Köben í þrennum greinum

Eins og fljótlega verður upplýst fór geysilega samhentur hópur að hlaupa frá Vesturbæjarlaug þennan fagra sunnudag í október, vantaði einungis Magnús á þann lista til að fullkomna daginn. Þetta voru þeir Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur og Einar blómasali, auk ritara. Jörundur setti fram kenningu um ferðagleði ónefnds ritara Hlaupasamtakanna og setti hana í samband við þingsályktunartillögu sem fram er komin á Hinu háa Alþingi um ótilgreind þjónustukaup íslenzkra embættismanna í útlöndum. Þetta væri borðleggjandi. Ó. Þorsteinsson nýkominn heim frá Kóngsins Kaupinhafn þar sem þrennt vakti athygli hans: 1. Fjöldi múslimskvenna með blæju; 2. Maður á Illums í Burberry-frakka, nankinsbuxum og Lloyds-skóm og fjarstýrði konu sinni sem skoðaði varning reyndist vera kona um 75 ára aldur með drengjakoll; og eitthvað þriðja sem ég man ekki þrátt fyrir að hann segði söguna þrisvar. Ekki hefur það verið merkilegt.

Rifjað upp samtal þeirra fóstbræðra VB og ÓÞ frá sunnudeginum seinasta og laut að veðurlýsingu fyrir Ísland, þar sem VB dró upp afar dökka mynd af útlitinu og sagði flughræddasta manni landsins að það líti út fyrir mikinn túrbúlans í millilandaflugi þann daginn. Á daginn kom að þetta varð þægilegasta flug Ólafs frá upphafi. Mælst til stofnunar dionýsískra samtaka opinberra starfsmanna er hefðu að markmiði að efla hag þeirra á allan veg þannig að verjast mætti ofsóknum þeim á hendur sem trúarofsóknum.

Það var farið hægt út, einhver hafði á orði að kaupstaðarlykt svifi um loftin, en menn gerðu sér ekki rellu út af því. Er ekki bara virðingarvert að menn skuli hlaupa þrátt fyrir áfengisgufur fyrir vitum. Veður ákjósanlegt til hlaupa, andkalt en stillt, og rosaleg hálka. Kom það enda á daginn að ritari bjargaði ekki færri en tveimur félögum frá falli og beinbrotum - en minnist þess ekki að hafa uppskorið miklar þakkir fyrir. Nei, maður er alltaf einmana og vinalaus. Aðalumræðuefni út í Nauthólsvík var Kaupmannahafnarferð Ó. Þorsteinssonar og var hún honum endalaus uppspretta hnyttilegra frásagna, en jafnframt hneykslanlegra.

VB sagði frá greiningu sinni á flughræðslu Ólafs Þorsteinssonar. Hann hafði varpað fram þessum vanda til greiningar á kaffistofu í Odda þar sem margt sálfræðinga var statt. Nú gekk fram einn sálfræðingur og hafði jafnframt starfað sem flugfreyja og spurði þriggjs spurninga: fylgist viðkomandi með ljósvakamiðlum og hlerar eftir að nafn hans sé nefnt? (Já, sagði VB); les viðkomandi prentmiðla og leitar nafns síns? (Já, sagði VB.); hefur téður aðili yfir að ráða einkanúmeri? (Já, sagði VB). Sjáðu til, þetta er athyglissýki.

Hér voru hlauparar sem þrumu lostnir. Athyglissýki, hjá manni sem búinn er að afhrópa fjölda fólks og greina með gjallarhornssýki. Getur það verið? Hlaupið áfram í kirkjugarð og staldrað við nýlegt leiði í garðinum. Hér tuldraði VB eitthvað um uppáhaldsiðju Ó. Þorsteinssonar. Ekki var hægt að gera löng stopp því að menn kólnuðu hratt niður. Áfram um Veðurstofu og Hlíðar og rætt um fyrirhugaða árshátíð hlaupara. Við Einar og Ólafur lentum á eftir hinum sem voru tiltölulega frískir - en náðum þeim svo á Rauðarárstíg og eftir það var samfylgd nokkuð samfelld. Enn var vatn að hafa úr fonti á Sæbraut og var það ljúft.

Komið til Laugar og allir óbrotnir, sem var kraftaverk miðað við hvernig færðin var. Þar biðu margir fróðir menn, en sumir þrasgjarnir með eindæmum og ekki mjög áheyrilegir af þeim sökum. Hlaupið er á morgun, en þá verður ritari í háloftunum. Í gvuðs friði. Ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband