Hiksti á Melum

Það hlýtur að hafa gripið um sig mikill hiksti hjá ákveðnum, ónefndum manni að Melum í Hrútafirði, þvottaegta Reykvíkingi og Vesturbæingi, á þessum degi, allt frá því ritari mætti til hlaups um tíuleytið í morgun og þar til yfir lauk. Fyrir á fleti var Vilhjálmur Bjarnason, sem mjög er farinn að mildast í framkomu við ritara í seinni tíð,  allur hinn ljúfasti, en vildi ólmur halda áfram greiningu sinni á athyglissýki ónefnds hlaupara. Rifjuð upp greining sálfræðings í Odda og svo áfram um viðbrögð Ó. Þorsteinssonar við viðtali vð VB í viðskiptablaði þar sem Ólafs var í engu getið.

Spáð hafði verið stormi, en harðgerustu hlauparar voru engu síður mættir einbeittir til hlaups, þessir: Einar blómasali, Guðmundur, Þorvaldur, Vilhjálmur og ritari. Þó stefndi í að VB heyktist á hlaupi því að hann hafði gleymt jakka og leit á tíma illa út með þátttöku af hans hálfu, en fyrir hvatningu félaganna lét hann tilleiðast að hlaupa spottakorn  með okkur, fyrst ætlaði hann upp á horn, en svo teygðist á þessu, niður fyrir Einimel, út á Ægisíðu og alla leið út að Kvisthaga. Þá kvaddi hann en við hinir héldum áfram. Mikið rætt um næringarfræði og átaksfræði  í tilefni af því að Guðmundur hefur létzt um ein tíu kíló síðan í vor, og auk þess bætt sig geysilega í úthaldi og þoli. Við blómasalinn spurðum hvernig farið væri að þessu, fengum fyrirlestur um mataræði og strax þá sáum við tormerki á að geta leikið þetta eftir Guðmundi - en sem kunnugt er erum við Einar báðir matmenn og erfiðustu ákvarðanir hjá okkur lúta að takmörkunum á þeim vettvangi. Það átti að hætta að borða kjöt, hætta í súkkulaði, borða minna... og þar fram eftir götunum. Í staðinn fórum við að rifja upp það sem var í matinn í gærkvöldi.

Guðmundur vildi stytta um Hi-Lux, taldi sig eiga brýnt erindi í eldhús sitt sem er í rúst, líkt og eldhús ritara var fyrir fáeinum vikum. Einar blómasali hrópaði hins vegar: Það er enginn skilinn eftir í þessum hópi, áfram veginn! Þannig að það voru fjórir hlaupafélagar sem skeiðuðu áfram í kirkjugarðinn þar sem við uppgötvuðum að var komið hið besta veður og VB hefði ekki orðið meint af því að fylgja okkur eftir. Við ákváðum að fara Laugaveginn svo að Guðmundur fengi ekki jafnmiklar skammir heimkominn, en jafnframt til þess að rifja upp öll hús við Laugaveginn sem ónefndur velunnari hlaupa og útivistar í Vesturbænum fullyrti að hýstu starfsemi með vafasamt orðspor. Fórum hratt yfir og sáum aðallega fólk af erlendum uppruna eða túrhesta í bænum. Rætt um arkitektúr í miðbæ, og haldið áfram um Kvos og upp Túngötu.

Urðum mjög hissa að hitta Birgi á tröppum Vesturbæjarlaugar, óhlaupinn og líklega óþveginn. Hann virtist tímabundinn og hafði ekki tíma til að spjalla, kvaðst vera á leið í doktorsvörn. Hlaut miklar háðsglósur fyrir vikið. Við Einar teygðum vel að loknu hlaupi, enda snúið við blaðinu í þeim efnum í seinni tíð. Erum báðir að lagast í skrokknum við að teygja vel eftir hvert hlaup.

En í pott mættu auk blómasalans og ritara, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar. Rætt um barnmargar fjölskyldur á fyrri tíð og fyrirhugaðar breytingar á þjóðleiðinni norður í land, sem mun fara um bæjarhlaðið á Melum í framtíðínni. Það kom mér á óvart að heyra dr. Baldur fullyrða að það væri undanekning ef Ó. Þorsteinsson færi rétt með ættir eða fæðingarár þeirra manna sem persónufræði hans næði til. Hingað til hef ég verið þeirrar skoðunar að frændi minn væri einhver mestur persónufræðíngur þjóðarinnar. Það álit hefur nú beðið hnekki þar til annað breytir þar einhverju um.

Á morgun er lokað að Laugu þegar hlaup á að fara fram. Af þeirri ástæðu verður hlaupið frá Neslaug kl. 17:30 - Hlaupasamtökin eru með formlegt boð upp á vasann frá Trimmklúbbi Seltjarnarness þar að lútandi. Hlaup hefst með grindarbotnsæfingum á grasbala ofan við laug - eru það skylduæfingar og ekki undan þeim vikist, ef einhverjum skyldi hafa dottið það í hug. Vel mætt! Ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband