Einkennilegt hlaup

Já, ég segi það og skrifa: þetta var einkennilegt hlaup. Ég saknaði minna beztu félaga: Gísla, Jörundar, Agústs, Magnúsar.... Ekki þar með að vöntun væri á góðum hlaupafélögum: Þorvaldur, Vilhjálmur, Denni, Einar blómasali, Björn kokkur, Hjörleifur, dr. Jóhanna, og svo fólk af Nesi, Brynja og dr. Friðbjörn. Enn og aftur skal áréttað að gestir úr öðrum sóknum eru hjartanlega velkomnir í okkar hóp að hlaupa, þótt aðeins sé á tímabundnum basis. Það gladdi mig innilega að hitta fyrir dr. Sjúl í Brottfararsal, hann hafði myndavél meðferðis og myndaði hlaupara hátt og lágt. Hann hefur ekki hlaupið frá RM sökum beinbrots, en er allur að koma til og mun hefja hlaup að nýju fljótlega. VB tók að sér að kenna Sjúl að taka portrettmyndir, benti honum á hvernig taka mætti myndir af fólki þannig að liti út fyrir að það væri fávitar. Sko!, sjáðu, sagði VB, ég skal taka mynd af fávita, sagði hann og beindi myndavélinni að mér. Ég forðaði mér.

Mér fannst veður válynd, vindur í sókn, kólnandi. Við lögðum í hann að lokinni photoshoot á tröppum VBL - óheppilegt kannski að ávallt þegar einhver mætir með myndavél eru helztu hlauparar fjarverandi, en hins vegar fullt að aðskotafólki af Nesi á vettvangi, sbr. forsíðu bloggsins. Til umhugsunar. Við lögðum hikandi í hann og vorum fremstir, ritari og Þorvaldur, og reyndum að teyma hitt fólkið með okkur. Farið hægt út og af einhverri einkennilegri ástæðu var ég fyrstur, ásamt með Þorvaldi og Hjörleifi. Rætt um margvísleg málefni, eins og oftast á föstudögum eitthvað um áfengi og áfengisbölið, enda Fyrsti Föstudagur. Það var nýbreytni að hafa með okkur fólk af Nesi sem verið er að innleiða í sannleik um hefðir og kúltúr Samtakanna, sumir voru að heyra um Hi-Lux-brekkuna og vildu vita hvar hún væri og hvað hefði gerst þar. Brynja tók að sér í sönnum uppfræðsluanda að fræða viðstadda um hvað þar hefði gerst og hvers vegna þessi brekka væri svona merkileg í sögu Samtakanna. Þá komu gestir af Nesi með sögu sem var, ef ekki hliðstæð, þá alla vega svipuð: hlaupið var eftir Laugavegi og niður Bankastræti, hlaupari vel við vöxt varð fyrir því að kona á BMW renndi niður rúðunni, rétti út höndina, kleip í rasskinnina á viðkomandi og sagði: Ég vil hafa mína menn vel útilátna! eða eitthvað í þeim dúr. Heyrir þetta til sögu TKS.

Það var haldið í hann svolítið fumkennt, en hins vegar reyndist Þorvaldur góður leiðtogi framan af, teygði menn áfram af mikilli einbeitni framan af, en þegar hans leiðsögn þraut tók raunar við Hjörleifur og má segja að hann hafi tekið við hlutverki Ágústs, að halda uppi tempói og hraða. En sumsé, þarna erum við stödd á Ægisíðu, og var einkennileg blanda fólks saman komin, sumir úr Vesturbæ, og sumir af Nesi, en allt fór vel og vinsamlega fram. Eins og verða vill dróst í sundur með fólki, og skiptir ekki máli hvaða leið einstakir hlauparar fóru, en við helztu hlauparar fórum hefðbundið án þess að slá af: Nauthólsvík, Hi-Lux, Veðurstofa, Hliðar, Klambrar, Hlemmur, Sæbraut og þannig tilbaka, og ef eitthvað var, þá var gefið í, hér sá Hjörleifur um að halda uppi hraðanum, helzt hefði ég viljað hafa blómasalann við hlið mér til þess að hafa afsökun til þess að hvílast eða að ganga, en því var ekki að fagna; og eftir á að hyggja var ég feginn því. Maður hefur gott af að reyna aðeins meira á sig en mann langar til hverju sinni. Þarna fóru sumsé ritari, Hjörleifur, dr. Jóhanna og dr. Friðbjörn og héldu fínum takti alla leið til loka hlaups - en gátu jafnframt átt samtöl.

Á plan mættu ýmsir sem höfðu stytt: blómasali, Denni, Brynja og fleiri í þeirri kategoríu. Gengið til potts. Fórum í Örlygshöfnina og sátum þar góða stund, mættur var Sjúl, óhlaupinn frá RM, en að öðru leyti í góðum gír. Margt spaklegt rætt sem ekki verður haft eftir, m.a. um fjármálaleg málefni, enda hélt VB ádíens í potti og hafði skoðanir í mörgum greinum. Verður fróðlegt að halda áfram greiningu og umfjöllun í morgunhlaupi sunnudags.

Í trúum anda Samtakanna var haldið til drykkju að Mimma, þangað mætti fjöld manns, og verða þeir eigi taldir sem þar voru mættir. En þeir voru eigi færri en tíu. Hlaup að nýju næstkomandi sunnudag. Í gvuðs friði, ritari.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband