Sjósund í nóvember

Ég mætti kátum köppum í unnskiptingaklefa VBL er ég mætti til hlaups í dag, þar voru þeir Vilhjálmur Bjarnason, Björn kokkur og Þorvaldur, allir kampakátir og vígreifir. Ég bauð góðan daginn, en fékk engar undirtektir. "Hvað?" spurði ég, "bjóða menn ekki góðan dag hér?" "Þú talar allt of lágt" var svarið. Síðan tíndi ég af mér spjarirnar og stóð fljótlega á nærbrókinni einni. Þá hrópaði Þorvaldur upp yfir sig: "Nei, sjáið manninn! Sá er aldeilis að koma út úr skápnum! Í bleikum nærbuxum! Við verðum að vera á varðbergi." Ég hafði í sjálfu sér lítil svör - en fékk smástuðning frá Birni kokki sem sagði að bleikt væri í tízku og þætti til þess að gera módern. Svo komu þeir hver af öðrum, Magnús, Kalli, og uppi voru Einar blómasali og dr. Friðrik. Rúnar þjálfari og Þorbjörg. Veður hálf-leðinlegt, líklega um 6 stiga hiti, dimmt yfir, hægur vindur, rigning og ... nei.

Einhver skarkali varð í  Brottfararsal - en VB hafði stjórn á ástandinu, og áður en vitað var af voru menn komnir út á stétt og farnir að hlýða á þjálfarann, sem lagði línurnar: farið skyldi hægt af stað, það væri það eina skynsamlega. Inn í Nauthólsvík, bannað að fara í sjóinn, svo gætu menn annað hvort farið Hlíðarfót eða inn í kirkjugarð eða upp löngu brekkuna sem við fórum um daginn, Suðurhlíð eða hvað hún heitir, hjá Perlu og svo vestur úr. Það þurfti ekki að messa mikið yfir okkur, aumingjunum, við þökkuðum fyrir okkur og fórum bara hægt, fyrst ég, blómasalinn og Friðrik, svo bættist Magnús í hópinn, og var þakklátur fyrir að fá að dingla með okkur rolunum. Hann er að stíga upp úr kvefi og ekki vel frískur. Sömuleiðis var Friðrik að rísa upp úr veikindum, og ekki þarf að orðlengja um heilsufarið á blómasalanum, hann er nú bara spítalamatur og er mesta furða að ekki sé búið að stoppa hann upp eða búa til úr honum sýningardæmi fyrir kandídata.

Við fórum svo hægt yfir að það er raunar rannsóknarefni hvernig hægt er að færa fætur svo hægt hvorn fram fyrir annan og jafnframt vera á hreyfingu. Fljótlega misstum við af öðrum og sprækari hlaupurum, en undum sælir við félagsskap hver annars og umræður um ýmisleg málefni, ekki öll hafandi eftir, en hvað um það: við áttum góða stund þarna félagarnir. Allir í þokkalegu formi, meiðsli gerðu ekki vart við sig og áður en við vissum af vorum við komnir í Nauthólsvík. Björn hafði haft á orði að baðast, svo að við Friðrik fórum niður á ramp í leit að Birni; engan sáum við björninn, en sögðum sem svo, að úr því við værum komnir þarna væri synd að sleppa sjósundi: drifum okkur úr og skelltum okkur í svala ölduna, sem var yndisleg. Okkur varð hugsað til próf. Fróða, sem er einn mikill áhugamaður um sjósund, en getur, heilsu sinnar vegna, því miður, ekki sinnt því sem skyldi. Friðrik þótti leiðinlegt að hafa misst af októberstigi vegna veikinda sinna. Þá upplýsti ég hann um hina nýju reglu Ágústs: ef menn hafa á annað borð baðazt í október - þá eiga þeir októberstig um alla framtíð. Þessi regla varð til þegar ljóst var að Ágúst myndi missa af októberbaði 2007. Magnús og blómasalinn stóðu hjá og eru vitni um sjóbað okkar Friðriks. Óskast það fært til bókar. Vorum fegnir að enginn var búfénaðurinn á staðnum, sá hefði aldeilis verið æstur í að sleikja af okkur saltið.

Við klæddumst að nýju og vorum bara frískir, héldum áfram með þeim Magnúsi og Einari um Hlíðarfót og tókum eftir mikilli umferð framhjá félagsheimili Kristsmanna - og vörpuðum fram þeirri spurningu hvort ekki myndi umferðin færast í aukana með heilum háskóla á þessum slóðum, hvort ekki þyrfti að stækka veginn. Á Hringbraut ákvað ég að fara að ráðum þjálfara og tók þrjá spretti, sem entust mér frá Valsheimili að Háskóla. Með því skildi ég félaga mína eftir sem voru ekki jafn vel á sig komnir í kvöld og ég - þó má segja það blómasala til hróss að hann var ekki langt undan og reyndi sitt bezta til þess að spretta þrátt fyrir slæmt bak. Á plani var Skerjafjarðarskáld mætt og hafði góð orð um það ágæta uppbyggingarstarf er fram færi á vegum Hlaupasamtakanna í Vesturbænum. Við teygðum, sögðum nokkra brandara, flutt ein vísa, farið í pott. En bara stutt, það voru einhverjir leikir í Evrópukeppninni.

Þetta hlaup var einstaklega vel heppnað, ég fann ekki til meiðsla í mjöðm sem hafa verið að angra mig, og fór bara skynsamlega. Mér hugnast það þegar þjálfarar heimila skynsamleg hlaup og eru ekki að spenna menn meira en skynsamlegt getur talist, en fellst hins vegar á það sjónarmið að líkaminn hafi gott af því að gera eitthvað sem er óvænt og hann býst ekki fyllilega við, svo sem eins og að taka nokkra létta spretti.

PS
Sú athugasemd hefur verið gerð við sunnudagspistil að mér hafi láðst að greina rétt frá greiningu dr. Baldurs á persónufræði frænda míns Ó. Þorsteinssonar Víkings, þar sem fram kom að gæðastjórnun væri ábótavant í frásögnum Ólafs af ættum manna, tengslum, skyldleika, fæðingarárum o.s.frv. Mér er ljúft og skylt að staðfesta að dr. Baldur setti vissulega fram þessa skýringu, að Ólafur væri vísvitandi ónákvæmur til þess að vekja menn til lífs og umhugsunar og kalla eftir leiðréttingum og til þess að heyra hvort þeir væru með fullri meðvitund og hlustandi eftir þeirri speki sem í boði er hverju sinni. Það er minn lapsus að hafa fellt niður þessa skýringu, eða kannski kvikyndisskapur - svona er maður illa innrættur. Vigtun í fyrramálið - og svo útlönd. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan dag.

Við Magnús J urðum vitni að því þegar Friðrik og Ólafur G fóru i sjóinn við Nauthólsvík miðvikudaginn 7.nov

kv

Einar Þór Jónsson

Einar Þór Jónsson (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband