Menningarviðburður við Flugvöllinn

Það verður erfitt að greina frá hlaupi dagsins í hinu stutta, hnitmiðaða formi sem ritari hefur tileinkað sér og sumir telja að beri ýmis einkenni hins unga Hemingways, og jafnvel ákveðna síðlaxnesska drætti, svo margt bar til tíðinda, og einkum þó á góma, voru þar margir fjarverandi hlauparar milli tannanna á fólki. En byrjum á byrjuninni - enn er komin neytendakönnun í Brottfararsal og við miðaldra, háskólamenntaðir, karlkyns hlauparar stóðumst ekki freistinguna að taka könnunina, AFTUR. Hvernig skyldu niðurstöður verða? Mættir Friðrik og ritari, svo komu kunnugleg andlit aftan úr grámósku gleymskunnar: Gísli, Sjúl og Kalli kokkur, Magnús, Björn, Anna Birna, Þorvaldur, Una, Þorbjörg, og hugsanlega einhverjir fleiri sem ég gleymi. Enginn var þjálfarinn, en hins vegar ströng fyrirmæli um hlaup af ákveðinni tegund, inn í Nauthólsvík, og svo sprettir í brekkunni upp að Hi-Lux.

Því er ekki að neita að ýmsir viðstaddir uppgötvuðu möguleikana sem fylgdu því að þjálfaralaust var í kvöld, því ekki að óhlýðnast, fara hefðbundið, vera frjáls? Nei, af einhverjum inngrónum undirlægjuhætti og ósjálfstæði var ákveðið að gera eins og þjálfarinn lagði daginn upp, menn fóru tiltölulega rólega af stað, nema þeir Magnús og Þorvaldur sem sýna engu auktoríteti respekt - settu allt á fullt og Guðmundur með þeim. Ég tölti með Gísla á skaplegum hraða, mættum Benedikt sem kom út úr myrkrinu á Ægisíðu og slóst í för með okkur. Hann var rólegur framan af, svo náði Una okkur í Skerjafirði og eftir það var útséð með alla skynsemi.

Hér gerðust hlutirnir. Á móti okkur kemur kunnugleg vera, hlaupari í Balaklövu, þrútinn af átökum og áreynslu, þekktur velunnari hlaupa og útivistar í Vesturbæ, frændi ritara, sjálfur Ó. Þorsteinsson, en svo langt er um liðið síðan flestir hlauparar hafa hlaupið að þeir báru ekki kennsl á hlauparann. Líklega má einnig útskýra það með ellihrörnun ónefndra hlaupara, sem vissulega eru farnir að nálgast gamals aldur eins og það heitir. Nema hvað, við mætumst þarna í myrkrinu og var ekki laust við að sæluhrollur færi um viðstadda, að mæta Formanni til Lífstíðar á þessum stað - en síðar kom í ljós að hamingjan er skammvinn sæla, meira um þetta seinna.

Björn náði okkur, Una - hún yfirgaf okkur og tók Benedikt með, þau reyndu að ná fremstu hlaupurum. Ég veit ekkert um öftustu menn, það var eitthvert stjórnleysi í gangi í kvöld, menn runnu eins og safn af rollum um allar trissur án þess að hafa nokkurt markmið. Einhverjir söfnuðust saman við Nauthól og tóku spretti upp að Hi-Lux, ég fór fljótlega um Hlíðarfót, fór einn og þannig líður mér bezt: illa, einn. Mig grunar að Einar blómasali hafi ekki mætt til þess að mótmæla því að ég gleymdi að kaupa súkkulaði í síðustu utanferð minni. Hann er svo viðkvæmur.

Ég fór til þess að gera stutt í dag, hef haldið mig utan við þjálfunarprógramm að mestu, enda meira í útlöndum en forsetinn og því aðeins raunhæft að halda í horfinu, en ekki að stefna á einhverjar framfarir. Menn veltu fyrir sér heilsufari Ágústs, ég sagði þeim að nefna hann ekki ógrátandi, svo skelfilegt væri ástandið á þeim bænum og óvíst að hann hlypi meira, annar spítalamatur heitir Einar blómasali, en við búum sem betur fer við gott heilbrigðiskerfi sem getur boðið þeim úrræði við hæfi, endurhæfingu, göngugrindur og hvaðeina.

Í potti féll sprengjan: vinslit eru orðin með þeim VB og Ó. Þorsteinssyni. Frændi minn vildi ekkert tala um það, nefndi óeiningu um persónufræði og ártöl og gjallarhornssýki ónefnds íbúa í Garðabænum, annað væri það ekki. Við gengum á hann um ástæður þess að sletzt hefði upp á vinskapinn, en hann vildi ekki ræða það frekar. Setið um stund í potti, fræðst um aðstæður Kára sem fór á bókmenntahátíð í Nantes, hitti þar Íslendinga, hljóp í hádeginu á stuttbuxum! Rætt um vaxtastefnu Seðlabanka, vaxtaokur bankanna og fleira í þeim dúr.

Ég verð að koma á framfæri ábendingu um gott lesefni, sjálfsagt eru einhverjir búnir að lesa þetta rit: Tveir húsvagnar eftir Marinu Lewycku, í þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar, sem á skemmtilegar rispur þegar svo ber undir. Búinn með Arnald. Næst hlaupið á miðvikudag. Í gvuðs friði (vitiði annars hver átti þessa línu? Jóhannes úr Kötlum). ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband