Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Þegar manni verður á

Í mér blundar fól. Stundum kem ég illa fram við mína bestu og tryggustu vini. Svo varð að morgni þessa dags er ég nuddaði einum mínum bestu vina, Einari blómasala, upp úr gömlum, meintum ávirðingum, að því marki að honum var svo misboðið að hann rauk á dyr eftir morgunbað án þess að fá sér kaffi með okkur körlunum. Það er illa komið fyrir manni þegar maður veitist svo hart að heiðri þeirra manna sem hafa sýnt manni hvað samfelldasta vináttu og tryggð í gegnum tíðina og hættir til vináttunni og frekari samskiptum. Því er ekki um annað að ræða fyrir þennan blekbera en að biðjast auðmjúklega afsökunar á misgjörðum og vonast eftir fyrirgefningu. 

Að svo mæltu skal vikið að hlaupi dagsins. Væntanlega hefur páskahelgin haft einhver áhrif á mætingu, en þessir mættu: próf. Fróði, Flosi, Benz, skrifari, Pétur og Heiðar. Dr. Jóhanna og Helmut mættu hlaupin í Brottfararsal og kváðust þurfa að sinna fjölskyldumálefnum (hvað skyldi fólki líðast lengi að koma með svona afsakanir?). Tvískipting hópsins var með þeim hætti að þeir Pétur og Heiðar spurðu okkur aumingjana ekki einu sinni hvað við ætluðum að gera. Þeir bræddu með sér sín eigin plön um Kársnes og 15 km tempó. Við hinir sýndum áhuga á Þriggjabrúa. "Ekki styttra," sagði Gústi.

Maður er smám saman að hlaupa sig niður á gamalt form. Ágætis tempó þegar í upphafi, Flosi er með sér prógramm og fer hægar. Við fórum þetta saman, Fróði, Benz og skrifari. Að vísu fór prófessorinn fram úr okkur og tók sveigi og trekanta, en við náðum honum alltaf aftur. Hann hefur tekið upp þann leiða sið eftir Þorvaldi Gunnlaugssyni að hlaupa þvers og kruss rétt fyrir framan næstu hlaupara á eftir og þvælast fyrir þeim. Þetta er óþolandi! Stundum langar mann til þess að bregða fæti fyrir svona hlaupara.

Í Nauthólsvík staldraði Benzinn við og ætlaði að bíða eftir Flosa. Við Gústi héldum áfram austur úr út að Kringlumýrarbraut og svo yfir brú. Þá var Boggabrekkan lögð að velli og tekin í einum rykk. Við sáum Þorvaldi Gunnlaugssyni bregða fyrir akandi um þetta leyti og skýrir væntanlega hvers vegna hann var ekki að hlaupa með okkur. Staldrað stutt við á Bústaðavegi og svo farið yfir hjá RÚV, Kringlu og yfir hjá Fram-heimili. Hér var Ágúst kominn eitthvað fram úr skrifara og var svo það sem eftir lifði hlaups.

Skrifari fann að honum óx þrek og kraftur og hann var að finna fyrir gömlu formi. Hljóp af krafti án þess að hafa nokkuð fyrir því. Niður Kringlumýrarbraut og yfir umferðargötur á ljósum. Sæbrautin steinlá, en við Hörpu var gengið spottakorn, svo var farin Ægisgata og sú leið tilbaka. Vitað var að prófessorinn lengdi út í Ánanaust og fór Grandaveginn til baka og náði 15,5 km, meðan skrifari fór þessa hefðbundnu 13,6 km sem Þriggjabrúaleiðin hefur mælst. Flosi fór 69, 17,3 km. Heiðar og Pétur fóru sumsé á Kársnesið, eina 18 eða 19 km, þar af 15 km á 4:20 tempói.

Næstu hlaup: sumir hafa fyrir venju að hlaupa langt á Föstudaginn langa (þar af nafnið), en þessi hlaupari fer næst frá Laug laugardag kl. 9:30 - gæti orðið Stokkur.  


Fótbrotinn og með lungnabólgu

Það er best að segja hvern hlut eins og hann er: þetta var einfaldlega frábær hlaupadagur hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins, elsta og virðulegasta hlaupahópi landsins, en jafnframt þeim hógværasta. Prófessor Fróði mætti bæði fótbrotinn og með lungnabólgu í hlaup, bar sig illa og vildi bara fara stutt, helst ekki lengra en 12 km. Hafði farið 20 km á laugardag, fótbrotinn og með lungnabólgu. Aðrir mættir: Magga, Flosi, Þorvaldur, Benz, Blómasali, Pétur, Heiðar, Ólafur Gunnarss. og skrifari. Snaggaralegur hópur sem setti strax stefnu á Víðirmel. Hins vegar fór það svo að þau Magga, Pétur og Heiðar voru svo vinstrisinnuð að þau fóru vinstra megin út á Nes, en við hinir fórum út á Suðurgötu og þaðan út að Skítastöð. 

Ekki gat Blómasalinn kvartað, hann hafði etið hrískökur og drukkið Nupo Létt fyrr um daginn, en var samt þungur. Hann útlistaði fyrir okkur allt sem hann ætlaði að eta og drekka um páskana, og það var ekkert smáræði! Meðan við hinir hugleiddum hvernig haga mætti hlaupum um páska þegar Laugin er meira eða minna lokuð. Ágúst gerðist lýrískur og sá fyrir sér Heiðmörk og fjöllin, helst ekki styttra en 90 km, aðrir voru raunsærri og gerðu tillögu um svo sem eins og einn 69. Verið er að grafa fyrir húsi íslenskra fræða og búið að rífa upp tré sem Einar vildi draga af vettvangi og hafa með sér í bústaðinn. En svo kom á hann hik og hann sagði sem svo: "Kenski ætti ég að spyrja fyrst."

Áður en við vissum af vorum við komnir út að Skítastöð á fínu tempói. Hér söfnuðumst við helstu drengirnir saman og héldum á Nes. Á var sól, stilla og hiti 6-7 stig (ágiskun), flott hlaupaveður, þannig að maður svitnaði en ekki um of og var ekki heldur kalt. Halldór bróðir var á ferðinni ásamt eiginkonu og Einar hreytti ónotum í þau. Honum var svarað fullum hálsi. Við mættum Nesverjum en þekktum fáa að þessu sinni utan hvað skrifari sá bregða fyrir skólasystur úr Reykjavíkur Lærða Skóla.

Við Hossvallagötu vildi Blómasali gefast upp og hverfa til Laugar. Ekki var honum gefið færi á því en drifinn á Nes. Ágúst og Þorvaldur á undan okkur, en Flosi, Benzinn og Ólafur hinn einhvers staðar í fjarskanum á eftir okkur, ósýnilegir. Við áfram og lofaði ég Blómasala að fara hægt. Reyndi að telja í hann kjarkinn og hvetja á alla lund. Stuttu síðar höfðum við hlaupið uppi þá Þorvald og Gústa og saman fórum við Nesveginn. Hér sagði Ágúst: "Það er næstum því nauðsynlegt að taka Lindarbrautina úr því að við erum komnir hingað, tekur því varla að fara styttra." "Já, þetta er rétt hjá þér," sagði Blómasalinn. "Næstum." Enda kom á daginn þegar komið var út á Suðurströnd að þá beygðu þeir Þorvaldur af og fóru hjá Haðkaupum, en við Gústi fórum á Nesið. Hlupum fram á þau Möggu, Pétur og Heiðar að sprikla í Bakkavörinni. Afþökkuðum gott boð um að sprikla með þeim. Áfram út á Lindarbraut sem búið er að leggja nýjum hellum gangstéttar, afar snyrtilegt. Yfir á Norðurströndina og þá leið tilbaka.

Nú þurfti skrifari að svala þorsta sínum og þá brá Ágúst ekki vana sínum, þegar hann er búinn að teyma menn eins langt í eina átt og komist verður, gefur hann í og skilur félaga sína eftir. Þetta gerði hann í kvöld, skildi skrifara eftir og setti upp hraðann. Þetta var nú allt í lagi, skrifari í fínu formi og kláraði gott 12 km hlaup á flottu tempói. Teygt á Plani og í Móttökusal og svo farið í Pott. Rætt um hlaup, Ágúst rifjaði upp gömul afrekshlaup eins og Comrade. Deilt um hvort suður-afríski herinn hefði stofnað til þessa hlaups eins og sumir vildu meina, eða hvort suður-afríski kommónistaflokkurinn hefði komið hlaupinu á laggirnar.

Nú þarf að fara að taka ákvörðun um árshátíð. Nefndin er hér með kölluð til starfa.  


Flugfreyjudeildin stækkar

Hver segir að Hlaupasamtökin séu ófær um að laða til sín frambærilega kvenkyns hlaupara? Þetta afsannaðist með öllu í hlaupi dagsins og verður sagt frá því síðar. Á fögrum sunnudagsmorgni mættu þessir til hlaups: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Magnús, Tobba, Flosi og skrifari. Magnús lýsti yfir að hann hlypi stutt vegna Kirkjuráðsfundar. Aðrir settu stefnuna á hefðbundið. Byrjað á langri tölu um stöðu mála hjá ÍRB þar sem ÓÞ tilheyrir innanstokksmunum og líkum leitt að því hver leysir Guðjón Guðmundsson af sem næsti formaður KR. 

Á leið okkar varð Gunnar Gunnarsson fréttamaður og var hann tekinn tali. Svo var komið í Nauthólsvík og þar var gengið um sinn. Loks haldið áfram og ekki stoppað aftur fyrr en í Kirkjugarði og gengið á ný. Veðurstofa og Klambrar. Þar gerðist undrið. Tvær ungar, ljóshærðar konur á bleikum hlaupajökkum hlupu okkur uppi og báðu um að fá að fylgja okkur. Þær höfðu aldrei heyrt minnst á Vilhjálm Bjarnason og vakti það almenna furðu í hópnum. Þær hlupu svo með okkur langleiðina að höfninni, en hurfu á braut eftir það.

Farið um Miðbæ og upp Túngötu og til Laugar. Í Pott mættu Helga Jónsdóttir og Stefán Sigurðsson, nýkomin úr svaðilför til Tenerife, bæði útlítandi eins og kolamolar. Auk þeirra dr. Baldur og dr. Einar Gunnar. Umræðan snerist um hann Vilhjálm okkar og orð eins og "mannasiðir" og "fúkyrðaflaumur" heyrðust falla. Þá hallaði ókunn kona sér að dr. Einari Gunnari og spurði: "Hver er þessi Vilhjálmur?" "Hann er sonur Bjarna Vilhjálmssonar, þjóðskjalavarðar" svaraði dr. Einar Gunnar sannleika samkvæmt. "Er hann svona orðljótur?" spurði konan þá hissa.  


Himneskt!

Skrifari hefur vaknað af værum blundi og situr á rúmstokknum eins og himneskur brúðgumi og það hellist yfir hann þessi tilfinning að þetta sé dagurinn! Í dag mun það gerast! Hvað það var sem mundi gerast var ekki ljóst. Því var ekki um annað að ræða en drífa sig af stað og setja stefnu á Laug með hlaupagírið í farteskinu. Þangað kominn sá hann enga aðra hlaupara þrátt fyrir að hafa hvatt til hlaups í pistli gærkvöldsins. Að vísu sá hann Blómasalann í Útiklefa nýhlaupinn, hafði farið 7 km á Nesi, sem þykir ekki mikið á laugardegi og varla þess virði að fara í hlaupafötin fyrir svo stutt hlaup. 

Er út var komið stóð fjöldi manna á Plani, flestir ókunnir og ekki þesslegir að vilja hlaupa með einmana, feitlögnum, miðaldra Vesturbæingi, svo að ég lagði upp einn og setti stefnuna á Ægisíðu. Smám saman rann upp fyrir mér hvaða dagur þetta var og hvað það var sem mundi gerast: þetta var dagurinn þegar allir hlaupararnir spenntu á sig skóna og lögðu braut undir sóla og staðfestu þar með vorkomuna. Það var slíkur aragrúi hlaupahópa og hlaupara á ferli á þessum stutta speli milli Hofsvallagötu og Kringlumýrarbrautar að það fór ekkert á milli mála að hlaupaárið er komið á fullt.

Fór sumsé hefðbundið, þungur fyrst, en skánaði eftir 3-4 km þegar ég var orðinn vel heitur. Þá langaði mig bara til þess að halda áfram endalaust, en lét mér nægja að fara Suðurhlíð upp að Perlu og niður Stokk hjá Gvuðsmönnum og svo brýrnar á Hringbraut, Akademía og Hagamelur tilbaka. Klukkutímatúr sem hefði alveg mátt vera lengri mín vegna, hann verður það bara næst. Pottur og slökun á eftir. Frábær hlaupatúr og minns kominn á góðan skrið.

Hlaupið hefðbundið á sunnudegi í fyrramálið, 10:10. Það verður menningartúr líkt og síðasta sunnudag. Vel mætt! 


Einn aukalegur Fyrsti á Ljóninu í tilefni landsleiks

Stundum þurfa menn að sinna sínum nánustu. Þannig var ástatt með skrifara í dag, hann þurfti að flytja venslafólk milli borgarhluta og missti því af hlaupi dagsins, sem að þessu sinni átti að fara frá Neslaug á auglýstum tíma. Samt hafði Benzinn hringt og ýtt á um hlaup. Nei, það gekk ekki upp. Og þegar upp var staðið mættu aðeins þeir trúbræður Denni og Benz, ekki einu sinni Þorvaldur sá sóma sinn í að fylgja þeim á Nesið. 

Jæja, skrifari komst ekki hjá því að skola Stjórnarráðsrykið af sér og þar sem VBL var lokuð eftir 1300 í dag var bara að manna sig upp í að mæta í vatnið í nágrannasveitarfélaginu. Alltaf jafnskrýtið að koma út á land! Þarna eru allt aðrir siðir og venjur heldur en hér í Vesturbænum. Það er þvílíkt horft á mann og maður sér að fólk hugsar með sér: "Hvaðan kemur hann þessi? Færeyjum?" Og verður alltaf hugsað til þess þegar maður var yngri og þurfti að sækja "þjónustu" á skrifstofur Borgarinnar í tíð íhaldsins áður en hugtakið "þjónusta" fékk almenna útbreiðslu. Þá var alltaf litið á mann eins og utanveltubesefa sem hefði ekki mætt á Hverfafund hjá Flokknum upp á síðkastið og verðskuldaði enga þjónustu og engin viðbrögð.

Já, það er minniháttar fólk sem býr á Nesinu, nema hann Denni okkar. Hann er heldur ekki af Nesi, hann er af Hólatorgi og Vesturbæingur í húð og hár. Hann er uppalinn næst Hólavallagarði, þar sem bezta fólk Lýðveldisins liggur grafið.

Nema hvað, geng ég ekki í flasið á Denna þar sem ég kem til Laugar og hann tilkynnir mér að þeir Benzinn séu að fara á Ljónið að horfa á seinni hálfleik. Skrifari fór í gegnum helstu rútínur í Laug, heitasta pott, gufu, nuddpott - og svo upp úr. Beint á Ljónið þar sem við stálumst í einn auka Fyrsta og vissum sem var að prófessor Fróði átti nóg af afgangsdögum að splæsa. Sáum arfaslakt lið Íslands grjótleggja Slóvena, sem voru mun aggressívari og ágengari. Íslendingar héldu varla boltanum í 5 sekúndur hverju sinni! Leikurinn minnti á leiki Fram á sjöunda áratugnum þegar maður að nafni Kristinn Jörundsson lék með Fram, kallaður Kiddi pot, ávallt staðsettur á markteig og þurfti ekki annað en rétta út fótinn og þá fór boltinn í fótinn og í mark. Að sama skapi var ánægjulegt að heyra að Norðmenn hefðu legið fyrir Albönum Á HEIMAVELLI 0:1. Stundum er gvöð miskunnsamur! 

Hlaupið á ný á morgun, brottfarir frá Laug: 8:30, 9:30.  


Mannval í fróðlegu sunnudagshlaupi

Kynning skrifara á hlaupi dagsins í pósti gærdagsins hefur greinilega kveikt í mörgum, en í henni er gefið vilyrði fyrir för um tvo kirkjugarða. Kirkjugarðar hafa á sér hugblæ eftirvæntingar og spennu hjá hlaupurum, þar er saga, þar er fróðleikur. Mætt í hlaup dagsins: Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Magnús tannlæknir, Þorvaldur, Denni skransali, Einar blómasali, Maggie og skrifari. Langt er síðan svo vel hefur verið mætt í sunnudagshlaup. Veður fallegt, en fremur svalt og einhver vindur á norðan. 

Einar sýndi okkur nýlegan VW Golf sem hann hefur fest kaup á af Marinó Björnssyni frá Fjósum í Svartárdal. Þegar Einar vildi ræða uppítöku á VW bjöllu 1964 eyddi Marinó talinu með því að ræða um óskylda hluti. Upphaf hlaups fór í að ræða þessi kaup blómasalans á nýlegri bifreið. Ó. Þorsteinsson taldi þetta vera glapræði hið mesta, aldrei að kaupa bíl af bílaleigum. Einar maldaði í móinn og taldi að það þyrfti bara að skoða undirvagninn, ef hann væri óhruflaður væri þetta í lagi. Um þetta var deilt alla leið í Skerjafjörð.

Í Nauthólsvík sagði Magnús okkur fallega Kirkjuráðssögu af manni sem meiddi sig við að leika golf. Hann hélt um pung sér og hafði sársaukagrettu á andliti. Hjúkrunarfræðingur kom að honum og bauðst til að nudda hann. "Er þetta ekki betra?", spurði konan. "Þetta er voða gott, en mér er samt enn illt í fingrinum." Gengið um sinn og svo hlaupið af stað og stefnan sett á Kirkjugarð. Í Garði var farin óhefðbundin leið, nú var farið að leiði tengdamóður blómasalans og sögð saga. Fleiri leiði skoðuð og svo haldið áfram.

Maggie var óþolinmóð og skildi ekki svona hlaup þar sem alltaf var verið að stoppa og segja sögur og flytja fróðleik. Á endanum yfirgaf hún hópinn og sást ekki meira fyrr en í Potti. En við hinir fórum hefðbundið hjá Veðurstofu, um Klambra og Hlemm. Hér gerðist það óvænta að í stað þess að fara Sæbraut fórum við Laugaveg, enda var framundan rúsínan í pylsuendanum: Hólavallagarður. Eftirvæntingin óx. Hlaupið fram hjá nærbuxnaverzlun á horni Barónsstígs og Laugavegar og út frá því spannst fjölskyldusaga. Inn í hana blönduðust bílnúmer og spurt var um bílnúmer. Hver átti R-67? Ó. Þorsteinsson svaraði án umhugsunar og flutti snjalla tölu um Thorsara. Þá spurði Einar um eitthvert númer. Ó. Þorsteinsson svaraði án umhugsunar og flutti snjalla tölu um Ásgeir Ásgeirsson, forseta Lýðveldisins, son hans ráðuneytisstjórann, tengdason ráðuneytisstjórans, þekktan barnakennara í Vesturbænum, en hér kom blómasalinn inn aftur og sagði: "Það er nú reyndar ég sem á þetta bílnúmer." Okkur getur öllum skjöplast.

Farið um Miðbæ og Austurvöll, heilsað upp á kunningja á Kaffi París. Nú var spennan í hámarki. Kirkjugarðurinn við Suðurgötu. Til að byrja með fékk Denni athyglina, því að hann leiddi okkur að leiðum afa síns og langafa og sagði sögu þeirra. Svo fundum við vökukonuna í garðinum, en hennar hefur Denni leitað árum saman. Að því loknu var farið að fjölskyldureit Formanns Vors og hlýtt á fróðleik um gerð hans og uppbyggingu.

Að hlaupi loknu voru menn sammála um að sjaldan hefði verið farið jafn fróðlegt hlaup og uppfullt af mannlegri hlýju og skemmtun.  


Þorvaldur lánar buxurnar sínar

Kalli var gómaður þar sem hann kom upp úr kjallara Laugar Vorrar og ætlaði að lauma sér í burtu og koma sér hjá hlaupi. Skýringin eða afsökunin sem hann bar fyrir sig var að hann hefði gleymt buxum. Við bentum honum á Þorvald, sem viðhafði hefðbundnar teygjur sínar í Brottfararsal, og fullyrtum að hann myndi fúslega ljá Kalla buxur. Hláturinn korraði ofan í skrifara þar sem hann gekk til Útiklefa, því hann vissi sem vonlegt er að enginn maður með sjálfsvirðingu myndi hlaupa í lánsbuxum frá Þorvaldi. Honum brá því er hann snöri til Brottfararsalar á ný og sá Kalla íklæddan lánsbuxum sem minntu meira á austurrískar fjallgöngubuxur en hlaupabuxur. Buxurnar áttu eftir að leika aðalhlutverk í hlaupi dagsins. Meira um það seinna.

Aðrir mættir: próf. Fróði, Benz og Maggie. Hópur sem er settur saman af slíkum einstaklingum breytir ekki til, hann fer hefðbundið. Við fórum hefðbundið, ja, allir nema skrifari. Hann fór Fót. Það reyndist kaldara utan dyra en við var búist og blés köldu. Farið allhratt út, á 5:30 tempói. Maggie stýrði hraðanum og spanaði prófessorinn upp. Fljótlega var tempóið komið í 5:15 og dró sundur með hlaupurum. Tekinn Trekant við Strætóstöð í Skerjafirði svo að hópurinn sameinaðist um stund, en svo fór allt í sama farið. En í Nauthólsvík náðum við saman á ný og þau hin héldu á Flanir, en skrifari beygði af.

Sosum tíðindalítið til Laugar, en mér varð hugsað til hans Gísla okkar sem setti svo fallega pælingu á Facebook í morgun að loknu morgunhlaupi á Nes. Einstakur maður, hann Gísli og mikið saknað í hópnum.

Eftir hlaup var upplýst að bílar hefðu forðast Kalla eins og pestina, virðast kannast við buxurnar af reynslu eða orðspori, en þó var ekki ljóst hvort hann hefði reynt að hlaupa fyrir þá með sambærilegri tímasetningu og Þorvaldur og frægt er orðið í umferðarheiminum.

Næsta hlaup: sunnudagsmorgunn kl. 10:10. 


Blómasalinn grét allan hringinn

Nú er eins gott að hann Jörundur okkar er á Tenerife. Sá hefði verið illþolanlegur í dag þegar ástand Lagarfljóts kom til tals, en hann sagði fyrir um þróunina áður en ráðist var í Kárahnjúkavirkjun. Um þetta voru menn sammála í hlaupi dagsins. Þátttaka fremur dræm, aðeins sex hlauparar mættir: próf. Fróði, Flosi,  Benzinn, Blómasalinn, Tobba og skrifari. En veðurblíðan slík að maður var bara lens. Spurt var: hvers konar idjót láta undir höfuð leggjast að hlaupa á slíkum degi? Byrjunin lofaði góðu og kom á daginn að þetta varð eitt af þessum eftirminnilegum hlaupum sakir heilbrigðis, menningar og skemmtunar. Þessa fara þeir á mis sem farnir eru að hlaupa sem tíðast á morgnana: þá er bara gónt á klukkur og talað um hlaup, ef minnst er á menningu eða persónufræði verða menn flóttalegir til augnanna. 

Nú var lagt upp og farið afar rólega. Í þetta skiptið náði skrifari ekki einasta að hanga í mönnum, hann fór fyrir hópnum ásamt Gústa og Benz, en þau hin fylgdu í kjölfarið. Rætt um stöðu Sjálfstæðisflokksins sem hefur skellt hurðum og vill loka landinu. Nefnd voru orð Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar, frá því í morgunútvarpi þar sem hann harmar einangrunarstefnu flokksins á landsfundinum og kvartaði yfir því að engin gengisstefna væri til staðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Um þetta flutti Blómasali snjalla tölu lengi hlaups og kvaðst mundu kjósa Framsókn. Hér hugsuðu sumir: eru þeir eitthvað skárri? Er þetta ekki liðið sem drap lífríki Lagarfljóts og stefnir að því að afgreiða Mývatn þegar það kemst næst til valda?

Sem fyrr segir var veður yndislegt og hlaupið gekk vel fyrir sig, skrifari að ná góðu formi eftir mánudagshlaupið, einna helzt að Einar hafi kvartað yfir hraða annarra hlaupara. Í Nauthólsvík skildi Flosi við hópinn, fór Hlíðarfót, enda á leiðinni í Powerade á morgun. Bjarni var horfinn í leit að Tobbu sem hafði dregist aftur úr hinum og munu þau hafa farið Hlíðarfót einnig. Við Gústi og Einar fórum Öskjuhlíðina, yfir hjá Veðurstofu, Klambra, Hlemm og Sæbraut. Það skal viðurkennt að við stöldruðum við hér og þar til þess að leyfa Einari að hvíla sig enda er karlinn þungur á sér þessa dagana.

Ekki verður komist hjá því að greina frá þeim mikla fróðleik sem rann upp úr Einari allt hlaupið, bæði efnafræðilegs og sagnfræðilegs eðlis. Hann sagði okkur frá byggingarefnum á blokkunum við Skúlagötu, í Hörpu og stálþilum við höfnina. Svo sagði hann okkur sögu Empire State byggingarinnar, en sú bygging var reist af framsýnum manni í kreppunni á þriðja og fjórða áratug seinustu aldar. Við fórum einmitt um Slippinn, framhjá Slippbarnum sem er með happy hour milli fjögur og sex alla daga og ákváðum að mæta þar eftir eitthvert föstudagshlaupið. Hvítur reykur liðaðist upp úr reykháfi skips í Slippnum og tókum við það sem merki um að búið væri að kjósa páfa. Komumst að því fyrst eftir hlaup að svo var í raun og veru.

Við ákváðum nefnilega að fara lengra í þetta skiptið, alla leið vestur á Grandaveg og þá leið tilbaka til Laugar. Teygðum inni eftir hlaup, líðan góð og stemmning fyrir að gera góða hluti á árinu. Aðrir hlauparar komnir í Pott. Bjarni Benz lagði til að titill pistils yrði "Blómasalinn grét allan hringinn." Ekki veit ég hvers vegna.  


Vandamálin eru benzín framfara

Höfundur fleygra orða í fyrirsögn pistils er sjálfur Melabúðarkaupmaður. Samt vafðist inntakið fyrir nokkrum Pottverjum í lok hlaups dagsins og var málinu eytt. Til hlaupa mættu: próf. Fróði, Kalli, Flosi, Heiðar, Helmut, dr. Jóhanna, skrifari, Ólafur Gunnarsson, Þorvaldur, Maggi - og svo bættist Kaupmaður í hópinn síðar og Benzinn var víst eitthvað að sprikla líka. 

Farið um Viðimel út á Nes. Veður gott, en gerðist svalara á Nesi. Búið er að reisa tröppu yfir sjóvarnagarðinn í Ánanaustum og niður í sjó, væntanlega til sjóbaða á heitum sumardögum. Skrifari fór rólega yfir og beið þess að skrokkurinn hitnaði að því marki að hlaup yrði ánægjulegt. Kalli, Þorvaldur og Maggi styttu við Lindarbraut og gáfu engar skýringar á framferði sínu. Aðrir höfðu haldið áfram á Nes, fyrir Gróttu og jafnvel fyrir golfvöll, meðan dr. Jóhanna, Heiðar og Frikki fóru allt aðra leið, Víðimel út á Suðurgötu, Skítastöð og svo vestur úr.

Þetta batnaði bara eftir því sem leið á hlaup og var bara hamingja. Farið hjá Bakkatjörn og tilbaka. Lokið við rúmlega 9 km hring á skikkanlegum tíma. Unaðslegt! Í Potti var rætt um árshátíð. Áhugi á að hafa hana í Rafveituheimilinu og var skipuð nefnd á staðnum til þess að ganga í málið. Skipan verður sú að þátttakendur koma hver með sitt og Baldur bruggar guðaveigar. Skemmtiatriði: töfrabrögð, söngur, ræðuhöld. Bjössi kokkur verður útkastari. Meira síðar.   


Hugsað um gvuð á hlaupum

Er betra að sitja á kirkjubekk á sunnudagsmorgni og hugsa um hlaup, eða að hugsa um gvuð á hlaupastígum úti? Nú segi hver maður það sér sjálfur. Hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins tilheyra síðari hópnum. Þeir taka sunnudaginn snemma og halda til Laugar með hlaupagír sín. Á Stétt úti mátti í dag greina Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlækni, Þorvald, Maggie og skrifara. Veður fagurt, sól skein í heiði, logn og hiti um 4 stig. Fórum rólega af stað. Á Ægisíðu sat fyrir okkur Guðmundur Löve, nýrisinn upp af sjúkrabeði og mátti ekki við því að horast.  Hann slóst í för með okkur og það var haldið áfram. 

Maggie er náttúrlega í sérflokki og setti strax vegalengd á milli sín og okkar hinna. Fljótlega dróst skrifari aftur úr þeim hinum, m.a.s. Ólafur Þorsteinsson skildi frænda sinn eftir. Skýringin var trúlega sú að skrifari var á utanvegaskóm og þeir eru mun hægari  en hefðbundnir hlaupaskór. Þetta var allt í lagi meðan maður mjakaðist áfram, ég vissi ég myndi ná þeim fyrr eða síðar. Sunnudagshlaup eru félagshlaup og enginn er skilinn eftir.

Það var við flugvöll sem ég náði Magga og Óla og saman áttum við hlaup inn í Nauthólsvík. Þar var gengið og Guðmundur sagði stutta sögu. Svo haldið áfram  í Kirkjugarð. Þar brá hins vegar svo við að þau hin héldu hlaupi áfram, jafnvel þótt um brekku væri farið. Við frændur urðum einir eftir og sáum þau hin ekki eftir það. Við gengum á hefðbundnum stöðum og ræddum ýmis mál persónufræðilegs eðlis, en frændi minn er einhver mestur persónufræðingur í Vesturbænum. Og ekki er komið að tómum kofanum þegar bílnúmer ber á góma. Eitt slíkt vakti athygli okkar á leiðinni: Ó 1. Situr á 35 ára gömlum Audi.

Við fórum hefðbundna leið um Klambra, Hlemm og Sæbraut. Gengið á völdum stöðum, sóttum hyllingu á Café París, Túngatan gengin. Ekki rekur mig minni til þess að okkur hafi þrotið umræðuefni á þessari leið, enda fimm jarðarfarir í Hrútafirðinum frá áramótum. Aðeins einn af föstum gestum Samtakanna í Potti, dr. Einar Gunnar. Rætt um eftirminnilega Dalamenn.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband