Dapurlegt ástand skrokkanna

Nú var liðin vika frá því að ritari mætti til hlaupa. Frá er talin mæting s.l. miðvikudag er hann mætti til Laugar í þeim tilgangi einum að skola af sér ferðarykið eftir erfiða ferð um Atlanzála - og orsakaðist af brýnum erindum í höfuðstað Evrópu, Brusli. En á miðvikudag hitti hann fyrir kæran félaga, próf. dr. Fróða og hafði hlaupið heila fjóra kílómetra, virtist allur vera að koma til og ljómaði af stolti yfir árangrinum. Ég spurði hverjir hefðu verið að hlaupa, hann varð hugsi og sagði, það var ég, og Magnús, og Reynir og ..., og svo voru einhverjir vesalingar á eftir okkur. Með því vísandi til ekki minni hetja en Einars blómasala, Björns matreiðslumanns og dr. Friðriks. Ég hitti einnig Einar og Björn og átti við þá gott samtal. Einar minnti mig á að sig vantaði MoM.

En í kvöld var annað upp á teningnum. Hér var harðsnúið fólk mætt til hlaupa, fyrstan mátti kenna Gísla Súrsson á Uppsölum, svo hvern af öðrum, Björn kokk, Ágúst, Friðrik, og svo þrennt af Nesi: Rúnu, Brynju og Friðbjörn. Er það ánægjulegt að fólk úr öðrum sóknum skuli sjá sér hag í að mæta til hlaupa með Samtökum Vorum og eru þau ævinlega velkomin.

Nokkuð kunnuglegar kýtur urðu í Brottfararsal, kvörtuðu menn yfir ummælum um sig í pistlum ritara, þeir hefðu glatað góðum starfstækifærum þegar tilvonandi vinnuveitendur hefðu gúgglað nöfn þeirra og lesið ýmislegt misjafnt um þá á veraldarvefnum. Þó var ekki að heyra að fólk vildi að hætt yrði ritun um þá atburði helzta er verða á hlaupum í Samtökunum. Menn veittu athygli að próf. Ágúst virtist óbugaður með fótinn frá Kamtsjatka og virtist einbeittur í að prófa hann enn og aftur.

Fámennur hópurinn hélt af stað út í óvissa tíð. Horfur voru tvísýnar, spá lofaði ekki góðu, veður kólnandi, en samt þolanlegt þegar var lagt í hann. En þegar komið var niður á Ægisíðu kárnaði gamanið, Ágúst byrjaði að kvarta ógurlega yfir ástandi líkamans og var harla svartsýnn á að hann næði að ljúka nokkru hlaupi af viti. Við félagar hans vorum sammála honum um að ástæðulaust væri að vera bjartsýnn á að hann næði að ljúka hlaupi af viti í dag. Samt vorum við Gísli mjög uppbyggilegir og sögðumst mundu fara hægt og stutt með honum af fullkominni meðaumkun með dapurlegu ástandi hans. Aðrir hlauparar skæðir, vildu ólmir hefja hlaupið, spretta úr spori og fara að hlaupa af einhverri alvöru. En þetta var dagur aumingjanna og bara farið hægt.

Þetta var hættulegt hlaup, vindur jókst af suðaustri er kom nær flugvelli og vorum við í strekkingsvindi og hundslappadrífu. Ekki kjörið, en viðunandi. Er hér var komið hófu menn að skyrpa og spýta af miklum móð og mátti maður hafa sig allan við að víkja sér undan slettunum. Á einum tímapunkti lenti sletta frá Ágústi á buxnaskálm minni - og sá ég mitt óvænna, nú yrði ekki hjá því komist að þvo buxurnar, en þær hafa sloppið við þvott í allt haust.

Eins og alltaf á föstudögum var aðalumræðuefnið áfengisdrykkja og áfengisböl - og sýndist sitt hverjum. Einhverjir töldu að enn væri eftir fyrsti föstudagur í október - en dræmlega var tekið í það, við þegar búin að taka þennan dag út tvisvar. Samstaða var um að næst yrði fyrsti föstudagur hinn 2. nóvember næstkomandi. Svo var það sjóbaðið: við nudduðum því inn hjá prófessornum að hann ætti enn eftir októberbaðið og bentum á að hann gæti bjargað sér með sjóbaði hinn 31. október. Hann var heldur vondaufur um að það hefðist, en Uppsala-Gísli reyndi að örva hann til dáða og vekja honum von um að það mætti baðast. Ef ekki verður af baði missir prófessorinn af Október-stigi, sem hefur ekki gerst svo lengi sem elztu menn muna. Ástandið er alvarlegt.

Í Nauthólsvík sveigðum við af braut, fórum um nýmalbikaðar brautir sem eru fjölmargar í Öskjuhlíð, en Nesfólkið fór hefðbundið. Við höfðum allir áhyggjur af Ágústi, að hann færi að reyna um of á veika krafta sína. Fórum um Hlíðarfót gegnum votlendi óhefðbundið og vöknuðum sumir hverjir í fætur, Gísli og Björn styttu, en við Ágúst fórum rétta vegalengd - vorum samt jafnan fremstir. Er hér var komið fór að hlaupa í prófessorinn sú gamla árátta að gefa í og á endanum var farið gizka hratt allt til Háskóla - en hann lét ekki bilbug á sér finna og fór heill í gegnum þessa raun. Er nú bara að takast á við letina - en prófessorinn hefur látið í ljós þá skoðun að hann nenni ekki að hlaupa.

Í potti var mjög rætt um persónufræði og hlaup, en einnig svolítið um hlaup. Við bættist blómasali veikur sem kvaðst hafa bara hugsað um koníak í morgunmat, krafði ritara um MoM. Þó urðu mjög áleitnar umræður um sjúkdóma, veikindi, meiðsli, sjúkraþjálfara, meðferðir og fleira óviðeigandi sem ekki á heima í hlaupahópi. Menn forðuðu sér. Næst: sunnudagshlaup.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband