Lengi getur vont versnað (og gott bessnað...nei)

Mér leist satt að segja ekki á að hlaupa í dag þegar ég gekk út úr Stjórnarráðinu um hádegisbil, norðangarri og kalt. Fór að rifja upp allar helztu og þekktustu afsakanir sem menn hafa beitt í gegnum tíðina, en ég sá fyrir mér persónu próf. Fróða, þar sem hann segir hæðnisfullur: Sólskinshlaupari! Svo að ég mætti á tilskildum tíma. Gísli hafði lofað prófessornum að fara með honum í sjóinn til þess að tryggja októberbað og -stig. Ég er enn í útiklefa og tek ekki mark á kalendernum, aðeins hitastiginu. Það var svolítið kalt og ég kveikti á hitalampanum og klæddi mig í snatri. Mætti í Brottfararsal, þar var Þorvaldur mættur óvenjusnemma, ég spurði hvort hann hefði verið rekinn (þetta er standardfrasi þegar blómasalinn mætir (of) snemma - hva? er búið að reka þig?). Þorvaldur brást vel við spurningunni og taldi áhyggjuna óþarfa. Svo bættust þeir við hver af öðrum: próf. Ágúst, Magnús, Birgir, blómasalinn, Guðmundur, Benedikt, Þorbjörg, og loks dúkkaði sjálfasti Kári hinn franski upp, gekk um kyssandi hlaupara á báðar eins og sannur Franzmaður. Rúnar þjálfari mættur og gaf fyrirskipanir: taka þétting eftir dælustöðina og alveg út í Nauthólsvík og bannað að tala saman á meðan! Menn horfðu hver á annan: hvernig er þetta hægt? Látum vera þótt menn spretti úr spori, en að hætta að tala saman. Menn klóruðu sér í kollunum og brutu heilana, en voru engu nær. Prófessorinn lyfti varfærnislega hendi og sagði: "ég er með vottorð".

Það var farið rólega út, eða svo taldi ég. Ekki vorum við farin langt þegar grá jeppabifreið varð á vegi okkar og hóf að flauta á okkur af mikilli frekju, en svo kom í ljós að innandyra var konrektor ungdómsakademíunnar við Hagatorg, og eiginkona hans, mágkona ritara. Var þeim fagnað með ágætum af öllum hlaupurum. Haldið áfram á Ægisíðu, og nú brá svo við að veður var með allra bezta móti, vind hafði lægt og það var hrein unun að skeiða skeiðið. Ef frá eru skildar tvær pylsur sem hringluðu í maga ritara og létu vita af sér. Prófessorinn hafði hálfvegis gert sér vonir um sjóbað, en með bæði Gísla og dr. Friðrik fjarverandi, helztu hvatamenn sjóbaða, var lítill metnaður til baða, nema hvað ritari er ávallt til í glapræði og vitleysu ef góðir menn standa þétt að baki. Svo var ekki í dag og virtist prófessornum létt. Ég spurði hann hvort þetta væri ekki slæmt, að missa af októberstigi. "En ég er með októberstig!" sagði prófessorinn - "ég er búinn að baðast í október, það var í október í fyrra!" Þetta fannst mér einkennilegt svar, enda leit ég svo á að menn þyrftu að safna inn stigum ár hvert. En hér upplýsti prófessorinn um nýja reglu: sá maður sem þegar hefur baðast í tilteknum mánuði - er með þann mánuð um alla framtíð! Ég verð að segja að mér finnst þetta harla einkennileg regla: hún beinlínis stuðlar að því að menn baðist einu sinni í mánuði einhvern af helztu mánuðum ársins og svo ekki söguna meira. Þetta finnst manni ekki í anda Hlaupasamtakanna og ekki beinlínis karlmannlegt. Til nánari skoðunar til þess bærra aðila.

Fljótlega kom í ljós hver munur er á hlaupurum þessi misserin, við sáum reykinn eftir Guðmund sem er farinn að leika þann ljóta leik að skilja aðra hlaupara eftir og hlýðir ekki fyrirmælum þjálfara um að fara hægt út og taka þétting eftir dælustöð. Aðrir eins og Magnús, Benedikt og fleiri skildu okkur hina eftir. Einhvers staðar á brautinni dúkkaði Una upp, spræk og frísk. Ég hélt mig við öftustu hlaupara, blómasalann og Þorbjörgu, ég út af pylsunum, Einar orðinn feitur, þungur og bakveikur af baktali sem hleypir bólgum á verstu staði. En hlaup er bara hlaup og engin keppni - þannig að hver gerir sitt bezta. Við skeiðuðum áfram og reyndum hvað við gátum, en fljótlega fóru ýmsir hlauparar að bila, Ágúst fyrstur, gömul meiðsli tóku sig upp; svo blómasalinn, bakið ónýtt; ritara þótti gott að hafa svona bilaða menn með sér sem afsökun fyrir því að þurfa ekki að sperra sig og fara bara stutt. 

Við fórum út í Nauthólsvík, en tókum okkur gönguhlé á milli í anda sunnudagshlaupa. Áttum löng trúnaðarsamtöl um okkur hugðnæm málefni, sem ekki verður uppljóstrað um hér. Fengum í bakið hóp af hlaupurum á Hringbraut sem höfðu farið eitthvað lengra en við, létum okkur nægja Hlíðarfót, sem er góð vegalengd og hentug veiku fólki eins og okkur, 8 km. Komum nokkuð jafnsnemma á plan og aðrir hlauparar. Þar var teygt, togað, og skrafað. Loks stefnt á pott. Í potti urðu langar umræður um margvíslegar náttúrur, efnafræði, efnisfræði málmiðna, málmframleiðslu o.s.frv. En þó ber þess að geta að í pott mættu einvörðungu Kári, Einar, Birgir og Ólafur ritari. Og Þorbjörg stutta stund. Rætt um gler sem byggingarefni, tekið dæmi af byggingu í Smáralind sem er nær alfarið úr gleri og þykir mjög hentugt. Hér varð Birgir mjög tómeygður, glíkur frænda mínum Ó. Þorsteinssyni þegar hann fékk svínslegu vísbendingaspurningarnar frá VB, og svo sagði hann: "Já, er það þarna einhvers staðar á landsbyggðinni?" Svona tala bara innfæddir, bona fide Vesturbæingar og ætti að veita sérstök verðlaun fyrir þetta viðhorf til umheimsins.

Hér féllu svo mörg gullkorn að skömm væri að veita öðrum en þeim sem nenna að hlaupa og mæta til potts, en þó þetta: frönsk speki, elsku barnið mitt, et gulrætur, þær bæta sjónina; et fisk, það bætir minnið; en helzt af öllu: et fisk sem borðar gulrætur, því það tryggir að þú munir það sem þú sást. Í gvuðs friði, þar til á föstudag, ritari.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta ekki dæmigert? Menn sem hafa ekki hlaupið lengi birtast þegar árshátíð er framundan.

Sigurður Ingvarsson (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 16:46

2 identicon

Ég er týndur hér..., hver mætti út af árshátíð? Af hverju er verið að bregða stærðfræðigildrum fyrir fólk sem vill tjá sig?

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband