af, gekk til potts. Hitti þar fyrir Gísla og Magnús, þeir sýndu útskýringu minni á fjarvist mikinn skilning og töldu að ég hefði nælt mér í prik í æðra stað. Síðan voru sagðar sögur af mönnum sem fara til vistar í efra, en sæta misjöfnu atlæti. Magnús kann mikið af slíkum sögum, enda vel tengdur. Ég sagði þeim söguna sem prof. dr. Gunnar Helgi Kristinsson kann betur en ég, nefnilega að í helvíti annist Englendingar matargerðina og Norðmenn skemmtiatriðin. Einhverra hluta vegna kætti þessi saga Gísla meira en aðra viðstadda og heimtaði hann skriflega staðfestingu.
Svo birtist fólk í potti sem upphóf leiðindaumræðu um hlaup, vegalengdir, hraða og annað í þeim dúr, ritari gafst upp á leiðindunum og lét sig hverfa af vettvangi. Hann hitti fyrir Birgi jóga og heyrði þar að borist hefði í tal á hlaupum að það þyrfti að koma á framfæri upplýsingum hlaupalegs eðlis. Nefnt var blogg Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Var þá sagt: Nei, er það mögulegt, er nokkur ástæða til að skemma pistla ritara með hlaupaupplýsingum? Af þessu tilefni vill ritari taka fram að hann er auðmjúkur erfiðismaður, þræll og þjón Hlaupasamtakanna og kemur á framfæri öllum þeim upplýsingum er lúta að helztu iðju félagsmanna: hlaupum. Ef menn vilja viðhafa sérstakar ráðstafanir vegna Áramótahlaups þarf ekki annað en senda línu eða setja inn athugasemd við pistil.
Fullyrt er að Neshópur sé að hrynja úr öfund yfir þeim framförum í atgervi og afstöðu sem Hlaupasamtökin hafa sýnt, flótti sé brostinn í liðið og flestir á förum yfir til Hlaupasamtakanna. Deilt er um hvort það er vegna þess að þjálfunarprógrammið er betra í Vesturbænum eða hvort fólkið þar er einfaldlega skemmtilegra. Á föstudaginn kemur í ljós hverjar heimtur verða þegar Fyrsti Föstudagur verður haldinn í fyrsta skipti í langan tíma - gaman væri ef lasburða prófessorar og háls-, nef- og eyrnalæknar létu sjá sig, þeir sem lengi hafa lýst með fjarveru sinni.
Í gvuðs friði, ritari.
8.10.2007 | 22:28
Útslitinn embættismaður mætir... of seint
Ég lét mér nægja þvott og pott. Hitti Helmut sem var uppfullur af skoðunum um embættisfærzlur manna. Blómasalinn rólegur. Ég fór í heitasta pott, sá selshöfuð upp úr barnapotti sem ég kannaðist við en var ekki viss á, virtist þar vera einhver viðundur aðallega. Þorvaldur var í potti og upplýsti um geysilega góða mætingu í hlaupi dagsins, fjöld kvenna. Nú kom eigandi höfuðsins er sást í barnapotti innan um vafagemlinga, prof. dr. Keldensis og var á förum. Að lokum kom blómasalinn til potts og sátu þeir fóstbræður, ritari og blómasali, um stund og ræddu í trúnaði hjartfólgin málefni. Um þetta fjallar frásögn dagsins. Í gvuðs friði, ritari.
7.10.2007 | 21:59
Mikil persónufræði á sunnudegi
Lagt í hann á rólegu nótunum, og vorum við frændur þó sýnu rólegri en aðrir, enda um margt að ræða. Ritari er nýbúinn að rífa eldhúsið hjá sér og hefur ekki getað eldað máltíð í tvær vikur, allt stendur autt, ryk yfir öllu, stofan undirlögð af eldhúsáhöldum og drasli. Ekki alveg ástandið sem er til þess fallið að lyfta andanum, þvert á móti, menn eru daufir yfir ástandinu. En það er hressandi að hitta félagana og fá góðan skammt af uppörvandi. Við lentum fyrir bragðið langt fyrir aftan hina, en náðum þeim í Nauthólsvík. Þar var með stuttu millibili skellt á mannskapinn svo níðingslegum vísbendningaspurningum að menn spurðu bara á móti: hver er vísbendingin? Spurt var hvernig fyrrnefndur handboltakappi tengdist fyrrverandi ráðherra í Lýðveldinu - hér glotti VB, en ÓÞ sýndi sama tóma svipinn og síðasta sunnudag. Það beinlínis hlakkaði í álitsgjafanum yfir meintri vankunnáttu þess fyrrnefnda í persónufræðinni. Samtímis var deilt um það hver væri persónufróðasti Íslendingurinn og sýndist sitt hverjum. Minnt var á grein í Viðskiptablaðinu fyrir fáeinum árum, viðtal við ónefndan cand. oecon. af Víkingslækjarætt og ekur bifreiðinni R-158 og hleypti slíku báli í blaðasölu í Höfuðstaðnum að eftir það kom ekki annað til greina en Viðskiptablaðið kæmi út á hverjum degi. En engin svör. Jú, álitsgjafinn upplýsti að téður handboltakappi væri kvæntur Ragnheiði Gröndal, systur Benedikts, fyrrv. utanríkisráðherra. En hann lét ekki þar við sitja: fleiri torskildar vísbendingar sem skiluðu fleiri tómum augum.
Áfram í Garðinn, þar sneru bæði Birgir og Ó. Þorsteinsson við. Aðrir áfram og verður að segjast eins og er að hraði var aukinn og á endanum fóru Magnús, Þorvaldur og ritari á hraða sem er hreint skandalös fyrir sunnudagshlaup. Þetta er ekki skemmtilegt! Ekki orð af viti sagt frá Harmahlíð og það sem eftir lifði hlaups, nema ef vera skyldi ádrepa á lögreglu fyrir hörð viðbrögð við því þegar menn missa kókdós úr lúkunni á sér á götu úti að nóttu til - 10.000 ríkisdalir. Takk fyrir!
Í potti var margt gáfumanna: dr. Einar Gunnar, dr. Baldur, Sif Jónsdóttir nýkomin úr Berlínarmaraþoni þar sem hún fór fulla porsjón á 3:32:05 og er glæsileg frammistaða. Jörundur mættur líka og blómasalinn, óhlaupinn eins og venjulega. Staldrað stutt við í potti. Blómasali þurfti að hitta fólk. Ritari þurfti að fara heim að flísaleggja eldhúsgólf. Lauk við 15 fm á þremur klukkutímum. Þá rigndi á Bræðraborgarstíg. Rætt um kosningahorfur í Bretlandi, og fyrirætlan hlaupara um þátttöku í Berlínarmaraþoni á næsta ári.
Á morgun: hlaup með þjálfara samkvæmt áætlun.
1.10.2007 | 22:03
Hvert leitar klárinn?
Magnús var mættur, fullur af velviljuðum meiningum í garð íþróttaliðs nokkurs í Fossvoginum, sem fyllir tíunda tuginn á næsta ári. Hann velti fyrir sér hvort ekki væri mikil gæfa að lið þetta hefði ekki fallið alla leið niður í 2. deild, svo hafi fallið verið mikið. Nú hló hann ægilega og var skrýtin tilfinning að sjá þennan prúða tannlækni í þessum ham gegn vini sínum og velunnara hlaupa og framfara í Vesturbænum. En nú var klukkan komin, allir mættir í fullu gíri, einhverjir ekki í alveg hreinum fatnaði, en það mátti sjá gegnum fingur sér með það, þegar konurnar voru svona margar. Líklega segir það meira um stærðfræðikunnáttu mína en nokkuð annað, að ég kom ekki tölu að fjölda kvenna í dag. Úti á stétt gaf þjálfarinn skipanir um hlaup dagsins: farið skyldi hefðbundið út skv. áratugahefð mánudagshlaupa, en þó upp á Víðimel, þaðan út á Suðurgötu og þannig áfram. Síðan voru þarna einhverjir sem fóru hægar og þurftu sérstaka meðferð. Hópurinn lagði í hann.
Svo er ekkert með það, nema þegar við erum stödd á Hofsvallagötu, hvað sjáum við nema blikið af kampavínslitri jeppabifreið með einkennisstafina R-158. Hér braust út brjáluð trylling í hópnum, slík voru fagnaðarlætin þegar við börðum augum Formann Vorn til Lífstíðar, sem að sínu leyti ljómaði eins og tungl í fyllingu með sólgleraugu, og virtist fögnuðurinn ekki vera minni inni í bílnum. Breiddist út almenn sælutilfinning meðal viðstaddra og gaf þessi viðburður fyrirheit um velheppnað hlaup.
Ég hljóp með Einari blómasala, sem hefur ekki hlaupið lengi. Bæði er hann orðinn feitur og þungur, en eitthvað hefur hann verið slæmur í baki. Nú átti að láta reyna á ástandið. Hann fór strax að kvarta yfir að eiga enga stauka af Smarties lengur og bað ritara að bjarga sér. Hér var rætt um hádegisverði: rjómagúllas og pótatismús í Arnarhváli, með miklu af salati; einn banani og hálfur lítri af trópí hjá G. Arasyni. Svona er misskipt mannanna láni. Með okkur hljóp Kalli sem er allur að koma til og fer þó skynsamlega. Við fórum fetið í Skerjafjörðinn, leyfðum hinum að æða áfram eins og þeim sýndist. Þó var Sigurður Ingvarsson rólegur framan af. En svo kom að því að hann vildi vita hvað fremstu menn væru að hugsa og hvarf okkur rólyndismönnunum.
Er kom út að í Skerjafjörð var farið að blása leiðinlega úr óhagstæðri átt og orðið kalt, og við kumpánar aftastir. Dagsskipunin var að taka spretti frá síðasta húsi í Skerjafirði og eina 250 m vestureftir. Fjórum sinnum! Við vorum lítt mótíveraðir að taka spretti hér og Kalli mátti það beinlínis ekki, enda má segja að munurinn á Kalla og sumum, ónefndum hlaupurum sem aldrei læra af vondri reynslu, að hann hlustar vandlega á þau merki sem líkaminn sendir honum. Við fórum því hægt þennan sprett í fullkomnu sólídariteti við Kalla. Sáum hóp fólks sem hljóp fram og tilbaka í algjörri, rómantískri tryllingu. Þeirra á meðal mátti kenna þá Kaupþingskumpána, og var annar þeirra einkennilega tómeygður er hann var spurður um heilsu. Ekki drógu menn af sér. Hér hljóp eitthvert kapp í okkur fóstbræður, ritara og blómasala. Við tókum upp á því að spretta tilbaka eins og við ættum lífið að leysa, var m.a. til þess tekið hvernig ritari þeysti fram úr prófessornum af Keldum og minnti einna helst á Berlínarsprett Haile Gebreselassie, kunningja Jörundar, og frægt er orðið. Nú var sprett fram og tilbaka og voru menn furðu léttir á sér. En það var svo anzi kalt að menn héldu þetta ekki út lengi, áfram Ægisíðu og tilbaka í pott. Hinir harðgerustu héldu áfram á Nes og segir ekki meira af þeim.
Í potti urðu einna helzt umræður um graffiti, veggjakrot, innflutning á spraydósum. Í potti voru Gísli, Helmut, dr. Jóhanna, dr. Anna Birna, og fleira merkilegt fólk. Einnig Björn kokkur og var mikið rætt um matargerð, chili con carne, hvað mætti vera og hvað ekki, Waldorf salat, má setja sellerírót í Waldorf salat? Afródísíaks, svæfa konu eða örva hana, hvað er bezt í matinn? Menn sáust steðja úr potti út í Melabúð eða Hagkaup. Þannig enda hlaup stundum, hvað á að borða? Í gvuðs friði. Pása til sunnudags fyrir þennan hlaupara.
30.9.2007 | 15:12
Það er líf eftir dauðann
Fyrsta vísbendingaspurning kom fljótlega, Ólafur spurði um mann. Ég gat upp á honum í fyrsta - spurt um afburðalögfræðing sem tekið hefði eitthvert hæsta próf sem þekktist í lögfræðinni og væri væntanlegur í pott á eftir. Ég svaraði: Ólafur Jóhannes Einarsson. Rétt! hrópaði nafni minn. Nú var sagt frá brúðkaupi sem téður sonur Einars Gunnars hefði sótt kvöldið áður: dóttursonur afburðakennara sem kenndi í Hagaskóla Lýðveldisins á sjötta og sjöunda áratugnum. Rétt svar: Stefán Pálsson, afinn var Haraldur Steinþórsson. Þá blandaði álitsgjafinn sér í vísbendingaspurningarnar: hvernig tengist fyrrnefndur Stefán Brautarholti á Kjalarnesi og þar með Ólafi Þorsteinssyni. Nú varð frændi minn undirfurðulegur og einkennilega tómur í framan, sem er sjaldgæf sýn. Nei, þetta vissi hann ekki. Var því svarað til að langafi Stefáns hefði verið bróðir ömmu Ólafs, að mig minnir.
Hlaupið í Nauthólsvík og gengið lengi. Fleiri vísbendingaspurningar, áfram í kirkjugarð og skoðuð leiði breskra og kanadískra hermanna sem hér féllu í stríðinu. Ólafur fræddi okkur um gæðastjórnunarmál, en hefði að sögn álitsgjafans mátt beita svolítilli gæðastjórnun í frásögnum sínum, svo rangar og misvísandi væru þær, hann virtist misminna um alla hluti í dag. Hér gáfu þeir Magnús, Guðmundur og Þorvaldur í og hurfu okkur hinum, sem fastheldnari erum á hefðir sunnudagahlaupa með skyldustoppum á völdum stöðum. Ég fór fetið með Jörundi sem fræddi mig á gömlum sögum af langafa mínum á Hreimsstöðum í Borgarfirði, eitthvað um myrkfælni. Við fórum Klambratúnið, Hlemm og niður á Sæbraut.
Í potti fór Ólafur Þorsteinsson með vísbendingaspurninguna sem hann hafði ekki svarið við sjálfur fyrr um daginn yfir dr. Baldri Símonarsyni, dr. Einari Gunnari Péturssyni og Ólafi Jóhannesi Einarssyni. Þeir vissu svarið strax. Rætt meira um ættir manna og ævir og virtist minnisleysi frænda míns kæta Vilhjálm Bjarnason svo mjög að hann ýmist gapti opinmynntur á frænda, eða skellti upp úr, sem hefur ekki áður gerst þar sem ég hef verið nærverandi, að Vilhjálmur Bjarnason hlægi upphátt. Lítið er ungs manns gaman mætti maður e.t.v. segja um þann viðburð. Síðan komu þau mæðgin dr. Jóhanna og Tumi menntaskólanemi. Rætt um kennara í Reykjavíkur Lærða Skóla. Einnig um borgina Brussel sem er sumum okkur kunn.
Ritari er allur að koma til í skrokknum og hlakkar til að hitta félaga sína á ný í hlaupi morgundagsins. Vel mætt! Í gvuðs friði. Ritari.
28.9.2007 | 22:51
Óhlaupinn
Ég er að vona að félagar mínir lesi titil minn sem "Unforgiven" - enda mikill Eastwood aðdáandi hér á ferð. Þannig stóð á hjá þeim er hjér ritar að hann er búinn að rífa eldhúsið sitt og hefur því engan stað til að elda matinn á. Dagurinn fór í að brjóta upp gólf og aka því í Sorpu. Af þeirri ástæðu hentaði ekki að hlaupa, en hugur minn var hjá félögum mínum. Sem ég ek út úr bænum og er að skila kerru sem notuð var til fyrrgreindra hluta sá ég Gísla félaga minn á Hringbrautinni, hann var að hvíla sig, en hélt fljótlega áfram hlaupandi. Næst er ég staddur á mótum Miklubrautar og Lönguhlíðar og verð þá fyrir dejá vu upplifun - sé tvo kunnuglega nóta, Þorvald og Vilhjálm þar sem þeir æða yfir gatnamót gegn rauðu ljósi, og Þorvaldur virðist reyna að henda sér fyrir bíla, en mistekst. Þeir sleppa llifandi yfir gatnamótin eftir því sem ég bezt fæ séð. Held áfram ferð minni og skila kerrunni. Ek sem leið liggur tilbaka í bæinn og mæti til Laugar, sveittur og skítugur. Hitti Inga og Flosa, í potti er Nesverji, Denni, spyr af hverju ég hafi ekki hlaupið. Manni finnst það skrýtið að þarna skuli maður úr öðru sveitarfélagi og öðrum hlaupahópi spyrjast fyrir um hluti sem ekki lúta að iðkun drykkju Fyrsta Föstudags.
Í vorum hópi eru einhverjir beztir flugmenn sem sögur fara af. Ekki einasta eru menn miklir prívat flugmenn, heldur hafa menn demónstrerað mikla hæfileika í hvers kyns hjóla- og annarra tegunda flugum. Er þar skemmst að minnast prófessors Fróða sem er ekki lakari flugmaður en bróðir hans sem ritari hefur flogið með til Köben. Mörgum sinnum hefur prófessorinn tekið flugið á hlaupum, öllum viðstöddum til óblandinnar gleði - en stundum uppskorið skurmsl og meiðsli fyrir vikið. Lærisveinar hafa fylgt í fótspor meistarans og tekið flugið hver á fætur öðrum, ritari og Þorvaldur hafa báðir flogið eftirminnilega.
Vonandi fara flugmenn að mæta að nýju til iðkunar, ásamt þeim fleirum sem erindi eiga á slétturnar við Ægisíðu.
ritari